Áramót
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýárs með þökk fyrir árið sem nú er liðið um leið og ég óska ykkur hamingju á velfarnaðar á árinu 2022.
Það er vaninn að líta yfir farinn veg á þessum tímamótum. Í pistli mínum fyrir ári síðan var Covid ofarlega í huga flestra, má segja að þetta ár hafi endað með hvelli hvað Covid varðar með hæstu smittölum sem hafa sést hér á landi og einnig hér í okkar sveitarfélagi. Við áttum líklega flest von á því í sumar þegar öllu var aflétt að nú værum við laus við þennan fjanda! Svo var nú því miður ekki og verðum við líklega að læra að lifa með þessari veiru en vonum að Omikron afbrigðið sé upphafið af endalokum faraldursins og að þetta verði orðin eins og hver önnur kvefpest fyrr en varir.
Framkvæmdir og uppbyggingarverkefni í sveitarfélaginu
Sveitarfélagið var með háleit markmið í framkvæmdum fyrir árið og var stærsta og umfangsmesta framkvæmdin endurbætur á aðalgötunni okkar, Hafnarbrautinni, sem tókust afar vel þrátt fyrir ýmsar hindranir. Aðrar framkvæmdir voru endurbætur á Víkurbraut 24 sem nú hýsir alla velferðarþjónustu sveitarfélagsins. Starfsemin flutti öll þangað s.l. haust og er nú loks öll undir sama þakinu eftir að hafa verið dreift um þéttbýlið til fjölda ára. Velferðarþjónustan verið að styrkjast á síðustu árum með aukinni áherslu á virkniþjónustu við alla þjónustuhópa ásamt því að ný verkefni hafa færst yfir til málaflokksins s.s. dagdvöl aldraðra í Ekru og þjónusta við íbúa sem áður dvöldu á dvalarheimilinu í Mjallhvít. Nú býður sveitarfélagið upp á líkamsrækt fyrir 60 ára og eldri í Sporthöllinni í fyrsta sinn og er mikil ánægja með tímana, stuðningur við félagsstarf aldraðra hefur verið aukið ásamt því að ýmis virkniúrræði eru nú í boði fyrir þjónustuþega á öllum aldri.
Framkvæmdir standa nú sem hæst í Hrollaugsstöðum þar sem 5 nýjar leiguíbúðir munu verða teknar í notkun í lok febrúar. Vatnajökulsþjóðgarður tók þátt í framkvæmdakostnaði með fyrirframgreiddri leigu á þremur íbúðum fyrir starfsfólk og eru nú tvær íbúðir auglýstar til leigu á almennum markaði. Með framkvæmdinni er húsið nú komið í betri nýtingu og á sama tíma er verið að svara ákalli um leiguíbúðir í dreifbýlinu. Á undanförnum árum hafa félagsheimilin fengið töluverða uppliftingu með endurbótum bæði í Holti og á Hrollaugsstöðum. Nú í janúar er svo áformað að bjóða út endurbætur í Hofgarði þar sem stendur til að opna á milli leiks- og grunnskóla og samhliða fara í endurbætur á salernum.
Mikligarður hefur fengið viðhald á þaki ásamt því að unnið er að hönnun vegna fyrirhugaðra endurbóta innanhúss. Áformað er að sinna endurbótum á Miklagarði í smáum skrefum á næstu árum með það að markmiði að húsnæðið verði nýtt sem byggðasafn fyrir sveitarfélagið og einnig undir atvinnustarfsemi.
Mikil hreyfing hefur verið á fasteignamarkaðnum á undanförnu og aðeins þrjár eignir til sölu í þéttbýlinu á Höfn. Lóðaframboð er nú af skornum skammti og aðeins þrjár lóðir lausar til úthlutunar í þéttbýlinu við Dalbraut. Unnið er að því að fjölga lóðum til að anna eftirspurn, slíkt er þó ansi tímafrekt en mikil áhersla er á að vinna það hratt og örugglega. Það er ljóst að það ríkir bjartsýni og áhugi á því að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði en einnig er mikil eftirspurn eftir leiguíbúðum í dreifbýlinu. Er því unnið að deiliskipulagningu íbúabyggðar við Hrollaugsstaði og í Borgartúni, Öræfum og eru aðeins þrjár lausar lóðir. Atvinnuleysi mældist töluvert framan af árinu 2021 en í sumar og haust dró mjög úr atvinnuleysi og kvarta atvinnurekendur nú yfir því að erfiðlega gangi að fá fólk til vinnu.
Starfsemi sveitarfélagsins
Árið hefur verið ansi krefjandi á starfsstöðvum stofnana sveitarfélagsins. Mikið hefur mætt á leik- og grunnskólum í tengslum við faraldurinn. Hér höfum við sloppið ótrúlega vel hvað varðar útbreiðslu veirunnar, í það minnsta fram til þessa og vonandi verður svo áfram. Þegar upp hafa komið smit í samfélaginu hefur gengið vel að halda smitunum einangruðum þannig að þau hafa ekki laumað sér inn í skólastarfið. Í grunnskólanum var skipt um stjórnanda þegar Þórgunnur Torfadóttir tók við starfi sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs en í stað hennar fengum við brottfluttan Hornfirðing, Þórdísi Sævarsdóttur til að taka við keflinu. Skólastarfið hefur gengið ótrúlega vel og fengum við íbúar að njóta þess að horfa á árshátíð skólans í íþróttasalnum aftur eftir árs pásu, ótrúlega vel heppnuð Lion King sýning. Skipt var um skólastjórnanda í Grunnskólanum í Hofgarði þegar Brynja Kristjánsdóttir lét af störfum og tók Hafdís Roysdóttir við af henni en hún hefur lengi starfað við skólann.
Leikskólastarf hefur sömuleiðis gengið afar vel þrátt fyrir faraldurinn. Vel hefur gengið að manna leikskólann undanfarin ár en þar starfa 46 manns. Erfiðlega hefur gengið að fá leikskólakennara til starfa en sveitarfélagið hefur stutt vel við þá sem vilja stunda nám í leikskólafræðum sem hefur skilað nokkrum útskrifuðum leikskólakennurum í skólann. Í haust var tekin í notkun ný leikskóladeild fyrir ungabörn í Selinu við Víkurbraut 24 til að anna brýnni eftirspurn. Fræðslu- og tómstundanefnd er nú með það til skoðunar hvernig húsnæðismálum leikskólans verður háttað á næstu árum þar sem leikskólinn Sjónarhóll er nú fullsetinn og með lengingu fæðingarorlofs til 12 mánaða verður aukin krafa á að börn geti hafið leikskólavist strax að því loknu.
Samfélagsumræða
Samfélagið okkar samanstendur af íbúum sem búa í því. Það hvernig samfélag við viljum byggja upp er algjörlega undir okkur sjálfum komið. Nú þegar nokkrir mánuðir eru eftir af þessu kjörtímabili finnst mér ástæða til að horfa í baksýnispegilinn. Það sem stendur upp úr í starfi mínu eru frábærir samstarfsfélagar bæði starfsmenn sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar. Samstarfið í bæjarstjórn hefur verið mjög gott allt kjörtímabilið og í þyngstu málunum hefur ríkt einhugur um ákvarðanir. Það er ekki sjálfgefið að svo sé og met ég það mikils. Starfsmenn sveitarfélagsins eru 200 talsins en það eru þeir sem halda sveitarfélaginu gangandi, halda uppi skólastarfi og velferðarþjónustu, halda götum og veitukerfum gangandi og þjónusta höfnina okkar svo eitthvað sé nefnt. Þessar grunnstoðir eru grundvöllur þess að sveitarfélagið geti vaxið og dafnað með öflugu atvinnulífi. Starfsmenn sveitarfélagsins eiga mikla þökk skilið fyrir þeirra óeigingjarna starf og ekki síst á tímum þegar áskoranir eru krefjandi vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ég vil nota tækifærið og þakka öllu mínu samstarfsfólki fyrir frábært samstarf undanfarin ár. Einnig vil ég þakka íbúum fyrir gott samstarf og þakka þá hvatningu og stuðning sem ég hef fengið. Síðasta árið hefur verið mjög krefjandi fyrir mig persónulega en ég kýs að líta á það sem áskorun sem ég tekst á af yfirvegun og jákvæðni. Sveitarfélagið Hornafjörður er vaxandi samfélag sem hefur alla burði til að vaxa enn frekar, samþykkt hefur verið stefna til næstu ára fyrir sveitarfélagið þar sem grunngildin virðing, framsækni og samvinna eru höfð að leiðarljósi. Það er við hæfi að enda áramótapistil minn á þessum orðum um leið og ég þakka fyrir samstarfið á árinu.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri