Alls eru átta í framboði hjá Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi í prófkjöri sem fram fer 19. júní. Kosið verður um fimm efstu sætin á lista flokksins fyrir komandi alþingkosningar.
Kosið verður í lokuðu prófkjöri á 22 kjörstöðum vítt og breytt um kjördæmið. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður 15. júní, 16. júní og 18. júní. Kjörstaði má finna á www.framsokn.is Talning fer fram 20. júní.
Framsókn náði tveimur þingmönnum á þing í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum þeim Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Silju Dögg Gunnarsdóttur alþingismanni.
Í framboði eru:
Sigurður Ingi Jóhannsson, Hrunamannahreppi – sækist eftir 1. sæti
Jóhann Friðrik Friðriksson, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 2. sæti
Daði Geir Samúelsson, Hrunamannahreppi– sækist eftir 2.- 4. sæti
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Árborg – sækist eftir 3. sæti
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Reykjanesbæ – sækist eftir 3.- 4. sæti
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjum – sækist eftir 3.- 4. sæti
Ragnhildur Hrund Jónsdóttir, Vík í Mýrdal – sækist eftir 3.- 5. sæti
Frá hausti 2020 hefur verið unnið að styttingu vinnuvikunnar hjá Sveitarfélaginu Hornafirði eins og um land allt. Breytingarnar tóku gildi samkvæmt kjarasamningum hjá dagvinnufólki um áramót og í maí hjá vaktavinnufólki. Öll stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga nema grunnskólakennara hafa samið um styttingu vinnuvikunnar.
Innleiðing
Innleiðing verkefnisins hefur verið leidd af mannauðsstjóra sveitarfélagsins í samvinnu við starfsmenn á hverjum vinnustað. Mismunandi er hvaða leið hentar hverjum vinnustað sveitarfélagsins en markmiðið er ekki hljótist af viðbótar kostnaður og að íbúar verði ekki fyrir þjónustskerðingu.
Verkefnið hefur hlotið heitið Betri vinnutími og er ljóst að það er misjöfn útfærsla eftir ólíkum einingum sveitarfélagsins. Útfærslan hefur verið útfærð eftir ítarlegt samstarf við starfsmenn hvers vinnustaðar en haldnir voru 2-3 fundir áður en endanleg útfærsla var mótuð.
Endurmat
Það er ljóst að einhverjir vaxtarverkir verða við innleiðinguna en mikil sátt hefur ríkt á meðal starfsmanna um fyrirkomulag á hverjum vinnustað. Næsta haust verður staðan endurmetin og þá hvort sníða þurfi verkefnið til í ljósi reynslunnar fyrsta hálfa árið. Innleiðing hjá vaktavinnufólki tók gildi 1. maí og er það mun flóknari breyting enda er verið að gjörbylta launakerfinu með það að markmiði að bæta vinnuumhverfi vaktavinnufólks.
Starfsmenn sveitarfélagsins sinna fjölbreyttum verkefnum í þjónustu við íbúa af miklum metnaði og er það okkar von að innleiðing betri vinnutíma stuðli að aukinni ánægju í starfi þegar til lengri tíma er litið.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri.
Við búum í fjölmenningarsamfélagi. Í kringum 22% íbúa Sveitafélagsins Hornafjarðar er af erlendum uppruna og af 40 mismunandi þjóðernum. Þessar tölur staðfesta þá miklu þörf fyrir skýra stefnu og gott utanumhald í málefnum íbúa af erlendum uppruna.
Sveitafélagið hefur á undanförnum árum lagt markvisst aukna áherslu á málefni innflytjenda sem hefur verið í góðum höndum Hildar Ýrar Ómarsdóttur, verkefnastjóra fjölmenningarmála. Þar ber helst að nefna tungumálakaffi, stefnumótun um túlkaþjónustu og menntun staðtúlka, samvinnuverkefni með Menningarmiðstöðinni og Rauða krossinum, bætt upplýsingaflæði til nýrra íbúa á mismunandi tungumálum og einstaklingsráðgjöf.
Fjölmenningarráð
Nýlega samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar stofnun fjölmenningarráðs sem mun taka til starfa eftir sumarið. Hornafjörður er þriðja sveitafélagið á Íslandi til þess að stofna slíkt ráð.
Megin hlutverk fjölmenningarráðs er að móta stefnu í fjölmenningarmálum sveitarfélagsins, koma málefnum innflytjenda í sveitarfélaginu á framfæri, skapa vettvang til samskipta og stuðla að fjölmenningarlegu samfélagi. Ráðið mun stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi sveitarfélagsins við íbúa af erlendum uppruna, vinna að stefnumótun og gera tillögur sem varðar verksvið þess.
Fjölmenningarráð er skipað fimm einstaklingum, tveir kosnir af bæjarstjórn og þrír fulltrúar eru tilnefndir úr samfélaginu af verkefnastjóra fjölmenningarmála, þvert á atvinnulíf, fræðslu- og frístundamál og velferðarmál. Þeir íbúar sem eru tilnefndir skulu vera innflytjendur.
Dýrmætur mannauður
Það er því óhætt að segja að staða sveitarfélagsins í fjölmenningarmálum sé töluvert sterkari nú en áður og hafa t.a.m. önnur sveitarfélög leitað til okkar eftir hugmyndum og ráðlegginum er varða bætta þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. Eins og áður hefur fram komið býr fólk frá 40 mismunandi löndum í sveitarfélaginu okkar. Þessir einstaklingar koma hingað með menntun, reynslu, sýn og þekkingu í bakpokanum sem auðgar mannlífið og opnar nýjar dyr ef við erum tilbúin að hlusta og gefa pláss. Fjölbeytileiki er undirstaða jákvæðrar þróunar sem allt samfélagið græðir á.
Nejra Mesetovic, formaður FUF, varabæjarfulltrúi og situr í fræðslu- og tómstundanefnd.
Íbúar hafa beðið lengi eftir byggingu nýs hjúkrunarheimilis enda þrjú ár síðan skrifað var undir samning við Heilbrigðisráðuneytið um bygginguna. Nú er hönnun og vinnu við útboðsgögn lokið og hefur beiðni verið send til samstarfsnefndar ríkisins um opinberar framkvæmdir (SOF) um að heimila útboð. Nefndin fundar fljótlega en framkvæmdin er á fjárlögum og verður vonandi hægt að auglýsa útboðið á næstu 2-3 vikum. Það er því stutt í að fyrsta skóflustungan verði tekin.
Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins
Aðrar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins eru á áætlun. Framkvæmdin við Víkurbraut 24 sem mun hýsa velferðarþjónustu sveitarfélagsins er nú á lokastigi og mun verktakinn skila af sér í næstu viku. Stefnt er að því að hefja starfsemi í hluta húsnæðisins um leið og hægt er og að flutningi verði að mestu lokið um næstu mánaðarmót. Þá munu allir starfsmenn velferðarsviðs verða saman á einum stað um 30 starfsmenn í heildina. Þegar lóðarframkvæmdum verður lokið verður íbúum boðið í heimsókn og húsið vígt með formlegri athöfn.
Hrollaugsstaðir
Framkvæmdir eru nú að hefjast á Hrollaugsstöðum en áætlað er að hægt verði að taka íbúðirnar fimm í notkun fyrir áramótin næstu. Búið er að skrifa undir húsaleigusamninga við Vatnajökulsþjóðgarð sem mun leigja þrjár íbúðir af sveitarfélaginu og greiða fyrirfram út leigufé sem fékkst í gegnum átaksverkefni ríkisins vegna Covid, 43 m.kr.
Mikligarður og Hofgarður
Mikligarður, nú er utanhúsframkvæmdum lokið, unnið er að hönnun innanhúss og hefjast framkvæmdir þar næsta haust.
Í Hofgarði í Öræfum verður opnað á milli leik- og grunnskólans og salerni endurnýjuð. Óskað verður eftir verðtilboðum í verkefnið en kostnaðaráætlun liggur fyrir.
Hafnarbraut og Sindrabær
Framkvæmdir við Hafnarbrautina hefjast fljótlega en búið er að semja við verktaka. Mikið rask mun fylgja framkvæmdunum enda er um aðalgötu bæjarins að ræða. Verkinu mun ljúka í september með malbikun.
Endurbætur í Sindrabæ voru einnig á fjárhagsáætlun ársins 2021. Bæjarráð hafnaði eina tilboðinu sem barst í verkið en hún var vel yfir kostnaðaráætlun. Framkvæmdastigið í sveitarfélaginu er hátt um þessar mundir og verktakar hafa nóg að gera. Útboðsgögnin eru tilbúin og því hægt að auglýsa útboð vegna endurbóta í Sindrabæ strax á næsta ári.
Nú fer ferðamönnum loksins fjölgandi eftir djúpan dal og langan. Bjartari tímar framundan fyrir ferðaþjónustuna og stoðþjónustu hennar sem eins og við höfum komist að raun um síðasta ár, teygir sig ansi víða.
Bólusettningar innanlands ganga mjög vel það væri óskandi og alls ekki úr vegi að ætla að ferðamannastraumurinn nálgist fyrra horf með haustinu.
Almennt er fólk orðið ferðaþyrst og engin búinn að gleyma Íslandi. Eldgosið á Reykjanesi hefur einnig hjálpað mikið við að minna á okkur út um víða veröld.
Nýsköpun í ferðaþjónustu
Það er ánægjulegt að sjá hversu margir ferðaþjónustuaðilar hafa verið hugmyndaríkir við að bjóða uppá hinnar ýmsu uppákomur og tilboð til að laða að íslenska ferðamenn og einnig gaman að sjá hvað landinn hefur verið duglegur að nýta sér þau.
Ný ferðagjöf stjórnvalda mun án efa hvetja landann til að kanna nýjar slóðir eða endurnýja kynnin við landið í sumar.
Faraldurinn minnir okkur samt á að ekkert er sjálfsagt í þessum heimi og endalaust hægt að koma okkur á óvart. Við þurfum að vera skynsöm og eiga borð fyrir báru ef óvæntir atburðir dúkka upp eins og undanfarnir mánuðir hafa sýnt okkur.
Sjálfbær atvinnugrein
En nú fara vonandi í hönd bjartari tímar sem við tökum fagnandi, einnig sjáum við nú hversu ferðaþjónustan er okkur dýrmæt og mörg störf sem hún skapar. Landið okkar er gjöfult og ímynd okkar er dýrmæt, nýtum það skynsamlega með sjálfbærni að leiðarljósi.
Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningamálanefndar.
Stjórn Kjördæmasambands Framsóknar í Suðurkjördæmi hvetur þig til að hafa áhrif. Þann 19. júní næstkomandi fer prófkjör Framsóknar í Suðurkjördæmi fram þar sem félagsmenn kjósa um fyrstu fimm sætin og velja fólk sem það treystir til þjónustu fyrir landsmenn. Á heimasíðu Framsóknar er hægt að skrá sig í flokkinn með rafrænum hætti. Einnig má finna upplýsingar um stefnu flokksins, greinaskrif þingmanna og ráðherra sem og viðburði framundan. Upplýsingar um félagsstarfið er einnig að finna í nýju appi Framsóknar.
Á kjörtímabilinu hefur Framsókn verðið límið í ríkisstjórninni. Ráðherrar hafa komið mörgum málum í gegn og má þar t.d. nefna samgönguáætlun Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Aldrei í sögunni hefur jafn miklum fjármunum verið varið til samgöngumála á Íslandi enda má sjá afrakstur þeirrar fjárfestingar á vegum landsins. Fleiri verkefni eru samgöngusáttmáli, samkomulag ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu. Loftbrú sem veitir 40 % afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, verkefni sem er eflandi fyrir landsbyggðina. Samvinnuverkefni (PPP) flýtiframkvæmdir í mikilvægum samgönguframkvæmdum þar sem verkefnin fela í sér aukið umferðaröryggi og styttingu leiða og skapa um 8700 störf. Atvinna, atvinna, atvinna!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar og mennta og menningarmálaráðherra hefur aukið jafnfrétti til náms með nýjum Menntasjóði og 18 % hækkun á framfærsluviðmiði. Hún hefur komið á beinum fjárstuðningi við foreldra í námi með 30% afskrift höfuðstóls námslána við námslok sem er gríðarlegt hagsmunamál nemenda. Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar til að jafna tækifæri nemenda í iðnnámi. Fjölgun starfslauna listamanna og 750 listgjörningar, sem án efa hafa létt lund við krefjandi heimsástand, við heimili landsmanna. Fyrsta kvikmyndastefnan, stækkun kvikmyndasjóðs og nýr sjónvarpssjóður.
Grettistaki hefur verið lyft í samþættingu á málefnum barna að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Samþættingin felur m.a. í sér að brugðist sé við í kerfinu ef barn þarf stuðning. Einnig má nefna lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og jafnan rétt barns til samvista við báða foreldra sína, hlutdeildarlán sem slegið hafa í gegn og BataAkademíuna sem hefur það markmið að styrkja fanga sem hafa lokið afplánun. Mikilvægir styrkir til t.d. Kvennaathvarfsins, fjölmenningarseturs og vegna tómstunda barna.
Hér er ekki um tæmandi lista verkefna ráðherra Framsóknar að ræða. Framsókn vill halda áfram á sömu braut. Í Framsókn er frelsi til að hafa skoðanir til hægri og vinstri enda er Framsókn sterkt afl á miðjunni sem leitar leiða til að finna skynsömustu leiðina hverju sinni með hag heildarinnar að leiðarljósi.
Ein leið til áhrifa er að skrá sig í Framsókn eða gefa kost á sér í framboð. Kynntu þér appið og heimasíðuna. Vertu með því Framsókn er fyrir fólk eins og þig.
Fyrir hönd stjórnar Kjördæmissambands Framsóknar í Suðurkjördæmi,
Það er ánægjulegt að sjá að þær framkvæmdir sem settar voru af stað síðasta haust eru yfirstaðnar og breyta verulega ásýnd hússins. Enn ánægjulegra er að ekki verður staðar numið heldur er áframhaldandi vinna nú þegar hafin og vonandi færist meira líf í húsið næsta vor.
Þeir sem eru með einhverskonar starfsemi í húsinu mega búast við einhverskonar raski og jafnvel gætu þeir þurft að yfirgefa húsið á einhverjum tímapunkti en það verður unnið og framkvæmt í samráði við verktaka.
Eins og margoft hefur komið fram verður hluti rýmisins leigður út fyrir skilgreinda starfsemi sem eykur líf í húsinu og heldur uppi heiðri þessa sögufræga hús.
Annars vegar munu verða sýningar á hendi sveitarfélagsins og eða einstaklinga að hluta. Það verður að vanda vel til verka og byggja upp áhugaverðar sýningar sem í senn verða lifandi fjölbreyttar og síbreytilegar.
Mikilvægt er að kalla til sérfræðinga á þessu sviði og einnig að nýta okkur þá tækni sem er i boði til að sýninginn verði í senn áhugaverð og komi sögu okkar sterkt til skila. Einnig er mikilvægt að bæjarbúar fái að koma með hugmyndir og sjónarmið áður en endanleg útfærsla verður kláruð og mun það verða auglýst síðar.
Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningarmálanefndar
Skýrsla bæjarstjóra af bæjarstjórnarfundi 15. apríl 2021.
Menningarhátíð
Föstudaginn 12. mars hélt sveitarfélagið sína árlegu hátíð í tengslum við veitingu menningar- og umhverfisverðlauna og styrkja. Sóttvarnar aðstæður voru heppilegar á þessum tíma og var því hægt að halda viðburðinn í Nýheimum ásamt því að við fengum að hlusta á frábæran tónlistarflutning í tengslum við blúshátíð sem haldin var sömu helgi. Alls voru 27 styrkir veittir og voru það styrkir atvinnu- og menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundanefndar, sem og styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði. Að þessu sinni hlaut Ingvar Þórðarson menningarverðlaun fyrir sitt ævistarf til menningarmála en Ingvar hefur verið einn af hornsteinum leiklistarlífs á Hornafirði um árabil. Þetta var fyrsti formlegi viðburðurinn sem sveitarfélagið stóð fyrir þar sem fólk gat hist frá því síðasta menningarhátíð var haldin fyrir ári síðan en í kjölfar hennar var samfélaginu lokað. Það var því sérstaklega ánægjulegt að geta verið saman í persónu við þetta tilefni.
Samningur um FabLab
Haldinn var rafrænn fundur á vegum Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Mennta- og menningarmálaráðuneytis 17. mars sl. þar sem voru undirritaðir samninga við allar FabLab smiðjur á landinu. Sveitarfélagið hefur frá stofnun FabLab smiðjunnar haft metnað til þess að gera það vel með því að ráða inn hæfan starfsmann sem heldur utan um starfið, heldur námskeið og er í góðum tengslum við aðrar smiðjur. Sveitarfélagið hefur staðið undir öllum rekstrarkostnaði smiðjunnar en það er eina smiðjan á landinu sem er rekin alfarið af sveitarfélagi. Það er því mikil viðbót að fá fjármagn inn í reksturinn frá ríkinu en samningurinn tryggir 8 m.kr. fjármagn til þriggja ára þ.e. 2021-2023. Nú þegar hefur fjármagni þessa árs verið ráðstafað en það var nýtt í endurnýjun á búnaði en verið er að endurnýja tölvur og kaupa nýjan laserprentara. Smiðjan er því orðin mjög vel búin tækjum. Við erum mjög þakklát og stolt að fá þessa viðurkenningu.
Fundarferð í Öræfin
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hélt mars fund stjórnarinnar í Skaftafelli. Nú er unnið að framtíðarskipulagi fyrir Skaftafell og var nauðsynlegt að stjórnin kæmi í Skaftafell til að kynnast svæðinu betur. Fundir stjórnar eru almennt haldnir rafrænt en snertifundir eru haldnir einu sinni á ári á hverju svæði þ.e. Suður-, Vestur-, Norður- og Austursvæði. Ekki náðist að halda fund hér á Suðursvæði á síðasta ári vegna Covid. Samhliða stjórnarfundi kom Svæðisráð inn á fund stjórnar til að fjalla um framtíðarskipulag í Skaftafelli og önnur mál s.s. stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand. Nú er umsagnarfrestur vegna hennar liðinn og Svæðisráð hefur fjallað um þær. Stjórnunar- og verndaráætlunin á þá eftir að fá umfjöllun hjá stjórn þjóðgarðsins og svo mun Svæðisráð fá til sín uppfærða áætlun frá ráðgjöfum eftir leiðréttingar. Má því segja að vinnan sé alveg á lokametrunum og getur farið til samþykktar hjá ráðherra fyrir sumarið.
Íbúafundur í Öræfum
Samhliða fundarferð Vatnajökulsþjóðgarðs var ákveðið að boða til íbúafundar í Öræfum til að ræða skipulagsmál, veglínur, áhættumat vegna berghlaups, göngu- og hjólreiðastíg milli Svínafells og Skaftafells, skólamál í Hofgarði o.fl. Mjög góð mæting var á fundinn og allt innan sóttvarnarreglna. Miklar og góðar umræður sköpuðust á fundinum sem nýtast í áframhaldandi vinnu í stjórnsýslunni. Nú þegar er Umhverfis- og skipulagsnefnd með vegamálin til umfjöllunar og beðið er viðbragða frá Skipulagsstofnun varðandi áhættumat veðurstofunnar vegna berghlaupsins. Það styttist í framkvæmdir við göngu- og hjólastíginn en hönnun er á lokametrum. Það komu ábendingar varðandi nýju íbúabyggðina í Borgartúni en girða á svæðið í sumar ásamt því að hugað verður að gróðursetningu o.fl. Það er mikill hugur í Öræfingum enda töluverð fjölgun íbúa og íbúasamsetningin er að breytast en börnum hefur fjölgað í leikskólanum á undanförnum árum sem mun leiða til fjölgunar nemenda á grunnskólaaldri innan fárra ára.
Öldrunarmál
Við breytingar á rekstrarformi hjúkrunarheimilisins var tekin ákvörðun um að Dagdvöl aldraðra í Ekrunni mundi færast til sveitarfélagsins í stað þess að færast til Vigdísarholts og var það samkomulag beggja aðila. Við höfum unnið að því undanfarnar vikur að koma rekstrinum þar inn í bókhald sveitarfélagsins og inn í skipulag félagsþjónustunnar. Það fer vel af stað enda starfsemin í föstum skorðum.
Vigdísarholt hefur sagt upp leigusamningi við sveitarfélagið vegna leigu Víkurbrautar 26 sem hýsir Dvalarheimilið Mjallhvíti þar sem rekstraraðilar áforma flutning íbúanna yfir á hjúkrunarheimilið. Mikil óánægja er með áformin hjá íbúum og aðstandendum þeirra þar sem íbúar þurfa að flytjast úr einbýli yfir í tvíbýli. Málið hefur verið til umræðu hjá bæjarráði undanfarnar vikur ásamt því að ég hef rætt við íbúa, aðstandendur og forsvarsmenn Vigdísarholts um málið. Nú stefnir í að málin séu að leysast í sátt við íbúa og aðstandendur án þess að til flutnings komi og mun það verða leyst með samstarfi félagsþjónustunnar og Skjólgarðs. Unnið er áfram að því að kortleggja hvernig hægt verður að haga skipulagi á þjónustu til íbúanna þannig að öryggi þeirra verði tryggt.
Sveitarfélagið hefur einnig verið að auka við vikniþjónustu með tilkomu nýs starfsmanns á velferðarsviðinu bæði til eldri íbúa og einnig aðra þjónustuþega velferðarsviðs. Í boði eru tímar í íþróttahúsi, gönguferðir o.fl.
Framkvæmdir
Undirbúningur framkvæmda stendur nú sem hæst, skrifað hefur verið undir samning við verktaka vegna breytingar á Hrollaugsstöðum og munu framkvæmdir hefjast þar fljótlega. Tilboð voru opnuð vegna framkvæmda við jarð- og lagnavinnu við Hafnarbraut en í næstu viku munum við opna tilboð vegna yfirborðsfrágangs. Niðurstaða ætti að liggja fyrir varðandi Hafnarbrautina innan tveggja vikna og þá geta framkvæmdir hafist fljótlega. Útboð vegna breytinga innanhús í Sindrabæ er nú í auglýsingu og útboðsgögn vegna byggingu hjúkrunarheimilis eru í lokayfirferð hjá framkvæmdasýslu ríksins. Hafin er vinna við hönnun á aðstöðu til líkamsræktar við Sundlaug Hafnar en áætlað er að byggingarframkvæmdir þar geti hafist snemma á næsta ári. Hitaveituframkvæmdir standa nú yfir í þéttbýlinu og fyrstu húsin eru nú tengd við hitaveitu í Nesjahverfi og í dreifbýlinu.
Sóttvarnir – Covid
Reglur um sóttvarnir voru hertar verulega rétt fyrir Páska. Sveitarfélagið þurfti á ný að loka íþróttahúsi og sundlaug fyrir almennar æfingar en íþróttafélagið mátti halda úti skipulögðum æfingum án snertingar fyrir meistaraflokka. Við lokuðum fyrir heimsóknir í ráðhúsinu á ný og grunnskólinn fór fyrr í Páskafrí en áætlað var. Að þessu sinni voru engin smit hér í sveitarfélaginu sem betur fer en það er mikilvægt að farið sé varlega í kringum þessa veiru. Ég átti fund með Almannavörnum á Suðurlandi í vikunni þar sem meðal annars var rætt um fyrirkomulag bólusetninga. Fram til þessa hafa bólusetningar farið fram á heilsugæslustöðinni en von er á fleiri bólusetningarskömmtun á næstunni og þarf mögulega að breyta fyrirkomulaginu í samstarfi við sveitarfélagið. Það er í skoðun en það er hagur allra að bólusetningar gangi sem hraðast fyrir sig. Í dag tóku í gildi rýmri sóttvarnarreglur og getum við nú opnað ráðhúsið, sundlaugina og börn geta æft íþróttir. Vonandi munu bólusetningum fjölga hratt þannig að samfélagið komst fyrr í eðlilegri skorður.
Nú hækkar sól hratt á lofti og lofthiti óðum að hækka eftir kuldakast undanfarna viku. Farfuglarnir eru nú óðum að koma til okkar aftur enda sumardagurinn fyrsti í næstu viku. Við vonum að sjálfsögðu að ferðasumarið verði gott og Íslendingar munu verða hér sýnilegir allt sumarið ásamt því að erlendir ferðamenn komi hingað til lands þrátt fyrir þær takmarkanir sem í gildi eru. Í Eystrahorni sem kom út í dag er auglýst eftir sumarstarfsfólki hjá sveitarfélaginu en líkt og í fyrra munum við bjóða námsmönnum á framhalds- og háskólaaldri störf í samstarfi við Vinnumálastofnun. Stjórnendur munu skipuleggja verkefni eftir þörfum en í fyrra voru sumarstarfsmenn almennt ánægðir með þau verkefni sem í boði voru og skiluðu góðri vinnu til sveitarfélagsins.
Nú hyllir í lok skólaársins sem hefur einkennst af sóttvörnum og samkomutakmörkunum. Þá er fer fólk eðlilega að spá í sumarið sem námsmenn hafa í gegnum tíðina getað nýtt til að ná sér í fjölbreytta reynslu á vinnumarkaði og afla sér tekna m.a. fyrir næsta vetur.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust frá stjórnvöldum í dag að endurtekinn verður stuðningur við sumarstörf í sumar auk þess sem boðið verður uppá sumarnám líkt og síðasta sumar.
Í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Félagsmálaráðuneytinu á vef Stjórnarráðsins segir:
Tæpum 2,4 milljörðum kr. verður varið í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.
Að sjálfsögðu grípum við í Sveitarfélaginu Hornafirði þennan bolta og munum ræða í bæjarráði n.k. þriðjudag hvernig við getum tekið þátt í því að skapa störf fyrir námsmenn í sumar.
Í vikunni var haldinn íbúafundur í Öræfum þar sem rædd voru samgöngumál s.s. hugmyndir að breytingu á veglínu þjóðvegarins frá Morsá að Fagurhólsmýri, framtíðar uppbygging íbúabyggðar í tengslum við deiliskipulag í Skaftafelli, fyrirhugaðar framkvæmdir á húsnæði grunnskólans í Hofgarði, málefni ferðaþjónustunnar og atvinnumál ásamt því að kynna frumhönnun á nýjum hjóla- og göngustíg milli Svínafells og Skaftafells. Góð mæting var á fundinn auk þess sem hann var sendur út á Teams, en allt innan þeirra sóttvarnartakmarkanna sem voru í gildi á þriðjudaginn.
Vinna við deiliskipulag í Skaftafelli er vel á veg komið en stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð Suðursvæðis kynntu sér svæðið og unnu að málinu í byrjun vikunnar.
Tíðindi vikunnar eru án efa stórheftar samkomutakmarkanir sem tóku gildi á gær 25. mars. Vonandi bera þessar aðgerðir sem gripið er til góðan árangur þannig að skóla- og frístundastarf geti verið með nokkuð eðilegum hætti eftir páskafrí nemenda og hægt verði að ljúka vorönn án mikillar röskunar.
Dagurinn í dag heilsar með vetrarveðri, býður uppá snjó sem ungviðið mun án efa nýta til að stytta sér stundir í lengdu páskafríi. Nú er það í okkar höndum að hlúa að páskakúlunni eða kannski páskahreiðrinu svo að við komumst sem fyrst út úr þessu ástandi.