Ert þú með hugmynd?

Í framhaldi af þeim ánægjulegu fréttum sem við fengum í síðustu viku að Sveitarfélaginu hefði hlotnast sá heiður að Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða styrki tvö verkefni hér í sýslunni með mjög myndarlegum hætti ber að þakka fyrir þann rausnarskap. Það er ekki sjálfgefið að fá svo myndarlega styrki og okkur hlotnaðist.  Vil ég einnig þakka starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þeirra þátt í góðri umsókn og er það mín trú að verkefnin verði íbúum og ferðaþjónustunni allri til góða.

Jöklastígur, frá Skaftafelli í Svínafell

Stígurinn er að mestu fullhannaður í samvinnu landeigenda, þjóðgarðsins og sveitarfélagsins, því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka næstu skref. Framundan er bæði stíga- og brúargerð og á að vera hægt að komast ansi langt í framkvæmd verkefnis í sumar að því gefnu að hagstæð tilboð fáist í verkið.  

Leiðarhöfði

Framkvæmdasjóðurinn úthlutaði 24.600.000 kr í hönnunarsamkeppni og skipulagsvinnu við Leiðarhöfðann á  Höfn. Þegar talað er um Leiðarhöfðann í þessu sambandi er bæði verið að tala um höfðann sjálfan og planið þar sem síldarsöltun KASK stóð á hinni öldinni,  fyrir þá sem til þekkja nær það að svæðinu þar sem Jón á Klöppinni bjó, en um er að ræða ca 1 hektara. 

Aðgengi fyrir alla

Umsóknin til framkvæmdasjóðsins byggir á því að bæta aðgengi fyrir alla að Leiðarhöfðanum, tryggja öryggi svo að enginn fari sér á voða auk upplýsingagjafar. Þó svo að flestir gestir höfðans í dag séu gangandi vegfarendur sem fara strandstíginn þá þurfa einnig að vera til staðar bílastæði. 

Síldarplanið

Margir og kannski flestir hafa skoðun á því hvað gera skal við gamla síldarplanið og einhverjir vilja ekki gera neitt þar.  Viljum við nýta hluta þess fyrir íbúabyggð? Hægt væri að koma fyrir 2-5 íbúðum, eftir því hvort um raðhús eða einbýlishús væri að ræða. Aðgengi að höfðanum væri samt gott og strandstígurinn héldi sér án nokkurrar skerðingar.  

Planið fyrir íbúa og gesti

Eða ættum við lesandi góður að koma fyrir matsölustað og safni með salernisaðstöðu? Gæti þetta orðið enn einn segullinn á Höfn? Lóðin sem um ræðir er ca 3000fm, til viðmiðunar er salurinn í íþróttahúsinu 650fm. Hér eru tækifæri fyrir ýmiskonar hugmyndir.

Vangaveltur

Ég gæti talið hér upp ýmsar hugmyndir sem hafa heyrst um hvernig nýta má þetta svæði fyrir íbúa og gesti. Hvort þörf sé á fleiri seglum fyrir ferðamenn í þéttbýlinu og ef um uppbyggingu verður að ræða með hvaða hætti hún færi fram og forgangsröðun verkefna. 

Næsta skref er nú að safna hugmyndum frá ykkur kæru íbúar sem er þáttur í undirbúningi fyrir hönnunarsamkeppni. Mín von er sú að ferlið gangi fljótt og vel fyrir sig þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir á grunni vinningstillögu strax á næsta ári.

Að lokum

Því hvet ég þig til að mæta á íbúafund um Leiðarhöfðann sem haldinn verður í apríl n.k.. Það væri gott fyrir áframhaldandi vinnu að fá sem flest sjónarhorn því betur sjá augu en auga.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Styrkveitingar úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Mynd af vef stjórnarráðsins.

Sveitarfélagfélagið Hornafjörður fékk tvo veglega styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nú í vikunni. Að þessu sinni var um að ræða hæsta styrk úr sjóðnum, 97 m.kr., til lagningar göngu- og hjólastígs milli Svínafells, Freysness, flugvallarins við Skaftafell og þjónustumiðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs. Með þessu tengjast náttúra, samfélag og menning svæðisins saman á heildstæðan hátt. Gönguleiðin skapar  öruggan og vistvænan samgöngukost fyrir íbúa og gesti svæðisins, auk þess sem verður til nýtt aðdráttarafl í hæglætis ferðamennsku sem er í boði árið um kring. Áherslan er á hægan ferðamáta („slow tourism“) á láglendi, að njóta stundarinnar og rímar það vel við stefnur Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem markmiðin eru meðal annars að draga úr kolefnislosun, efla heilsu og auka veg vistvænna samgangna.

Frumkvæði frá íbúum

Þetta er í annað sinn sem sveitarfélagið fær styrk úr sjóðnum í þetta verkefni en á síðasta ári fékkst styrkur í hönnunarvinnu. Það er að frumkvæði íbúa og landeigenda í Öræfum sem var farið í þetta verkefni. Sveitarfélagið fékk arikitekt til að sjá um hönnunarvinnuna, Hlyn Axelsson og samhliða vann hann að jöklastígnum á Mýrum þar sem göngubrúin fór í hamfaraveðrinu árið 2017 en sveitarfélagið hefur fengið bætur vegna tjónsins á brúnni.

Leiðarhöfðinn

Seinni styrkurinn er 24,6 m.kr. til framkvæmdar hönnunarsamkeppni og vinnu við skipulagsgerð fyrir Leiðarhöfðann á Höfn. Leiðarhöfðinn er einstakur útsýnisstaður með jöklasýn og skipar hann sérstakan sess hjá mörgum Hornfirðingum. Leiðarhöfðinn er fjölsóttur áningarstaður í dag en þar vantar sárlega útsýnispalla og tengingar til að stýra umferð, hámarka jákvæða upplifun og tryggja öryggi gesta á höfðanum. Leiðarhöfðinn getur þjónað mikilvægu hlutverki í því að draga ferðamenn til Hafnar en stór hluti þeirra ferðamanna sem heimsækja sveitarfélagið koma ekki austur fyrir Jökulsárlón. Leiðarhöfðinn getur því orðið einn af seglum ferðamanna á Suðurlandi.

Við erum afar þakklát fyrir rausnarlegt framlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannstaða og erum spennt að hefjast handa við framkvæmdir. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.

Störf án staðsetningar

Ásgrímur Ingólfsson

Nýi heimurinn

Nú þegar liðið er rétt rúmlega ár síðan veiru skrattinn fór að hrjá mannkynið hafa fyrirtæki og stofnanir verið að velta fyrir sér hvernig best sé að vera undir það búinn næst þegar álíka faraldur brýst út. Það er mat margra að þær stóru skrifstofubyggingar sem hýsa jafnvel allt fyrirtækið heyri brátt sögunni til. Að fyrirtæki og stofnanir ættu frekar að dreifa starfsstöðvum sínum og vera jafnvel í mörgum löndum eða heimsálfum. Í þessu felast tækifæri fyrir samfélög eins og Hornafjörð sem hafa upp á allt að bjóða.

Það sem við höfum meðal annars lært undanfarið ár er að heimavinna er ágæt í hófi. Manneskjan er í eðli sínu félagsvera og þarf að hitta annað fólk einhverja vinnudaga í mánuði. Hún þarf kannski ekki endilega sína eigin skrifstofu, hún getur deilt rými með öðrum og jafnvel borði en heimavinna alla daga vikunnar, allt árið er í fæstum tilvikum kostur sem æskilegt er að bjóða upp á. En það ætti að vera sveigjanlegur vinnutími og vinnuumhverfi í boði fyrir þau störf sem það geta og fólk ætti að geta unnið heima hluta af vinnuvikunni kjósi það svo. 

Heimavinna kallar oft á stærra húsnæði því það er ekki alltaf hægt að vera með vinnuaðstöðuna á eldhúsborðinu. Kannski er þetta hluti af þeirri fasteignar eftirspurn sem er í þjóðfélaginu en það er að sjálfsögðu aukinn kostnaður fyrir fólk ef það þarf að hafa auka herbergi á heimilinu fyrir vinnuna. Þetta er örugglega áskorun sem atvinnulífið og launþegar ræða á næstu misserum. Sameiginleg vinnurými, óháð störfum gætu því verið svarið við þessu fyrir marga. 

Störf án staðsetningar

Í haust mótaði sveitarfélagið sér þá stefnu að útbúa aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Sú aðstaða er tilbúin og komin í notkun. Aðstaðan er á efri hæðinni í Miðbæ. Þar hafa þeir sem nýta aðstöðuna samneyti við aðra sem eru með skrifstofur þarna og deila kaffistofu með þeim. Sveitarfélagið nýtti hluta af þeim peningum sem það fékk frá ríkisstjórninni vegna tekjumissis út af Covid-19 til að koma upp þessari aðstöðu.

Í núgildandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 er að finna aðgerð B.7. Störf án staðsetningarVerkefnismarkmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þar er lagt til að slík störf verði unnin á starfsstöð þ.e. í húsnæði þar sem fyrir er önnur starfsemi. 

Við erum komin með góða aðstöðu sem uppfyllir þessi skilyrði og þegar hafa aðilar nýtt sér hana en við höfum einnig verið í sambandi við stofnanir, fyrirtæki og ráðuneyti til að fá fulla nýtingu á aðstöðuna. Vonandi eru einhverjir þarna úti sem hafa áhuga á að nýta þetta tækifæri til að flytja störf hingað. Það er hagur okkar allra að hafa sem fjölbreyttasta starfaflóru á svæðinu, það hefur kófið kennt okkur.

Er vorið komið? 

Þegar þetta er skrifað 5. mars er útlit fyrir enn einn blíðviðris daginn. Þeir hafa verið nokkrir undanfarið og manni finnst eins og apríl sé mættur. En eins og við vitum sem erum meira en tvævetra að þá er enn allra veðra von. Fyrstu farfuglarnir eru þó mættir eins og kemur fram á fuglar.is  

“Fyrstu brandendurnar eru komnar á Höfn, 4 karlfuglar sáust á Flóanum, þar voru einnig tveir tjaldar. Á Skarðsfirði voru komir 11 stelkar og 44 rauðhöfðaendur.”

Bráðum förum við vonandi að sjá fyrstu ferðamennina og svo aukast þeir eftir því sem á árið líður. Lóan mætir með en betri tíð og blóm í haga. Sauðburður hefst svo í byrjun Hörpu með allri þeir vinnu fyrir þá sem sauðfjárbúskap stunda. Iðnaðarmenn slá ekki slöku við og hafa haft ærinn starfa í allan vetur, sjómenn hafa fiskað eins og þeirra er von og vísa, allt samfélagið hefur sinnt sínu, bæði stórir og smáir. Fyrirtæki og stofnanir hafa brugðist við Covid-19 af mikilli skynsemi og æðruleysi.  Það er mín tilfinning að þetta verði gott ár.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar

Aðgerðir í loftslagsmálum

Það var hátíðleg stund í Nýheimum í gær föstudaginn 26. febrúar þegar Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og fulltrúar 20 fyrirtækja í sveitarfélaginu tóku höndum saman og undirrituðu Loftslagsyfirlýsingu Festu og Sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Með undirrituninni skuld­binda að­il­ar sig til að draga úr los­un gróð­ur­hús­loft­teg­unda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum. Til að styðja við þessa veg­ferð býð­ur Festa upp á lofts­lags­mæli sem er öll­um að­gengi­leg­ur án end­ur­gjalds.

Stefnumótun

Einnig voru kynnt drög að stefnumótun sveitarfélagsins þar sem stefnt er að því að sveitarfélagið verði í fararbroddi í umhverfismálum á landsvísu og er Loftslagsyfirlýsingin einn þáttur í því.

Frumsýnt var myndband https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/undirritun-loftlagsyfirlysingar-i-sveitarfelaginu-hornafirdi sem verður vonandi íbúum, forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnanna hvatning til þess að leggjast á árarnar og taka þátt í því að vera með og taka góðar ákvarðanir okkur öllum, umhverfinu og komandi kynslóðum til heilla.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Vettvangur dagsins

Síðustu dagar hafa verið bjartir og fallegir og minnt okkur á að vorið er framundan. Ekki bara eiginlegt vor heldur í mörgum skilningi.

Loksins loðna!

Loksins, loksins fóru uppsjávarskipin á loðnuveiðar og fyrstu farmar eru komnir í land og til vinnslu! Mikil gleði og ánægja með það eftir tveggja ára loðnubrest, gott fyrir þjóðarbúið, samfélagið og ekki síst fyrir þá sem hafa lifibrauð sitt af veiðum og vinnslu.

Bólusetningar komnar vel af stað

Vatnaskil eru í heimsfaraldri kórónaveiru þar sem nokkur hópur í samfélaginu okkar hefur nú fengið fulla bólusetningu gegn veirunni. Fáir hafa greinst með veiruna uppá síðkastið og hægt og rólega er verið að breyta sóttvarnarreglum þó þær séu enn mjög strangar á landamærunum. Þessi framvinda gerir það að verkum að aldraðir og aðrir sem hafa nú um langan tíma verið í einangrun á heimilum sínum, geta hægt og rólega farið að losa um einangrun sína sem er langþráð.

Niðurrif

Á bryggjunni er hafið niðurrif á Graðaloftinu. Hús sem staðið hefur til að hreinsa af grunninum í nokkurn tíma sökum þess að byggingin er orðin illa farin og hættuleg, því ekki nýtanleg til endurbóta. Hins vegar verður lóðin laus til úthlutunar og uppbyggingar samkvæmt deiliskipulagi um Hafnarvík – Heppu, því tilvalið fyrir áhugasama að kynna sér þann möguleika.

Framkvæmdir

Það er ánægjulegt að sjá og finna að framkvæmdir við húsbyggingar eru í fullum gangi. Nú styttist í verklok á Víkurbraut og hver grunnurinn á fætur öðrum að birtast á leirusvæðinu. Auk þess sem nýbyggingar hafa risið að undanförnu bæði í Öræfum og á Mýrunum. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var samþykkt að setja lýsingar af deiliskipulögum bæði á leirunni og á Hrollaugsstöðum í auglýsingu til að auka framboð á lóðum og íbúðum í dreifbýli.

Þorrinn er þá senn að renna sitt skeið og sól að hækka á lofti. Góa heilsar á sunnudaginn, en Góuhóf bíður betri tíma. Njótið helgarinnar hvort sem er í leik eða starfi – því lífið er núna.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Sorp er sexý!

Sorpmyndun er óumflýjanlegur raunveruleiki okkar samfélags. Mikið magn sorps fylgir hverri fjölskyldu, en þess má geta að árið 2018 myndaðist um 1.300 þúsund tonn af sorpi. Aðeins 216 þúsund tonn voru urðuð af þessum 1.300 þúsund tonnum. Á sama ári var losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð kringum 5% af heildarlosun hér á landi, en um 95% af þeirri losun má rekja til urðunar úrgangs.

Rétt flokkun nauðsynleg

Síðastliðin ár hefur verið ákall í samfélaginu um að minnka losun gróðurhúsategunda, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Enn í dag sér undirrituð unga einstaklinga standa fyrir framan Alþingi á hverjum föstudegi til að ítreka þetta ákall. Þau eiga lof skilið enda berjast þau fyrir framtíð sinni og framtíðarkynslóða. Ein viðurkennd leið til að minnka umfang sorps og losun gróðurhúsaáhrifa frá sorpi er að endurvinna það. Það verður aldrei hægt nema sorpið sé flokkað. Það er okkur nauðsynlegt að endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er og með því gæta þess að sorp sé rétt flokkað.

Vitundarvakning

Undirrituð telur að það sé vilji allra landsmanna að flokka sitt sorp á réttan hátt. Mikil vitundarvakning hefur verið á flokkun sorps, t.d. hvernig pokar eru flokkaðir, endurvinnsla raftækja og hvaða hlutir neysluvara fara í hvaða endurvinnslutunnu. Þessi vitundarvakning stigmagnast ár hvert og þá er fólk einnig að reyna á nægjusemi sína til að minnka neyslu þeirra og með því minnka sorpmyndun.

Ákall um samræmdar flokkunarreglur

Á Íslandi ætti lítið sem ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir því að endurvinnsla sé til fyrirmyndar um allt land, frá Reykjavík og til hinna dreifðu byggða. Grundvallarskref í þá átt væri að samræma flokkun sorps á Íslandi, þ.e. milli allra sveitarfélaganna. Með þessu aukum við vitundarvakningu á flokkun og endurvinnslu sorps enn frekar ásamt því að koma í veg fyrir fljótfærnisvillur og ranga flokkun í góðri trú. Að flokka sorp á réttan hátt gæti orðið svokallað „vöðvaminni“ (e. muscle memory) hjá okkur öllum og með þessu aukum við mögulega nýtingu þeirra verðmæta sem safnast við rétta flokkun sorps.

Það er mín von að samræming sorpflokkunar verði að veruleika innan næstu ára. Við skuldum okkur og framtíðarkynslóðum okkar það að endurvinnsla sorps sé til fyrirmyndar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Hjúkrunarheimili – breytingar á rekstrarfyrirkomulagi

Eins og bæjarbúum er kunnugt eru breytingar í vændum í rekstrarumhverfi hjúkrunar- og dvalarheimilisins Skjólgarðs um næstu mánaðarmót, þ.e. 1. mars nk. þegar Vigdísarholt ohf. tekur við rekstrinum. Vigdísarholt er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi og Seltjarnar á Seltjarnarnesi. 

Langur aðdragandi

Aðdragandinn að þessum breytingum hefur verið langur en bæjarstjórn sagði upp samningnum um rekstur hjúkrunarheimilisins í júní á síðasta ári. Í september hófst samningaumleitan við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) þar sem reynt var til þrautar að semja um aukin fjárframlög þannig að reksturinn gæti orðið sjálfbær. Hallarekstur hefur verið á stofnuninni undanfarin tvö ár og var síðasta ár mjög þungt. Um er að ræða málaflokk sem er á ábyrgð ríkisins og því ekki forsvaranlegt að útsvar íbúa sveitarfélagsins standi undir hallrekstri til lengri tíma. Það lá fyrir í desember að samningar mundu ekki nást milli sveitarfélagsins og SÍ og því þurftu Sjúkratryggingar Íslands að finna nýjan rekstraraðila. Upplýsingar um nýjan rekstraraðila lágu ekki fyrir fyrr en 10 dögum áður en samningurinn rann út en það var 31. janúar sl. Því var tekin ákvörðun um að semja um einn mánuð til viðbótar eða til 28. febrúar nk. og er nú hafin vinna við að flytja reksturinn til Vigdísarholts.

Lítið rask fyrir starfsfólk og íbúa

Það er markmið beggja aðila að starfsfólk, íbúar, þjónustuþegar og aðstandendur finni sem minnst fyrir breytingunum en lög um aðilaskipti gilda þannig að réttindi starfsfólks eru tryggð. Starfsfólk hefur verið einstaklega þolinmótt og sýnt málinu skilning en haldinn var starfsmannafundur þegar upplýsingar lágu fyrir um nýjan rekstraraðila. Sveitarfélagið mun berjast fyrir því að halda þremur sjúkrarýmum áfram inn á Skjólgarði en rýmin eru á ábyrgð HSU. Við teljum það vera hluta af grunnþjónustu í sveitarfélaginu að halda sjúkrarýmum hér enda er sveitarfélagið landfræðilega langt frá allri annarri heilbrigðisþjónustu og eru samgöngur oft á tíðum erfiðar, má segja að við séum „eyja“ á Suðausturlandi! 

Samstíga með öðrum sveitarfélögum

Bæjarstjóri hefur unnið þetta mál í miklu samstarfi við önnur sveitarfélög sem hafa sagt upp samningum um rekstur hjúkrunarheimila, eru það Akureyrarbær, Vestmanneyjarbær og Fjarðarbyggð. Einnig hefur Samband íslenskra sveitarfélaga komið að málum. Nú hafa SÍ auglýst eftir rekstraraðila fyrir hjúkrunarheimili þessara þriggja sveitarfélaga en Vigdísarholt mun taka yfir rekstur Skjólgarðs.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Björgvin Sigurjónsson, fv. formaður heilbrigðis- og öldrunarnefndar.

Björgunarsveitir í Sveitarfélaginu Hornafirði

Björgunarsveitir á Íslandi hafa marg sannað sig í þau rúmu hundrað ár sem þær hafa verið starfandi bæði á sjó og landi. Innan raðað Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa þúsundir einstaklinga sem alltaf eru til taks þegar einhver vá steðjar að.

Fjölbreytt starfsemi

Hér í Sveitarfélaginu Hornafirði erum við heppin að hafa starfandi tvær öflugar björgunarsveitir; Björgunarsveitina Kára í Öræfum og Björgunarfélag Hornafjarðar á Höfn ásamt Björgunarbátasjóði sem rekur björgunarskipið Ingibjörgu. Auk þess er hér Slysavarnardeildin Framtíðin og Unglingadeildin Brandur.

Björgunarsveitir á svæðinu gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og hafa byggt upp mikla þekkingu á ýmsum sviðum og hafa yfir öflugum tækjakosti að ráða til að sinna hinum margvíslegu verkefnum sem á borð þeirra berast.

Þjálfun og starfsemi

Þessa þekkingu sækir björgunarsveitafólk sér á ýmsann hátt, til dæmis með námskeiðum hjá Björgunarskólanum, æfingum á vegum björgunarsveitanna og í öðrum áhugamálum eins til dæmis og fjallamennsku og sleðamennsku.

Meðal verkefna sem björgunarsveitir hér á svæðinu koma að eru; verðmætabjörgun í óveðrum, vegalokanir fyrir Vegagerðina, umferðarslys, leitir að týndum einstaklingum, fjallabjörgun, björgun á sjó og björgunarleiðangrar á jökli. Þessi listi er langt í frá því að vera tæmandi.

Félagsstarf á breiðum grunni

En björgunarsveitir eru ekki einungis mikilvægur hlekkur í keðju viðbragðsaðila, heldur er þetta einnig mikilvægur félagsskapur fjölbreytts hóps fólks sem hefur áhuga á leit og björgun.

Björgunarsveitir eru ekki einungis félagsskapur fullorðins fólks því að auki er Unglingadeildin Brandur starfrækt á svæðinu þar sem fólk á aldrinum 15-18 ára hefur kost á að kynnast starfi björgunarsveita.

Það er því ljóst að björgunarsveitir eru mikilvægar fyrir samfélagið, ekki einungis í leit og björgun heldur einnig sem félagsstarf og lífið í sveitarfélaginu væri svo sannarlega einsleitara ef ekki væri fyrir þær.

Finnur Smári Torfason, varabæjarfulltrúi og formaður Björgunarfélags Hornafjarðar

FabLab – stafræn smiðja

FabLab Hornafjörður, stafræna smiðjan okkar hornfirðinga hefur stimplað sig vel inn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi og víðar með því frábæra starfi sem þar er unnið undir stjórn Vilhjálms Magnússonar, forstöðumanns Vöruhússins.

Á mínu fyrsta kjörtímabili í bæjarstjórn 2010-14, var unnið að undirbúningi að opnun smiðjunnar, skoðað hvernig starfsemin væri á öðrum stöðum á landinu og leitað ráðgjafar. Nýsköðunarmiðstöð Íslands var þá með starfsmann á Höfn sem vann með okkur að þessu ferli.

Smiðjan fer síðan af stað 2013-2014 og hefur verið í stöðugri sókn síðan með stopulum stuðningi frá Nýsköðunarmiðstöð en hún hefur frá upphafi verið rekin af sveitarfélaginu. Aðrar FabLab smiðjur landsins hafa verið ýmist reknar af ríkinu eða með stuðningi frá ríkinu í gegnum Nýsköpunarmiðstöð.

Samingur um þáttöku ríkisins

Fulltrúar sveitarfélagsins hafa í gegnum árin verið ötulir í að benda á þessa mismunun en ekki haft erindi sem erfiði fyrr en nú um áramótin þegar atvinnu- og nýsköðunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið koma að borðinu með myndarlegum hætti og gera saming við sveitarfélagið um þáttöku í FabLab Hornafjörður með 8 milljón króna árlegu framlagi næstu þrjú árin. Fjórar milljónir koma inn í verkefnið frá hvoru ráðuneyti fyrir sig.

Samingurinn felst í því að veita námskeið og fræðslu í stafrænni framleiðslutækni og nýsköpun innan skólakerfisins, til almennings og fyrirtækja eins og verið hefur.

Efling starfseminnar

Með því fjármagni sem veitt er með þessum samningi gefst tækifæri til að efla smiðjuna af tækjakosti og gefur aukinn kraft í starfsemina til viðbótar við viðurkenningu á því góða starfi sem þar fer fram.

Sem fyrr er öllum velkomið að nýta smiðjuna og vonumst við til þess að námskeiðin verði vel sótt og nýsköpun nái að blómstra sem aldrei fyrr í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Vettvangur dagsins

Þá erum við lögð af stað inní árið 2021 og rútínan komin í gang eftir uppbrot jóla og áramóta. Fyrsti bæjarstjórnarfundur ársins var haldinn í gær 14. janúar og kom bæjarstjórn saman í Svavarssafni af því tilefni. Fundargerð bæjarstjórnar má nálgast á vef sveitarfélagsins á þessari slóð: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir og upptöku af fundinum á YouTube slóð sveitarfélagsins https://youtu.be/PCVrVdj4Kf8

Skipulagsmál

Að vanda voru skipulagsmál fyrirferðamikil á fundinum. Aðal- og deiliskipulagsbreytingar í Öræfum, Suðursveit, Nesjum og Lóni auk nokkurra erinda frá íbúum á Höfn sem huga að byggingum eða breytingum.

Velferðarnefnd

Kosið var í nýstofnaða velferðarnefnd sem verður til úr samruna félagsmálanefndar og heilbrigðis- og öldrunarnefndar. Þessi breyting er hluti af breyttu skipuriti sveitarfélagsins þar sem aukin áhersla er á samþættingu málaflokkanna ásamt fræðslu- og tómstundamálum. Þessir málaflokkar snerta málefni fatlaðra, barna og fjölskyldna en unnið er að bættri umgjörð um þessa þjónustu með breytingum á húsnæðinu við Víkurbraut 24 sem áður hýsti leikskólann Krakkakot.

Framkvæmdir

Breytingar á Víkurbraut 24 ganga vel og verður það stór áfangi þegar hægt verður að flytja inn aftur með þá fjölbreyttu þjónustu sem þar mun verða. Félagsmálastjóri, fræðslustjóri og þeirra starfsfólk munu koma sér fyrir þar. Heimaþjónustudeild og þjónusta við fatlað fólk mun fá nýja og fyrsta flokks aðstöðu sem beðið hefur verið lengi.

Fráveitumál

Hreinsivirkið í Óslandi var loksins tekið í notkun í lok síðasta árs og var það stór áfangi. Nú er unnið að uppfærslu áætlanna fyrir næstu áfanga í fráveitumálum og umsókn um styrk til ríkisins en ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa nú innspýtingu í þennan málaflokk sem sveitarfélaögin hafa kallað eftir lengi.

Hér hef ég tæpt á nokkrum atriðum sem unnið er með þessa dagana en þetta er aðeins sýnishorn af því sem við erum að vinna að þessa dagana. Ég hvet þig lesandi góður til að fylgjast með bæði á YouTube og heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/

Einnig erum við bæjarfulltrúar alltaf tilbúin til að taka samtalið og símtalið.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs