Kosningavor

Nú líður að lokum þessa kjörtímabils með kosningum þann 14. maí n.k. og er undirbúningur hafinn eða að hefjast hjá flokkum og framboðum um allt land. 

Það er að mörgu að hyggja á þessum tímapunkti en fyrst og fremst að íbúar íhugi og taki afstöðu til þess að taka þátt og bjóða sig fram til starfa.

Það er kostur fyrir hvert samfélag að hafa úr fjölbreyttum hópi framboða að velja en oft heyrir maður að kjósandinn vilji frekar velja einstaklinga en framboð/lista. Eins og staðan er í dag er ekki persónukjör nema þar sem engir listar eru bornir fram en þar eru allir íbúar á kjörskrá nema í sérstökum tilfellum.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Í stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi 2021 og aðgerðaráætlun til ársins 2023 (https://www.stjornarradid.is/verkefni/sveitarstjornir-og-byggdamal/sveitarstjornarmal/stefna-i-malefnum-sveitarfelaga-2019-2033/ ) eru settar fram 11 aðgerðir með það að markmiði að styrkja sveitarstjórnarstigið. Aðgerð átta snýr að starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og hefur starfshópur hafið störf þar sem skoðað er m.a. álag/kjör/aðstæður kjörinna fulltrúa, hlutverkagreining, samskipti í sveitarstjórnum og utanaðkomansi áreiti. Markmið hópsins er að kynna tillögur sínar núna í haust.

Laun kjörinna fulltrúa

Laun kjörinna fulltrúa fyrir sín störf í þágu samfélagsins eru mjög mismunandi yfir landið og eftir stærð sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kannað kjörin með reglubundnum hætti og getfið út leiðbeiningar þar sem sveitarstjórnir ákveða ennþá sín kjör sjálfar. Reynist það sveitarstjórnum því oft erfitt að gera breytingar þar sem launahækkanir eigin launa eru ekki góðar eða líklegar til vinsælda. Hér í okkar sveitarfélagi hefur sá háttur verið á að laun hafa verið rædd við gerð fjárhagsáætlunar í lok kjörtímabils. Breytingar ef einhverjar hafa verið látnar taka gildi við upphaf nýs kjörtímabils þannig að bæjarfulltúar eru ekki að ákveða eigin laun heldur nýrrar bæjarstjórnar.

Vinnutími

Þau tólf ár sem undirrituð hefur setið í bæjarstjón hafa verið tekin skref í að færa fundi bæjarráðs, sem er vikulega á dagvinnutíma í stað þess að vera kl.16 á daginn. Mánaðarlegir bæjarstjórnar- og nefndafundir eru eftir dagvinnutíma en nefndum er frjálst að ákveða annan tíma dags henti það nefndarfólki. Fundartíminn þarf að vera skipulagður þannig að allir geti átt kost á að mæta og sinna sínu starfi sem kjörinn fulltrúi. 

Hins vegar gleymist oft í umræðunni að starf kjörins fulltrúa jafnt í bæjarstjórn sem í nefndum er ekki aðeins bunið við fundarsetu heldur þarf að undirbúa sig fyrir fundi, fylgja eftir málum og oft á tíðum eru ýmsir fundir/ráðstefnur/málþing á milli fastra funda sem þarf að undirbúa sig fyrir og mæta á.

Álag og áreiti

Síðustu ár hefur umræðan um álag og áreiti á kjörna fulltrúa verið meira í umræðunni. Flest ef ekki öll þekkjum við dæmi úr eigin lífi eða úr fjölmiðlaumfjöllun þar sem þessi þáttur er dreginn fram og áhrif hans á líf og sjórnmálaþátttöku kjörinna fulltrúa og á fjölskyldur þeirra. Það á jafnt við hér í Sveitarfélaginu Hornafirði og á öðrum stöðum í heiminum því miður. Þetta er alþjóðlegt viðfangsefni sem fælir fólk frá þátttöku og á við bæði í litlum sveitarfélögum og stórborgum. Þessi þáttur er einn af þeim sem áhersla er á í umfjöllun um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hér á landi. Hvernig við upprætum áreiti og jafnvel ofbeldi er samfélagsverkefni þar sem hver og einn þarf að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. 

Þakklæti

Nú er undirrituð að ljúka sínu þriðja kjörtímabili. Á þessum tíma ég hef fengið tækifæri til að sinna fjölbreyttum verkefnum með stórum hópi fólks í sveitarfélaginu, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. Ég er þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið og það fjölmarga fólk sem hefur staðið við bakið á mér og stutt mig í mínum verkefnum. 

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar hafa á þessum tólf árum orðið stór þáttur í því að við kjörninr fulltrúar komum okkar sjónarmiðum á framfæri og orðið vettvangur íbúa til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þó er það nú þannig að þó við séum öll (flest) þarna inni þá heyrum við ekki alltaf í hvort öðru. Stundum á sér stað samtal en samfélagsmiðlar eru ekki formlegur vettvangur þess og sem betur fer tekur fólk enn upp símann, sendir tölvupóst eða hittist til að ræða málin, bæði gagnrýna og hrósa.

Framhaldið

Undanfarið hafa fulltrúar í bæjar-, borgar- og sveitarstjórna hver af öðrum verið að tilkynna hvort þau hyggist gefa kost á sér til áframhaldandi vinnu og fjölmargir liggja enn undir feldi að vega og meta hvað skal gera. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég gef kost á mér til áframhaldandi vinnu á þessum vettvangi, er undir feldi ennþá.

En ég hvet alla til að íhuga það að gefa kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Við þurfum á fjölbreyttum hópi að halda, af öllum kynjum, aldri og með ólíkan bakgrunn. En það hefst ekki nema að fólk standi upp frá tölvunni (áður elhúsborðinu) og gefi kost á sér. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og oddviti framboðs Framsóknar og stuðningsmanna þeirra 2018-2022.

Bæði ljúft og skylt

Ásgrímur Ingólfsson

Gleðilegt ár og þakka ykkur fyrir gamla árið sem var keimlíkt árinu á undan hvað varðar veiru skrattann. Það komu alltaf aðrar brekkur loksins þegar maður hélt að farið væri að sjá fyrir endann á þeirri sem maður var að klífa. En svona er lífið, hæðir og lægðir og svo ég verði nú enn dýpri, þá birta öll él um síðir.

En ekki átti þessi pistil minn að fjalla um þær vangaveltur hvort og hvenær við losnuðum við covid. Nei, ég ætla að fjalla um nokkur atriði sem ég sá á ferð minni um fésbókina. Mér verður það stundum á þegar stímin eru löng að þvælast þar um og lesa alla þá uppbyggilegu umræðu sem þar þrífst. Sem er oft á tíðum gangrýnislaus og án þess að fólk geri minnstu tilraun til að kynna sér málin þó svo að ein leit á Google myndi upplýsa viðkomandi um staðreyndir málsins.

Sveitasjóður

Tekjur og gjöld: Eins og allir vita þá er mikilvægt að hafa þessa tvo liði í lagi þegar menn reka heimili, fyrirtæki eða sveitarsjóð. Ef misræmi verður mikið þá er ekki annað að gera en að taka á vandanum. Auðvitað þurfa ekki öll ár að vera eins og auðvitað er hlutverk heimila, fyrirtækja og sveitasjóðs mismunandi. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið rekið með miklum ágætum undafarin ár. Það hefur skilað ríflegum hagnaði til fjárfestinga og jafnhliða haldið uppi háu þjónustustigi við íbúan.

Auðvitað geta menn svo deilt um hvort það hefði átt að setja meira hér eða þar. Þegar launakostnaður sveitafélaga í landinu hefur aukist um 16% og við Hornfirðingar höfum ekki farið varhlut af því. Ásamt því að tekjur hafa ekki aukist að verðgildi og ekki eins og menn höfðu væntingar um fyrir nokkrum misserum síðan er ekki annað að gera en að bretta upp ermar, reyna að auka tekjur, draga úr framkvæmdum eða skerða þjónustu. Bæjarstjórn hefur ekki viljað skerða þjónustu og kemur tvennt til. Annars vegar hefði það þýtt einhverjar uppsagnir og þá aukið atvinnuleysi á svæðinu og svo hins vegar þá var það samdóma álit að við yrðum að standa við bakið á okkar stofnunum í því álagi sem fylgir covid.

Það varð því úr að fresta framkvæmdum svo sem á Sindrabæ, fara yfir tekjuhliðina og leitast við að láta þá borga sem nota þjónustu sveitarfélagsins, leiðrétta þætti sem hafa verið gerðar athugasemdir við en vera þó hófleg í gjaldtöku og passa eftir mætti að vera samanburðarhæf við önnur sveitafélög. En yfir þetta er ágætlega farið í svari sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/gjaldskrarbreytingar-hja-sveitarfelaginu-hornafirdi við forsíðufrétt sem birtist á síðu verkalýðfélagsins Afls.

Án þess að vera einhver „bezzervizzer“ þá sjá allir sem vilja sjá að sveitarfélagið varð að bregðast við þeim aukna launakostnaði sem það stendur frami fyrir og hefði verið mjög óábyrgt að sitja með hendur í skauti, láta bæjarstjórnarkosningar líða og láta næstu bæjarstjórn sitja upp með Svarta Pétur. Sveitasjóður verður að skila einhverjum afgangi til þess að það þurfi ekki að taka lán fyrir öllum framkvæmdum, hvað þá rekstri. Það er ekki boðlegt og bara ávísun á vandræði í framtíðinni og auknar álögur á komandi kynslóðir.

Vinsældir 

 Að vera í bæjarstjórn er ekki vinsælda kosning, það er þjónusta sem bæjarstjórnarfólk tekur að sér fyrir samfélagið og get ég fullyrt að allir eru í þessu af heilindum, gera þetta eftir bestu samvisku og vilja láta gott af sér leiða. Sjálfsagt er fólk þarna úti sem er betur til þess fallið en þeir sem standa í þessu streði þessi misserin og sjálfsagt er hægt að gera betur og sjálfsagt er líka hægt að gera verr en hvað um það, allir reyna að gera sitt besta.

Aðeins um söfn, íþróttamannvirki og aðrar framkvæmdir

Ég hef aðeins séð vangaveltu um hitt og þetta á þeim merka miðli sem nefndur var hér fyrr í greininni. Ég ætla ekki að fara með sama vælið og er hér fyrir ofan en þetta er allt spurning um forgangsröðum, þörf, fjármagn og skynsemi. Sveitafélagið Hornafjörður hefur lágt skuldahlutfall og gæti gert þetta allt og meira til ef menn eru tilbúnir í auknar lántökur. Þó með þeim fyrirvara að það fengjust iðnaðarmenn til að framkvæma verkefnin. Mér sýnist okkar fólk hafa nóg fyrir stafni svo kannski er rétt að dreifa verkefnunum.

Að lokum 

Það eru sveitarstjórnarkosningar í vor og ég er ekki í vafa um að þau framboð sem bjóða fram verða með gott fólk á listum og hvet ég þá Hornfirðinga sem áhuga hafa á framgangi okkar sveitarfélags að setja sig í samband við þær fylkingar sem ætla að bjóða fram. Bjóða sig á lista eða í nefndir eftir kosningar. Svo veit ég að allir listar eru boðnir og búnir að taka við hugmyndum inn í málefnavinnuna, við getum gert gott betra.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar.

Áramót

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýárs með þökk fyrir árið sem nú er liðið um leið og ég óska ykkur hamingju á velfarnaðar á árinu 2022.

Það er vaninn að líta yfir farinn veg á þessum tímamótum. Í pistli mínum fyrir ári síðan var Covid ofarlega í huga flestra, má segja að þetta ár hafi endað með hvelli hvað Covid varðar með hæstu smittölum sem hafa sést hér á landi og einnig hér í okkar sveitarfélagi. Við áttum líklega flest von á því í sumar þegar öllu var aflétt að nú værum við laus við þennan fjanda! Svo var nú því miður ekki og verðum við líklega að læra að lifa með þessari veiru en vonum að Omikron afbrigðið sé upphafið af endalokum faraldursins og að þetta verði orðin eins og hver önnur kvefpest fyrr en varir.

Framkvæmdir og uppbyggingarverkefni í sveitarfélaginu

Sveitarfélagið var með háleit markmið í framkvæmdum fyrir árið og var stærsta og umfangsmesta framkvæmdin endurbætur á aðalgötunni okkar, Hafnarbrautinni, sem tókust afar vel þrátt fyrir ýmsar hindranir. Aðrar framkvæmdir voru endurbætur á Víkurbraut 24 sem nú hýsir alla velferðarþjónustu sveitarfélagsins. Starfsemin flutti öll þangað s.l. haust og er nú loks öll undir sama þakinu eftir að hafa verið dreift um þéttbýlið til fjölda ára. Velferðarþjónustan verið að styrkjast á síðustu árum með aukinni áherslu á virkniþjónustu við alla þjónustuhópa ásamt því að ný verkefni hafa færst yfir til málaflokksins s.s. dagdvöl aldraðra í Ekru og þjónusta við íbúa sem áður dvöldu á dvalarheimilinu í Mjallhvít. Nú býður sveitarfélagið upp á líkamsrækt fyrir 60 ára og eldri í Sporthöllinni í fyrsta sinn og er mikil ánægja með tímana, stuðningur við félagsstarf aldraðra hefur verið aukið ásamt því að ýmis virkniúrræði eru nú í boði fyrir þjónustuþega á öllum aldri.

Framkvæmdir standa nú sem hæst í Hrollaugsstöðum þar sem 5 nýjar leiguíbúðir munu verða teknar í notkun í lok febrúar. Vatnajökulsþjóðgarður tók þátt í framkvæmdakostnaði með fyrirframgreiddri leigu á þremur íbúðum fyrir starfsfólk og eru nú tvær íbúðir auglýstar til leigu á almennum markaði. Með framkvæmdinni er húsið nú komið í betri nýtingu og á sama tíma er verið að svara ákalli um leiguíbúðir í dreifbýlinu. Á undanförnum árum hafa félagsheimilin fengið töluverða uppliftingu með endurbótum bæði í Holti og á Hrollaugsstöðum. Nú í janúar er svo áformað að bjóða út endurbætur í Hofgarði þar sem stendur til að opna á milli leiks- og grunnskóla og samhliða fara í endurbætur á salernum.   

Mikligarður hefur fengið viðhald á þaki ásamt því að unnið er að hönnun vegna fyrirhugaðra endurbóta innanhúss. Áformað er að sinna endurbótum á Miklagarði í smáum skrefum á næstu árum með það að markmiði að húsnæðið verði nýtt sem byggðasafn fyrir sveitarfélagið og einnig undir atvinnustarfsemi. 

Mikil hreyfing hefur verið á fasteignamarkaðnum á undanförnu og aðeins þrjár eignir til sölu í þéttbýlinu á Höfn. Lóðaframboð er nú af skornum skammti og aðeins þrjár lóðir lausar til úthlutunar í þéttbýlinu við Dalbraut. Unnið er að því að fjölga lóðum til að anna eftirspurn, slíkt er þó ansi tímafrekt en mikil áhersla er á að vinna það hratt og örugglega. Það er ljóst að það ríkir bjartsýni og áhugi á því að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði en einnig er mikil eftirspurn eftir leiguíbúðum í dreifbýlinu. Er því unnið að deiliskipulagningu íbúabyggðar við Hrollaugsstaði og í Borgartúni, Öræfum og eru aðeins þrjár lausar lóðir. Atvinnuleysi mældist töluvert framan af árinu 2021 en í sumar og haust dró mjög úr atvinnuleysi og kvarta atvinnurekendur nú yfir því að erfiðlega gangi að fá fólk til vinnu.

Starfsemi sveitarfélagsins

Árið hefur verið ansi krefjandi á starfsstöðvum stofnana sveitarfélagsins. Mikið hefur mætt á leik- og grunnskólum í tengslum við faraldurinn. Hér höfum við sloppið ótrúlega vel hvað varðar útbreiðslu veirunnar, í það minnsta fram til þessa og vonandi verður svo áfram. Þegar upp hafa komið smit í samfélaginu hefur gengið vel að halda smitunum einangruðum þannig að þau hafa ekki laumað sér inn í skólastarfið. Í grunnskólanum var skipt um stjórnanda þegar Þórgunnur Torfadóttir tók við starfi sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs en í stað hennar fengum við brottfluttan Hornfirðing, Þórdísi Sævarsdóttur til að taka við keflinu. Skólastarfið hefur gengið ótrúlega vel  og fengum við íbúar að njóta þess að horfa á árshátíð skólans í íþróttasalnum aftur eftir árs pásu, ótrúlega vel heppnuð Lion King sýning. Skipt var um skólastjórnanda í Grunnskólanum í Hofgarði þegar Brynja Kristjánsdóttir lét af störfum og tók Hafdís Roysdóttir við af henni en hún hefur lengi starfað við skólann.

Leikskólastarf hefur sömuleiðis gengið afar vel þrátt fyrir faraldurinn. Vel hefur gengið að manna leikskólann undanfarin ár en þar starfa 46 manns. Erfiðlega hefur gengið að fá leikskólakennara til starfa en sveitarfélagið hefur stutt vel við þá sem vilja stunda nám í leikskólafræðum sem hefur skilað nokkrum útskrifuðum leikskólakennurum í skólann. Í haust var tekin í notkun ný leikskóladeild fyrir ungabörn í Selinu við Víkurbraut 24 til að anna brýnni eftirspurn. Fræðslu- og tómstundanefnd er nú með það til skoðunar hvernig húsnæðismálum leikskólans verður háttað á næstu árum þar sem leikskólinn Sjónarhóll er nú fullsetinn og með lengingu fæðingarorlofs til 12 mánaða verður aukin krafa á að börn geti hafið leikskólavist strax að því loknu. 

Samfélagsumræða

Samfélagið okkar samanstendur af íbúum sem búa í því. Það hvernig samfélag við viljum byggja upp er algjörlega undir okkur sjálfum komið. Nú þegar nokkrir mánuðir eru eftir af þessu kjörtímabili finnst mér ástæða til að horfa í baksýnispegilinn. Það sem stendur upp úr í starfi mínu eru frábærir samstarfsfélagar bæði starfsmenn sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar. Samstarfið í bæjarstjórn hefur verið mjög gott allt kjörtímabilið og í þyngstu málunum hefur ríkt einhugur um ákvarðanir. Það er ekki sjálfgefið að svo sé og met ég það mikils. Starfsmenn sveitarfélagsins eru 200 talsins en það eru þeir sem halda sveitarfélaginu gangandi, halda uppi skólastarfi og velferðarþjónustu, halda götum og veitukerfum gangandi og þjónusta höfnina okkar svo eitthvað sé nefnt. Þessar grunnstoðir eru grundvöllur þess að sveitarfélagið geti vaxið og dafnað með öflugu atvinnulífi. Starfsmenn sveitarfélagsins eiga mikla þökk skilið fyrir þeirra óeigingjarna starf og ekki síst á tímum þegar áskoranir eru krefjandi vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ég vil nota tækifærið og þakka öllu mínu samstarfsfólki fyrir frábært samstarf undanfarin ár. Einnig vil ég þakka íbúum fyrir gott samstarf og þakka þá hvatningu og stuðning sem ég hef fengið. Síðasta árið hefur verið mjög krefjandi fyrir mig persónulega en ég kýs að líta á það sem áskorun sem ég tekst á af yfirvegun og jákvæðni. Sveitarfélagið Hornafjörður er vaxandi samfélag sem hefur alla burði til að vaxa enn frekar, samþykkt hefur verið stefna til næstu ára fyrir sveitarfélagið þar sem grunngildin virðing, framsækni og samvinna eru höfð að leiðarljósi. Það er við hæfi að enda áramótapistil minn á þessum orðum um leið og ég þakka fyrir samstarfið á árinu.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri

Hjúkrunarheimili – nýbygging við Skjólgarð

Þriðju mótmælin vegna tafa við byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn fóru fram á Skjólgarði í gær föstudag. Að frumkvæði íbúa Skjólgarðs hófust reglubundin föstudag mótmæli fyrir tveimur vikum síðan. Fyrstu mótmælin voru haldin af íbúum sjálfum, næst voru það starfsmenn og nú aðstandendur íbúa heimilisins. Bæjarstjóri tók þátt í mótmælunum að þessu sinni og þakkaði við það tilefni íbúum og aðstandendum fyrir hvatninguna. 

Ferlið fram að þessu

Tafir á framkvæmdum eru til komnar vegna ýmissa þátta, hönnunin tók lengri tíma en áætlað var, sömuleiðis lokavinna við útboðsgögn og kostnaðaráætlun. Framkvæmdir voru boðnar út síðastliðið vor og bárust tvö tilboð sem voru bæði vel yfir kostnaðaráætlun. Báðum tilboðum var hafnað en samkvæmt lögum um opinber innkaup er heimilt að leita samninga við bjóðendur. Undanfarinn mánuð hafa samningaviðræður staðið yfir og er nú komin niðurstaða. Sveitarfélagið og heilbrigðisráðuneytið fengu sent minnisblað þar um frá Framkvæmdasýslu ríksins í lok vikunnar. Þar kemur fram að tekist hefur að lækka kostnað við bygginguna töluvert sem kemur þó ekki niður á gæðum hennar. Minnisblaðið fær umfjöllun í bæjarráði á þriðjudag einnig þarf niðurstaðan að fá umfjöllun hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og fá þar samþykki fyrir nýrri kostnaðaráætlun. 

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins hafa verið í samskiptum við heilbrigðisráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis um málið. Ráðherra og þingmenn eru bjartsýnir á að ný kostnaðaráætlun fáist samþykkt af ríkinu. Það er því von okkar allra að framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili geti hafist á næsta ári. Þangað til höldum við, allt samfélagið áfram að mótmæla þar til rödd okkar heyrist.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.

Skipulagsmál

Ásgrímur Ingólfsson

Skipulagsmál hafa verið fyrirferðamikil á því kjörtímabili sem rennur sitt skeið á enda nú á vormánuðum og hafa þau tekið talsverðan tíma. Bæði þau sem sveitarfélagið hefur gert og þau sem einstaklingar hafa látið gera fyrir sig. Öll verða þau að koma fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd  til staðfestingar og auðvitað verða íbúar að hafa tök á að kynna sér þau á skipulagstímanum. Sum hafa tekið alltof langan tíma og er ekki við neinn einn að sakast, bæði hafa verið mannabreytingar á þeim verkfræðistofum sem hafa verið að vinna fyrir okkur. Menn hafa líka verið að kenna Covid um og svo síðast en ekki síst þá eru takmörk fyrir því hvað stjórnsýslan getur afkastað miklu svo vel sé, því ef við vöndum okkur ekki þá hefur þetta tilhneigingu til að fara í skrúfuna.

Þétting byggðar

Eins og lesendum ætti að vera kunnugt þá hefur það skipulag verið lengi í fæðingu og ferli til staðfestingar. Haldnir voru nokkrir fundir með íbúum og brugðist var við ýmsum ábendingum sem fram komu þó mörgum finnst ekki nóg að gert. Skipulagið er tilbúið og hægt verður að hefja úthlutun samkvæmt því um leið og íbúakosning hefur farið fram, svo framalega að íbúar samþykki skipulagið. Í þessu skipulagi eru sjö lóðir þar af ein raðhúsa lóð með þremur íbúðum. ´Ég tel að þetta sé gott skipulag, bæði hefur verið hugsað fyrir nýtingu innviða og lands án þess ganga of mikið á græn svæði og útivistarmöguleika íbúa.

Ég hvet íbúa til að taka þátt í kosningunni þegar þar að kemur og umfram allt að kynna sér málið með opnum hug, velta fyrir sér hvernig samfélag og byggðarmynstur menn sjá fyrir sér í ókomni framtíð.

Hrollaugsstaðir og Leiran

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar fjölluðum við meðal annars um deiliskipulögin á Hrollaugsstöðum og Leirunni. Þau skipulög eru langt kominn og hef ég væntingar um að þau verði kláruð fljótlega eftir áramót. Í skipulaginu á Hrollaugsstöðum er gert ráð fyrir fimm íbúða raðhúsi og einu parhúsi í fyrsta áfanga síðan í framhaldinu væri hægt að bæta við tveimur parhúsum og einu raðhúsi. Á Leirunni er gert ráð fyrir blandaðri byggð, en auðvitað getur þetta breyst í skipulagsferlinu m.a. með athugasemdum frá íbúum. 

Miðbæjarsvæði

Þetta skipulag er styttra á veg komið,  því miður og lítið um það að segja. Hér erum við að reyna að hugsa til næstu áratuga og sjá fyrir okkur bygginga þarfir tengdar grunnskóla og íþróttum. Í vinnu við þetta skipulag er verið að reyna að hafa pólitíska samstöðu svo niðurstaðan geti verið leiðarvísir næstu bæjarstjórna inní framtíðina.

Hafnarsvæðið

Umhverfis- og skipulagsnefnd og hafnarstjórn eru nýbúnar að samþykkja skipulagslýsinguna fyrir hafnarsvæðið svo sú vinna er farin á fullt og verður vonandi langt komin á vormánuðum. Hér er aðallega verið að laga agnúa sem voru á fyrra skipulagi og skýra starfsemi hafnarinnar betur.

Heppan

Í sumar hófum við vinnu við að endurskoða skipulagið á Heppunni. Bæði er það tilkomið til að bregðast við bílastæða skorti á hafnarsvæðinu og svo hitt að atvinnu- og menningarmálanefnd hefur skilgreint hlutverk Miklagarðs og Verðanda (rústana) og er kominn með metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir svæðið. Einnig hafa nýir eigendur að sláturhúsinu óskað efir því að koma inní þetta skipulag því fyrirhuguð starfsemi þeirra fellur vel að þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu. Gaman verður að fylgjast með þeirri uppbyggingu á næstu misserum.

Leiðarhöfði

Leiðarhöfða svæðið er komið í samkeppni og það verður spennandi að sjá þær hugmyndir sem eiga eftir að koma fram hjá þeim hönnuðum sem taka þátt. Svæðið er dýrmætt og á eftir að verða með vinsælustu útsýnissvæðum á landinu í framtíðinni

Hér hef ég aðeins stiklað á stóru í skipulagsmálum og ekki talið upp þau fjölmörgu skipulög sem íbúarnir eru með á sinni könnu, þau hafa verið fjölmörg þessi síðustu ár. Flest hafa þau verið metnaðarfull og góð. 

Víkin milli  Leiðarhöfða og Afkastahóls (við Ránarslóð)

Eins og ykkur er kunnugt um hefur verið nafnasamkeppni um þessa vík. Þegar þetta er skrifað hef ég ekki hugmynd um hvað nöfn hafa komið fram. Ég hef verið að grafast fyrir um kennileiti á svæðinu eða nafn sem hægt væri að nota og er sú vinna enn í gangi. Þau nöfn sem mér hefur dottið í hug eru þessi:

  • Ytri Höfðavík, samkvæmt kortum er Höfðavík innan við Leiðarhöfðann.
  • Mönguvík, tenging við Möngu hellir sem er í Afkastahól.

Þessari leit er ekki lokið og vonandi finnum við gott nafn.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.


 [ÞT1]

Fjárhagsáætlun 2022

Í gær fimmtudaginn 11.11.21 var fyrri umræða í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun fyrir árið 2022.

Varðandi tekjuhliðina byggir áætlunin á óbreyttum álagningarreglum frá fyrra ári s.s. óbreyttu útsvari, 14,52% og fasteingnaskatts prósentu en fasteignaskattsstofn hækkar að meðaltali um 3.5% í sveitarfélaginu.

Gjaldskrár

Samþykkt var tillaga að hækkun gjaldskráa sem tengjast fræðslu- og tómstundamálum en gjaldskrár fyrir sorpmál og veitur eru enn í vinnslu og verða tilbúnar fyrir seinni umræðu í bæjarstjórn sem fram fer í desember.

Framkvæmdaáætlun

Í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir 500 milljónum sem er talsvert minna en verið hefur undanfarin ár en talsverð óvissa ríkir enn um stóra framkvæmd s.s. nýtt hjúkrunarheimili. Vonandi mun sú framkvæmd fara af stað sem allra fyrst en sveitarfélagið hefur nú þegar lagt um 200 milljónir inn í verkefnið.

Helstu niðurstöður

Fyrir A og B hluta eru helstu niðurstöður eftirfarandi: rekstarniðurstaða 68,3 m.kr., skuldir og skuldbindingar 2.346 m.kr., veltufé frá rekstri 379.3 m.kr, ný lántaka 250 m. kr., afborganir langtímalána 116.4 m.kr., skuldir og skuldbingingar í hlutfalli af tekjum 73.5%.

Áskoranir í rekstri

Það er ljóst að ýmsar áskoranir eru í rekstrinum. Laun og launatengd gjöld hafa hækkað töluvert undanfarið og stytting vinnuvikunnar hefur áhrif þar á s.s. í velferðarþjónustu. Áhrif loðnubrests og heimsfaraldurs með fækkun ferðamanna á rekstur sveitarfélagsins eru talsverð eins og á samfélagið allt. En þrátt fyrir þrengingar þá stendur sveitarfélagið vel.

Samvinna

Fjárhagsáætlun er unnin í góðu samstarfi starfsmanna og kjörinna fulltrúa og var afgreidd samhljóða af öllum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn.

En þrátt fyrir áskoranir í rekstri erum við bjartsýnar á að nýtt ár færi okkur betri tíð með aukinni loðnuveiði og fjölgun ferðamanna.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.

Farsæld barna

Mind af ver félagsmálaráðuneytisins

Um áramótin næstu verða innleidd ný lög um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason hefur lagt áherslu á málefni barna í embætti sínu og fór í margþætta vinnu við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna og fjölskyldna þeirra með snemmtækan stuðning, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir að leiðarljósi. 

Afrakstur þeirrar vinnu voru ný lög sem taka gildi frá og með næstu áramótum. Í raun eru það þrenn ný lög, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um Barna- og fjölskyldustofu og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Breytingarnar sem felast í lögunum er ætlað að stuðla að aukinni velferð og farsæld barna í barnvænu, heilsueflandi og valdeflandi samfélagi. Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eigi að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi. 

Innleiðing

Í Sveitarfélaginu Hornafirði er hafin vinna við innleiðingu laganna. Sveitarfélagið hefur veitt mjög góða þjónustu þegar kemur að málum sem þessum og að mörgu leiti með því formi sem kynnt er í lögunum. Þó þarf að fara fram skilgreining á þeirri þjónustu sem veitt er og á hvaða stigi hún er veitt, þ.e. fyrsta, öðru eða þriðja stigi. Fyrsta stiginu tilheyrir grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum, á örðu stigi þjónustu tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur. Á þriðja stigi þjónustu tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Hafin er vinna við að skilgreina umrædd þjónustustig og fer sú vinna fram á velferðarsviði og einnig í skólunum. 

Fjármögnun

Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið vinna saman að því að fjármagna breytingarnar en tryggðar hafa verið 1.100 m.kr. á ári næstu þrjú árin til innleiðingar laganna. Rennur sú fjárhæð til sveitarfélaganna með skiptireglu sem verið er að skilgreina. 

Barnvænt sveitarfélag

Það er ljóst að mikil vinna er fyrir höndum en það er gríðarlega spennandi verkefni. Við viljum jú búa börnum gott umhverfi til búsetu og gott skólakerfi. Sveitarfélagið er aðili að verkefninu barnvæn sveitarfélög sem hefur það að markmiði að innleiða barnasáttmála sameinuðu þjóðanna ásamt því að vera heilsueflandi sveitarfélag en það styður sannarleg við lögin um farsæld barna.

Barnaþing

Í vikunni voru haldin tvö barnaþing þar sem börnum í sveitarfélaginu á grunn- og framhaldsskólaaldri. Þar fengu börn tækifæri til að hafa áhrif á starfsemi sveitarfélagsins og rödd barna fær stærra hlutverk með þessum hætti. Einnig er nýtt ungmennaráð tekið til starfa eftir kosningar í skólunum í haust, þau eiga áheyrnarfulltrúa í flestum nefndum sveitarfélagins og hafa þar tækifæri til að hafa áhrif. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri

Vettvangur dagsins

Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun sl. fimmtudag. Við það tækifæri var farið í skoðunarferð í Hoffell og kyndistöðina á Höfn sem hefur fengið nýtt hlutverk sem lokastöð hitaveitunnar. Forstjóri RARIK Tryggvi Þór Haraldsson, Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fluttu ávörp við þetta tækifæri og fóru yfir verkefnið og þau áhrif sem það hefur á samfélagið. Sjá hér https://www.rarik.is/frettir/mikilvaegt-framfaraskref-fyrir-byggdina-i-hornafirdi

Árshátíð

Það var mikil gleði og sköpunarkraftur sem tók á móti gestum á árshátíð Grunnskóla Hornafjarðar sem haldin var sl. miðvikudag með sýningu á Konungi Ljónanna. Að vanda var öll umgjörð um sýninguna unnin af nemendum í samvinnu við starfsfólk skólans.

Við hornfirðingar þurfum ekki að kvíða framtíðinni með þessa flottu listamenn í samfélaginu okkar. Öll frábær og á grunnskólinn í heild sinni mikið hrós skilið fyrir að skapa þessa umgjörð fyrir nemendur að koma fram og leyfa íbúum að njóta.

Það er gott að búa í samfélagi þar sem hver og einn skiptir máli og hefur tækifæri til að blómstra. Viðburðir eins og árshátíð grunnskólans sýnir okkur að öll hlutverk eru mikilvæg bæði á sviði í umgjörð og í undirbúningi.

Hlúum vel að hvort öðru sama hvaða hlutverki við gegnum í samfélaginu, hver við erum eða hvaðan við komum. Með því byggjum við betra samfélag fyrir okkur sjálf og hvort annað – góða helgi.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Bakslag!

Hvað er að frétta?

Þessi stutta en stóra spurning hefur hljómað mjög oft frá undirskrift samings um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn í maí 2018.

Oft höfum við kjörnir fulltrúar getað komið með svör um hvar í ferlinu málið er og hvaða skref séu næst á dagskrá. Þó má segja að öll skref verkefnisins hafi tekið lengri tíma en áætlað hefur verið og hefur það reynt á þolrifin hjá okkur öllum.

Það var því mikið reiðaslag sl. þriðjudag þegar sveitarfélaginu barst afrit af bréfi heilbrigðisráðuneytisins til Framkvæmdasýslu ríkisins þar sem fram kemur að ráðuneytið leggi til að tilboðum í verkefnið verði hafnað, farið verði nánar yfir forsendur verkefnisins og kannað með hvaða hætti sé hægt að draga úr kostnaði þess.

Langt ferli

Fyrr í ferlinu hefur verkefnið verið rýnt m.t.t. kostnaðar og hafði framkvæmdasýslan mælt með því við bæði heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélagið að gengið yrði að lægra tilboðinu og var bæjarráð tilbúið til að samþykkja það fyrir hönd sveitarfélagsins.

Frá því að þessi staða kom upp hafa bæði bæjarstjóri og kjörnir fulltrúar unnið að því að koma afstöðu sveitarfélagsins til skila við hina ýmsu aðila sem geta haft áhrif á málið og lagt áherslu á að frekari tafir á verkefninu verði sem minnstar.

Bæjarstjóri er í góðu sambandi við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og framkvæmdasýslunnar til að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.

Svarið við spurningunni

Nýjustu fréttir eru því miður þannig að verkefnið ætlar enn einu sinni að tefjast en unnið er á öllum vígstöðvum að því að sú töf verði sem styttst.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs

Um allt og ekkert

Ásgrímur Ingólfsson

Komið haust

Það passar til að þessu þurra sumri lauk þegar bændur fóru að velta fyrir sér smalamennsku, það óx í ám og rétt sást upp í miðjar hlíðar. En það þýðir ekki að slá slöku við og bændur verða að sækja sitt lifibrauð þó afraksturinn sé allt of lítill.

Í haust verður ekki slátrað á Höfn og er það miður. Sennilega hefur það ekki gerst áður frá því Höfn byggðist og er það von mín að þær dugnaðarkonur sem íhugað hafa að setja á stofn sláturhús sjái hag sinn í því og láti það verða að veruleika. Ég tel að matvælavinnsla með hráefni úr héraði eigi framtíð fyrir sér. Kannski það verði langhlaup að koma henni á koppinn en með vitundarvakningu í umhverfismálum þá mun þessi þankagangur fá sífellt meira vægi.

Aðeins um sjóinn

Eins og flestum er kunnugt þá er humarvertíðin ekki svipur hjá sjón þessi misserin og er orðið einmannalegt á Eyjahorninni á þessum hefðbundnu vertíðarmánuðum allavega eru baujurnar þar og við Hálsana ekki eins og frumskógur yfir að líta líkt og venja var. Siggi Óla hefur ekki þurft að bítast við neinn um bestu stæðin. Tímarnir breytast og við neytendurnir með. Við viljum ferskan fisk alltaf þegar okkur dettur í hug og sjávarútvegsfyrirtækin bregðast við með því að vera með jafnt framboð af gæðavöru til neytenda úti í hinum stóra heimi.

Við fengum smjörþefinn af loðnuvertíð síðasta vetur og útlit er fyrir mjög stóra loðnuvertíð í vetur. Svo stóra að allt þarf að ganga upp svo náist að veiða upp í heimildir, verkefnið er ærið. Makrílveiðin var snúin og þurftum við að sækja allan okkar afla austur í Smugu. Túrarnir voru langir og oft á tíðum leiðinlegir. Undanfarinn mánuð hafa stóru bátarnir verið að veiða norsk-íslensku síldina. Hún hefur haldið til í Héraðsflóanum þar sem veiðar hafa gengið vel og eru hornfirðingar búnir með sinn kvóta af norsk-íslensku síldinni. Framundan eru veiðar á suðurlands-síldinni en síðustu ár hefur þurft að sækja megnið af henni í Faxadýpi.

Bæjarmálin

Þegar þetta er skrifað er ég staddur á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík. Það verður að segjast eins og er að mörg sveitarfélög eru löskuð eftir heimsfaraldurinn Launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga og stytting vinnuvikunnar hafa aukið mjög kostnað sveitarfélaga á tímum tekjusamdráttar.

Þessar vikurnar eru sveitarstjórnarmenn um land allt að sjóða saman fjárhags- og framkvæmdaáætlanir fyrir árið 2022. Verkefnið byggist á því að leita að auknum tekjum samhliða því að draga úr kostnaði. Þetta er jú verkefni sveitarstjórnarmanna eins og Alþingismanna. Við erum vörslumenn almannafjár og ber skylda til að sýna ráðdeild og hagsýni við ákvarðannatöku.

Ekki er það þó ætlunin að vera með eitthvað svartsýnisraus því framtíðin er björt. Við sjáum vonandi fyrir endann á heimsfaraldrinum og ferðamenn streyma til landsins. Sá straumur á bara eftir að vaxa og verður vonandi til þess að afurðaverð til bænda hækkar. Það er stór loðnuvertíð í kortunum sem skilar sér inn í allt samfélagið. Eftirspurn eftir lóðum virðist engann enda ætla að taka, sem betur fer svo iðnaðarmenn verði áfram vinsælasta stúlkan á ballinu.

Það er ekkert annað í kortunum en að komandi misseri verði góð fyrir okkur Austur-Skaftfellinga og sá mannauður sem við búum yfir í sýslunni flýtir fyrir því að komumst upp úr þessum öldudal. Eins og sést er okkar litla hagkerfi á góðum snúningi og við Framsóknarmenn ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo verði áfram.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar