Þétting byggðar

Í umræðu er að bæta við byggingarreitum við Silfurbraut og Hrísbraut.  Það fækkar í röðum óbyggðra lóða á Höfn.  Mikið hefur verið byggt að undanförnu og nánast engar lausar lóðir eftir á Leirusvæðinu.  Í þessari stöðu er eðlilegt að í leit að nýjum lóðum sé fyrst skoðað hvort rúma megi fleiri lóðir í grónum hverfum.  Þétting byggðar er eitt meginstefið í skipulagi byggðarlaga í dag.  Við viljum nýta landið betur og þá innviði sem við þurfum í þéttbýli.  Lagnir, gangstéttir, götuljós og annað sem tilheyrir. 

Frekari þétting og nýtt svæði

Það eru fleiri svæði sem hægt er að nota í þessum tilgangi.  Setja mætti nokkrar lóðir á Hríshólinn í línu sem tæki mið af golfskálanum og planinu við hann. Einnig er Leiðarhöfðinn spennandi svæði og gæti rúmað nokkrar lóðir.  Þetta gæti bæði sparað fjármuni og tíma, en fyrst og fremst bætt við spennandi byggingarlóðum og gert staðinn enn áhugaverðari sem búsetukost.

Samhliða þessu þarf að byrja að skipuleggja nýtt svæði með allt að 20 lóðum.  Slík vinna tekur nokkur ár, fyrst skipulagið, síðan undirbúningur lóðanna sjálfra og þá þarf að leggja lagnir, götur og annað sem tilheyrir.  Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt. Helst er rætt um tvö svæði, annars vegar að að stækka Leirusvæðiðí og hinsvegar að byggja á svæðinu þar sem hún Gamlabúð stóð.  Bæði svæðin hafa sína kosti og galla.

Af heilbrigðismálum

Samningur um rekstur heilbrigðisþjónustu á Höfn

Undanfarin ár hefur sveitarfélagið verið með þjónustusamning við ríkið um rekstur heilsugæslustöðvar, sjúkrarýma og sjúkraflutninga sem hefur verið endurnýjaður reglulega. Greiðslur í samræmi við samninga hafa verið með milligöngu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) á Selfossi, sem heilbrigðisstofunin hér á Höfn hefur tilheyrt síðan árið 2014. Núverandi samningur rann út síðastliðin áramót og hófust samningaviðræður á seinasta ári. Á haustmánuðum var það hins vegar endanlega ljóst að  Heilbrigðisráðuneytið hyggðist ekki endurnýja samning við sveitarfélagið í sömu mynd og verið hefur. Síðan fyrir áramót hafa verið viðræður við HSU um þjónustusamning um rekstur heilsugæslustöðvar, sjúkrarýma og sjúkraflutninga og hafa þær viðræður gengið ágætlega. Áætlað er að rekstur verði skv. nýjum samningi frá og með 1. apríl næstkomandi og er eldri samningur í gildi þangað til. Undanfarna áratugi hefur mikil samþætting  verið á heilbrigðisstofnuninni og er lagt upp með að hún nýtist áfram þótt nýtt rekstrarfyrirkomulag verði á stofnuninni. Og vonandi verða þjónustuþegar stofnunarinnar ekki varir við breytingar nema til þess betra.

Nýtt hjúkrunarheimili

Í byrjun seinasta árs var auglýst samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis að Víkurbraut 29. Skemmst er frá því að segja að Basalt arkitektar urðu hlutskarpastir í samkeppninni og hófst hönnun hjúkrunarheimilisins s.l. haust. Nú styttist óðum í að framkvæmd við byggingu nýs hjúkrunarheimilis verði boðin út en unnið er að gerð útboðsgagna þessa dagana. Vonandi sjáum við fyrstu skóflustungu fyrir byggingunni áður en nýr vetur gengur í garð síðar á árinu. Einnig verður stærsti hluti núverandi hjúkrunarheimilis endurinnréttaður. Öll hjúkrunarrými heimilisins verða einbýli og einnig verða í byggingunni ýmis stoðrými eins og líkhús, kapella, rými fyrir sjúkraþjálfun og fleira. Ljóst er að ný og endurbætt bygging verður bylting fyrir íbúa og starfsmenn hjúkrunarheimilisins ásamt því að aðstandendur koma til með að njóta góðs af nýrri aðstöðu.

Heimahjúkrun og heimaþjónusta við aldraða

Í febrúar á seinasta ári var skipaður starfshópur um samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Hluti afraksturs þessa hóps hefur komið til framkvæmdar og vert er að segja frá því að frá desember s.l. hefur starfsfólk dvalarheimilisins Mjallhvítar sinnt kvöld og helgarþjónustu eldri borgara á Ekru svæði að því gefnu að þjónustunotandinn sé með samþykkta umsókn og færnimat frá heimahjúkrun HSU Hornafirði. Stefnt er að því að útvíkka þessa þjónustu enn frekar með frekari samþættingu.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, formaður heilbrigðis- og öldrunarnefndar.

Innviðir og náttúruhamfarir

Það er hægt að segja að veðrið hafi ekki leikið við okkur að undanförnu.  Á suðausturhorninu hafa samt ekki átt sér stað jafn alvarlegir atburðir og annar staðar þó þurft hafi að loka vegum og samgöngur farið úr skorðum.  Það var mörgum mjög sterk áminning um styrk náttúruaflanna að frétta af snjóflóðinu á Flateyri fyrir skömmu.  Það rifjaði upp erfiðar minningar þjóðarinnar þegar stórt snjófljóð féll á sama stað árið 1995 þar sem 20 létust.  Flóðið í janúar sýndi að mikilvægt er fyrir okkur að styrkja innviði landsins eins og gert var með varnargörðum á Flateyri.  Ritað var á einhverjum miðli að hvergi hafi fallið jafnstórt snjóflóð á mannvirki og á Flateyri á þessu ári.

Náttúran er síkvik

Öræfajökull hefur minnt á sig á liðnum árum.  Fjallið hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma með miklum afleiðingum.  Undir fjallinu hvílir merkileg byggð sem að á síðustu árum hefur verið að eflast og styrkjast.  Á sumrin eru þarna þúsundir manna á hverjum degi og vetrarumferð mikil.  Þetta er allt áminning um að viðbragðsáætlun í tengslum við Öræfajökulsgos er mikilvægt verkefni og æfingar tengdar þeirri áætlun. 

Innviðir

Veðrátta eins og hefur verið undanfarna mánuði hefur kallað á skoðun á öllum innviðum sem við reiðum okkur á. Þar eru ýmsar áskornanir sem takast þarf á við sem tengjast t.d. raforkuöryggi og fjarskiptum. Við þurfum að byggja áfram upp varnir gegn snjóflóðum en líka að styrkja varnir gegn annarri vá s.s. vatnaágangi, sjógangi, efla vöktun á eldfjöllum og  hættu á berghlaupum.  Við erfiðar aðstæður eru það heilbrigðisstarfsmenn, viðbragðsaðilar og sjálfboðaliðar björgunarsveitanna sem við reiðum okkur á.  Þegar veðrinu slotar ættum við að muna eftir þessu fólki, þó ekki væri nema með öðru en að þakka þeim fyrir – en helst með hærri fjárframlögum þannig að þau geti eflt sig og styrkt.

Ásgerður Gylfadóttir

Niðurrif og uppbygging

Á fundi sínum þann 28. janúar sl. tók bæjarráð fyrir tvö athyglisverð mál. Annað er varðar könnun á kostnaði þess að rífa hið svokallaða Graðaloft og annað enn þarfara mál sem varðar ráðstöfun þeirra 40 m.kr. sem bæjarstjórn ánafnaði í uppbyggingu Miklagarðs. 

Graðaloftið

Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að rífa þurfi húsið.  Spurning er hvað gera skuli í framhaldinu en deiliskipulag segir til að reisa megi samskonar hús á lóðinni. Hlutverk þess hefur hins vegar ekki verið skilgreint.  Það getur hýst margvíslega starfsemi en mætti ekki skoða að heimila þarna byggingu íbúða?  Eflaust eru margir sem vilja búa við höfnina og í nálægð við alla þá þjónustu sem þarna er að finna. 

Mikligarður

Þetta er eitt af lykilmannvirkjum í sögu Hafnar og auk þess sérstakt á margan hátt.  Sveitarfélagið hefur þegar tekið skref í átt að varðveiðslu þess með endurbótum að hliðinni sem snýr að höfninni.  Bæjarráð samþykkti á ofangreindum fundi að „hefja vinnu við þakviðgerðir og klára endurnýja klæðningu, hurðir, glugga og burðagrind á langhlið norður“.  Þetta er gott skref.  Bæjarráð ræða betur notkun áður en brunakerfi verið komið fyrir í húsinu.  Á endanum mun þetta hús verða mikill sómi fyrir staðinn.  Spurning sem óneitanlega vaknar er hvort og hversu lengi sveitarfélagið eigi að halda utan um rekstur og eignarhald á húsinu.  Þegar það verður komið í ásættanlegt horf gæti verið skynsamlegt að kanna kosti þess að selja það að hluta eða í heild.  Dæmin sanna af Heppunni sjálfri að einstaklingar geti vel tekið við svona kefli af sveitarfélaginu, klárað endurbætur og sett á fót öflugan rekstur.

Safnamál

Mikligarður er einstakt hús eins og innan veggja þess mætti gera sögu héraðsins skil með sýningu sem margir hafa saknað.  Ekki er víst að taka þurfi allt húsið undir slíkt en með þessu væru tvær vænar flugur slegnar í einu höggi.

Ferðaþjónusta og aðalskipulag

Ferðaþjónustukafli aðalskipulagsins fyrir Hornafjörð hefur verið í endurskoðun síðan um mitt ár 2017 þegar þáverandi bæjarstjórn ákvað að þörf væri heildarendurskoðun á þessum kafli.  Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í kjölfar aukningar á ferðamönnum í okkar ágæta sveitarfélagi. Einnig hafa leikreglur breyst á þessum árum. Svokölluð heimagisting var þrengd með 90 daga reglunni en síðar var sveitarfélögum heimilt að leyfa rekstur svokallaðra minni gistiheimila í íbúðarbyggð, með skilyrðum en án þess að breyta þurfi aðalskipulagi.

Vettvangur dagsins – Þjóðgarður

Margt er rætt og ritað um þjóðgarðsmál þessi misserin.  Tvö frumvörp voru tekin fyrir á fundi bæjaráðs í vikunni, annars vegar um þjóðgarðastofnun og hins vegar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Þjóðgarðastofnun er ætlað að annast umsjón, stjórn og rekstur þjóðgarða og náttúruverndasvæða á Íslandi.  Núna eru ýmsar stofnanir sem sinna þessum málum, eins og Vatnajökulsþjóðgarður, og Umhverfisstofnun.  Hálendisþjóðgarður má segja að sé stækkaður Vatnajökulsþjóðgarður sem fær þá nýtt nafn.  Í báðum þessum frumvörpum er gengið út frá stjórnkerfi Vatnajökulsþjóðgarðs um beina aðkomu sveitarstjórna ásamt hagsmunaaðilum.

Gleðilegt nýtt ár og velkomin á Leiðarhöfða!

Um leið og við óskum íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegs árs og þökkum fyrir hið liðna viljum við kynna nýja vefsíðu sem við höfum sett á laggirnar.  Leiðarhöfði er vefsíða sem Framsóknarfélag Austur Skaftafellinga og bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði standa að.   Hér mun vera vettvangur fyrir fréttir af starfi félagsins, bæjarfulltrúanna og nefndarmanna –  auk þess hvað er á döfinni og /eða í undirbúningi.  Það er okkar markmið að með þessu fái íbúar betri möguleika á að fylgjast með störfum okkar og koma athugasemdum og ábendingum til okkar.