Íþróttamannvirki á Hornafirði sagan endalausa!

Gunnhildur Imsland

Nú standa yfir kynningar á hugmyndum að uppbyggingu íþróttasvæðis hjá Sveitafélaginu Hornafirði svo kallað Miðsvæði.

Á fyrri kynningarfundinum af tveimur fyrir kjörnum fulltrúum og hagsmunaaðilum fór Sigurjón bæjastjóri yfir þær hugmyndir sem komið hafa fram í gegnum árin og búið er að taka saman af starfsmönnum og arkitektum á myndrænan hátt. Hugmyndirnar eru nokkrar og þannig gerðar að flestir sjái svæðið myndrænt sem auðveldar allar ábendingar við heildarskipulag. Teikningarnar hafa verið unnar úr eldri þarfagreiningu og skýrslum sem fyrir lágu hjá sveitafélaginu. https://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/uppbyging-ithrottamannvirkja/

Áfangaskipta þarf svæðinu jafnhliða gerð heilstæðrar stefnu í málaflokknum áður en hafist er handa. Hvar er þörfin mest og á hverju á að byrja. Það verður þó aldrei þannig að allir verða sáttir. Margar ábendingar sem taka þarf tillit til hægja á verkinu. 

Nýjar þarfir

Á vinnustiginu getur landslagið breyst eins og það virðist vera að gera í dag og á ég þar við endurnýjun á gervigras og hlaupabraut. Minnist ég þess ekki að hafa heyrt talað um að svona brýnt væri að fara í þessa framkvæmd nema rétt í aðdraganda síðustu kosninga. 

Ég er samfærð um að ef hingað myndi flytja áhugamaður um handbolta og hér yrði rifin upp handboltadeild yrði það alltaf á kostnað annarra deilda því iðkendurnir eru jú alltaf svipaður fjöldi í Sveitafélaginu þó einhverjir kæmu jafnvel inn sem ekkert eru að iðka í dag eins gæti verið að aðrir misstu móðinn. Allt fer þetta eftir mannauðnum á staðnum, áhuga og elju. Yrði svona breyting á samfélaginu gæti það einnig haft áhrif á verkefnið sem er í kynningu. 

Áfangaskipting

Síðasta bæjastjórn var einhuga þvert á flokka um viðbyggingu við sundlaugina sem fyrsta áfanga í uppbyggingarferli íþróttamannvirkja og er það verkefni tilbúið og hægt að bjóða það út á morgun sé vilji til þess. Næsti áfangi var að fara í vinnu að heilstæðri mynd af svæðinu með íþróttahúsi, vallarstúku og fimleikahúsi eins og verið er að gera núna. Ásamt fráteknum byggingarreit við Heppuskóla fyrir stækkun Grunnskólans. 

Vona ég að nýr meirihluti sjái í bókunum fyrra bæjaráðs og bæjastjórnar að ákvörðunin um þessa forgangsröð var ekki tekin í skyndi og nauðsynlegur hlekkur til framtíðar fyrir eldri iðkendur í heilsueflandi samfélagi. Á meðan ekkert er gert heldur þessi hópur áfram að banka á dyrnar hjá sveitarfélaginu eftir stuðningi.

Byggjum viðbygginguna við sundlaugina á meðan við ákveðum næsta skref, það er góð leið í áfangaskiptingu og byrjun á uppbygginu svæðisins. Bjóðum verkið út og höldum áfram hugmyndavinnu við áfanga 2 sem á langt í land með að verða að tilbúnum útboðsgögnum. 

Gunnhildur Imsland, varabæjafulltrúi og aðalmaður í fræðslu og frístundanefnd.  

Álagningarhlutfall útsvars hækkað.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Þau ánægjulegu tíðindi bárust sveitarfélaginu fyrir jól að samkomulag hefði náðst milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um sérstaka viðbótarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk.

Samkomulagið byggir á því að útsvarsálagning sveitarfélaga hækki um 0.22% gegn samsvarandi lækkun tekjuskattsálagningar ríkisins þannig að breytingin hefur ekki áhrif á einstaklinga heldur skiptingu skatttekna milli sveitarfélaga og ríkis.

Til þess að samkomulagið nái fram að ganga þurftu allar sveitarstjórnir að samþykkja 0.22% hækkun útsvars fyrir áramót og þarf í framhaldinu að gera lagabreytingar á Alþingi. Bæjarstjórn Sveitarfélagisns Hornafjarðar samþykkti útsvarshækkunina á aukafundi sínum þann 22. desember sl.

Hér í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur rekstur málaflokks fatlaðs fólks verið vanfjármagnaður af hendi ríkisins síðustu ár líkt og annarstaðar á landinu. Stöðugt er verið að aðlaga þjónustuna að einstaklingum sem eiga rétt á henni og þeim kröfum sem gerðar eru til sveitarfélagsins sem veitanda þjónustunnar með lögum og reglugerðum þar um. 

Nýjustu dæmin eru efling verkefna í virkniþjónustu og vinna við reglur um akstursþjónustu bæði fyrir fólk með fötlun og fyrir aldraða.

Sú breyting sem verður á fjármögnun málaflokksins mun koma sér vel en er engan vegin næg til að brúa það bil sem myndast hefur í fjármögnun málaflokksins. Áfram er unnið að því á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við ríkið að finna lausn til framtíðar.

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og varamaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í upphafi nýs árs

Gunnar Ásgeirsson

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir liðnar stundir. Þegar litið er um öxl til nýliðins árs er af mörgu að taka. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var leitað að áhugasömum einstaklingum til þátttöku í starfi Framsóknar og stuðningsmanna þeirra. Ég hef lengi haft áhuga á málefnum sveitarfélagins og lét það í ljós þó svo að ég hafi í fyrstu ekki verið viss um hvort ég væri tilbúinn að stökkva í djúpu laugina. Það leiddi hinsvegar til þess að ég ákvað að gefa kost á mér í þriðja sæti á lista og vonast til þess að geta látið gott af mér leiða. Nýgræðingurinn barði sér brjóst og undirbúningsferlið var skemmtilegt þar sem maður kynntist nýju fólki, sá nýjar hliðar á fólki sem maður áður þekkti og fór að horfa á hlutina með nýjum gleraugum. Málefni sem maður þekkti inn og út, að því er talið var, sá maður frá öðru sjónarhorni og fékk á þeim nýja sýn. 

Hlakka til kjörtímabilsins framundan.

Niðurstöður kosninganna voru ekki í samræmi við væntingar. Þrátt fyrir það þá er mikil tilhlökkun til að takast á við málefni sveitarfélagsins og leggja lóð mín á vogarskálarnar sem varabæjarfulltrúi. Fá að kynna mér málefni sveitarfélagsins sem tekin eru fyrir hverju sinni og taka þátt í undirbúningi fyrir fundi með fulltrúum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Einnig að sitja í atvinnu- og menningarmálanefnd sem fer með þennan mikilvæga málaflokk. Á síðasta kjörtímabili var vel unnið að málum og framkvæmdum innan sveitarfélagsins. Rekstur sveitarfélagsins var í góðum málum og má meðal annars þakka það útsjónarsemi og hagsýni kjörinna fulltrúa og starfsmanna. Það er mikilvægt að svo verði áfram og munum við leggja okkar að mörkum að tryggja það ásamt nýjum meirihluta. Ég sem græningi í bæjarmálum finn að mikilvægt er að vera með fólk í kringum sig sem hefur reynslu og er það einn af okkar styrkleikum að vera með reynslumikið fólk. Ég get því ímyndað mér áskorunina sem liggur fyrir fulltrúum hinna framboðanna í sveitarfélaginu að leiða sveitarfélagið, þar sem þau standa mér jafnfætis hvað varðar reynslu af sveitarstjórnarstörfum.

Margt spennandi framundan.

Mörg mál hafa farið í gegnum stjórnsýsluna á síðasta misseri, misstór eins og gefur að skilja. Stórir áfangar hafa náðst sem tekið hafa langan tíma í undirbúningi, minni mál hafa farið í gegn og svo eru spennandi verkefni komin inn sem eftir á að leysa. Má þar nefna húsnæðismál Vatnajökulsþjóðgarðs og Gömlubúð, skipulagning nýrra íbúðasvæða, endurskoðun aðalskipulags og fleiri spennandi verkefna. Áhugavert var að rýna fjárhagsáætlun meirihlutans síðastliðiðhaust og reyna að spegla stefnumálin í áætluninni. Ríkar hugmyndir voru uppi um uppbyggingu íþróttamannvirkja, þróun sorphirðu í dreifbýli og aukin safna- og menningarstarfsemi. 

Nýtt ár, nýjar áskoranir, ný tækifæri fyrir sveitarfélagið okkar og ég er fullur tilhlökkunar að sjá hvaða verkefni bíða í framtíðinni. 

Gunnar Ásgeirsson, varabæjarfulltrúi og aðalmaður í atvinnu- og menningarmálanefnd.

Í stórum dráttum.

Björgvin Óskar Sigurjónsson og Ásgerður Kristín Gylfadóttir.

Í gær miðvikudaginn 14. desember var fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun ´24-´26 samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Við bæjarfulltrúar B-listans tókum þátt í vinnu við gerð áætlunarinnar og erum sammála henni í stórum dráttum en höfum þó ýmislegt að athuga við framkvæmdaáætlunina og hvernig hún er kynnt fyrir íbúum og öðrum sem hafa áhuga á málefnum sveitarfélagsins. 


Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina gagnrýndum við í minnihlutanum vinnuna við áætlunina og bentum m.a. á að ekki væri tekið frá fjármagn í framkvæmdaráætlun fyrir framkvæmdum á nýju hjúkrunarheimili. Það fjármagn er núna komið inn í áætlunina og er það ánægulegt að sjá enda gefur það raunsærri mynd á fjárhagsáætlun næsta árs. 

En við megum einnig til með að taka fram að til marks um hversu lítið hafi verið búið að undirbúa fjárhagsáætlunina fyrir fyrri umræðu að lántaka sveitarfélagsins er að aukast um 400 milljónir milli umræðna þegar næstu tvö ár eru skoðuð og er það stórum hluta vegna hlutdeildar sveitarfélagsins í nýju hjúkrunarheimili


Það er ánægjulegt að sjá að verkefni sem fyrri bæjarstjórn var að vinna að eru sett á dagskrá s.s. viðbygging við leikskólann Sjónarhól, endurbætur á Sindrabæ, fráveituframkvæmdir, göngustígar, malbikun, slökkvibíll o.fl.

Á íbúafundum kynnti bæjarstjóri stórátak í lagfæringum á götum og gagnstéttum á Höfn. Í stórátakið eru settar heilar 100 milljónir. Við vitum ekki til annars en að búið sé að malbika í sveitarfélaginu að meðaltali annað hvert ár upp á 100-150 milljónir síðasta áratuginn. Ætli sé ekki hægt að malbika ca. 50-60% núna af því magni sem var malbikað árið 2009 fyrir sömu upphæð m.v. þróun byggingarvísitölu á tímabilinu. Því áttum við okkur ekki á því í hverju þetta stórátak er fólgið!

En við söknum þess að lítið sem ekkert er um framkvæmdir sem bæta rekstur sveitarfélagsins. Við sem sátum í síðasta meirihluta lögðum töluverða áherslu á að reyna hagræða í rekstri með þeim framkvæmdum sem ráðist var í og var það flest ef ef ekki allt gert í góðri samvinnu við þáverðandi minnihluta.


Með þessa hugsun m.a. að leiðarljósi vildum við fara í framkvæmdir við nýja líkamsræktarstöð í viðbyggingu við sundlaugina og losna þannig við leigugjöld á núverandi húsnæði líkamsræktarstöðvarinnar en hlutdeild sveitarfélagsins í leigugjöldunum  hækkaði núna seinast á haustmánuðum. En að sjálfsögðu var þetta einnig til að bæta aðstöðu fyrir hreyfingu breiðs aldurshóps og einnig til að bæta búningsaðstöðu fyrir fatlaða og kynsegin fólk sem vilja vera út af fyrir sig eða þurfa aðstoð frá gagnstæðu kyni. En allt um það hefur komið betur fram annars staðar. En þannig teljum við að mikil gæði hefðu verðið fólgin í því að fara í framkvæmdir við nýja líkamsræktarstöð.

Einnig var stefnan, hjá fyrri meirihluta, sett á að fara í framkvæmdir við Miklagarð og koma því húsnæði í vinnu og þannig voru viðræður í gangi við Vatnajökulsþjóðgarð um að leigja hluta hússins sem mundi þá kosta hluta framkvæmdarinnar. Hluta hússins átti síðan að setja í almenna leigu hvort sem það væri til einstaklinga eða fyrirtækja.

Í þriggja ára áætlun er athyglisvert að sjá að ekki er sett króna í íþróttamannvirki á kjörtímabilinu, hvorki hér á Höfn né í dreifbýlinu, fyrir utan 50 milljónir á næsta ári sem væntanlega fara að stórum hluta í hönnunarkostnað.


Engar fjárhæðir eru settar í Miklagarð á kjörtímabilinu og ekkert sett í Gömlubúð sem við erum að fá aftur í hendurnar á vormánuðum og þarf sveitarfélagið að fara reka það hús að nýju. Ekkert er sett í grenndarstöðvar í dreifbýlinu eins talað var um á íbúafundum í dreifbýlinu í aðdraganda kosninga og barst aftur í tal á íbúafundi í Suðursveit á dögunum við kynningu á fjárhagsáætlun. 

Og yfir höfuð er lítið sem ekkert sett í framkvæmdir í dreifbýlinu nema þá e.t.v. minniháttar viðhald sem er þá væntanlega innifalið í viðhaldsrömmum.


Auðvitað er þriggja ára áætlun er ekki meitluð í stein og hún á eftir að taka töluverðum breytingum en maður hefði haldið að hún ætti samt sem áður að setja stefnuna fyrir núverandi meirihluta næstu ár. En ekki er hægt að segja að hún sé sérstaklega stefnumarkandi.

Í ljósi andsvara bæjarstjóra og meirihlutans við athugasemdir minnihlutans  á fundinum segjast þau ætla að gera ýmislegt fleira en kemur fram í fjárhagsáætlun, en vita bara ekki hvað það kostar, þá er enn ljósara að þriggja ára áætlun gefur alls ekki góða mynd af fyrirætlunum.

Við þökkum kjörnum fulltrúum, bæjarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir samstarfið við gerð fjárhagsáætlunarinnar og munum hér eftir sem hingað til gera okkar besta með því að tala fyrir nýframkvæmdum sem bæta rekstur og að nýta þá vinnu sem áður hefur verið lagt fjármagn í og fara þannig vel með fjármuni sveitarfélagsins sem kjörnum fulltrúum er treyst fyrir.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúar Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Bygging hjúkrunarheimils á Höfn

Verðlaunatillaga um nýtt hjúkrunarheimili á Höfn.

Þann 22. júlí s.l. birtist frétt á vef Heilbrigðisráðuneytisins þess efnis að tilboð Húsheildar ehf. í byggingu hjúkrunarheimilis á Höfn hefði verið samþykkt af heilbrigðisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Sveitarfélaginu Hornafirði.

Með þessari samþykkt hefur markverðum áfanga verið náð í sambandi við framkvæmd þessa, sem heimamenn hafa barist fyrir um árabil og er svo sannarlega ástæða til að fagna því.

Eigi að síður leiðir það hugann aftur í tímann og ástæða til að rifja upp nokkur atriði í því sambandi.

  • Núverandi hjúkrunarheimili var formlega vígt og tekið í notkun þann 28. nóvember 1996.  Þann dag birtist grein í Eystrahorni eftir Gísla Sverri Árnason, forseta bæjarstjórnar Hornafjarðar, þar sem m.a. sagði:  „ Að lokum er rétt að nefna að eins og fólk rekur minni til er bygging sú sem nú er risin aðeins fyrri áfangi af tveimur.  Því þarf að undirbúa sem fyrst tillögur Austur-Skaftfellinga um það hvernig staðið verði að fullnaðarhönnun og byggingu síðari áfanga.“
  • Óhætt er að fullyrða að alla tíð síðan hafa starfandi bæjarstjórnir á hverjum tíma barist fyrir þessu verkefni.  Hægt hefur miðað og það voru því gleðitíðindi í maí 2018 þegar þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, undirritaði samkomulag við Sveitarfélagið Hornafjörð „um byggingu nýs hjúkrunarheimilis og breytingu á hlutanúverandi hjúkrunarrýmis“  eins og segir í umræddu samkomulagi.
  • Í samkomulaginu var kveðið á um hönnunarsamkeppni um bygginguna og fór sú vinna fljótlega af stað.    Rösku ári seinna, fimmtudaginn 20. júní 2019 voru kynntar niðurstöður úr hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimilið í Nýheimum á Höfn.  Alls bárust sautján tillögur.  Niðurstaða dómnefndar var að tillaga BASALT arkitekta og EFLU verkfræðistofu hlytu fyrstu verðlaun.  Í frétt um kynningu þessa segir í lok hennar: „Stefnt er að útboð á verklegum framkvæmdum verði auglýst í byrjun árs 2020 og heimilið verði tekið í notkun 2021.“ 
  • Þessi ósk rættist hins vegar ekki.  Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsti loks útboð á framkvæmdinni  sumarið 2021 og voru tilboð opnuð þann 7. september 2021.  Tvö tilboð bárust.  Ístak hf. bauð kr. 2.139 þúsund, en Húsheild ehf. kr. 1.860 þúsund.  Kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu var kr.1.569 þúsund og var því lægra tilboðið l8,5% hærra en kostnaðaráætlun.   Þann 15. október 2021 tók Framkvæmdasýslan ákvörðun um að hafna báðum tilboðum að höfðu samráði við heilbrigðis- og fjármálaráðuneyti. Í frétt RUV þann 27.október 2021 segir :  „Bæjarstjórn á Hornafirði er ekki sátt við það og samþykkti bókun þar sem afstaða ríkisins er hörmuð.  Verkefnið hafi dregist fram úr hófi og á sama tíma hafi byggingarkostnaður hækkað verulega.  Sveitarfélagið hafi nú þegar greitt tæpar 200 milljónir í undirbúning.  Þess er vænst að Framkvæmdasýsla ríkisins skoði hvaða leiðir séu færar án þess að bjóða þurfi út framkvæmdina á ný.  Bæjarstjórn skorar á þingmenn og ráðherra Suðurkjördæmis að styðja Sveitarfélagið Hornafjörð í að framkvæmdin hljóti framgöngu án frekari tafa.“ 
  • Tíminn leið.  Mikillar óþolinmæði og óánægju hefur gætt meðal íbúa  og heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu tók sig til og mótmælti með reglubundnum hætti og krafðist framkvæmda.    Það var loks þann 8 júlí s.l. að opnuð voru að nýju tilboð  í framkvæmdir við Hjúkrunarheimili á Höfn.  Eitt tilboð barst.  Húsheild ehf. bauð kr.2.080 þúsund, en kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins var kr. 1.892 þús.  Tilboðið var þannig 9,9% yfir kostnaðaráætlun.    Það var loks þann 22.júlí s.l. sem frétt birtist á vef Stjórnarráðs Íslands um að heilbrigðisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður hefðu samþykkt að taka tilboði Húsheildar ehf. . „ Miðað er við að framkvæmdir hefjist á haustmánuðum 2022 og heimilið verði tekið í notkun árið 2024“ eins og segir í umræddri frétt.

Veltum nú aðeins fyrir okkur hvernig fjárhæðirnar sem um ræðir hafa þróast á þessum langa meðgöngutíma.

       
 Framkv.sýslaBygg.Húsheild ehf. 
 kostn.áætlunvísitalatilboð 
  
1 Opnun tilboða 7.september 2021.1.569.969.725156,11.860.328.286 
 Tilboð Húsheildar 118.5% af kostnaðaráætlun  
  
2Opnun tilboða 8.júlí 2022.1.892.751.350168,12.080.668.062 
 Tilboð Húsheildar 109,9% af kostnaðaráætlun 
  
3Breytingar frá 7.9. 2021 til 8.7.2022 
  
aTilboð Húsheildar ehf. frá sept.2021  
 framrreiknað með bygg.vísitölu til júlí 20221.860.328.2862.003.387.531 
bByggingartvísitala hækkar um7,69% 
cTilboð Húsheildar ehf. hækkar um11,84% 
dKostnaðaráætlun Frkv.sýslu hækkar um20,56% 
       

Þegar tilboðum var hafnað í október 2021 var það á þeim forsendum að vinna þyrfti að breytingum á hönnun sem gætu leitt til lækkunar byggingarkostnaðar.   Ekki verður séð af ofangreindum staðreyndum að það hafi borið árangur.

Niðurstaðan er að það tilboð sem nú er búið að samþykkja er 220  milljón krónum hærra en fyrra tilboð.  Sé fyrra tilboð Húsheildar ehf. framreiknað með byggingarvísitölu er það eigi að síður 77 milljónum hærra.

Athygli vekur líka að nú hækkar kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu um 20,56% á sama tíma og byggingarvísitala hækkar um 7.69%.  Er óeðlilegt að spurt sé.  Hvar er sparnaðurinn ?

Á fundi Bæjarstjórnar Hornafjarðar þann 18. ágúst s.l. vakti Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi athygli á þessu og hve mikil þessi hækkun væri.  Þetta kostnaði sveitarfélagið um 50 milljón krónum meira nú en ef tilboði Húsheildar frá september 2021 hefði verið tekið.

Niðurstaðan er sorglegt dæmi um  sóun á peningum almennings og tíma sem betur hefði verið nýttur framkvæmda.

Er hugsanlegt að einhverjir í hinni opinberu stjórnsýslu Framkvæmdasýslunnar, heilbrigðisráðuneytisins eða fjármála- og efnahagsráðuneytisins séu stoltir af árangrinum ?   Spyr sá sem ekki veit.

Höfn, 20. ágúst 2022. Hermann Hansson.

Grein höfundar birtist í Eystrahorni 25. ágúst 2022.

Það er komið að því!

Verðlaunatillaga um nýtt hjúkrunarheimili á Höfn.

Í gær fimmtudaginn 21. júlí samþykkti bæjarráð fyrir hönd sveitarfélagsins tilboð í framkvæmdir við byggingu nýs hjúkrunarheimilis og í dag fengum við fréttir af því að ríkið hefur samþykkt fjármagn í framkvæmdina fyrir sitt leiti!

Ferlið að þessum tímamótum hefur verið langt og strangt og ber nú loks árangur. Skrifað verður undir samning við verktakann Húsheild ehf í ágúst, undirbúningur hefst vonandi sem fyrst og framkvæmdir í kjölfarið.

Fleiri jákvæðar fréttir bárust í vikunni en Vegagerðin hefur skrifað undir samning við Ístak ehf um framkvæmdir við nýjan veg um Hornafjarðarfljót svo þar ættu framkvæmdir einnig að fara af stað von bráðar.

Báðar þessar framkvæmdir hafa verið í umræðunni í áratugi og nokkrar bæjar- og ríkisstjórnir komið að málunum með einum eða öðrum hætti.

Til hamingju hornfirðingar!

Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti Framsóknar í bæjarstórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar og aðalmaður í bæjarráði.

Íbúakosningar og kjörstaðir

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Enn er flækjufótur á ferð vegna fyrirhugðara íbúakosninga um þéttingu byggðar í innbæ á Höfn. Eins og íbúar muna þá þurfti að hætta við íbúakosninguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 14. maí sl. vegna formgalla á spurningunni sem lögð var fram. Fyrirhugað var að hafa kosningu í lok ágúst nk. en nú hefur innviðaráðuneytið leiðbeint sveitarfélaginu með að fresta kosningunni um óákveðinn tíma eða þar til ný reglugerð um um framkvæmd íbúakosninga liggur fyrir í haust.

Það er bagalegt að þurfa að fresta kosningunni aftur því nauðsynlegt er að fá botn í þetta mál en á meðan er bæði aðalskipulag og deiliskipulag um þéttingu byggðar í innbæ í gildi þó lóðirnar sem bættust við með samþykkt þeirra hafi ekki verið auglýstar lausar til umsóknar vegna kröfunnar um íbúakosningu.

Ég hvet fólk til að kynna sér skipulagið en kynningarefni má finna á heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/skipulagsmal/kynning-a-skipulagi-innbae-v.-ibuakosningar/

Kjörstaðir í sveitarfélaginu.

Á bæjarráðsfundi 7. júlí sl. mættu tveir fulltrúar úr yfirkjörstjórn sveitarfélagisns og fóru yfir greinagerð yfirkjörstjórnar um kosningarnar 14. maí sl. Þær kosningar voru fyrstu kosningarnar sem framkvæmdar voru eftir gildistöku nýrra kosningalaga og reyndi þá fyrst á breyttar hæfisreglur starfsmanna í kosningunum og ýmislegt fleira.

Það reyndist vandasamt að manna kjörstaði í sveitarfélaginu þar sem nokkuð margir sem áður höfðu starfað við kosningar í sveitarfélaginu reyndust vanhæfir vegna tengsla við frambjóðendur. Það tókst að lokum og voru fimm kjörstaðir í sveitarfélaginu.

Í aðdraganda kosninganna kom upp sú umræða hvort tímabært væri að huga að fækkun kjörstaða, þeirri umræðu var vísað til nýrrar bæjarstjórnar þar sem ekki þótti rétt að gera þær breytingar án samtals við íbúa í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið er ein kjördeild og hefur því val um hversu margir kjörstaðirnir eru innan marka þess. Yfirkjörstjórn lagði það til á fundi bæjarráðs að kjörstöðum yrði fækkað í einn og hann yrði á Höfn. Verði sú breyting niðurstaðan, þá mun utanumhald verða auðveldara, mönnun einfaldari og dregið úr kostnaði.

Það væri áhugavert að heyra hvað íbúum finnst um þá tillögu og ef þeim hugnast hún ekki hvað þeir leggja til að margir kjörstaðir verði í sveitarfélaginu?

Hlakka til að heyra frá ykkur – njótið sumarsins!

Ásgerður K. Gylfadóttir, aðalmaður í bæjarráði.

Tímamót!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Í dag lýkur kjörtímabili sitjandi bæjarstjórnar og nýtt tekur við á morgun sunnudaginn 29. maí.

Líðandi kjörtímabil hefur verið ansi fjölbreytt, bæði skemmtilegt og boðið uppá krefjandi áskoranir sem engann hafði órað fyrir s.s. heimsfaraldur!

Kærar þakkir

Ég vil fyrir hönd aðal- og varabæjarfulltrúa Framsóknar og stuðningsmanna síðustu fjögur ár, þakka íbúum sveitarfélagisns og þá sérstaklega starfsfólki þess fyrir gott og ánægjulegt samstarf. 

Saman höfum við staðið okkur vel í þeim áskorunum og verkefnum sem legið hafa fyrir, þó alltaf megi rýna til gagns og gera betur, ekki síst þegar litið er til baka og heildarmyndin liggur fyrir.

Matthildi Ásmundardóttur bæjarstjóra vil ég þakka sérstaklega fyrir gott samstarf á kjörtímabilinu og óska henni velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Áfram veginn

Í afstöðnum kosningum náðum við framsóknarfólk ekki markmiðum okkar, niðustaðan varð tveir bæjarfulltrúar. Það voru óneitanlega vonbrigði en ekki dugar að dvelja við það. Bæjarfulltrúar Framsóknar munu hér eftir sem hingað til vinna að því að efla samfélagið okkar hvort sem er í meiri- eða minnihluta og vinna góðum málum brautargengi í samvinnu við aðra bæjarfulltrúa og samfélagið í heild.

Áfram munum við nýta þennan góða vettvang, leidarhofdi.is til að greina frá störfum í bæjarstjórn og sem upplýsingamiðil framboðsins.

Takk fyrir samfylgdina á kjörtímabilinu sem er að ljúka, hlakka til framhaldsins á því sem tekur við. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti Framsóknar og stuðningsmanna.

Virkar samgöngur og skipulag

Bjarni Ólafur Stefánsson

Þrátt fyrir að vera uppalinn hér í Hornafirði dvaldi ég hluta af mótunarárum mínum við nám í Reykjavík og erlendis. Ég flutti aftur heim árið 2010. Þegar við Eva ákváðum að kaupa fasteign á Hornafirði var ég með mjög einfalda kröfu, ég vildi búa í útbænum. Ég var ákveðinn í því að ég vildi að börnin mín myndu ganga og/eða hjóla í skóla og tómstundir og það sama myndi gilda um mig.

Fyrsta eignin okkar var á Júllatúni þar sem við nutum útsýnis á heimsmælikvarða en þegar í ljós kom að þriðja barnið væri á leiðinni ákváðum við að stækka við okkur og fluttum í Hagatúnið. Fjarlægðir þar eru litlar. Það tekur börnin okkar styttri tíma að hlaupa heim úr skólanum en að vera sótt. Það má reyndar skjóta því inn að börn á Hornafirði eru ótrúlega dugleg að hjóla og ganga. Þegar ég fylgi börnum mínum í skóla á morgnana hjólandi fylgir hópur hjólandi og gangandi barna. Foreldrarnir eru stutt á eftir, akandi. 

Ég nýti virka ferðamáta mjög mikið hvert sem ég fer. Á þessu eru auðvitað undantekningar. Veður spilar stundum inn í, oft þarf að græja eitthvað eftir vinnu eða það algengasta, leti.

Að nota virka ferðamáta hefur ekki bara jákvæð áhrif á líkamlega heilsu heldur líka andlega. Þá verður til miklu skemmtilegra samfélag þar sem fólk mætist gangandi eða hjólandi en ekki á 2 tonna díselvélum. Fyrir utan það augljósa sem þarf vart að taka fram, jákvæð áhrif á umhverfið. 

En það er ekki sjálfgefið að fólk gangi eða hjóli. Þetta er skipulagsmál. Forgangur hjólandi og gangandi þarf að vera skýr og hjólaleiðir vel merktar. Ný hverfi verða að vera hugsuð með þetta að leiðarljósi og því er mikilvægt að byggja samfellda byggð með góðar göngu- og hjólaleiðir. Ef ný hverfi eru byggð, aðskilin frá annarri byggð, eru ansi miklar líkur á því að einn ferðamáti verði allsráðandi. 2 tonna díselvélar. 

Bjarni Ólafur Stefánsson, vinnslustjóri, 8. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.

Kosningar 14. maí!

Ásgrímur Ingólfsson

Nú þegar örstutt er í kjördag hamast frambjóðendur við að koma sínum stefnumálum að, reyna að hafa áhrif á kjósendur, sumir lofa meira heldur en þeir geta staðið við með góðu móti hvort sem það er of íþyngjandi fyrir sveitarsjóð eða jafnvel ekki einu sinn á könnu sveitarstjórnar. Allt á að gera stórt og smátt. Því miður eiga þeir ágætu frambjóðendur sem svo digurbarkalega tala eftir að komast að því, ef þeir fá brautargengi, að það er ekki hægt að gera allt en vissulega er hægt að gera margt þar sem skuldastaða Sveitafélagsins Hornafjarðar er góð og mörg sveitarfélög öfunda okkur af því.

Tekjur og gjöld

Eitt að því fyrsta sem manni var kennt í bókfærslu eru þessir dálkar og að menn skyldu bera virðingu fyrir þeim báðum. Þeir gegna báðir mikilvægu hlutverki í að halda utan um rekstur, hvort sem hann er stór eða smár. Sveitafélag hefur ekki mikla tekjumöguleika aðra en að auka álögur á íbúana og fyrirtækin. Sveitarfélag selur ekki vörur eða þjónustu sem getur skilað afgangi, útsvar og fasteignarskattur eru u.þ.b. 2/3 af tekjum og jöfnunarsjóður u.þ.b. 1/3. Á því kjörtímabili sem nú er að líða var bæði lækkaður fasteignaskattur á heimili og fyrirtæki, hvað svo sem menn gera á því næsta verður sveitarfélagið að vera samaburðarhæft við önnur sveitarfélög án þess þó að skaða reksturinn svo lántaka verður að vera hófleg. Það mun þurfa að taka lán og sveitarfélagið ræður við það, en of mikil skuldsetning er blóðug og hvet ég alla nýja bæjarfulltrúa að falla ekki í þá gryfju. 

Útgjöldin

Þessi skemmtilegi liður er vandmeðfarinn og held ég að sú bæjarstjórn sem senn kveður hafi verið nokkuð farsæl hvað útgjöld varðar, við reyndum að lesa í atvinnuástandið eins og við framast gátum. Ekki að setja of mikið af framkvæmdum af stað á sama tíma, reyna þó alltaf að vera með eitthvað í gangi því okkur fannst við skulda orðið innviða uppbyggingu, en vissulega er framkvæmdaáætlunin gerð að hausti fyrir næsta ár. Við reyndum að huga að nýjum verkefnum samhliða því sem viðhaldi var sinnt, einnig ákváðum við að fráveitu og götum yrðum við að sinna áfram og frekar að bæta í heldur en hitt. Vissuleg hefðum við geta gert betur, maður getur alltaf gert betur og allir hafa skoðun á því í hvað það á að verja fjármununum í.

Lokaorð

Undanfarin ár hefur launakostnaður sveitafélagsins aukist um rúmar 200 milljónir, annars vegar eru það kjarasamningar, launahækkanir þeim tengdar og stytting vinnuvikunnar og hins vegar hefur stöðugildum fjölgað, bæði til að auka þjónustu og svo líka vegna covid pestarinnar. Í þessu sambandi er vert að geta þess að launakostnaður hjá sveitarfélögum hefur að meðaltali aukist um 16%,  9% hjá ríki og 7% í einkageiranum . Við erum ekkert eyland í þessu, en þetta er áskorun sem bíður nýrrar bæjarstjórnar. Tekjur eru að aukast með auknum ferðamannastraum, það eru bara spennandi tímar framundan. Við þurfum öfluga bæjarstjórn með skýra sýn og kunnáttu til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða.

Setjum X við B á laugardaginn!

Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri og forseti bæjarstjórnar. 14. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.