Tökum þátt!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Það er margt í gangi í Sveitarfélaginu Hornafirði þessa dagana eins og svo oft áður. Mig langar að minna hér á nokkur atriði.

Humarhátíð

Humarhátíð verður sett í kvöld en hófst í gær með brekkusöng á Hóteltúni, listviðburðum og ýmsu fleira. Veðrið ætlar aðeins að stríða okkur eins og það hefur gert oft áður í gegnum tíðina en ég hef trú á því að hornfirðingar láti það ekki aftra sér frá því að taka þátt og gleðjast saman og með gestum sínum.

Dagskrá Humarhátíðar 2023 https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/dagskra-humarhatidar-2023

Íbúakosningar

Vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum að íbúakosningar um hvort aðal- og deiliskipulag um þéttingu byggðar í Innbæ haldi gildi sínu standa nú yfir. Sveitarfélagið er brautryðjandi í því að gefa íbúum frá 16 ára aldri tækifæri til að taka þátt í almennum kosningum og er það vel.

Ég hvet alla íbúa sem hafa rétt til að taka þátt í kosningunni til að kynna sér málið á vef sveitarfélagsins og taka þátt í kosningunni. https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/skipulagsmal/kynning-a-skipulagi-innbae-v.-ibuakosningar/

Aðalskipulag 

Unnið er að heildar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem felur í sér samráð við íbúa á hinum ýmsu stigum. Verkefnið hefur fengið sér vefsíðu þar sem áhugasamir geta fylgst náið með ferli vinnunar https://www.hornafjorduradalskipulag.is

Nú þegar hafa borist ábendingar og athugasemdir við lýsingu verkefnisins og fjölmargir tóku þátt í skoðanakönnun sem beint var til íbúa, en núna er opin skoðanakönnun þar sem leitað er til landeigenda og ábúenda í sveitarfélaginu. 

Á seinni stigum eru fyrirhugaðir íbúafundir þar sem gefst áfram kostur á því að taka þátt í vinnunni. 

Skipulagsgátt

Að lokum langar mig að benda á nýjan vef Skipulagsstofnunar sem er samráðsgátt um skipulagsmál, mat á umhverfisáfrifum og framkvæmdaleyfi á landinu öllu. Þar er hægt að finna upplýsingar um mál í vinnslu, gera athugasemdir við mál í vinnslu og sjá endanlegar afgreiðslur mála. Einnig er hægt er að fá áminningu þegar mál á því svæði eða áhugasviði sem maður velur koma inn. Nú þegar eru öll mál sem eru í vinnslu hjá sveitarfélaginu komin inn í skipulagsgáttina. https://skipulagsgatt.is

Kæri lesandi, það er hverju samfélagi mikilvægt að íbúar séu virkir og taki þátt í því að efla, móta og lífga upp á samfélagið. Það getur þú gert með því að taka þátt í bæði viðburðum og samráði – vertu með og taktu þátt!

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, aðalmaður í bæjarráði og umhverfis- og skipulagsnefnd.

Barnvænt sveitafélag

Gunnhildur Imsland

Árið 2021 var samþykkt í bæjastjórn heildarstefna sveitafélagsins sem ber nafnið Hornafjörður Náttúrulega. Stefnan er byggð á heimsmarmiðum sameinuðuþjóðanna. Hún hefur hlotið góða kynningu og ættu flestir íbúar sveitafélagsins að hafa heyrt á hana minnst.

Farsældarlögin

Innleiðing svokallaðra farsældarlaga í þágu barna er á fullu í sveitafélaginu. Sveitafélagið Hornafjörður var að vinna góða vinnu sem talar vel við innleiðingu þessara nýju laga. Helsta breytingin er í barnaverndinni, en hún er nú lögbundið á hendi fagfólks en ekki kjörinna fulltrúa lengur. Með þessari innleiðingu eigum við eftir að læra á nýyrði eins og tenglar og málastjórar barna. Þessa titla bera einstaklingar sem hafa menntun og þekkingu til að vinna með börnum og verða nokkurskonar „þjónustufulltrúar“ fyrir börn. Til þeirra geta leitað jafnt börn sem fullorðnir sem áhyggjur hafa af barni.

Það þarf heilt þorp til  ala upp barn.“ Segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af réttindum barna og þeim skyldum sem ríki og sveitafélög þurfa að standa við gagnvart börnum og fjölskyldum þeirra. Sáttmálinn er samkomulag til samfélagsþegna um menntun, viðhorf, samskipti og uppeldi barna og byggir á einnig heimsmarkmiðunum.

Barnvænt sveitarfélag

Í dag stendur yfir innleiðing á Barnvænu sveitafélagi, það var samþykkt í bæjarstjórn árið 2020. Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmálans í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF sem kallast “Child Friendly Cities Initiative” og hefur verið innleitt í hundruðum borga frá árinu 1996. Verkefnið hefur verið innleitt hér á landi undir nafninu Barnvæn sveitarfélög frá 2016, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013.

Grunnþættir Barnvæns sveitarfélags eru að vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins sem byggir á þekkingu á réttindum barna, því sem er barninu fyrir bestu, jafnræði í að horft sé til réttinda allra barna og þátttöku barna en saman skapa þessir þættir barnvæna nálgun á málefni sveitarfélagsins. Sem talar við Hornafjörð Náttúrulega þar sem í þeirri stefnu segir við viljum búa í fjölskylduvænu og heilsueflandi samfélagi þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og fær þjónustu og menntun við hæfi.

Innleiðingarferlinu er skipt í 6 þætti síðan er 7. þátturinn viðurkenning og sá 8. endurmat. Viðurkenningin gildir í þrjú ár frá því að hún er veitt. Þegar viðurkenningin er í höfn þarf sveitarfélagið að setja sér ný markmið, hefja nýtt stöðumat og endurmat og hefur til þess 3 ár. Þannig verður verkefnið lifandi og í stöðugu endurmati.

Langt komin í innleiðingarferlinu

Í dag erum við rúmlega hálfnuð með innleiðingu að viðurkenningu. Innleiðingin hefur dregist vegna Covid og kosninga. Stýrihópur verkefnisins er skipaður mikið til af nýjum einstaklingum en hann skipa sviðstjórar sveitafélagsins, fulltrúar úr stjórnsýslunni, tveir fulltrúar bæjarstjórnar og þrír fulltrúar ungmennaráðs ásamt nýjum verkefnastjórna.

Gunnhildur Imsland varabæjafulltrúi Framsóknar, aðalmaður í fræðslu- og frístundanefnd og fulltrúi í stýrihóp um innleiðingu Barnvæns sveitarfélags.

Jákvæði pistillinn!

Íris Heiður Jóhannsdóttir

Undanfarið hefur mér fundist svo ótal margt skemmtilegt og spennandi að gerast hér í Hornafirði og umræðan þar af leiðandi jákvæð. Það er kærkomin tilbreyting frá annars oft neikvæðri umfjöllum um allt og ekkert sem dynur á okkur úr öllum áttum frétta- og samfélagsmiðla.

Mér finnst nefnilega oft eins og fréttir, þó að þær séu ekki endilega sérstaklega neikvæðar, að þá sé reynt eftir fremsta megni að snúa út úr þeim og finna einhvern neikvæðan vinkil, gera þær aðeins meira grípandi og velja æsandi fyrirsögn sem fær okkur til að „klikka“ á hana og bregðast við. Og við erum ógeðslega góð í því að romsa út úr okkur öllum okkar skoðunum um allt og ekkert í „kommentakerfum“ sem loga og þræta við þá sem hafa aðrar skoðanir en við. Það sem fólk lætur flakka er alveg með ólíkindum dónalegt og ljótt að maður verður miður sín, hissa, reiður og allt þar á milli.

Þess vegna í allri þessari neikvæðni er svo gott og gefandi að taka meðvitaða ákvörðun um að einblína á allt það góða og jákvæða sem fjallað er um og er að gerast í okkar nærumhverfi, því ekki nennum við að vera fúl eins og kommentakerfisfræðingarnir! Og viti menn, það er bara ansi margt sem hægt er að nefna og því verður þessi pistill frekar jákvæður, einskonar hrós-pistill og fyrirsögnin líka.

Þegar ég skrifa þessi örfáu orð er ég nýbúin að fletta í gegnum nokkur eintök af Eystrahorni. Það var alveg frábært að útgáfa Eystrahorns hélt áfram og vil ég hrósa Arndísi Láru fyrir virkilega gott og fjölbreytt blað, og ekki verra að fá góðar mataruppskriftir í blaðið, en ég var einmitt að leita að ákveðinni uppskrift með þessu fletti mínu. Mér finnst líka gaman að sjá forsíðumyndirnar frá hinum og þessum Hornfirðingum, margar glæsilegar myndir og var forsíðan með Fókus sigurvegurum Músíktilrauna frábær! Ég óska þeim enn og aftur innilega til hamingju með árangurinn, en þær hafa líka verið svakalega duglegar og ég hlakka til að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Talandi um dugnað, þá verð ég að hrósa öllu því góða fólki sem kom að leiksýningunni „Galdrakarlinn í Oz“. Ég á ekki til orð yfir öllu þessu hæfileikaríka fólki! Flott uppsetning, leikurinn frábær og svo virðist sem allir geti spilað á hljóðfæri eða sungið eins og englar. Spurning hvort það sé ekki ástæða til að stofna aðra hljómsveit, grínlaust!

Ég get ekki státað mig af því að kunna á hljóðfæri, því miður, en mér þykir gaman að syngja og ákvað að skella mér í kvennakórinn í upphafi árs. Það er frábær félagsskapur og kórinn mjög fjölmennur eða um 50 konur. Um helgina er landsmót kvennakóra á Íslandi og erum við fullar tilhlökkunar að stíga á svið í Hörpunni og þenja raddböndin undir dyggri stjórn Heiðars kórstjóra. Ég fór einmitt á tónleika karlakórsins Jökuls í Hafnarkirkju á sumardaginn fyrsta. Það er eitthvað svo notalegt að hlusta á þá og orðin hefð hjá ansi mörgum að bjóða sumarið velkomið með þessum hætti. Það má með sanni segja að hér sé nóg um að vera fyrir þá sem hafa gaman að söng; kvennakór, karlakór, samkór og síðast en ekki síst Gleðigjafar.

Ég hef líka lúmskan áhuga á kvikmyndum og varð gríðarlega spennt þegar ég heyrði að til stæði að stofna félagasamtökin Bíó Loftið. Ég mætti á stofnfundinn og er nú komin í stjórn Bíó Loftsins ásamt góðu og öflugu fólki. Vonir standa til að í nánustu framtíð verði hægt að fara í bíó hér á staðnum, vera með reglulegar sýningar og góðar kvikmyndir fyrir alla aldurshópa. Maður er orðinn svo vanur því að liggja heima í sófanum yfir bíómyndum, en mikið hefur maður gott af því að skella sér út á meðal fólks og njóta góðra kvikmynda í bíó. 

Það er svo margt spennandi að gerast hér á staðnum og allt sem okkur stendur til boða til að sinna okkar áhugamálum stendur og fellur með þátttöku okkar sjálfra. Að geta sinnt áhugamálum er svo mikilvægt, fyrst og fremst snýst það um lífsfyllingu og þar að auki er það félagslega gefandi.

Eigðu sérlega góðan dag!

Íris Heiður Jóhannsdóttir, aðalmaður í velferðarnefnd.

Hitt og þetta

Ásgrímur Ingólfsson

Það er ekki um að villast að vorið er komið eða allavega á næsta leyti. Farfuglarnir flykkjast til landsins, bændur búa sig undir sauðburð og sumir hverjir eru byrjaðir að vinna í flögum. Sigurður Ólafsson að klára netarallið og ég búinn að verða mér til skammar á Hrossakjötsmótinu á Hala.

Loforðin 

Þegar Ásgerður bað mig um að skrifa grein í Leiðarhöfða var eina skilyrðið að ég yrði að reyna að vera skemmtilegur og tala sem minnst um pólitík þó meirihlutinn væri með allt niðrum sig, það er jú að koma sumar. Ég lofaði öllu fögru eins og sumir gerðu í kosningarbaráttunni en er ekki viss um að ég geti staðið við það, en fer af stað í þennan pistil með fögur fyrirheit. 

Hér sit ég við tölvuna á síðasta vetrardegi og horfi út um gluggan, sé þokuna læðast inn yfir bæinn og velti fyrir mér hvað ég eigi að skrif um. Dettur fyrst í hug pólitík. Þegar maður er búinn að vera þetta lengi í pólitík þá les maður allar fundargerðir og þær eru alltaf jafn upplýsandi eða þannig. Þar er allavega ekkert að frétta.

Stærsta fréttin

Á því eina ári sem núverandi meirihluti hefur verið við völd sýnist mér að ný hreppaskipan í sveitarfélaginu sé eini afraksturinn, allar sveitastjórnir síðan 1998 hafa verðið að reyna að þjappa mönnum saman hvar sem menn hafa verið í sveit settir. En nú er öldin önnur, tvær sveitir eiga að mynda (hreppsnefnd, íbúaráð, meirihluta, hverfaráð, stjórnvald???) sem á að vera talsmaður þess. Í 2500 manna sveitarfélagi þá veltir maður því fyrir sér hvað hægt sé að flækja lífið mikið.

Við erum klárlega ekki að fara inn í nýja líkamsrækt næsta vetur eins og maður hafði væntingar um, ég sem var farinn að sjá mig fyrir mér spókandi á sundskýlunni á laugarbakkanum sumarið 2024 með sixpack eins og Gummi kíró. Það verður víst að bíða betri tíma.

Aðeins meir um pólitík, lofa svo að hætta Ásgerður

Eins og komið hefur fram í fréttum eru fjármál sveitarfélaga áhyggjuefni og það getur verið fljótt að syrta í álinn. Í því vaxtaumhverfi sem er í dag og þeirri þenslu sem er í samfélaginu er glapræði að sveitarfélag fari í mörg hundruð milljóna króna framkvæmdir þar sem allt er tekið að láni, ég held að bæjarstjórn hafi nóg með þau aðkallandi verkefni og þær fasteignir sem við eigum nú þegar.

Nú er ég hættur 

Nú aðeins um hitt og þetta. Við Þórgunnur tókum þátt í stórskemmtilegu bridge móti á Hala um helgina og vil ég þakka mótshöldurum kærlega fyrir. Þar voru komnir saman 88 spilarar víðsvegar af landinu. Spiluð bridge í tvo daga og borðuðu góðan mat í pásum. Sýndist mér og heyrðist allir standa glaðir upp frá borði, hjónabandið þoldi þessa áraun svo ég er sáttur þó þriðja neðsta sætið hafi verið endirinn.

Loðnuvertíð gekk vel og þar skipti mestu að veðurguðirnir voru okkur hliðhollir. Þeir hafa líklega fengið  útrás síðasta vetur og verið uppgefnir eftir þau læti. Fiskirí hefur almennt verið gott en heimildir litlar þó svo það sé búið að fækka um einn bát sem er mikill missir fyrir þá menn sem misstu vinnuna.

Mikið hefur verið um ferðamenn í vetur og heyrist mér að sá atvinnugeiri láti ágætlega af sér og hafa menn talsverðar væntingar til komandi missera og vonandi verður það til þess að landbúnaður hér á svæðinu styrkist líka. Ég held að þessar tvær greinar eigi að geta stutt hvor aðra frekar en sundrað. Við eigum marga góða bændur hér um slóðir þó vissulega séu menn mis hirðusamir um sinn búpening en plast í girðingum ætti ekki að sjást og er öllum til ama og óþurftar (svo ég komi því nú að einu sinni enn).

Að lokum   

Ég vona að ég verði ekki settur út af sakramentinu hjá ritstjóra þessa ágæta vefs þó svo að ég hafi aðeins svikið loforðið um pólitík. Ég hélt aftur af mér eins og ég gat og vona að það verði talið mér til tekna, látum sumarið líða og njótum þess, 

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!

Ásgrímur Ingólfsson.

Húsnæðismál og móttaka flóttafólks

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið sl. föstudag 31. mars á Grand Hótel í Reykjavík. Að vanda var þingið vel sótt af sveitarstjórnarfólki og bæjar- og sveitarstjórum landsins.

Að þessu sinni vorum við þrjú frá Sveitarfélaginu Hornafirði, undirrituð auk Eyrúnar Fríðu Árnadóttur formanns bæjarráðs og Gauta Árnasonar forseta bæjarstjórnar.

Á Landsþinginu í ár var rætt um stöðu kjarasamningsviðræðna sambandsins, húsnæðismál og málefni flóttafólks og hælisleitenda. Skoða má upptöku af þinginu hér https://www.samband.is/vidburdir/landsthing-2023/

Húsnæðismál

Húsnæðismálin eru okkur hornfirðingum hugleikin þar sem skortur er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og lóðaskortur. 

Það er því ánægjulegt að innviðaráðherra hefur nú staðfest nýja reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga og samþykkti bæjarráð í gær miðvikudaginn 5. apríl að hefja undirbúning að íbúakosningum um aðal- og deiliskipulag í Innbæ á grundvelli hennar. 

Það verður gott fyrir alla aðila að geta loksins afgreitt það mál í kosningum eins og óskað var eftir.

Annars er unnið að þéttingu byggðar við Sandbakkaveg og einkaaðilar vinna að deiliskipulagi sem fjölgar íbúðareiningum bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Þá afgreiddi umhverfis- og skipulagsnefnd frá sér skipulagslýsingu vegna íbúðarsvæðis ÍB5 sl. mánudag sem bíður afgreiðslu bæjarstjórnar í lok mánaðarins. Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar má nálgast hér https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=ZpjnmyvnrEOyCftNbmqa5w1&text=

Móttaka flóttafólks

Þann 13. janúar sl. undirritaði félagsmálastjóri fyrir hönd sveitarfélagsins samning um móttöku átta flóttamanna. Samningurinn byggir á samræmdri mótttöku flóttafólks en hann nær til fólks sem fengið hef­ur alþjóðlega vernd eða dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða hér á landi. Mark­miðið er að tryggja flótta­fólki sam­fellda og jafna þjón­ustu óháð því hvaðan það kem­ur og í hvaða sveit­ar­fé­lagi það sest að. 

Eftir því sem undirrituð kemst næst hefur þegar verið tekið á móti átta einstaklingum og gengið afar vel. En óskað hefur verið eftir yfirferð í bæjarráði um málið, þ.e. framlagningu samnings, gang mála, skuldbindingar sveitarfélagsins og aðkomu ríkisins.

Þegar þessi pistill er skrifaður skín sólin á Höfn sem vonandi gefur góð fyrirheit um að vorið verði okkur gott hér í sveitarfélaginu. Með þá ósk í brjósti óska ég lesendum Leiðarhöfða gleðilegra páska!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar, aðalmaður í bæjarráði og umhverfis- og skipulagsnefnd.

Hafnarmál

Innan hafnar

Í vetur var boðin út, í samvinnu við Vegagerðina, dýpkun innan Hornafjarðarhafnar fyrir næstu fjögur ár eða til og með árinu 2026 með möguleika á framlengingu verksamnings um 2 ár. Boðin var út 120.000 m³ dýpkun sem er gert ráð fyrir að verði framkvæmd í þremur dýpkunarlotum en það gæti þó breyst síðar. 

Ekki hefur verið dælt úr höfninni síðan árið 2021 en þá var ytri hluti hafarinnar dýpkaður vegna loðnuvertíðar. Næsta reglulega dæling hefði átt að vera á seinasta ári en vegna dælingarinnar árið áður þurfti þess ekki. Bjóða átti út viðhaldsdýpkun á seinasta ári en það tafðist þangað til í ár. Á dögunum voru tilboð í verkið opnuð og var niðurstaðan sú að gengið var til samninga við lægstbjóðanda sem var Dýpkunarfélagið Trölli ehf. en félagið er í eigu aðila í heimabyggð. Það er mikill akkur í að hafa aðila sem þessa hér í nærsamfélaginu sem eru tilbúnir að eiga og viðhalda eins sérhæfðum búnaði eins og þarf í svona verkefni, sérstaklega þegar sértæk verkefnin sem þessi eru ekki fleiri en raun ber vitni.

Grynnslin

Fréttir af grynnslunum eru því miður ekki eins jákvæðar. Á vordögum seinasta árs var boðin út dýpkun, einnig í samvinnu við Vegagerðina, á svokölluðum Grynnslum sem er svæðið frá innsiglingunni við Hvanney og út á dýpri sjó. Töluverðar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu svæði undanfarin ár af danska fyrirtækinu DHI (Danish Hydraulic Institute) í samvinnu við Vegagerðina og sveitarfélagið til að reyna að sjá fyrir hvaða áhrif dýpkun mundi hafa á svæðið. Ákveðið var að bjóða út dýpkun og tilboð í hana voru síðan opnuð 21. júní á seinasta ári. Það var fyrirtækið Björgun ehf. í Reykjavík sem urðu lægstbjóðendur í verkið og var gengið til samninga við þá. Tilboð þeirra var upp á tæplega 126 milljónir kr. Hlutdeild sveitarfélagsins í verkinu er 25% á móti 75% hlut ríkisins. Upphaflega stóð til að dæluskip þeirra kæmi í september á seinasta ári og mundu ljúka verkinu fyrir 30. sama mánaðar eins og útboðsgögn gerðu ráð fyrir. Dýpkunarskipið þeirra, Álfsnes, kom hins vegar ekki fyrr en í október og byrjaði að dýpka 22. þess mánaðar. Skipið fór síðan af staðnum, til annara verkefna sem búið var að lofa því í, 4. nóvember s.l. 

Áður en skipið fór af staðnum hafði það dýpkað u.þ.b. 52 þús. m³ af þeim 130 þús. m³ sem stefnt var að taka skv. útboðinu eða u.þ.b. 40% af heildarmagninu. Með útboðinu átti að dýpka rennu í grynnslunum niður á 9,5 m dýpi og síðan fylgjast með því hvernig hún mundi haga sér í framhaldinu með reglubundnum mælingum. En eins og rúmmetratölurnar hér að ofan gefa til kynna náðist aldrei að dýpka niður á það dýpi sem lagt var upp með. Til stóð að skipið kæmi aftur seinna í vetur til að klára verkið en ekkert hefur orðið úr því ennþá. Hlutdeild sveitarfélagsins í því sem dælt var reyndist u.þ.b. 11,7 milljónir kr. Nú benda mælingar til þess að rennan sem dýpkuð var sé aftur komin í sama horf og fyrir dælingu. 

Einnig hafa, í það minnsta, stóru uppsjávarskipin verið að taka niður í grynnslunum í vetur sem eru ekki góðar fréttir. Það er miður að ekki hafði verið klárað að dýpka Grynnslin niður á það dýpi sem lagt var upp með til að geta séð hvernig þau mundu haga sé í framhaldinu. Eins hvort að straumurinn í Ósnum mundi ná að halda rennunni opinni lengur ef dýpkað yrði niður á það dýpi sem lagt var upp með. Líklegt er að rennan hefði fyllst aftur eins og reiknilíkön hafa spáð fyrir um en fróðlegt hefði verið að sjá hverslu langan tíma það tæki í raun. Og fá þannig betri upplýsingar til að undirbyggja frekari ákvarðanatöku að hálfu sveitarfélagsins og Vegagerðinnar varðandi málið.

Verði ákveðið að klára dýpkunina á grynnslunum á þessu ári hefst verkið samt á byrjunarreit og sveitarfélagið greiðir sinn skerf af kökunni og þ.a.l. aftur fyrir sinn hlut af því magni sem búið var að dýpka fyrr í vetur, þó að sá hluti sem verður dýpkaður síðar verð óverðbættur.

Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélagið og framtíð þess að aðgengi að innsiglingunni og höfninni okkar utan af sjó verði tryggð fyrir skipaflota svæðisins. Yfirvöld samgöngumála landsins þurfa því að tryggja stofndýpkun og reglulega viðhaldsdýpkun á grynnslunum með sanngjarnri kostnaðarskiptingu milli sveitarfélagsins og ríkisins til að svo megi verða.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi og aðalmaður í Hafnarstjórn.

Mikligarður

Kristján Guðnason

Undanfarin ár hef ég ritað og rætt töluvert um Miklagarð það fornfræga hús með það að leiðarljósi að kveikja megi þar líf og koma því húsi í einhverskonar notkun. 

Þess vegna urðu mér það töluverð vonbrigði þegar nýr meirihluti stöðvaði undirbúning fyrirhugaðra framkvæmda á síðasta ári og setti ekkert fjármagn í áframhaldandi endurbætur á þessu ári né í 3ja ára áætlun.

Með flutningi á Gömlubúð, sölu á Pakkhúsinu, sölu á sláturhúsinu og fleiri jákvæðum þáttum hefur ásýnd og umgjörð hafnarsvæðisins breyst mikið og er orðin aðlaðandi og eftirsóknarvert svæði til að skoða og njóta. 

En Mikligarður er stór hluti í  þessu skemmtilega mengi og verðum við þar af leiðandi að gefa Miklagarði hlutverk og halda áfram. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp í gegnum tíðina og einhverjar skýrslur eru til sem hægt væri að styðjast við. 

Ein hugmyndin var að Vatnajökulsþjóðgarður færi þar inn með skrifstofur og gerð yrði jöklasýning í hluta húsins, var það hugsað til næstu 7 til 8 ára meðan unnið væri að undirbúningi að nýju húsnæði þjóðgarðsins en sú hugmynd var slegin út af borðinu sem eru virkileg vonbrigði og illa ígrundað.

Ég hef velt því fyrir mér undanfarið þar sem áhugi núverandi meirihluta á Miklagarði virðist vera lítill sem enginn hvort ekki sé rétt að selja húsið með skilyrðum. Hver veit nema einhverjir eldhugar myndu kaupa líkt og er að gerast með sláturhúsið, ég held að það sé rétt að velta upp öllum hugmyndum því það versta sem getur gerst er að horfa upp á Miklagarð grotna niður vegna aðgerðarleysis bæjaryfirvalda.

Kristján Sigurður Guðnason, formaður Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga.

Vetrarþjónusta á þjóðvegi 1

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Í vetur hafa þær aðstæður skapast að þjóðvegur 1 á Suðurlandi hefur verið lokaður í lengri og skemmri tíma vegna veðurs og hreinsunar vegna veðurs.

Hellisheiðin hefur reynst farartálmi og lagði bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fram eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnarinnar á bæjarstjórnarfundi 9. febrúar síðastliðinn:


,,Bæjarstjórn Hveragerðis skorar á ríkisstjórnina að veita auknu fjármagni til Vegagerðarinnar vegna snjómoksturs á Hellisheiði til að tryggja betri samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurlandsundirlendis.

Tryggja þarf öryggi vegfarenda, tryggja þarf greiðar samgöngur vegna sjúkraflutninga sem og aðgengi íbúa á Suðurlandi við höfuðborgarsvæðið þar sem fjöldi Sunnlendinga stundar sína atvinnu. Einnig skorar bæjarstjórn Hveragerðisbæjar á ríkisstjórnina að huga að framtíðarlausnum, á þessum fjölfarnasta vegkafla landsins, til að bæta megi umferðaröryggi.“


Áskorunin var send á þingmenn Framsóknar í kjördæminu og þau hvött til dáða við að fylgja þessu máli eftir með það fyrir augum hvernig best megi mæta öfgum í veðri og fyrirbyggja ferðatafir þar sem vitað er að álagspunktar eru.


Þjóðvegur 1 um Suðurland er einn stærsti ferðamannastaður landsins. Um 80% erlendra gesta sem sækja landið heim ferðast um Suðurland og njóta áfangastaða frá Hveragerði til Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Umferð erlenda gesta sem óvanir eru akstri á vetrartíma í misjöfnum veðrum, gulum og appelsínugulum viðvörunum, hálku og snjó er áskorun sem þarf að bregðast við auk þess sem vöruflutningar með t.d. vistir í verslanir og viðkvæman afla fiskiskipa eru einnig viðkvæmir fyrir ferðatöfum. Auk þessa vinnur fjöldi fólks af höfuðborgarsvæðinu austan Hellisheiðar og öfugt.


Því skorum við undirritaðar ráðherra og þingmenn að leita leiða til að veita bestu vetrarþjónustu sem völ er á um Suðurland allt. Tryggja hæsta þjónustustig fyrir alla vegfarendur og með því auka öryggi þeirra og íbúa með tilliti til aðgengis og umferðar viðbragsðaðila s.s. lögreglu-, sjúkra- og slökkiliðs.


Ásgerður Kristín Gylfadóttir,
bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.


Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði, í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Gamlabúð – hvað næst?

Um síðust áramót urðu þær breytingar að upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð var lokað. Þá hefur þjóðgarðurinn tekið þá ákvörðun að óska ekki framlengingar á leigusamningi við sveitarfélagið og tekur sveitarfélagið aftur við húsinu þann 1. aprí n.k. eftir 10 ára veru þjóðgarðsins í húsinu.

Persónulega tel ég að það hafi verið góð ákvörðun að flytja húsið á núverandi stað og að þjóðgarðurinn hafi sómt sér vel í því í þessi tíu ár, en nú er komið að nýjum kafla.

Hvað tekur við?

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er ekki gert ráð fyrir rekstri hússins eða starfsemi á vegum sveitarfélagsins í því. Ég hef trú á því að margir deili þeirri skoðun með mér að það er nauðsynlegt að einhver starfsemi verði í því hver svo sem stendur fyrir henni.

Eins og kom fram á bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag hefur Ríki Vatnajökuls sýnt því áhuga að koma að rekstrinum í samstarfi við sveitarfélagið. Taka þarf samtalið áfram við félagið og skoða með hvaða hætti það gæti verið eða jafnvel auglýsa eftir áhugasömum til rekstrar í húsinu.

Til lengri framtíðar.

Atvinnu- og menningarmálanefd hefur fjallað um og skoðað kostnað við að koma upp nýrri sýningu í húsinu en eins og áður sagði er því verkefni ekki markað fé í fjárhagsáætlun og ekki heldur til starfsmannahalds. Því er spurning um millibils tímabil á meðan framtíðarhlutverk hússins er ákveðið.

Mikligarður í sömu stöðu.

Þá er framtíð Miklagarðs í álíka stöðu. Í viðauka III við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 frá því í september s.l. voru þeir fjármunir sem ekki höfðu þegar verið nýttir á framkvæmdaáætlun ársins felldir niður, alls 33 milljónir. Viðaukinn var síðan samþykktur í bæjarstjórn á síðasta fundi. Sama staða er á Miklagarði hjá atvinnu- og menningarmálanefnd, framtíð hússins hefur verið rædd en er áform um að gera neitt samkvæmt fjárhagsáætlun ´23. Væri ekki ráð að reyna að nýta húsið?

En aftur að Gömlubúð, að mínu viti má það ekki gerast að húsið verði lokað, án nokkurrar starfsemi í sumar!

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og aðalmaður í bæjarráði.

Framfarir í þágu þolenda ofbeldis

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra í samstarfi við dómsmálaráðherra, hafa tekið höndum saman í að tryggja brotaþolum kynferðisofbeldis viðeigandi stuðning hjá sálfræðingi að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu. Meðfram því á að stuðla að aukinni samvinnu lögreglu og heilbrigðiskerfisins um þjónustu vegna kynferðisofbeldis í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi. Framangreint er ein af áherslum ríkisstjórnarinnar og einnig kemur þetta fram í aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu sem gildir til lok árs 2022. Þar segir að tryggja þurfi brotaþolum viðeigandi stuðning innan kerfisins, s.s. sálfræðimeðferð innan heilbrigðiskerfisins eða önnur úrræði óháð búsetu og efnahag, meðal annars eftir skýrslutöku hjá lögreglu. 

Reglubundið samráð

Dómsmálaráðherra mun síðan styrkja reglubundið samráð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og starfsmanna neyðarmóttöku og áfallateymis LSH um þjónustu við brotaþola kynferðisofbeldis. Það felur m.a. í sér hvernig lögregla skuli standa að tilvísun sem tryggir brotaþolum stuðningsviðtal sálfræðings að lokinni skýrslutöku og tryggja þar með rétta miðlun upplýsinga um meðferð mála innan réttarvörslukerfisins til brotaþola.

Þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis

Þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samvinnu við heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra, ákveðið að ráðast í greiningu á þjónustumiðstöðvum fyrir þolendur ofbeldis. Kortlögð verður aðkoma, hlutverk og ábyrgð ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila, einkum þolendasamtaka að rekstri þeirra og leggja á að því drög að fyrirkomulagi til framtíðar. Vinnan hefur það markmið að finna hentugustu leiðina til að tryggja framtíðarstarfsemi þolendamiðstöðva á Íslandi, bæði út frá skiptingu verkefna milli ráðuneyta og stjórnsýslustiga og við að móta stefnu um aðkomu lögreglunnar að þjónustumiðstöðvum. Einnig verður tekin inn í vinnuna samræming við verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum sem og við rannsókn á öðrum ofbeldisbrotum. Þá hefur verið ákveðið að veita lögregluembættum sem hafa beina aðkomu að stjórnun þjónustumiðstöðva 18 millj. kr. styrk til að þróa áfram þverfaglegt og svæðisbundið samstarf í því skyni að efla stuðning og vernd brotaþola en það er í samræmi við ákvæði Istanbúlsamningsins. Embættunum er svo falið að veita nauðsynlega aðstoð við greiningu á framtíðarfyrirkomulagi þjónustumiðstöðva og huga að því að samræma og kynna starfsemi miðstöðvanna með það fyrir augum að samræma og kynna starfsemina út um allt land. 

Aðgerðir í þágu þolenda og samstarf milli stofnana

Í Samráðsgátt Stjórnvalda þann 21. desember síðastliðinn birtust áform um fyrirhugað lagafrumvarp frá heilbrigðisráðuneytinu um að lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna að höfðu samráði við þolanda og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Þar kemur einnig fram að ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla þegar í stað upplýst um málið að höfðu samráði við þolanda. Það er mikilvægt að slíkt samráð sé til staðar svo það verði ekki fælandi fyrir þolendur að leita sér heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisstarfsmenn líti ekki á það sem þvingun því rannsóknir hafa sýnt fram á að skyldutilkynning er slæm ef hún er ekki í samráði við sjúklinginn bæði fyrir þolanda og heilbrigðisstarfsmanninn. Miðlun þeirra upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu. Þetta er almannaheillamál og mikilvægt skref því samkvæmt 2. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þá ber okkur að vernda rétt hvers manns til lífs með lögum. 

Eins og staðan er í dag þá eru heilbrigðisstarfsmenn bundnir fyllstu þagmælsku samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn og mega aðeins víkja frá þagnaskyldunni vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða ákvæðum annarra laga líkt og barnaverndarlaga o.þ.h. Skilyrðið um þessa brýnu nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera mjög matskennt og ekki til þess fallið að hagur og öryggi þolenda sé í forgrunni. Án lagabreytingar geta lög og reglur hvað varðar þagnarskyldu hamlað framgangi mála hjá lögreglu og jafnvel komið í veg fyrir að þolandi fái viðunandi aðstoð í réttarkerfinu og réttar upplýsingar um réttarstöðu sína. 

Undirrituð lagði fram þingsályktunartillögu á haustþinginu þar sem dómsmálaráðherra yrði falið að setja á fót starfshóp sem myndi móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Fyrirhugað frumvarp er fagnaðarefni í þessu samhengi, skýrt og mikilvægt skref í rétta átt til að tryggja öryggi þolenda heimilisofbeldis og þeirra barna sem verða fyrir áhrifum þess.

Með framangreindum aðgerðum er markmiðið að tryggja sem jafnast aðgengi þolenda að stuðningi og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, efnahag eða öðrum aðstæðum. Þá hefur einnig verið lagt til að  ráðist verði í vinnu á skipulagðri fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og það er yfirleitt einstaklingarnir sem  fyrst mæta  þolendum eftir ofbeldi. Lengi hefur verið kallað eftir skýrum aðgerðum í þessum málaflokki og því mikið fagnaðarefni að við séum að sjá breytingar og alvöru aðgerðir í þágu þolenda. Okkur ber að tryggja faglega og trausta þjónustu við þolendur og með þeim hætti að þeir upplifi raunverulega og trygga  aðstoð eftir áfallið því þarna er um einstaklinga að ræða þar sem traust þeirra hefur verið brotið með mjög grófum hætti. Þessar aðgerðir eru sannarlega þáttur í því að tryggja öryggi og þjónustu við þolendur heimilisofbeldis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi