Ert þú með hugmynd?
Í framhaldi af þeim ánægjulegu fréttum sem við fengum í síðustu viku að Sveitarfélaginu hefði hlotnast sá heiður að Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða styrki tvö verkefni hér í sýslunni með mjög myndarlegum hætti ber að þakka fyrir þann rausnarskap. Það er ekki sjálfgefið að fá svo myndarlega styrki og okkur hlotnaðist. Vil ég einnig þakka starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þeirra þátt í góðri umsókn og er það mín trú að verkefnin verði íbúum og ferðaþjónustunni allri til góða.
Jöklastígur, frá Skaftafelli í Svínafell
Stígurinn er að mestu fullhannaður í samvinnu landeigenda, þjóðgarðsins og sveitarfélagsins, því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka næstu skref. Framundan er bæði stíga- og brúargerð og á að vera hægt að komast ansi langt í framkvæmd verkefnis í sumar að því gefnu að hagstæð tilboð fáist í verkið.
Leiðarhöfði
Framkvæmdasjóðurinn úthlutaði 24.600.000 kr í hönnunarsamkeppni og skipulagsvinnu við Leiðarhöfðann á Höfn. Þegar talað er um Leiðarhöfðann í þessu sambandi er bæði verið að tala um höfðann sjálfan og planið þar sem síldarsöltun KASK stóð á hinni öldinni, fyrir þá sem til þekkja nær það að svæðinu þar sem Jón á Klöppinni bjó, en um er að ræða ca 1 hektara.
Aðgengi fyrir alla
Umsóknin til framkvæmdasjóðsins byggir á því að bæta aðgengi fyrir alla að Leiðarhöfðanum, tryggja öryggi svo að enginn fari sér á voða auk upplýsingagjafar. Þó svo að flestir gestir höfðans í dag séu gangandi vegfarendur sem fara strandstíginn þá þurfa einnig að vera til staðar bílastæði.
Síldarplanið
Margir og kannski flestir hafa skoðun á því hvað gera skal við gamla síldarplanið og einhverjir vilja ekki gera neitt þar. Viljum við nýta hluta þess fyrir íbúabyggð? Hægt væri að koma fyrir 2-5 íbúðum, eftir því hvort um raðhús eða einbýlishús væri að ræða. Aðgengi að höfðanum væri samt gott og strandstígurinn héldi sér án nokkurrar skerðingar.
Planið fyrir íbúa og gesti
Eða ættum við lesandi góður að koma fyrir matsölustað og safni með salernisaðstöðu? Gæti þetta orðið enn einn segullinn á Höfn? Lóðin sem um ræðir er ca 3000fm, til viðmiðunar er salurinn í íþróttahúsinu 650fm. Hér eru tækifæri fyrir ýmiskonar hugmyndir.
Vangaveltur
Ég gæti talið hér upp ýmsar hugmyndir sem hafa heyrst um hvernig nýta má þetta svæði fyrir íbúa og gesti. Hvort þörf sé á fleiri seglum fyrir ferðamenn í þéttbýlinu og ef um uppbyggingu verður að ræða með hvaða hætti hún færi fram og forgangsröðun verkefna.
Næsta skref er nú að safna hugmyndum frá ykkur kæru íbúar sem er þáttur í undirbúningi fyrir hönnunarsamkeppni. Mín von er sú að ferlið gangi fljótt og vel fyrir sig þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir á grunni vinningstillögu strax á næsta ári.
Að lokum
Því hvet ég þig til að mæta á íbúafund um Leiðarhöfðann sem haldinn verður í apríl n.k.. Það væri gott fyrir áframhaldandi vinnu að fá sem flest sjónarhorn því betur sjá augu en auga.
Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.