Mikligarður og safnamál

Enn og aftur langar mig að fjalla lítilega um Miklagarð það sögufræga hús. Nú þegar Mikligarður er orðin vatns og vind heldur er hægt að hefjast handa innandyra og hefst sú vinna á haustmánuðum.

Einnig er gaman að segja frá því að fyrstu drög frá Kjartani Árnasyni arkitekt hafa verið lagðar fyrir bæði atvinnu- og menningarmálanefnd og bæjarráð. Undirrituðum lýst í grunninn mjög vel á þessar hugmyndir og mér sýnist þær passa vel við þau skilaboð sem opni fundurinn sem haldin var um framtíð Miklagarðs fyrir ca. tvemur árum var í grunninn sammála um. Að  hluti hússins verði sýningarrými fyrir söfn og hluti hússins fari í útleigu með ákveðnum skilyrðum.

Það er spennandi að sjá hugmyndir Kjartans um nýtingu rústanna bakvið Miklagarð þar sem lagt er til að byggja yfir þær og styrkja. Myndi það hýsa báta og vera sýning tengd sjónum í köldu rými. Einnig leggur hann til mjög góða útfærslu við opnun niður í neðra rými Miklagarðs sem eykur á nýtingarmöguleika hússins.

Í hugmyndum Kjartans var einnig gert ráð fyrir íbúðum í enda Miklagarðs en mín skoðun er sú að það sé ekki ráðlegt heldur eigi rýmin að vera opin og síðan verði það á  hendi leigjenda að byggja upp sitt bil.  

Álaleiran

Nú styttist vonanadi í að við getum farið að opna geymslurnar á Álaleiru fyrir gestum og gangandi þar sem fólk getur skoðaða gamla muni í rólegheitum við viðunandi aðstæður.  

Við þurfum að gera betur þegar kemur að söfnum en þau þurfa að fylgja nútímanum, þau þurfa að  vera spennandi og skilja eftir eftirminnilega upplifun. Þar spilar Mikligarður stóran þátt og í mínum huga.  

Svavarssafn

Nú er unnið að því að finna leiðir til að lengja opnunartíma í Svavarsafni. Það hefur lengi verið mín skoðun að ekki sé nægjanlegt að hafa sýninguna opna til kl. 15 á daginn. 

Að lokum

Það er gaman að sjá hvað hafnarsvæðið er að taka á sig skemmtilega mynd þar spilar saman einkaframtakið og sveitarfélagið og er það vel. 

Mig langar að enda þennan pistil á að minnast enn og aftur á þá frábæru veitingarstaði sem við í sýslunni getum státað okkur af. Það er ekki sjálfgefið. Við eigum að vera stolt og hreykin af því sem við eigum og höfum hér í sýslunni og vera dugleg að tala það upp þó svo alltaf megi vissulega gera betur. 

Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningarnefndar.

Styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi og því er mikilvægt að skapa sem bestar aðstæður fyrir þau til að vaxa og dafna. Í viðtali við Ingibjörgu Björnsdóttur, lögfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins og verkefnastjóra Litla Íslands, sem birt var í maí 2020 kom fram að árið 2018 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 69% af heildarlaunum í landinu. Það er því ljóst að það er samfélaginu mikilvægt að efla viðspyrnu þeirra og jafna leikinn. 

Þrepaskipting tryggingagjalds og tekjuskatts

Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og við viljum taka upp þrepaskipt tryggingagjald til lækkunar á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því viljum við taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 milljónir króna á ári mætti til dæmis skoða að skattleggja hærra á móti lækkuninni til að draga ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi. Við í Framsókn viljum enn fremur leggja áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld vegi ekki þungt í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.

Hvatning til verðmætasköpunar

Þessar skattatillögur Framsóknar verða áherslumál eftir kosningar. Málin þarf að ræða og útfæra nánar í samvinnu við atvinnulífið og mögulega samstarfsflokka. Meginatriðið er að við ætlum að jafna leikinn á fyrirtækjamarkaði með því að jafna stöðuna á milli stóru fyrirtækjanna, sem sum geta hagnast verulega, og minni og meðalstóru fyrirtækjanna til að þau geti haldið blómlegum rekstri áfram. Tillögurnar eru ekki stórtækar og verða ekki til þess að stærri fyrirtæki taki á sig íþyngjandi skattahækkanir heldur er um að ræða hófsamar lausnir. 

Á bak við hvert fyrirtæki, bæði lítil og stór, er fólk sem búið er að leggja hart að sér við að skapa bæði sér og samfélaginu verðmæti og það viljum við vernda. Við lítum þannig á að með þessum hætti sé hægt að nota skattkerfið enn betur til þess að hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Efling geðheilbrigðisþjónustu

Á síðastliðnum árum höfum við sem samfélag betur áttað okkur á mikilvægi góðs geðheilbrigðis fyrir einstaklinga sem og samfélagsins alls. Þá á það sérstaklega við nú á Covid tímum þar sem við höfum horft á hrakandi geðheilbrigði innan samfélagsins, aðallega meðal ungs fólks, og þau áhrif sem það getur haft. Að auki hafa rannsóknir sýnt að myndun fíknivanda fylgir oft geðrænum vanda. Geðrænir vandar geta því oft leitt til neyslu óæskilegra vímugjafa líkt og fíkniefna, ofneyslu áfengis o.fl.

Langflestir landsmenn glíma við einhvern geðrænan vanda á sinni lífsleið sér í lagi á yngri árum. Vandinn getur verið allt frá tímabundinni vanlíðan til langvarandi þunglyndis. Oft reynist glíman erfið, og því getur það skipt sköpum að einstaklingur fái aðstoð og stuðning sem fyrst. Það er grundvallaratriði að allir landsmenn eigi greiðan og góðan aðgang að geðheilbrigðisþjónustu til jafns við hverja aðra heilbrigðisþjónustu.

Bregðumst fyrr við og fjárfestum í fólki

Með snemmtækri íhlutun og auknum forvörnum er hægt að grípa fyrr inn í og koma í veg fyrir alvarlega geðræna vanda síðar á lífsleiðinni. Þannig bregðumst við fyrr við og stuðlum að auknu geðheilbrigði innan samfélagsins og takmörkum áframhaldandi vöxt fjölþætts vanda meðal fólks og komum í veg fyrir að fjölgi í jaðarsettum hópum samfélagsins. 

Eitt af áherslumálum Framsóknar fyrir komandi kosningar að greiða aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Þannig stuðlum við að því að geðrænir vandar takmarki ekki tækifæri fólks til að blómstra innan samfélagsins, á atvinnumarkaði og meðal vina og fjölskyldu.

Þannig fjárfestum við í fólki.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir situr í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Brýrnar til Hornafjarðar

Á ferðalagi um Suðurland hafa margar fjölskyldur stytt sér stundir í akstrinum með því að telja einbreiðar brýr á þjóðvegi eitt. Reyndar endar sá leikur oftar en ekki með því að allir þátttakendur tapa tölunni og skildi þá engan undra! 

Þeim sem hafa þessa dægrastyttingu á ferðalögum gæti þó fækkað í náinni framtíð í ljósi þess að markvisst hefur verið unnið í því að undanförnu að fækka einbreiðum brúm. Sjaldan eða aldrei hefur verið ráðist í jafn umfangsmiklar lagfæringar og uppbyggingu á vegakerfinu okkar eins og undanfarin ár. 

Það er afskaplega ánægjulegt að nú séu framkvæmdir við nýjan veg og nýja brú yfir Hornafjarðarfljót að hefjast. Nýr vegur gerir allt í senn, hann styttir leiðina til Hornafjarðar um 12 km., leysir af hólmi þrjár einbreiðar brýr á svæðinu og eykur til muna öryggi vegfarenda og á leiðinni um Hornafjörð. Um er að ræða mikið framfaraskref fyrir íbúa á svæðinu alla þá sem ferðast þar um. 

En það er önnur brú sem er ekki síður mikilvæg fyrir íbúa á Hornafirði – nefnilega loftbrúin. Með hinni skosku leið í flugsamgöngum hefur aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu og afþreyingu í höfuðborginni stóraukist. Hvort sem við viljum bjóða makanum í leikhús eða bíó eða einfaldlega að rækta tengsl við ættingja og vini, er íbúum landsbyggðarinnar tryggður um helmingsafsláttur af flugfargjaldi. Með því er stigið skref til þess að gera flugsamgöngur að hluta almenningssamgangna. 

Þetta er byggðastefna í verki! Byggðastefna sem samgönguráðherra hefur fest í sessi og felur í sér að vinna út frá þörfum og hagsmunum íbúa landsbyggðarinnar. Brýrnar til Hornafjarðar eru stór skref til að tryggja blómlega byggð á Hornafirði og í nærsveitum. 

Margt hefur áunnist undanfarin fjögur ár en til þess að vinna stóra sigra þarf kjark til þess að taka stórar ákvarðanir. 

Því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja sig: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Njáll Ragnarsson,

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Vestmannaeyja og skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. 

Frístundastyrkir

Framsókn boðar vaxtarstyrki

Við lifum við þann munað hér á Íslandi að hágæða íþrótta- og tómstundastarf er okkur tiltölulega aðgengilegt. Kostir þess að einstaklingar stundi skipulagt frístundastarf eru óumdeilanlegir og þá sérstaklega þegar það kemur að börnum og ungmennum. Skipulagt frístundastarf hefur almennt jákvæð áhrif á börn og ungmenni, bæði á andlega og líkamlega heilsu. Að auki hefur forvarnagildi iðkunar frístunda verið margsannað. Þau börn og ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að sýna óæskilega hegðun eða neyta vímugjafa.

Styrkir hafa virkað

Hér á landi hafa ríki og sveitarfélög landsins lengi verið í virku samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins með það markmið að börn hafi jöfn tækifæri til taka þátt í heilbrigðu og uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Ein viðurkennd aðgerð í átt að því markmiði er frístundastyrkur. Mörg sveitarfélög veita ákveðna upphæð í frístundastyrk til fjölskyldna, sem hægt er að nýta til að niðurgreiða hvaða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun sem barnið hefur áhuga á að stunda. Þetta hefur vissulega leitt til aukningar á íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna innan þeirra sveitarfélaga. Tölfræðin segir okkur að börn og ungmenni sem iðka íþrótt eða tómstund fara fjölgandi samhliða notkunar á frístundastyrk. Mörg börn iðka jafnvel fleiri en eina íþrótt eða tómstund á sama tíma. Þessi þróun sýnir að styrkur sem þessi virkar, en betur má ef duga skal.

Betur má ef duga skal – Vaxtarstyrkir

Enn eru fjölskyldur sem sjá sig ekki færa fjárhagslega til að greiða fyrir frístundaiðkun barna sinna. Það er markmið Framsóknar að tryggja það að öll börn og ungmenni hafi tækifæri til að stunda þá íþrótt eða tómstund sem þau hafa áhuga á, með meðfylgjandi forvarnar- og lýðheilsusjónarmið í huga. Það að öll börn geti stundað skipulagt frístundastarf er samfélaginu öllu til góða.

Til að ná þessu markmiði vill Framsókn að ríkið greiði árlega 60 þúsund króna vaxtarstyrk til fjölskyldna fyrir hvert barn. Sem dæmi má benda á að það eru 180 þúsund krónur fyrir þriggja barna fjölskyldu. Með þessu er hægt að stuðla að jafnari tækifærum til frístundaiðkunar óháð efnahag. 

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, frambjóðandi í 3. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi. 

Er Sjónarhóll of lítill?

Þessari spurningu hefur verið varpað fram í umræðu um leikskólamál að undanförnu. Atvinnuþátttaka foreldra og leikskóla/dagvistarrými haldast langoftast í hendur og sú sjálfsagða þörf eldri leikskólabarna að fá pláss komi til búferlaflutninga á milli sveitarfélaga. Öll börn eins árs og eldri eiga kost á leikskóladvöl þegar pláss eru laus. Sjá reglur um starfsemi leikskóla.

En komast öll börn að?

Börn eru innrituð í aldursröð, þau elstu fyrst og svo koll af kolli. Varðandi yngstu börnin þá hefur fæðingarorlof verið lengt í 12 mánuði undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Þar hefur verið komið til móts við kröfur samfélagsins um aukinn tíma beggja foreldra með nýfæddu barni og með því leitast við að brúa betur það bil sem oft skapast milli fæðingarorlofs og dagvistar. Til viðbótar fæðingarorlofinu eiga sumir hverjir kost á því að lengja tímann með töku orlofs í kjölfarið.

Það er stefna sveitarfélagsins að þetta ferli gangi allt vel fyrir sig og að börn á leikskólaaldri sem flytja í sveitarfélagið fái dagvistun sem allra fyrst.

Dagforeldrar

Dagforeldrar hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki með dagvistunarúrræði fyrir bæði yngsta aldurshópinn og eldri börn til skemmri tíma. Nú er svo komið að aðeins eitt dagforeldri er að störfum í sveitarfélaginu. Sú staða hefur komið upp áður en þá hafa aðrir bæst í hópinn tímabundið.

Nú hefur sveitarfélagið auglýst eftir dagforeldri og er sem fyrr tilbúið til að aðstoða áhugasama við að hefja störf samkvæmt reglum þar um.

Hvað með Sjónarhól?

Yfirskrift þessa pistils er hvort Sjónarhóll sé of lítill. Það er allavega ljóst að ekki er hægt að bæta við börnum jafnt og þétt yfir skólaárið um leið og þau verða eins árs. Því er brýn þörf fyrir fleiri dagforeldra. Árlega er farið yfir fjölda einstaklinga í árgöngum og þróunina til þess að vakta hver þörfin er og verður. Þegar Sjónarhóll var tekinn í notkun var fjöldi deilda sá sami og var á Lönguhólum og Krakkakoti til samans. Markmiðið var eftir því sem ég kemst næst að skólinn rúmaði fleiri börn en nú eru á leikskólanum og þá starfsmenn sem þyrfti til að sinna kennslu og þörfum nemenda.

Hvað svo?

Fræðslu- og tómstundanefnd í samvinnu við sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs og leiksólastjórnendur, vinna að því að skoða hvernig við mætum auknum fjölda sem þarf á leikskóladvöl að halda. Greina rýmið enn betur og koma með ábendingar, tillögur að framtíðarsýn og aðgerðum í málaflokknum ef ástæða þykir til.

Á meðan á þeirri vinnu stendur reyna allir eftir fremsta megni að eiga gott samtal og samstarf við foreldra og forráðamenn barna á leikskólaaldri sem ekki komast að í skólanum. Foreldrar sem lenda í þeirri stöðu að barn kemst hvorki að hjá dagforeldri eða í leikskóla á rétt á foreldragreiðslum/heimgreiðslum samkvæmt reglum þar um.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Íris Heiður Jóhannsdóttir, formaður fræðslu- og tómstundanefndar.

Áfram veginn!

Þessa dagana er sumarleyfum að ljúka og venjubundin verkefni taka við. Bæjarstjórn kom saman í gær eftir sumarleyfi og fundir bæjarráðs nú aftur orðnir vikulega. Vonandi hafa allir átt gott sumar og náð að eiga góðar stundir við sín hugðarefni eins mismunandi og þau geta verið hjá okkur öllum.

Síðasti pistill hér á síðunn fjallaði um að loksins væri komið að útboði á byggingu við hjúkrunarheimilið og langþráðar endurbætur. Þess má geta að útboðsfrestur hefur verið lengdur en opnun tilboða verður 7. september n.k.

Heilbrigðisþjónusta við aldraða er einmitt efst á baugi í dag þar sem Heilbrigðisþing 2021 fer fram í dag og er tileinkað þessum málaflokki. Þann 18. ágúst var einnig birt á vef heilbrigðisráðuneytisins aðgerðaráætlun um heilsueflingu aldraðra. Meðfylgjandi er hlekkur á síðuna fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/18/Adgerdaaaetlun-um-heilsueflingu-aldradra-birt/

Þá var ánægjulegt að lesa viðtal við þríeykið sem nú býr saman í Mjallhvíti þar sem áður var dvalardeild í Fréttablaðinu í dag. En þar búa þrír eldri borgarar með stuðningi heimaþjónustu sveitarfélagsins. Þar kemur svo vel fram þörfin fyrir fjölbreytt úrræði og búsetu fyrir eldri borgara og hve mikilvægt er að sinna andanum og félagslegum þáttum. https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/210820.pdf?fbclid=IwAR3-SdU1jZKB7yXeRNtBn3bY0Y5BslupyBeern-r0XKTYEXXAC14-iVG_m4 Viðtalið er á bls. 10 í blaðinu.

Höldum áfram veginn og vinnum að því að gera betur á hverjum degi. Fögnum hverju ári sem bætist við lífið og stefnum að því að bæta lífsgæði og aðbúnað okkar elstu íbúa.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður öldungaráðs og bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Loksins, loksins!

Nú um helgina er auglýst útboð í byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn og verður hægt að sækja útboðsgögn á vef Ríkiskaupa frá og með mánudeginum 19. júlí! 

Ferlið frá því vinningstillagan var valin hefur verið lengra en við mátti búast en við vonum að nú fari þetta að ganga smurt svo íbúar geti flutt inn í nýtt og glæsilegt heimili sem fyrst.

Nokkrar breytingiar hafa verið gerðar á rekstri Skjólgarðs frá því Vigdísarholt tók við rekstrinum í mars sl. til að leitast við að ná niður rekstrarhalla. Þær breytingar s.s. lokun á dvalarrýmum í Mjallhvíti þrengja óneitanlega meira að í húsnæðinu á Víkurbraut 29 en áður með tilheyrandi áhrifum á bæði íbúa og starfsmenn.

Því gleðjumst við yfir hverjum áfanga verksins og horfum bjartsýn fram á veginn!

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Vettvangur dagsins

Það má segja að það sé mikið að gerast í sveitarfélaginu þessa dagana.

Það var stór stund í Skaftafelli sl. miðvikudag, 30. júní þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra afhjúpaði fyrsta UNESCO skjöldinn í Vatnajökulsþjóðgarði auk þess að staðfesta stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og stækkun þjóðgarðsins á Suðursvæði. 

Stækkunin felur í sér að hluti jarðarinnar Sandfells í Öræfum og þjóðlendan Hoffellslambatungur eru nú innan þjóðgarðs.

Þá var sól og gleði í gær þegar regnbogastígurinn var málaður. Stígurinn er í litum regnbogafánans sem er baráttufáni alls hinsegin fólks og táknar fjölbreytileika hinsegin samfélagsins. 

Hefðbundna Humarhátíðarhelgin er að baki og tókst vel til þó hún væri í smærra sniði en undanfarin ár. Það er ánægjulegt hve margir viðburðir voru í boði og munu fleiri viðburðir dreifast út sumarið. 

Atvinnulífið er að taka vel við sér eftir erfiða tíma. Nýjir veitingarstaðir bætast við flóruna á Höfn, ferðamenn eru aftur orðnir áberandi í sveitarfélaginu og framkvæmdir í gangi hvert sem litið er.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Framboðslisti samþykktur

Framboðslisti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á aukakjördæmisþingi sem fram fór á Courtyard by Marriott hótel Keflavík í morgun laugardaginn 26. júní 2021 og á fjarfundi.

Stjórn kjördæmasambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi lagði fram eftirfarandi framboðslista fyrir Alþingiskosningar sem fara fram 25. september 2021, listinn var samþykktur samhljóða.

Oddviti listans er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Í öðru sæti er Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, í þriðja sæti er Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur. Í fjórða sæti er Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, sérkennslu fulltrúi og í fimmta sæti er Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 25. september 2021:

1. Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppur

2. Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ

3. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg

4. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ

5. Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjar

6. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Hornafjörður

7. Lilja Einarsdóttir, Rangárþing eystra

8. Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppur

9. Stefán Geirsson, Flóahreppur

10. Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, Rangárþing ytra

11. Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Mýrdalshreppur

12. Inga Jara Jónsdóttir, Árborg

13. Anton Kristinn Guðmundsson, Suðurnesjabær

14. Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur

15. Gunnhildur Imsland, Hornafjörður

16. Jón Gautason, Árborg

17. Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbær

18. Haraldur Einarsson, Flóahreppur

19. Páll Jóhann Pálsson, Grindavík

20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbær