Er ekki bara best að taka þátt!

Nú er undirbúningur kosninga 14. maí n.k. kominn á fulla ferð. Öflugur hópur frambjóðenda vinnur nú málefnavinnu þar sem viðhorf þeirra sem eru að koma nýjir inn í sveitarstjórnarmálin og reynsla þeirra sem hafa verið á þeim vettvangi er lögð saman.

Framboð Framsóknar og stuðningsmanna þeirra vill gjarnan bjóða íbúum að taka þátt í vinnunni og heyra þeirra sjónarmið til málefna sveitarfélagsins. 

Á morgun laugardaginn 2. apríl verður opinn málefnafundur framboðsins í kosningaskrifstofunni okkar frá kl.11-13 sem að þessu sinni verður í Viðreisn, kaffistofunni í skemmunni við Víkurbaut. Ég hvet íbúa til að mæta og taka þátt í að móta stefnu Framsóknar og stuðningsmanna til næstu fjögurra ára.

Staða fatlaðs fólks í sveitarfélögunum

Í gær fimmtudaginn 31. mars buðu Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp til opins fundar með framboðum til sveitarstjórnar í Nýheimum á Höfn. Fulltrúar ÖBÍ og Þroskahjálpar fluttu erindi fyrir okkur og köllu eftir áherslum framboðanna í málefnum fatlaðs fólks.

Margar góðar ábendingar komu fram  um það sem vel er gert og hvað betur má fara bæði í þjónustu við fatlaða og varðandi upplýsingagjöf. Fundurinn var mjög upplýsandi og áhugaverður og mun nýtast vel í málefnavinnunni framundan í velferðarmálum.

Það er mjög gott bæði fyrir okkur frambjóðendur og félagasamtök sem þessi að koma saman og fara yfir stöðu mála, áskoranir og tækifæri.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og frambjóðandi í 1. sæti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði

Öflug Framsókn í Sveitarfélaginu Hornafirði

Framboðslisti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí n.k. var samþykktur á félagsfundi Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga þann 24. mars sl.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður bæjarráðs leiðir listan, í öðru sæti er Björgvin Óskar Sigurjónsson, byggingartæknifræðingur og bæjarfulltrúi, í þriðja sæti er Gunnar Ásgeirsson, vinnslustjóri hjá Skinney Þinganesi hf. og í fjórða sæti er Gunnhildur Imsland, heilbrigðisgagnafræðingur hjá HSU á Höfn.

Listann skipar kraftmikill hópur reynslumikils fólks og nýliða, með fjölbreyttan bakgrunn sem brennur fyrir öflugu og góðu samfélagi í Sveitarfélaginu Hornafirði. Kosningaskrifstofa framboðsins verður í Viðreisn, kaffistofunni í skemmum við Víkurbraut 1.

Framundan eru fundir með íbúum um málefni sveitarfélagsins þar sem áhugasömun gefst tækifæri til að taka þátt í sefnu framboðsins og þau verkefni sem framundan eru.

Listinn í heild sinni:

1. Ásgerður Kristín Gylfadóttir, 53 ára. Hjúkrunarfræðingur og formaður bæjarráðs.

2. Björgvin Óskar Sigurjónsson, 40 ára. Byggingartæknifræðingur og bæjarfulltrúi.

3. Gunnar Ásgeirsson, 31 árs. Vinnslustjóri hjá Skinney-Þinganesi hf.

4. Gunnhildur Imsland, 53 ára Heilbrigðisgagnafræðingur hjá HSU á Höfn.

5. Íris Heiður Jóhannsdóttir, 46 ára. Framkvæmdastjóri IceGuide ehf.

6. Finnur Smári Torfason, 35 ára. Tölvunarfræðingur hjá Kivra.

7. Þórdís Þórsdóttir, 39 ára. Sérkennari hjá Grunnskóla Hornafjarðar.

8. Bjarni Ólafur Stefánsson, 36 ára. Vinnslustjóri hjá Skinney-Þinganesi hf.

9. Guðrún Sigfinnsdóttir, 50 ára. Móttökuritari hjá HSU á Höfn.

10. Arna Ósk Harðardóttir, 53 ára. Skrifstofumaður hjá Rafhorn ehf.

11. Lars Jóhann Andrésson Imsland, 47 ára. Framkvæmdastjóri East Coast Travel ehf.

12. Aðalheiður Fanney Björnsdóttir, 50 ára. Leikskólakennari á Sjónarhóli á Höfn.

13. Nejra Mesetovic, 25 ára. Ferðamálafræðingur og verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands.

14. Ásgrímur Ingólfsson, 55 ára. Skipstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF-250 og forseti bæjarstjórnar.

Stjórn Framsóknarfélags Austur- Skaftfelinga.

Hringrásarhagkerfi, skref fyrir skref

Umhverfis- og loftslagsmál eru ein af megin stoðum stefnumótunar sveitarfélagsins –„Hornafjörður, náttúrulega!“ Þar er áherslan á að sveitarfélagið sé leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum. https://www.hornafjordur.is/media/stefnur/20210622-Hornafjordur-natturulega.pdf

Unnið hefur verið að fjölmörgum skrefum að bættri úrgangsstjórnun í átt að hringrásarhagkerfinu á síðustu árum með góðum árangri á fjölmörgum sviðum.  Sorpflokkun við heimili hefur fest sig í sessi og hafa íbúar staðið sig vel. 

Sameiginlegt verkefni

Um tuttugu fyrirtæki taka þátt í Loftslagsyfirlýsingu Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Festu – miðstöðvar um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, um stuðning við loftslagsaðgerðir fyrirtækja og stofnanna í sveitarfélaginu sem undirrituð var þann 26. febrúar 2021.

Auk þessa eru ýmis verkefni í gangi í sveitarfélaginu á vegum íbúa og félagasamtaka s.s. Hirðingjarnir, Pokastöðin Hornafjörður, Gróska – félagslandbúnaður og Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu sem miða öll að eflingu hringrásarhagkerfisins með endurnýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Öll þessi verkefni styðja við þá stefnu að Sveitarfélagið Hornafjörður sé framfaradrifið sjálfbært fyrirmyndar samfélag þar sem fólk býr í sátt og samlyndi við náttúruna. 

Greining úrgangsstrauma

Í júlí 2021 fékk sveitarfélagið styrk frá Umhverfis- og auðlyndaráðuneytinu í verkefnið Nytjasmiðja Hornafjarðar, hluti af því er að greina úrgangsstrauma í sveitarfélaginu. Þar með talið þróun úrgangsmála, m.t.t.  magns endurvinnslu og urðunar sorps. Greiningarvinnan er langt komin og benda fyrstu niðurstöður til þess að bæta þurfi ferla við skráningu og móttöku sorps frá fyrirtækjum og stofnunum. 

Ný löggjöf tekur gildi

Þann 1. janúar 2023 taka gildi ný lög til eflingar hringrásarhagkerfisins sem miða að því að gera enn betur í endurnotkun, endurvinnslu og að draga úr urðun sorps. Greiningin sem unnið er að og þær úrbætur sem koma í kjölfarið munu auðvelda sveitarfélaginu að aðlagast þeim breytingum sem innleiðing langanna kallar á. Áherslan er á að „þeir borga sem menga“ því felst aukinn hvati í því að draga úr neyslu, endurvinna og endurnýta sem mest.

Samband íslenskra sveitarfélaga styður þétt við sveitarfélögin í landinu við undirbúning innleiðingar laganna og geta áhugasamir kynnt sér málið betur á síðu Sambandsins um verkefnið https://www.samband.is/verkefnin/umhverfis-og-urgangsmal/innleiding-hringrasarhagkerfis/

Verkefnið framundan er okkar allra, vinnum saman af framsækni með virðingu fyrir umhverfinu og samfélaginu sem við búum í.

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs.

Jöklasýning og önnur menning

Kristján Guðnason

Frá því Gamlabúð var flutt aftur niður á hafnarsvæðið árið 2013 hefur Vatnajökulsþjóðgarður leigt húsnæðið af sveitarfélaginu, rekið þar upplýsingarmiðstöð, sýningu og skrifstofuaðstöðu starfsmanna. Starfsmönnum þjóðgarðsins á Höfn hefur fjölgað undanfarið og er von til þess að fjölgi enn frekar á næstu árum. Nú þegar er aðstaðan orðin of lítil og þarf því  að gera ráðstafanir til þess að taka á móti þeim störfum. 

Sveitarfélagið og Vatnajökulsþjóðgarður hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja nýtt eða finna annað hentugt húsnæði sem  einnig gæti hýst jöklasýningu sem þjóðgarðurinn kæmi til með að sjá um í samstarfi við sveitarfélagið. Því auðvitað á jöklasýning hvergi annarstaðar heima en hér á okkar svæði og þar þarf að vanda til verka. 

Jöklasýningin þarf í senn að vera fræðandi og eftirtektaverð svo hún dragi að ferðafólk. Nú þegar hefur verið fundað um málið og er einhugur um að vinda sér í þetta verkefni. Við það að þjóðgarðurinn fari úr Gömlubúð opnast möguleikar á að sveitarfélagið setji upp veglega sýningu í húsinu t.d. um sögu Hafnar. Tíminn líður hratt svo skynsamlegt væri að fara undirbúa þá sýningu. 

Ég tel að gefa eigi  íbúum kost á að koma með sínar hugmyndir og væri ekki úr vegi að hafa íbúafund þar sem málið væri unnið áfram. 

Sýning í Gömlubúð myndi létta á Álaleirunni sem nú hýsir safnakostinn og þreytist ég seint á því að tala um að í Áleirunni eigi að vera opnar geymslur þar sem allir eiga að hafa aðgang þegar blessuð veiran gengur yfir. 

Svavarssafn

S.l. laugardag var stórkostleg sýning opnuð í Svavarssafni á verki Hlyns Pálmasonar; Harmljóð um hest.  Það er okkur hornfirðingum afar mikilsvert að eiga slíkan listamann og vonandi kemur hann til með að búa hér um ókomna tíð, og að svæðið fái að njóta hans einstöku hæfileika.

Sindrabær Menningarhús

Það þarf að klára endurbætur á Sindrabæ, og það þarf að gera það vel. Það er mín skoðun að það sé vel þess virði að taka samtalið um hvort Sindrabær geti ekki orðið Menningarhúsið okkar sem gæti hýst auk tónlistar bíósýningar, leiksýningar og fleira. Með viljann að vopni hef ég trú á að svo gæti orðið.

Örnefnaskilti

Nú á vormánuðum eigum við von á því að ný örnefna skilti verði sett niður við göngustígin á Höfn. Það er mikilvægt að örnefni glatist ekki og er þetta ein leiðin til að vekja athygli á þeim. Ungir og gamlir fái tækifæri til að glugga í skiltin sér til gagns og gamans.

Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningamálanefndar.

Ný líkamsræktaraðstaða og framkvæmdir við Hofgarð

Líkamsrækt

Hönnunarvinna á nýrri líkamsræktarstöð hér á Höfn er langt á veg komin og var kynnt  hagsmunaaðilum á dögunum og hafði áður fengið kynningu í bæjarráði. Ef allt gengur að óskum gætu framkvæmdir við bygginguna hafist á vordögum og er góð von til þess. Eins og flestum er kunnugt verður líkamsræktarstöðin byggð áföst sundlauginni og verður á tveimur hæðum. Núverandi búningsklefar sundlaugarinnar koma til með að nýtast fyrir nýja líkamsræktarstöð en þó verða nýir útiklefar hluti byggingarinnar sem nýtast fyrir bæði sundlaug og líkamsrækt. Í byggingunni er gert ráð fyrir rýmum fyrir tengda starfsemi sem hægt verður að leigja út en það eru rými fyrir t.d. nuddara, sjúkraþjálfara, snyrtifræðinga o.f.frv. Auk þessa gera teikningar ráð fyrir bættri aðstöðu fyrir hreyfihamlaða og kynsegin fólk. Með tilkomu nýrrar líkamsræktarstöðvar kemur sveitarfélagið m.a. til með að losa um gjöld vegna leigu á núverandi húsnæði og verður byggingin þannig um leið virðisaukandi fyrir sveitarfélagið.

Í núverandi húsnæði líkamsræktarstöðvar við Álaugarveg 7 nýtast u.þ.b. 200 m² fyrir líkamsræktartæki og hópatíma. Samskonar rými í nýrri byggingu verður rúmlega 400 m² auk þess sem að gangar og stigahol geta nýst fyrir ýmsa líkamsrækt. Einnig koma stærri rými í nýrri líkamsræktarstöð til með að nýtast mun betur þar sem t.d. tækjasalurinn í núverandi líkamsræktarstöð þykir nýtast illa vegna lögunar hans. Samtals verður nýbyggingin um 670 m². Þær skoðanir hafa komið fram að byggingin sé ekki nægjanlega rúmgóð og sjálfsagt eru mismunandi skoðanir á því. Það verður ekki svo að allir þeir sem stunda líkamsrækt geti stundað hana á sama tíma í húsinu og það þarf að skipuleggja hópatíma og aðra skipulagða starfsemi í byggingunni vel til að nýta hana sem best. En staðreyndin er hins vegar sú að verið er að rúmlega tvöfalda það rými sem nýtist fyrir líkamsræktartæki og hópatíma ýmis konar. Og vert er einnig að taka það fram hér að verið er að vinna nýtt skipulag fyrir miðbæjarsvæðið sem mun gera ráð fyrir mögulegri stækkun á líkamsræktarstöðinni í framtíðinni. Nýtt húsnæði líkamsræktarstöðvar ætti því að vera mikil bylting fyrir notendur hvað húsakostinn varðar og vonandi heldur starfsemin áfram að blómstra í nýjum húsakynnum, hvernig svo sem henni verður háttað á nýjum stað.

Vert að geta þess að ný líkamsræktarstöð kemur til með að vera fyrsta umhverfisvottaða byggingin á Hornafirði, með svokallaða BREEM vottun, sem kemur m.a. fram í efnisvali, lýsingu, hljóðeinangrun og loftræsingu.

Að þessu öllu sögðu held ég að við getum horft með tilhlökkun fram vegin hvað varðar húsakost líkamsræktar í sveitarfélaginu og það fer að fækka afsökunum sem undirritaður hefur til þess að mæta ekki ekki ræktina!

Hofgarður

Framkvæmdir í Hofgarði voru boðnar út á dögunum. Skemmst er frá því að segja að bæjarráð samþykkti eina tilboðið sem barst í verkið sem hljóðaði upp á 58.515.748 kr. frá Þingvað ehf. og var tilboðið u.þ.b. 7% yfir kostnaðaráætlun. Og það er því mikil ánægja að segja frá því að framkvæmdir hefjast á næstu dögum og á þeim að vera lokið 8. ágúst n.k. Þessar framkvæmdir koma til með að stækka og bæta húsnæði og aðstöðu leikskólans Lambhaga til muna bæði fyrir börn og starfmenn hans. Auk þess verður, eftir framkvæmdirnar, innangengt á milli leikskólans og grunnskólans sem eru samreknir. Við það verður meiri og betri samnýting á starfsfólki skólanna. Á meðan á framkvæmdum stendur færist skólastarf í leik- og grunnskólanum í Hofgarði yfir í Efribæ á Fagurhólsmýri. Einnig koma framkvæmdirnar til með að bæta salernisaðstöðu grunnskólahluta hússins til muna en núverandi salerni eru upprunaleg eða frá árinu 1986 og því komin tími á endurbætur á þeim.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og varaformaður fræðslu- og tómstundanefndar.

Stækkun Sjónarhóls

Það eru tæp 4 ár síðan nýtt og endurbætt húsnæði Sjónarhóls var tekið í notkun. Í fyrra fór að bera á plássleysi og biðlistar að myndast. Óvænt staða verð ég að segja svo stuttu eftir miklar og þarfar breytingar, og ljóst að húsnæðið hefði þurft að vera stærra frá upphafi. En hvað sem því líður þá er staðan þessi og við urðum að hafa hraðar hendur og bregðast við og var opnun leikskóladeildar fyrir yngstu börnin í Selinu skammtímalausn sem talin var ákjósanlegust. Í mars verða hugsanlega 11 börn í Selinu.

Heildarfjöldi barna á Sjónarhóli í mars verður því um 128, og að mati starfsfólks rúmar skólinn mest 108 börn, ákjósanleg tala er á bilinu 102-108 börn. Áfram þurfum við að vinna hratt og ákveðið í að vinna að lausn til lengri tíma, eða næstu 10 – 15 ára. Í þeirri vinnu þarf fyrst og fremst að vanda til verka með samtali allra hlutaðeigandi. Það þarf líka að horfa til þess að samkvæmt húsnæðisáætlun má gera ráð fyrir um 150 börnum á leikskólaaldri eftir 10 ár. Það er að sjálfsögðu mjög jákvæð þróun ef sú spá gengur eftir. 

Biðlistavandinn – Hugsað í lausnum

Biðlistavandinn er enn til staðar og standa vonir til þess að við fáum áfram afnot af Selinu næsta skólaár, en þá fer stærri árgangur út en kemur inn. En það er ljóst að haustið 2023 þarf að vera búið að koma fyrir öðru húsnæði sem hýsir tvær deildir. Miðað við þær upplýsingar sem búið er að afla er útlit fyrir að fermetrafjöldinn þurfi að vera á bilinu 250 – 300 til að hýsa um 40 börn. Að koma fyrir 250 – 300 fm húsnæði á lóðina verður ekki einfalt mál en með góðri samvinnu þeirra sem málið varðar og fagaðila erum við staðráðin í að finna hentuga lausn.

Það þarf t.a.m. að taka tillit til praktískra atriða sem varða innra starf leikskólans, tengingu við núverandi húsnæði sem mun nýtast vel og taka minnsta plássið af leiksvæði nemendanna og jafnframt valda sem minnstri röskun á framkvæmdartíma. Hugmyndir frá arkitektum hafa verið skoðaðar og er verið að útfæra þrjár þeirra betur að ósk nefndarmanna í fræðslu- og tómstundarnefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd og fulltrúa Sjónarhóls. Við viljum vanda til verka og sjá til þess að húsnæðið geti hýst 150 nemendur svo vel sé. Ef spá um aukinn barnafjölda gengur eftir þá  er kominn tími til að útbúa skipulag til framtíðar þar sem gert verður ráð fyrir nýrri leikskólabyggingu á nýjum stað.

Ég vil nýta tækifærið og þakka stjórnendum og öllu starfsfólki Sjónarhóls fyrir þolinmæði, dugnað og sveigjanleika sem þau hafa sýnt í stöðunni. Staðan er ekki ákjósanleg en að hafa jákvætt og lausnamiðað fólk með sér í þessari vinnu er gríðarlega mikilvægt.

Að auki, frístundastyrkur fyrir 5 ára

Á fundi fræðslu- og tómstundanefndar í desember sl. var farið yfir frístundastyrki í 26 sveitarfélögum fyrir árið 2021. Sú yfirferð sýndi að styrkur Sveitarfélagsins Hornafjarðar að upphæð kr. 50.000 er vel samanburðarhæfur og aðeins fimm Sveitarfélög af þessum 26 sem veita hærri styrk. Ákveðið var að bæta um betur og veita foreldrum 5 ára barna (miðað við árið) styrk að upphæð kr. 10.000. Við hvetjum foreldra 5-18 ára barna sem eru í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þar með talið tónlistarnámi við Tónskólann að nýta þessa búbót sem styrkurinn er.

Íris Heiður Jóhannsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður fræðslu- og tómstundanefndar.

Húsnæðismál

Sveitarfélagið Hornafjörður er frábær staður að búa á. Hér höfum við aðgang að námi á öllum skólastigum, heilbrigðis- og félagsþjónusta er góð og aðgengileg. Aðstaða til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar, verslun og þjónusta til staðar og öflugt menningarlíf a.m.k. þegar heimsfaraldur er ekki að herja á. Atvinna hefur verið nokkuð trygg og þrátt fyrir atvinnuleysi í dag, sem án efa tengist covid-19 heimsfaraldri er talað um skort á starfsfólki í ferðaþjónustuna sem er að fara á fulla ferð eftir erfiða tíma vegna covid.

Mikil uppbygging hefur verið í gangi síðustu ár í sveitarfélaginu. Það á bæði við í þéttbýlinu á Höfn og í dreifbýlinu, lóðaskortur hefur verið að myndast og er nú orðinn hamlandi þáttur. 

Í dag er íbúafjöldinn í sveitarfélaginu 2.444 þar af 1.788 á Höfn, Nes 242, Lón 25, Mýrar 61, Suðursveit 103 og Öræfi 225.

Húsnæðisáætlun

Bæjarstjórn Hornafjarðar afgreiddi í gær húsnæðisáætlun sveitarfélagsins en þar er dregin fram mynd húsnæðismála, innviðir sveitarfélagsins greindir og horft til framtíðar. En megin markmið með gerð húsnæðisáætlanna er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu. Húsnæðisáætlunina má nálgast undir fundargerð bæjarstjórnar https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=XAblCsRrIkS6mOk7zqdmUA1&text= en hún verður einnig aðgengileg með öðrum húsnæðisáætlunum á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hefur eftirlit með með uppfærlsu þeirra á landsvísu.

Höfn

Unnið hefur verið að þéttingu byggðar á Höfn en skipulagið „þétting byggðar – innbær „ mun fara í íbúakosningu vonandi í mars n.k. Einnig er í vinnslu deildiskipulag „Leirusvæði 2“ þar sem byggt verður á uppfyllingunni austan við Álaleiru og Hagaleiru. 

Unnið er að undirbúningi fleiri íbúðasvæða m.a. á grunni íbúafundar um málið sem haldinn var sl. haust. Margar góðar hugmyndir komu fram bæði um ný svæði og frekari þéttingu byggðar. 

Hrolllaugsstaðir

Nú styttist í að fimm íbúðir verði klárar í gamla skólahúsnæðinu á Hrollaugsstöðum en þær fara allar í útleigu. Á bæjarstjórnarfundi í gær 10.febrúar var bæði aðal- og deiliskipulag við Hrollaugsstaði afgreitt til Skipulagsstofnunar en þar er fyrirhuguð frekari íbúabyggð.

Öræfi

Mikil uppbygging er við Borgartún, ofan við Hofgarð og styttist í að það svæði verði fullbyggt miða við núverandi skipulag. En fólksfjölgun hefur verið mikil í Öræfum síðustu ár, enda má segja að Öræfin séu vagga ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu og stutt í einstakar náttúruperlur.

Það er ljóst að mikið er framundan í skipulagsmálum tengdum íbúabyggð en með flutningi Skipulagsstofunar til hins nýja innviðaráðuneytis sem fer nú bæði með húsnæðis- og skipulagsmál stendur til að huga að einföldun og skilvirkari afgreiðslu skipulagsmála sem mun vonandi koma sveitarfélögum vel sem eru í sambærilegri stöðu og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.

Vegur til framtíðar

Bættar samgöngur eru baráttumál hverra samfélaga, það má með sanni segja að góðar samgöngur séu lífæð landsbyggðarinnar. Traust vegakerfi og góðar samgöngur eru forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað í þéttbýli sem dreifbýli. Gott vegakerfi leiðir einnig af sér tímasparnað og eitt það mikilvægasta, minni slys. En álag á vegum landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna. Allir sem hafa keyrt um suðurlandi austur á Höfn hafa orðið varir við aukna umferð og krafa hefur verið uppi um að bæta þurfi vegakerfið.

Því er gleðilegt að segja frá því að fljótavegur austur á Höfn í Hornafirði verður fljótlega að veruleika. Hér er um að ræða langþráða vegaframkvæmd sem mun bæta umferðaröryggi og stytta ferðatíma sem um munar. Fljótavegur er svo sannarlega á áætlun og komin í útboðsferli. Gert er ráð fyrir að nú í upphafi febrúarmánaðar komi fram lokatilboð í verkið og skrifað verði undir samninga í sama mánuði. 

Ný brú yfir Hornafjarðarfljót mun stytta hringveginn um 12 kílómetra þvert yfir Hornafjörð. Um er að ræða fyrsta verkefnið af sex sem samþykkt voru í lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Miðað er við að framkvæmdir hefjist á næsta ári og þær taki þrjú til þrjú og hálft ár. 

Það er ánægjulegt að sjá góðar hugmyndir verða að veruleika, sérstaklega hugmyndir sem þessar sem koma til með að bæta samfélagið. 3 ár eru stuttur tími, framtíðin er handan við hornið. 

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, 7. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki.

Kosningavor

Nú líður að lokum þessa kjörtímabils með kosningum þann 14. maí n.k. og er undirbúningur hafinn eða að hefjast hjá flokkum og framboðum um allt land. 

Það er að mörgu að hyggja á þessum tímapunkti en fyrst og fremst að íbúar íhugi og taki afstöðu til þess að taka þátt og bjóða sig fram til starfa.

Það er kostur fyrir hvert samfélag að hafa úr fjölbreyttum hópi framboða að velja en oft heyrir maður að kjósandinn vilji frekar velja einstaklinga en framboð/lista. Eins og staðan er í dag er ekki persónukjör nema þar sem engir listar eru bornir fram en þar eru allir íbúar á kjörskrá nema í sérstökum tilfellum.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Í stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi 2021 og aðgerðaráætlun til ársins 2023 (https://www.stjornarradid.is/verkefni/sveitarstjornir-og-byggdamal/sveitarstjornarmal/stefna-i-malefnum-sveitarfelaga-2019-2033/ ) eru settar fram 11 aðgerðir með það að markmiði að styrkja sveitarstjórnarstigið. Aðgerð átta snýr að starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og hefur starfshópur hafið störf þar sem skoðað er m.a. álag/kjör/aðstæður kjörinna fulltrúa, hlutverkagreining, samskipti í sveitarstjórnum og utanaðkomansi áreiti. Markmið hópsins er að kynna tillögur sínar núna í haust.

Laun kjörinna fulltrúa

Laun kjörinna fulltrúa fyrir sín störf í þágu samfélagsins eru mjög mismunandi yfir landið og eftir stærð sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kannað kjörin með reglubundnum hætti og getfið út leiðbeiningar þar sem sveitarstjórnir ákveða ennþá sín kjör sjálfar. Reynist það sveitarstjórnum því oft erfitt að gera breytingar þar sem launahækkanir eigin launa eru ekki góðar eða líklegar til vinsælda. Hér í okkar sveitarfélagi hefur sá háttur verið á að laun hafa verið rædd við gerð fjárhagsáætlunar í lok kjörtímabils. Breytingar ef einhverjar hafa verið látnar taka gildi við upphaf nýs kjörtímabils þannig að bæjarfulltúar eru ekki að ákveða eigin laun heldur nýrrar bæjarstjórnar.

Vinnutími

Þau tólf ár sem undirrituð hefur setið í bæjarstjón hafa verið tekin skref í að færa fundi bæjarráðs, sem er vikulega á dagvinnutíma í stað þess að vera kl.16 á daginn. Mánaðarlegir bæjarstjórnar- og nefndafundir eru eftir dagvinnutíma en nefndum er frjálst að ákveða annan tíma dags henti það nefndarfólki. Fundartíminn þarf að vera skipulagður þannig að allir geti átt kost á að mæta og sinna sínu starfi sem kjörinn fulltrúi. 

Hins vegar gleymist oft í umræðunni að starf kjörins fulltrúa jafnt í bæjarstjórn sem í nefndum er ekki aðeins bunið við fundarsetu heldur þarf að undirbúa sig fyrir fundi, fylgja eftir málum og oft á tíðum eru ýmsir fundir/ráðstefnur/málþing á milli fastra funda sem þarf að undirbúa sig fyrir og mæta á.

Álag og áreiti

Síðustu ár hefur umræðan um álag og áreiti á kjörna fulltrúa verið meira í umræðunni. Flest ef ekki öll þekkjum við dæmi úr eigin lífi eða úr fjölmiðlaumfjöllun þar sem þessi þáttur er dreginn fram og áhrif hans á líf og sjórnmálaþátttöku kjörinna fulltrúa og á fjölskyldur þeirra. Það á jafnt við hér í Sveitarfélaginu Hornafirði og á öðrum stöðum í heiminum því miður. Þetta er alþjóðlegt viðfangsefni sem fælir fólk frá þátttöku og á við bæði í litlum sveitarfélögum og stórborgum. Þessi þáttur er einn af þeim sem áhersla er á í umfjöllun um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hér á landi. Hvernig við upprætum áreiti og jafnvel ofbeldi er samfélagsverkefni þar sem hver og einn þarf að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. 

Þakklæti

Nú er undirrituð að ljúka sínu þriðja kjörtímabili. Á þessum tíma ég hef fengið tækifæri til að sinna fjölbreyttum verkefnum með stórum hópi fólks í sveitarfélaginu, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. Ég er þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið og það fjölmarga fólk sem hefur staðið við bakið á mér og stutt mig í mínum verkefnum. 

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar hafa á þessum tólf árum orðið stór þáttur í því að við kjörninr fulltrúar komum okkar sjónarmiðum á framfæri og orðið vettvangur íbúa til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þó er það nú þannig að þó við séum öll (flest) þarna inni þá heyrum við ekki alltaf í hvort öðru. Stundum á sér stað samtal en samfélagsmiðlar eru ekki formlegur vettvangur þess og sem betur fer tekur fólk enn upp símann, sendir tölvupóst eða hittist til að ræða málin, bæði gagnrýna og hrósa.

Framhaldið

Undanfarið hafa fulltrúar í bæjar-, borgar- og sveitarstjórna hver af öðrum verið að tilkynna hvort þau hyggist gefa kost á sér til áframhaldandi vinnu og fjölmargir liggja enn undir feldi að vega og meta hvað skal gera. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég gef kost á mér til áframhaldandi vinnu á þessum vettvangi, er undir feldi ennþá.

En ég hvet alla til að íhuga það að gefa kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Við þurfum á fjölbreyttum hópi að halda, af öllum kynjum, aldri og með ólíkan bakgrunn. En það hefst ekki nema að fólk standi upp frá tölvunni (áður elhúsborðinu) og gefi kost á sér. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og oddviti framboðs Framsóknar og stuðningsmanna þeirra 2018-2022.

Bæði ljúft og skylt

Ásgrímur Ingólfsson

Gleðilegt ár og þakka ykkur fyrir gamla árið sem var keimlíkt árinu á undan hvað varðar veiru skrattann. Það komu alltaf aðrar brekkur loksins þegar maður hélt að farið væri að sjá fyrir endann á þeirri sem maður var að klífa. En svona er lífið, hæðir og lægðir og svo ég verði nú enn dýpri, þá birta öll él um síðir.

En ekki átti þessi pistil minn að fjalla um þær vangaveltur hvort og hvenær við losnuðum við covid. Nei, ég ætla að fjalla um nokkur atriði sem ég sá á ferð minni um fésbókina. Mér verður það stundum á þegar stímin eru löng að þvælast þar um og lesa alla þá uppbyggilegu umræðu sem þar þrífst. Sem er oft á tíðum gangrýnislaus og án þess að fólk geri minnstu tilraun til að kynna sér málin þó svo að ein leit á Google myndi upplýsa viðkomandi um staðreyndir málsins.

Sveitasjóður

Tekjur og gjöld: Eins og allir vita þá er mikilvægt að hafa þessa tvo liði í lagi þegar menn reka heimili, fyrirtæki eða sveitarsjóð. Ef misræmi verður mikið þá er ekki annað að gera en að taka á vandanum. Auðvitað þurfa ekki öll ár að vera eins og auðvitað er hlutverk heimila, fyrirtækja og sveitasjóðs mismunandi. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið rekið með miklum ágætum undafarin ár. Það hefur skilað ríflegum hagnaði til fjárfestinga og jafnhliða haldið uppi háu þjónustustigi við íbúan.

Auðvitað geta menn svo deilt um hvort það hefði átt að setja meira hér eða þar. Þegar launakostnaður sveitafélaga í landinu hefur aukist um 16% og við Hornfirðingar höfum ekki farið varhlut af því. Ásamt því að tekjur hafa ekki aukist að verðgildi og ekki eins og menn höfðu væntingar um fyrir nokkrum misserum síðan er ekki annað að gera en að bretta upp ermar, reyna að auka tekjur, draga úr framkvæmdum eða skerða þjónustu. Bæjarstjórn hefur ekki viljað skerða þjónustu og kemur tvennt til. Annars vegar hefði það þýtt einhverjar uppsagnir og þá aukið atvinnuleysi á svæðinu og svo hins vegar þá var það samdóma álit að við yrðum að standa við bakið á okkar stofnunum í því álagi sem fylgir covid.

Það varð því úr að fresta framkvæmdum svo sem á Sindrabæ, fara yfir tekjuhliðina og leitast við að láta þá borga sem nota þjónustu sveitarfélagsins, leiðrétta þætti sem hafa verið gerðar athugasemdir við en vera þó hófleg í gjaldtöku og passa eftir mætti að vera samanburðarhæf við önnur sveitafélög. En yfir þetta er ágætlega farið í svari sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/gjaldskrarbreytingar-hja-sveitarfelaginu-hornafirdi við forsíðufrétt sem birtist á síðu verkalýðfélagsins Afls.

Án þess að vera einhver „bezzervizzer“ þá sjá allir sem vilja sjá að sveitarfélagið varð að bregðast við þeim aukna launakostnaði sem það stendur frami fyrir og hefði verið mjög óábyrgt að sitja með hendur í skauti, láta bæjarstjórnarkosningar líða og láta næstu bæjarstjórn sitja upp með Svarta Pétur. Sveitasjóður verður að skila einhverjum afgangi til þess að það þurfi ekki að taka lán fyrir öllum framkvæmdum, hvað þá rekstri. Það er ekki boðlegt og bara ávísun á vandræði í framtíðinni og auknar álögur á komandi kynslóðir.

Vinsældir 

 Að vera í bæjarstjórn er ekki vinsælda kosning, það er þjónusta sem bæjarstjórnarfólk tekur að sér fyrir samfélagið og get ég fullyrt að allir eru í þessu af heilindum, gera þetta eftir bestu samvisku og vilja láta gott af sér leiða. Sjálfsagt er fólk þarna úti sem er betur til þess fallið en þeir sem standa í þessu streði þessi misserin og sjálfsagt er hægt að gera betur og sjálfsagt er líka hægt að gera verr en hvað um það, allir reyna að gera sitt besta.

Aðeins um söfn, íþróttamannvirki og aðrar framkvæmdir

Ég hef aðeins séð vangaveltu um hitt og þetta á þeim merka miðli sem nefndur var hér fyrr í greininni. Ég ætla ekki að fara með sama vælið og er hér fyrir ofan en þetta er allt spurning um forgangsröðum, þörf, fjármagn og skynsemi. Sveitafélagið Hornafjörður hefur lágt skuldahlutfall og gæti gert þetta allt og meira til ef menn eru tilbúnir í auknar lántökur. Þó með þeim fyrirvara að það fengjust iðnaðarmenn til að framkvæma verkefnin. Mér sýnist okkar fólk hafa nóg fyrir stafni svo kannski er rétt að dreifa verkefnunum.

Að lokum 

Það eru sveitarstjórnarkosningar í vor og ég er ekki í vafa um að þau framboð sem bjóða fram verða með gott fólk á listum og hvet ég þá Hornfirðinga sem áhuga hafa á framgangi okkar sveitarfélags að setja sig í samband við þær fylkingar sem ætla að bjóða fram. Bjóða sig á lista eða í nefndir eftir kosningar. Svo veit ég að allir listar eru boðnir og búnir að taka við hugmyndum inn í málefnavinnuna, við getum gert gott betra.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar.