Hvað er að frétta?

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Hvað er að frétta? Hvernig gengur á Hornafirði? Eru spurnigar sem við bæjarfulltrúar fáum oft frá einstaklingum á svæðinu og utan sveitarfélags. Á tímamótum sem áramótum er hollt og gott að rýna aðeins í stöðuna og skoða málin nánar.

Rekstur

Undirrituð hefur setið í bæjarstjórn frá því í júní 2010 og hefur rekstur bæjarsjóðs blessunarlega verið góður frá því fyrir þann tíma. Það eru forréttindi að fá að vera í forsvari fyrir sveitarfélag sem ekki þarf að berjast við fjárhagsvanda með rekstrarerfiðleikum eins og því miður á við um mörg sveitarfélög á Íslandi en það kemur ekki af sjálfu sér. 

Fjárfestingar og framkvæmdir þarf að stilla þannig af að þær ógni ekki rekstri sveitarfélagsins og þannig að þær séu sem hagkvæmastar og dragi helst úr rekstrarkostnaði frekar en auki hann.

Framkvæmdaplan á hverjum tíma er langtíma áætlun og getur það riðlast ýmissa hluta vegna en sem dæmi má geta þess að flestar þær framkvæmdir sem eru í gangi í dag komust á dagskrá hjá fyrri meirihluta og jafnvel fyrr eins og t.d. Sindrabær sem hefur verið lengi í endurbótaferli. Það má jafnvel segja alltof lengi en það helgast af aðstæðum í þjóðfélaginu, tilboði sem varð að hafna vegna þess að það var of hátt, heimsfaraldri og forgangsröðun í annað á tímabili. Til allrar lukku þá sér nú fyrir endann á endurbótunum og verður það stór og ánægjuleg stund þegar Sindrabær verðu tekinn í notkun aftur samfélaginu öllu til heilla.

Hjúkrunarheimilið er annað verkefni sem dregist hefur alltof lengi vegna annarra ástæðna en sér nú einnig fyrir endann á því og ný leikskólabygging sem unnið var að á síðasta kjörtímabili er einnig að verða tilbúin. Fráveituframkvæmdir eru einnig langtíma verkefni og styttist í að öll fráveitan fari í gegnum hreinisvirkið í Óslandi og verður það stór áfangi fyrir sveitarfélagið.

Íþróttamannvirki

Síðasta bæjarstjórn hafði forgangsraðað þannig að byrjað yrði á því að reisa viðbyggingu við sundlaug með aðstöðu fyrir líkamsrækt og gerðar yrðu nauðsynlegar endurbætur á sundlauginni samhliða sem miðast að bættri aðstöðu fyrir þá sem þurfa að nýta sér búningsklefa vegna fötlunar, þörf fyrir aðstoð eða vegna annarra persónulegra ástæðna.

Núverandi meirihluti kaus að leggja þau áform til hliðar, forgangsraða nýju íþróttahúsi og kalla eftir hugmyndum og óskum íþróttahreyfingarinnar til undirbúnings þess. Vinna þessi var í höndum byggingarnefndar nýs íþróttahúss á Höfn en hlutverk nefndarinnar var m.a. að „stýra vinnu og leita hagkvæmustu og bestu lausna við hönnun, byggingu og rekstur hússins“ eins og kemur fram í erindisbréfi nefndarinnar eða stýrihópsins https://www.hornafjordur.is/media/auglysingar/Erindisbref-bygginganefndar-nys-ithrottahuss.pdf.

Mikið af gögnum hafa verið lögð fram og má nálgast flest af þeim hér https://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/uppbyging-ithrottamannvirkja/. Skjal með kostnaðarmati valkosta sem lagt var fram í bæjarráði 12. nóvember og birt með fundargerðinni gefur til kynna að allir valkostir (A, B og C) eins og þeir voru settir fram samkvæmt ítrustu óskum allra þeirra sem komið höfðu að vinnunni, voru kostnaðarmetnir hátt í 4 milljarða. Þó var ekki allt talið með í ölllum tillögunum svo þeir dýrustu A og B voru nær 5 milljörðum ef allt sem var í C valkosti væri tekið með. 

Til skýringar er A stakstætt íþróttahús við Víkurbraut án aðstöðu fyrir fimleika (þeir yrðu í núverandi íþróttahúsi við Heppuskóla), B stakstætt íþróttahús við Víkurbraut með aðstöðu fyrir fimleika og C íþróttahús sem viðbygging við núverandi íþróttahús tengt við sundlaug með millibyggingu þar sem komið væri fyrir innisundlaug.

Ljóst var í nóvember að þær teikningar sem unnið er með væru verkefni sem að u.þ.b. 2.700 manna samfélag á erfitt með að réttlæta framkvæmd á og var þá hafist handa við að skoða nýjar leiðir og endurmeta hvað þarf að vera í nýju íþróttahúsi til að ná kostnaði niður. Sem segja má að hafi alltaf verið fyrirsjánalegt því sníða þarf stakkinn þannig að hann setji ekki allt á hliðina. Kom þetta m.a. fyrir á kynningarfundum um fjárhalgsáætlun fyrir árið 2025 sem því miður fáir sóttu enda var boðað til fundanna með mjög stuttum fyrirvara.

Hagkvæmasta og besta lausnin!

Byggingarnefndinni eða stýrihópnum eins og hann er kallaður var m.a. falið að vinna að hagkvæmustu og bestu lausninni við hönnun, byggingu og rekstur hússins. Þrátt fyrir það tóku fulltrúar meirihlutans ákvörðun þann 12. desember sl. um að farið yrði í leið A, stakstætt íþróttahús við Víkurbraut og að núverandi íþróttahús verði að fimleikahúsi en fulltrúi B lista er fylgjandi því að byggt verði við núverandi íþróttahús, enda er það ódýrari framkvæmd og mun hagkvæmari fyrir rekstur sveitarfélagsins til lengri tíma þar sem góð tengsl eru milli íþróttamannvirkja í heild sem einfaldar starfsmannahald og býr einnig til góða tengingu milli íþróttamannvirkja og skólans.

Framhaldið

Varðandi byggingu nýs íþróttahúss er beðið eftir nýrri útfærslu frá starfsmönnum mannvirkjasviðs þar sem gefið var út í desember að byggingin skyldi einfölduð og taka skyldi mið af fjárhagslegri getu sveitarfélagsins. Það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr þeim hatti. Hvernig samráði við hagsmunaaðila verður háttað er ekki ljóst en það er allavega ljóst að við fulltrúar B lista munum hér eftir sem hingað til leggja okkar af mörkum til að vinna að leið sem tekur mið af þörf en er jafnframt hagkvæm bæði í byggingu og rekstri til lengri tíma.

Annars má segja að það gangi vel í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging í gangi í atvinnulífinu, íbúum fjölgar og þá mest ungu fólki í dreifbýlinu. 

Fyrir hönd bæjarfulltrúa og nefndarfólks B lista vil ég óska íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, oddviti Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Samtal við Sigurð Inga

Þriðjudaginn 19. nóvember kl.20 verður Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra og formaður Framsóknar með opinn fund í Golfskálanum á Höfn.

Stjórn Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga hvetur íbúa á svæðinu til að nýta sér tækifærið og ræða við Sigurð Inga um áherslur Framsóknar.

Framsókn leggur áherslu á fjölskyldur, gott samfélag og ábyrg ríkisfjármál í komandi kosningum. Mikilvægustu áherslur fyrir heimilin á Íslandi eru að tryggja ódýrari mat með því að lækka virðisaukaskatt á matvæli og auka fyrirsjáanleika með óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum. Framsókn vill einnig þróa réttlátari húsnæðismarkað með auknu framboði á húsnæði og lóðum, innleiða skattahvata fyrir hagkvæmt húsnæði og auka fjármagn til hlutdeildarlána. 

Sigurður Ingi hefur sem innviðaráðherra síðustu ár komið af stað fjölmörgum stórum verkefnum á Suðausturlandi s.s. fækkun einbreiðra brúa (Hólá, Stigá, Steinavötn, Fellsá og Kvíá) svo og lagningu nýs vegar um Hornafjarðarfljót sem felur í sér nýbyggingu Hringvegar á um 19 km löngum kafla. Í tengslum við þá framkvæmd verða lagðir 4,4 km af nýjum tengivegum, 4,4 km af nýjum hliðarvegum auk tveggja áningarstaða. Byggðar verða 4 nýjar tvíbreiðar brýr: 250 m löng brú yfir Hornafjarðarfljót, 114 m löng brú á Hoffellsá, 52 m löng brú á Bergá og 52 m löng brú á Djúpá.

Þá var byggður sandfangari út í Einholtskletta 2020 út frá rannsóknum á Grynnslunum sem hafa verið efldar. Grynnslin voru dýpkuð sl. vetur og stendur til að halda því áfram í vetur til að tryggja innsiglinguna um Hornafjarðarós.

Sigurður Ingi hefur verið fjármála- og efnahagsráðherra frá því í apríl s.l. og hefur á þeim tíma unnið að efnahagslegri velferð með því að ná niður vöxtum og verðbólgu og með því stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu.

Velkomin á fund í Golfskálanum 19. nóvember kl.20 og að kynna þér stefnu Framsóknar á vefsíðunni https://xb.is

Samvinna fyrir fjallamennskunámi í FAS

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Frá því síðasta vor hefur verið ákveðin óvissa um framhald fjallamennskunáms við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu [FAS] þar sem námið fellur ekki að öllu leyti að hefðbundnu framhaldsskólanámi.

Námið hefur verið í boði við skólann frá haustinu 2012 og hefur það þróast mikið á þeim tíma. Áherslan hefur verið á að þróa og bjóða uppá heildstætt nám í fjallamennsku, jökla- og fjallaleiðsögn fyrir einstaklinga 18 ára og eldri, sem hefur tekist mjög vel.

Nú í haust hefur verið unnið að því að tryggja það að þeir nemendur sem hófu námið í haust geti klárað veturinn og að tryggja námið í sessi til framtíðar.

Undirrituð hefur leitt þessa vinnu í breiðri samvinnu við fulltrúa skólans, skólanefnd, bæjarstjóra, fulltrúa menntamálaráðuneytisins og ekki síst Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur alþingismann. Hefur sú vinna nú tryggt að ekki verður rof á námi þeirra nemenda sem eru skráðir til náms og unnið verður að lausn til framtíðar.

Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að tryggja öflugt og gott nám í fjallamennsku, jökla- og fjallaleiðsögn og á það nám hvergi betur heima en í FAS þar þar sem Vatnajökull og náttúran sem honum tengist er kennslustofan.

Aukin fagmennska og öryggi í ferðaþjónustu er það sem koma skal og væntum við sem komum að þessari vinnu góðs samstarfs við ráðuneyti ferða- og umhverfismála við að tryggja fjármögnun fyrir námið til framtíðar.

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi í skólanefnd FAS og varaþingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Alþingiskosningar 30. nóvember

Boðað hefur verið til Alþingiskosninga þann 30. nóvember n.k. eins og hefur líklega ekki farið fram hjá neinum.

Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi var samþykktur á fjölmennu kjördæmisþingi á Hótel Örk í Hveragerði þann 26. október sl.

Listinn er skipaður bæði fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum og reynslumiklu fólki  á þeim vettvangi. Öll eiga þau þó sameiginlegt að brenna fyrir málefnum lands og þjóðar í anda stefnu Framsóknarflokksins.

Á kjördæmisþinginu sagði Sigurður Ingi Jóhannssonfjármála- og efnahagsráðherra, meðal annars:

,,Ég er stoltur yfir sterkum lista Suðurkjördæmis með öflugu fólki sem er fjölbreyttur með sterkri liðsheild og var samþykktur á kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi. Framsókn er tilbúin til að takast á við áskoranir og halda áfram að vinna að lausnum sem bæta samfélagið. Hlakka til næstu daga og vikna.“

Halla Hrund Logadóttir, nýr oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, sagði í ræðu sinni meðal annars:

,,Ég tek við fyrsta sæti í Suðurkjördæmi full af auðmýkt og þakklæti. Hér í dag samþykktum við frábæran framboðslista af fólki sem er tilbúið að vinna af krafti fyrir samfélagið og ég hlakka til að starfa með ásamt öflugu fólki um allt land. Við verðum að passa uppá auðlindir okkar, eignarhald þeirra og ábyrga nýtingu fyrir samfélög um allt land. Það er mitt stóra erindi í pólitík. Hjartað slær sömuleiðis ört fyrir landbúnað með nýsköpun og samvinnu að leiðarljósi. Einnig vil ég leggja áherslu á húsnæðismál og geðheilbrigði ungs fólks. Það þurfa allir að fá tækifæri til að finna sinn farveg óháð bakgrunni, þannig verðum við sterkari sem heild.

Framsókn sem er í mínum huga holdgervingur hins dugmikla Íslendings, rödd skynsemi og seiglu á miðjunni sem hefur sýnt að getur unnið þvert á hagsmuni og pólitík. Það er akkúrat það sem við þurfum til sóknar og sátta í heimi þar sem átök og öfgar í umræðu eru sífellt algengari.“

Halla Hrund og Sigurður Eyjólfur sem skipar 5. sæti listans heimsækja Höfn í Hornafirði mánudaginn 4. nóvember og óska eftir að hitta sem flesta á opnum fundi í Golfskálanum.

Listi Framsóknar í Suðurkjördæmi í heild sinni:

1. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, Reykjavík.
2. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og innviðaráðherra, Hrunamannahrepp.
3. Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður og lýðheilsufræðingur, Reykjanesbæ.
4. Fida Abu Libdeh, orku- og umhverfistæknifræðingur og frumkvöðull, Reykjanesbæ.
5. Sigurður E. Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi, Kirkjubæjarklaustri.
6. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs og varaþingmaður, Reykjanesbæ.
7. Lilja Einarsdóttir, hjúkrunarforstjóri, Rangárþing eystra.
8. Geir Jón Þórisson, fyrrv. yfirlögregluþjónn, Vestmannaeyjum.
9. Vilhjálmur R. Kristjánsson, þjónustustjóri, Grindavík.
10. Iða Marsibil Jónsóttir, sveitarstjóri og varaþingmaður, Grímsnes og Grafningshreppi.
11. Margrét Ingólfsdóttir, kennari, Sveitarfélagið Hornafjörður.
12. Anton Kristinn Guðmundsson, bæjarfulltrúi, Suðurnesjabæ.
13. Ellý Tómasdóttir, forvarna- og bæjarfulltrúi, Árborg.
14. Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri, Vík í Mýrdal.
15. Ingibjörg Ingvadóttir, lögmaður og háskólakennari, Þorlákshöfn.
16. Hafdís Ásgeirsdóttir, deildarstjóri á leikskóla, Rangárþingi ytra.
17. Jón K. Bragason Sigfússon, matreiðslumeistari, Bláskógabyggð.
18. Drífa Sigfúsdóttir, heldri borgari, Reykjanesbæ.
19. Eiríkur Vilhelm Sigurðsson, sviðsstjóri, Kömbum, Rangárþingi ytra.
20. Silja Dögg Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri og fyrrv. alþingismaður, Reykjanesbæ.

Mannanna verk

Bjarni Ólafur Stefánsson

Í fyrra stóð listamaðurinn Almar Atlason fyrir einstökum gjörningi. Hann heimsótti Hornafjörð og bjó í tjaldi, 111 árum eftir að Ásgrímur Jónsson hafði gert hið sama, og málaði listaverk í Hornafirði og nágrenni. Það var ekki fyrr en á opnunarsýningunni sem ég áttaði mig á því að þessi gjörningur var stórkostlegur. Málverk af náttúru eru nefnilega líka samtímaheimildir um staðinn eins og hann er í dag. Verk manna eins og Ásgríms og Höskuldar sem komu til Hornafjarðar til þess að fanga ódauðlega náttúru settu í leiðinni niður heimildir um staðhætti, stöðu jökla, hús sem stóðu og jafnvel fólk á staðnum. Þetta gerði Almar líka, rúmri öld síðar. 

Á áðurnefndri opnunarsýningu var ég staðráðinn í að kaupa listaverk eftir Almar. Ég vildi vera hluti af þessu, hver veit nema verk hans eftir þessa heimsókn verði jafn áhugaverð í augum næstu kynslóðar og verk Ásgríms eru fyrir okkur. 

Eftir frekar stutta umhugsun völdum við hjónin verk. Verkið sem greip okkur fyrst, af Jökulsárlóni. Þessi síbreytilegi staður þar sem engin stund er eins og hver einasta mynd yrði einstök. En verkið var ekki bara af jökli og gæti hafa verið teiknuð af Ásgrími 111 árum áður. Hún var af flugeldasýningunni á Jökulsárlóni.

Þegar verkið var komið uppí stofu varð eiginkonu minni að orði, að verkið væri ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að það væri af flugeldasýningunni. Hver veit, bætti hún við, hve mörg ár séu þangað til þetta hættir. Verkið sameinar því náttúru Íslands og mannanna verk. 

Mannanna verk. Málverk, flugeldasýning, bátur á lóni. Allt eru þetta mannanna verk. En það eru líka ákvarðanir teknar í opinberum stofnunum sem haldið er uppi af skattgreiðslum okkar. Stofnun sem sett var á laggirnar til þess að vernda svæði en á sama tíma vinna í sátt og samlyndi með íbúum og þeirra sem þangað vilja sækja. Ákvörðunin er ekki bara tilkynning sem kemur á blaði sem starfsmaður stofnuninnar sendi frá sér. Hún er mannanna verk. Einhver tók þessa ákvörðun og svo virðist sem sá og hinn sami hafi gert það í frekar litlu tómi. 

Það má vel vera að þessi flugeldasýning sé tímaskekkja. Þessi grein verður það jafnvel líka þegar málið verður skoðað í baksýnisspeglinum. Að skjóta upp mengandi flugeldum gæti orðið minningin ein eftir nokkur ár. 

En það fríar opinberan starfsmann samt ekki þeirri ábyrgð að hann ákvað að taka ákvörðun. Ákvörðun sem var líklega ekki hans að taka nema að minnsta kosti að loknu samtali við stjórnina. Stjórn sem hefði þá geta rætt þetta við hagsmunaaðila og tekið upplýsta ákvörðun. Ekki geðþótta ákvörðun opinbers starfsmanns sem telur flugeldasýningu á landi íslenska ríkisins ekki eiga rétt á sér. 

Verk Ásgríms af náttúrunni geymir minningar um liðna tíð. Sömu sögu er að segja af sumum verkum Almars. Hver veit nema verkið sem hangir uppí stofu í Sólbæ geri það líka? En eins og að á einhverjum tímapunkti var ákveðið að rífa hluta húsanna sem standa á frægri mynd Ásgríms af Hornafirði þá ákvað einhver að nú, eftir tugi ára, verður ekki lengur skotið upp flugeldum á Jökulsárlóni. Þetta er ekki ákvörðun stofnunnar, þetta er mannanna verk.  

Bjarni Ólafur Stefánsson, formaður Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga og varamaður í atvinnu- og menningamálanefnd.

Þarf nýtt íþróttahús?

Ásgrímur Ingólfsson

Gleðilegt ár kæru lesendur!

Þegar þetta er skrifað er einn dagur í þorrablót á Höfn og verður það að venju haldið í okkar ágæta íþróttahúsi. Íþróttahúsið er einmitt efni greinarinnar þar sem mér sýnist meirihluti bæjarstjórnar ætla að halda sig við þá vegferð að byggja nýtt íþróttahús og skuldsetja sveitarfélagi upp í rjáfur án nokkura ástæðna. Allavega hef ég ekki séð eða heyrt rök fyrir þessari ákvörðun sem halda vatni. Því miður held ég að meirihlutinn hafi sagt of mikið í aðdraganda kosninga og sitji nú í súpunni og ætli að skuldsetja sveitarfélagið um ca. 2 til 3 milljarða. Ástæðan er að þau settu sig ekki inn í málið og ætla greinilega ekki að hafa fyrir því. Ég hef sett mig inn í þetta málefni þar sem mér er bæði sveitarfélagið og íþróttaiðkun kær. Heilsuefling fyrir alla er mikilvægt málefni í okkar og öllum samfélögum en að því sögðu verða menn líka að sníða sér stakk eftir vexti eða eins og ágætur ráðherra sagði um daginn, menn geta ekki eitt sömu krónunni tvisvar.

Aðeins um iðkendur

Deildir Sindra vor 2023

Eins og sést á þessari töflu þá eru iðkendur hjá Sindra 574 vorið 2023. Að sjálfsögðu eru sumir í mörgum íþróttum en aðrir í engum en til gamans má geta þess að íbúar á aldrinum 0 til 25 ára voru 648 í sveitarfélaginu 1. jan 2023.

En nú skulum við aðeins fara í talna leikfimi. Ef við tökum út knattspyrnu, sund og rafíþróttir, íþróttir sem ekki nota húsið þá erum við kominn niður í 334 iðkendur og ef við svo tökum út fimleikana þar sem þeir eru jú inn í Nesjum (en auðvita er það umdeilanlegt hvernig best væri að haga þeirra aðstöðu) þá erum við komin niður í 218 iðkendur í íþróttarhúsinu á Höfn.

Þetta segir náttúrulega ekki alla söguna þar sem grunnskólinn og fleiri eru að nota húsið líka. En hér er til gamans sá fjöldi sem að meðaltali var í tímum í haust (taflan hér fyrir ofan er vor) það er lítil munur á fjölda iðkenda en haust taflan var bara ekki eins læsileg.

Ég læt líka fylgja svör frá þeim tveimur líkamsræktar stöðvum sem hér eru starfræktar, þá sjá menn svart á hvítu hvar þörfin liggur.

 Mæting að meðaltali í tímaHaust 2023
Badmington7
Blak 5-10 Bekkur13
Blak MFL.KK9
Blak MFL.KVK13
Fimleikar14
Frjálsar5
Futsal1
Karfa 1-2 Bekkur19
Karfa 3-4 Bekkur10
Karfa 5-6 Bekkur12
Karfa 7-8 Bekkur13
Karfa 9 Bekkur – 1.Frammhalds10
Karfa MFL.KK10
Karfa morgunæfingar 8b og upp úr7
Karfa Oldboys9
Karfa stelpur 5+ Bekkur4
Leikskólabolti13
Miðgarður dagþjónustan3

Sæll 

Virkir meðlimir núna í Desember 2023 voru 54. Mest hafa verið 70 virkir meðlimir, en það var í Apríl 2022. U.þ.b 150+ manns hafa lokið Grunnámskeiði Fenris. 137 meðlimir eru inn í lokuðum Facebook hóp Fenris þar sem hluti starfseminnar fer framm.

Kveðja,

Erlendur Rafnkell

Sæll og gleðilegt árið

Fljótt á litið er um 170 manns sem eiga kort í Sporthöllinni, svo eru um 28 eldri borgarar sem mæta x2 i viku.

74 eiga árskort, restin eru með 1,3 eða 6 mánuði. 10 manns eiga 10 skipta kort.

Kveðja Kolla

Eins og sést á þessum svörum þá eru rúmlega 250 manns að notfæra sér Sporthöllina og Fenri, kannski eru einhverjir tví skráðir, eins og það eru einhver börn í fleiri en einni íþrótt.  Hvað íþróttahúsið varðar þá er það ekki full nýtt. Auk þess sýnist mér mörg hús vera með rýmri opnunartíma en við. Það eru bæði hús af sömu stærð og okkar en einnig stærri hús og svo eru menn meira að skipta salnum heldur en við gerum (sjá stundartöflu á heimasíðu Sindra).

Hvað stærð hússins varðar þá voru nokkur samskonar byggð á árunum milli 1970-1980 eftir þessari ríkisteikningu. Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk sendar frá Mannvirkjastofnun um íþróttarhús á landinu eru nokkur þeirra óbreytt og önnur sem búið er að byggja við. Hvergerðingar eiga t.d. svipað hús og við og ætla núna að byggja við það. Í Hveragerði eru rúmlega 4000 íbúar en hér erum við um 2600 þar af um 1800 á Höfn. Því miður er ekki að sjá fjölgun í yngri árgöngum í sveitarfélaginu. Ef við skoðum tölur Hagstofunnar frá 1. janúar 2023 þá eru 26 börn að meðaltali í árgöngum 0-6 ára og er það sama meðaltal og í árgöngum 6-12 ára. Vonandi á okkur þó eftir að fjölga.

Aðeins um stærðir, krónur og aurar

Nú veit ég ekki hvað menn ætla að byggja stórt né hvar þeir ætla að byggja. Þó heyrist mér og sýnist af þeim teikningum sem hef séð að það eigi að byggja á æfingarsvæðinu en hvar veit ég ekki fyrir víst. Ég reikna líka með að menn verði stórtækir miðað við hvað fólk hefur látið út úr sér. Nú erum við með um 600 m2 sal og 430 m2 millibygginu á milli skólans og íþróttahúsins. Ég reikna með að menn ætli allavega að hafa fullann handboltavöll sem er 40*20 m og kannski 5 metra umfram sem gerir 45*25=1.125 m2. Síðan reikna ég með að menn hafi áhorfenda palla og búningsklefa, gefum okkur að það verði látið duga 430 m2 eins og eru í núverandi húsi þá erum við kominn með 1.555 m2 byggingu. Mér sýnist að menn ætli að vera stórtækari en þetta miðað við þær teikningar sem ég hef séð, þar er talað um 1.800 m2 sal og mér sýnist þar vera 500-700 m2 stoðrými þar af 6 búningsklefar.

Ég hef ekki hugmynd um hvað það kostar byggja svona byggingu en ég ímynda mér að hún þurfi góða grundun og það er talsvert af blautrýmum í henni sem kostar sitt. Ef við segjum sem svo að fermetrinn kosti sama og menn eru að fara að borga fyrir viðbyggingu á leikskólanum sem er 1.250.000 kr fyrir fermeterinn þá kemur þetta hús sem er ca 1.555 m2 til með að kosta ca 2.000.000.000 kr og hús sem er 2.500 m2 kostar ca 3.000.000.000 kr. Allar þessar stærðir eru hugarburður minn þar sem ekkert er ákveðið nema að það á að setja rúma 100 miljónir í undirbúning á þessu ári. Það er/var búið að skipa nefnd en menn voru gerðir afturreka með hana og sé ég í fundargerð bæjarráðs að skipun á nýrri nefnd virðist eitthvað þvælast fyrir mönnum. 

Ég hef vaxtareiknað þessar upphæðir miðað við gefnar forsendur og þær tölur eru ekkert augnayndi. Þetta verður allt lánsfé nema að menn ætli að setja okkur í þá frægu innviðaskuld sem í allri ákvarðanafælni er hægt að skýla sér á bakvið. 

Og hvað, í hvað viltu eyða?

Ég hef verið spurður að þessu þegar ég er að tala gegn óþarfa eyðslu. Ég er alla vega ekki þeirrar skoðunar að betra sé að gera illt en ekkert þegar frakvæmdir eru annars vegar. Ég tala nú ekki um þegar menn eru að taka lán fyrir hlutunum. Það er sök sér að menn spreði í einhverja vitleysu ef menn eiga fyrir því og ef þeir eru ekki að leika sér með almannafé. 

Það er margt annað hægt að gera til þess að efla lýðheilsu og bæta samfélagið okkar heldur en að byggja nýtt íþróttarhús. Ég held að við séum ekki komin á þann stað að þar liggi mesta þörfin. Ég er þeirrar skoðunar að íþróttaaðstaðan hér á Hornafirði sé mjög góð þó auðvitað megi laga hana. Kostnaður við það ætti þó ekki að hlaupa á mörgum milljörðum. Við verðum að vera sanngjörn í kröfum okkar þetta er jú okkar bæjarsjóður og okkar skattgreiðslur sem verið er að nota.  

Eitt finnst mér vera kristal tært. Það þarf að vera búið að ákveða hvað á að gera við gamla íþróttahúsið. Maður heyrir að það sé hægt að nota það í hitt og þetta en það er ekki góð pólitík. Það þarf að vera skýr sýn á framhaldið því annars lenda menn í ógöngum og jafnvel miklum ófyrirséðum kostnaði.

Ef menn ætla í þessa vegferð þá hefði ég viljað að menn færu að eins og Hvergerðingar, þar á að nota gamla íþróttasalinn áfram og nýta öll blautrýmin en byggja við 1.400 m2 sal sem verður tengdur gamla salnum. Það er pláss fyrir þetta ef húsið snýr norður/suður en menn nýta samt sem áður burðinn af gamla húsinu, nýting á gamla húsinu yrði tryggð og knattspyrnan héldi sýnu æfingarsvæði.

Ég læt fylgja með hugmyndir Hvergerðinga.

https://www.hveragerdi.is/is/stjornkerfi/utgefid-efni/frettir/aform-eru-um-staekkun-nuverandi-ithrottahuss-ad-skolamork-2-6

https://www.hveragerdi.is/static/files/Frettir-gogn/2023/skolamork-2-ithrottahus-tillaga-10-2023.12.21-heild-minnkad.pdf

Þegar þessi lokaorð eru skrifuð þá er þorrablót yfirstaðið. Gott blót og góð skemmtun, maður er manns gaman eins og svo oft sannast á þessum skemmtunum. Ég lít björtum augum á árið 2024 þó svo að það séu blikur á lofti um loðnu þessi dægrin, en fyrirhuguð er önnur leit og vonandi rætist úr. Ég á kannski eftir að setjast aftur við tölvuna í vetur og vonandi verða ekki bara leiðindi sem koma úr mínum ranni. 

Ásgrímur Ingólfsson, stjórnarmaður í Framsóknarfélaginu og forseti bæjarstjórnar 2018-2022.

Ásgrímur þusar eins og Þorvaldur

Ásgrímur Ingólfsson

Heil og sæl öll sömul. Ég hef lítið mundað pennann í nokkur misseri og eingöngu þusað við eldhúsborðið þar sem enginn nennir lengur að hlusta á mig. Þess vegna beini ég nú orðum mínum til þín lesandi góður og ætla að velta fyrir mér nokkrum verkefnunum sveitarfélagsins og hvernig mér finnst að það ætti að vinna með þau.   

Ari Jónsson og þjóðvegur í þéttbýli

Ég er alveg hjartanlega sammála Ara um notagildi þjóðvegar í þéttbýli. Ef hann á að koma í land einhverstaðar fyrir innan „pípuhlið“ eins og ég fékk spurnir af á ágætum íbúafundi sem Ari vitnar í í grein sinni í Eystrahorni https://eystrahorn.is/thjodvegur-i-thettbyli-er-thorf-a-honum/ þá væri það mikill afleikur. Að eyðileggja Ægisíðuna eða fara í bakkann á Sílavíkinni væru umhverfisspjöll, svo á flutningur á þessu vegstæði ekki að vera forgangsverkefni í vegmálum sveitarstjórnar. Fyrir utan sóun á almannafé væri notagildið ekkert fyrir okkur íbúa í þéttbýlinu. Ef vegurinn kæmi í land innarlega myndu innbæingar ekki fara inn eftir og svo út eftir á athafnasvæðið til vinnu. Því yrði umferðin í kringum skóla og íþróttasvæði sú sama á morgnana og kvöldin og trúlega meiri með stækkandi samfélagi. Þess vegna á að halda sig við það að tengja þennan veg við Hafnarbraut til móts við Vesturbraut. En þessu fylgir:

Flutningur á tjaldstæði

Að ætla að hafa næsta byggingarsvæði hér á Hornafirði á ÍB5 en ekki á tjaldstæðinu er algjört glapræði að mínu mati og svo mikil skammsýni að ég held að Þorvaldur þusari hljóti að verða allur og muni snúa sér í marga hringi í gröfinni, blessuð sé minning hans. 

Þú lesandi góður, þegar þú velur áningastað á hringferð um landið ertu þá búinn að mæla vegalengdir frá tjaldstæði að miðbæ. Ekki ég allavega. Ég fer á þá staði sem mig langar að fara á, sama hvar tjaldstæðið er. Ég hætti ekki við og ég held að engin myndi hætta við þó að tjaldstæðið væri 600 metrum innar. Þar eigum við í samstarfi við okkar frábæra skógræktarfélag að efla Drápskletta. Þar er að vaxa upp skemmtilegt útivistarsvæði sem bíður upp á bæði útivistarmöguleika og stutta vegalengd í miðbæinn.

Eins og sést á þessari mynd eru um 280m að Víkurbraut frá syðsta enda tjaldstæðis (leið 1) og um 700m frá syðsta enda ÍB5 (leið 3) eða um 420m lengri ganga í öllum veðrum.

Hér eru um 500m frá planinu þar sem þjónustubyggingin fyrir tjaldstæðið er að Víkurbraut (leið 2) og 1100m frá þeim stað sem þjónustubygging fyrir nýtt tjaldstæði í Drápsklettum gæti staðið (leið 4) eða 600m lengri ganga sem oftast er í sumarveðri.

Vert er að benda á í þessu samhengi að það yrði örstutt í nýja þjónustubyggingu sem er í kortunum og talað er um að staðsetja á móti Mjólkurstöðinni.

(Menn geta leikið sér með þessar mælingar á heimasíðu sveitarfélagsins.) https://map.is/hofn/#

Hvers vegna?

Ef menn halda að þessir 600 m verði þess valdandi að ferðamaðurinn komi ekki hingað á sumrin þá ættu menn að velta því fyrir sér að á veturna er rúmum 400m lengra fyrir börnin okkar að labba í skóla og frístundir ef menn velja ÍB5 í staðinn fyrir tjaldstæðið. Þetta miðar við mælingar syðst á báðum svæðum og auðvitað eru íbúar þarna allt árið enn ekki bara eina nótt yfir hásumarið. 

Það er enginn að tala um að eyðileggja Hrossabithagann heldur gera hann skemmtilegri og notendavænni og sýna honum þann sóma sem hann á skilið. Ef við ætlum að stuðla að heilsueflandi samfélagi og erum staðráðinn í því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að íbúar geti komist sem flest án einkabílsins þá verðum við að hafa kjark til að haga skipulagsmálum eftir því. Að stytta ekki vegalengdir eða nota innviði betur er sóun. En hvenær er maður svo sem farinn að ganga of langt, það gæti verið efni í aðra grein. 

Það er bæði hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og húsbyggjendur að byggja á tjaldstæðinu. Fyrir sveitarfélagið er mikið ódýrara að útbúa lóðir þar og er ég nokkuð vissum um að þó við tækjum kostnað við uppbyggingu nýs tjaldstæðis inn í það mengi þá væri það samt hagkvæmara. Grundun á mörgum lóðum sem væru á tjaldstæðinu er þægilegri og þar fyrir utan dugar frekar einn bíll á heimili þar. Það er líka mín skoðun að áfangaskipting á þessu svæði sé mun auðveldari. 

Þusið í honum Þorvaldi

Aðeins um þusið í honum Þorvaldi sem er náttúrulega bara til þess gert að hefja einhverja umræðu. Vonandi skilar sú umræða sér í því að ákvarðanatakan verður á þann veg að flestum líki. En margt í þessu þusi er óttaleg vitleysa. Til dæmis hefur ekki verið skortur á byggingarlóðum í þéttbýlinu. Það var nóg af lóðum til ársins 2016. Á þeim tíma stóðu mörg sveitarfélög frammi fyrir því að byggingarkostnaður og fasteignarverð var farið að nálgast og fólk sá tækifæri í því að að byggja. Þannig hagaði málum hér. Vextir voru lágir og fasteignaverð hækkaði því fasteignir fóru undir ferðamenn eða starfsfólk ferðaþjónustuaðila. Það var líka mikið lán þegar fólk sem var komið af léttasta skeiði hafði möguleika á að fara úr sínum eldri híbýlum í nýrri og minni. Eftirspurn og framboð verða að haldast í hendur og hér gekk það vonum framar. Þetta er þó þröngur vegur að þræða og hefur reynst mörgu sveitarfélaginu erfitt. 

Annað bull í Þorvaldi er með þéttingu innbæjar. Ég held að ég geti fullyrt að um ekkert mál hér á Hornafirði hefur verið haft eins mikið samráð. Nánast frá fyrstu stigum. Auðvitað er hægt að rökræða hvenær á að opna á fyrirætlanir. Mér finnst best að það sé búið að móta þær aðeins svo menn hafi eitthvað um að ræða. Reynt var að nálgast þá sem málið varðaði. Hins vegar verð ég að játa að ég skildi aldrei hvað sumir voru að vilja upp á dekk og rök eins og af því bara er mög erfitt að ræða af einhverju viti. Ég skildi afstöðu fjögurra fasteignaeigenda í þessu máli, en það er nú bara ég. 

Að lokum

Vaxtarskeið Hornafjarðar hafa verið nokkur. Vaxtaskeið hafa komið í kippum og þess á milli hefur orðið talsverð stöðnun. Þessu verður sveitarstjórn að velta fyrir sér. Hvernig verður þróunin? Hvar eru atvinnutækifærin og hversu mannfrek eru þau? Hver verður samsetningin á starfsfólki sem kemur til með að starfa hér? 

Hvernig getum við verið tilbúin en samt ekki með of mikið undir? Þarna kemur Þorvaldur sterkur inn. Við verðum að vera tilbúin að grípa til þéttingar. Við verðum að hafa svæði sem gott er að byggja upp í áföngum og þar er núverandi tjaldstæði dauðafæri. Reynum að hafa fjölbreytta og góða byggingakosti.

Nýjum Miðbæ hefur verið hossað hátt sem er er vel og þar sýnist manni að verið sé að fullnægja smáum og meðalstórum eignum um langa framtíð. Það er mín skoðun að þétting og áfangaskipting tjaldstæðisins fullnægi svo einbýlishúsalóðum um nokkuð langa framtíð, nema auðvitað ef menn vita eitthvað sem ég veit ekki. 

Ásgrímur Ingólfsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Tökum þátt!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Það er margt í gangi í Sveitarfélaginu Hornafirði þessa dagana eins og svo oft áður. Mig langar að minna hér á nokkur atriði.

Humarhátíð

Humarhátíð verður sett í kvöld en hófst í gær með brekkusöng á Hóteltúni, listviðburðum og ýmsu fleira. Veðrið ætlar aðeins að stríða okkur eins og það hefur gert oft áður í gegnum tíðina en ég hef trú á því að hornfirðingar láti það ekki aftra sér frá því að taka þátt og gleðjast saman og með gestum sínum.

Dagskrá Humarhátíðar 2023 https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/dagskra-humarhatidar-2023

Íbúakosningar

Vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum að íbúakosningar um hvort aðal- og deiliskipulag um þéttingu byggðar í Innbæ haldi gildi sínu standa nú yfir. Sveitarfélagið er brautryðjandi í því að gefa íbúum frá 16 ára aldri tækifæri til að taka þátt í almennum kosningum og er það vel.

Ég hvet alla íbúa sem hafa rétt til að taka þátt í kosningunni til að kynna sér málið á vef sveitarfélagsins og taka þátt í kosningunni. https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/skipulagsmal/kynning-a-skipulagi-innbae-v.-ibuakosningar/

Aðalskipulag 

Unnið er að heildar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem felur í sér samráð við íbúa á hinum ýmsu stigum. Verkefnið hefur fengið sér vefsíðu þar sem áhugasamir geta fylgst náið með ferli vinnunar https://www.hornafjorduradalskipulag.is

Nú þegar hafa borist ábendingar og athugasemdir við lýsingu verkefnisins og fjölmargir tóku þátt í skoðanakönnun sem beint var til íbúa, en núna er opin skoðanakönnun þar sem leitað er til landeigenda og ábúenda í sveitarfélaginu. 

Á seinni stigum eru fyrirhugaðir íbúafundir þar sem gefst áfram kostur á því að taka þátt í vinnunni. 

Skipulagsgátt

Að lokum langar mig að benda á nýjan vef Skipulagsstofnunar sem er samráðsgátt um skipulagsmál, mat á umhverfisáfrifum og framkvæmdaleyfi á landinu öllu. Þar er hægt að finna upplýsingar um mál í vinnslu, gera athugasemdir við mál í vinnslu og sjá endanlegar afgreiðslur mála. Einnig er hægt er að fá áminningu þegar mál á því svæði eða áhugasviði sem maður velur koma inn. Nú þegar eru öll mál sem eru í vinnslu hjá sveitarfélaginu komin inn í skipulagsgáttina. https://skipulagsgatt.is

Kæri lesandi, það er hverju samfélagi mikilvægt að íbúar séu virkir og taki þátt í því að efla, móta og lífga upp á samfélagið. Það getur þú gert með því að taka þátt í bæði viðburðum og samráði – vertu með og taktu þátt!

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, aðalmaður í bæjarráði og umhverfis- og skipulagsnefnd.

Barnvænt sveitafélag

Gunnhildur Imsland

Árið 2021 var samþykkt í bæjastjórn heildarstefna sveitafélagsins sem ber nafnið Hornafjörður Náttúrulega. Stefnan er byggð á heimsmarmiðum sameinuðuþjóðanna. Hún hefur hlotið góða kynningu og ættu flestir íbúar sveitafélagsins að hafa heyrt á hana minnst.

Farsældarlögin

Innleiðing svokallaðra farsældarlaga í þágu barna er á fullu í sveitafélaginu. Sveitafélagið Hornafjörður var að vinna góða vinnu sem talar vel við innleiðingu þessara nýju laga. Helsta breytingin er í barnaverndinni, en hún er nú lögbundið á hendi fagfólks en ekki kjörinna fulltrúa lengur. Með þessari innleiðingu eigum við eftir að læra á nýyrði eins og tenglar og málastjórar barna. Þessa titla bera einstaklingar sem hafa menntun og þekkingu til að vinna með börnum og verða nokkurskonar „þjónustufulltrúar“ fyrir börn. Til þeirra geta leitað jafnt börn sem fullorðnir sem áhyggjur hafa af barni.

Það þarf heilt þorp til  ala upp barn.“ Segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af réttindum barna og þeim skyldum sem ríki og sveitafélög þurfa að standa við gagnvart börnum og fjölskyldum þeirra. Sáttmálinn er samkomulag til samfélagsþegna um menntun, viðhorf, samskipti og uppeldi barna og byggir á einnig heimsmarkmiðunum.

Barnvænt sveitarfélag

Í dag stendur yfir innleiðing á Barnvænu sveitafélagi, það var samþykkt í bæjarstjórn árið 2020. Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmálans í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF sem kallast “Child Friendly Cities Initiative” og hefur verið innleitt í hundruðum borga frá árinu 1996. Verkefnið hefur verið innleitt hér á landi undir nafninu Barnvæn sveitarfélög frá 2016, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013.

Grunnþættir Barnvæns sveitarfélags eru að vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins sem byggir á þekkingu á réttindum barna, því sem er barninu fyrir bestu, jafnræði í að horft sé til réttinda allra barna og þátttöku barna en saman skapa þessir þættir barnvæna nálgun á málefni sveitarfélagsins. Sem talar við Hornafjörð Náttúrulega þar sem í þeirri stefnu segir við viljum búa í fjölskylduvænu og heilsueflandi samfélagi þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og fær þjónustu og menntun við hæfi.

Innleiðingarferlinu er skipt í 6 þætti síðan er 7. þátturinn viðurkenning og sá 8. endurmat. Viðurkenningin gildir í þrjú ár frá því að hún er veitt. Þegar viðurkenningin er í höfn þarf sveitarfélagið að setja sér ný markmið, hefja nýtt stöðumat og endurmat og hefur til þess 3 ár. Þannig verður verkefnið lifandi og í stöðugu endurmati.

Langt komin í innleiðingarferlinu

Í dag erum við rúmlega hálfnuð með innleiðingu að viðurkenningu. Innleiðingin hefur dregist vegna Covid og kosninga. Stýrihópur verkefnisins er skipaður mikið til af nýjum einstaklingum en hann skipa sviðstjórar sveitafélagsins, fulltrúar úr stjórnsýslunni, tveir fulltrúar bæjarstjórnar og þrír fulltrúar ungmennaráðs ásamt nýjum verkefnastjórna.

Gunnhildur Imsland varabæjafulltrúi Framsóknar, aðalmaður í fræðslu- og frístundanefnd og fulltrúi í stýrihóp um innleiðingu Barnvæns sveitarfélags.

Jákvæði pistillinn!

Íris Heiður Jóhannsdóttir

Undanfarið hefur mér fundist svo ótal margt skemmtilegt og spennandi að gerast hér í Hornafirði og umræðan þar af leiðandi jákvæð. Það er kærkomin tilbreyting frá annars oft neikvæðri umfjöllum um allt og ekkert sem dynur á okkur úr öllum áttum frétta- og samfélagsmiðla.

Mér finnst nefnilega oft eins og fréttir, þó að þær séu ekki endilega sérstaklega neikvæðar, að þá sé reynt eftir fremsta megni að snúa út úr þeim og finna einhvern neikvæðan vinkil, gera þær aðeins meira grípandi og velja æsandi fyrirsögn sem fær okkur til að „klikka“ á hana og bregðast við. Og við erum ógeðslega góð í því að romsa út úr okkur öllum okkar skoðunum um allt og ekkert í „kommentakerfum“ sem loga og þræta við þá sem hafa aðrar skoðanir en við. Það sem fólk lætur flakka er alveg með ólíkindum dónalegt og ljótt að maður verður miður sín, hissa, reiður og allt þar á milli.

Þess vegna í allri þessari neikvæðni er svo gott og gefandi að taka meðvitaða ákvörðun um að einblína á allt það góða og jákvæða sem fjallað er um og er að gerast í okkar nærumhverfi, því ekki nennum við að vera fúl eins og kommentakerfisfræðingarnir! Og viti menn, það er bara ansi margt sem hægt er að nefna og því verður þessi pistill frekar jákvæður, einskonar hrós-pistill og fyrirsögnin líka.

Þegar ég skrifa þessi örfáu orð er ég nýbúin að fletta í gegnum nokkur eintök af Eystrahorni. Það var alveg frábært að útgáfa Eystrahorns hélt áfram og vil ég hrósa Arndísi Láru fyrir virkilega gott og fjölbreytt blað, og ekki verra að fá góðar mataruppskriftir í blaðið, en ég var einmitt að leita að ákveðinni uppskrift með þessu fletti mínu. Mér finnst líka gaman að sjá forsíðumyndirnar frá hinum og þessum Hornfirðingum, margar glæsilegar myndir og var forsíðan með Fókus sigurvegurum Músíktilrauna frábær! Ég óska þeim enn og aftur innilega til hamingju með árangurinn, en þær hafa líka verið svakalega duglegar og ég hlakka til að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Talandi um dugnað, þá verð ég að hrósa öllu því góða fólki sem kom að leiksýningunni „Galdrakarlinn í Oz“. Ég á ekki til orð yfir öllu þessu hæfileikaríka fólki! Flott uppsetning, leikurinn frábær og svo virðist sem allir geti spilað á hljóðfæri eða sungið eins og englar. Spurning hvort það sé ekki ástæða til að stofna aðra hljómsveit, grínlaust!

Ég get ekki státað mig af því að kunna á hljóðfæri, því miður, en mér þykir gaman að syngja og ákvað að skella mér í kvennakórinn í upphafi árs. Það er frábær félagsskapur og kórinn mjög fjölmennur eða um 50 konur. Um helgina er landsmót kvennakóra á Íslandi og erum við fullar tilhlökkunar að stíga á svið í Hörpunni og þenja raddböndin undir dyggri stjórn Heiðars kórstjóra. Ég fór einmitt á tónleika karlakórsins Jökuls í Hafnarkirkju á sumardaginn fyrsta. Það er eitthvað svo notalegt að hlusta á þá og orðin hefð hjá ansi mörgum að bjóða sumarið velkomið með þessum hætti. Það má með sanni segja að hér sé nóg um að vera fyrir þá sem hafa gaman að söng; kvennakór, karlakór, samkór og síðast en ekki síst Gleðigjafar.

Ég hef líka lúmskan áhuga á kvikmyndum og varð gríðarlega spennt þegar ég heyrði að til stæði að stofna félagasamtökin Bíó Loftið. Ég mætti á stofnfundinn og er nú komin í stjórn Bíó Loftsins ásamt góðu og öflugu fólki. Vonir standa til að í nánustu framtíð verði hægt að fara í bíó hér á staðnum, vera með reglulegar sýningar og góðar kvikmyndir fyrir alla aldurshópa. Maður er orðinn svo vanur því að liggja heima í sófanum yfir bíómyndum, en mikið hefur maður gott af því að skella sér út á meðal fólks og njóta góðra kvikmynda í bíó. 

Það er svo margt spennandi að gerast hér á staðnum og allt sem okkur stendur til boða til að sinna okkar áhugamálum stendur og fellur með þátttöku okkar sjálfra. Að geta sinnt áhugamálum er svo mikilvægt, fyrst og fremst snýst það um lífsfyllingu og þar að auki er það félagslega gefandi.

Eigðu sérlega góðan dag!

Íris Heiður Jóhannsdóttir, aðalmaður í velferðarnefnd.