Endurbætur á Hafnarbraut

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar var Hafnarbrautin til umræðu eða öllu heldur útendi hennar, þ.e.s. frá Ráðhúsi og að gatnamótunum við hafnarvogina. Eins og við verðum öll vör við er þessi hluti göturnnar varla fær fuglinum fljúgandi hvað þá gangandi og akandi umferð. Það hefur verið unnið að endurhönnun götunnar  nú í talsverðan tíma.  Fyrst þurfti að mæla götuna upp og síðan ákveða gróft útlit þ.e. hversu breið gatan ætti að vera eða gæti verið og þá gangstéttir einnig.

Bókun Umhverfis- og skipulagsnefndar varðandi málið:

Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til að í samræmi við umræður á fundinum og þær upplýsingar sem nú liggja fyrir verði hönnunin unnin með þversnið 4 í samræmi við markmið um að lækka umferðarhraða og auka öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu og hvetja til hjólreiða. Lagt verði upp með að gatan verði einhalla og að útlit verð samræmt eins og kostur er við núverandi götumynd og þann hluta Hafnarbrautar sem þegar hefur verið endurbættur.

Þetta er sú útfærsla sem varð fyrir valinu (þversnið 4)

Eins og sést á myndinni höfum við úr um 12,5m að spila og komu fram nokkrar hugmyndir um hvernig þeim væri best varið fyrir umferð gangandi, hjólandi og akandi umferð. Leituðust nefndarmenn við að hafa umferðaröryggi og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Fyrst voru menn á því að þessi útfærsla væri sú besta.

En eftir talsverðar vangaveltur og góðan rökstuðning samþykktu nefndarmenn að þetta væri ekki góður kostur þar sem allar breiddir eru í lámarki og það væri mikill kostnaður fólgin í því að skilja hjólaleiðina frá akreininni ef vel ætti að vera. Einnig er þessi leið óhentug þar sem við hefðum þurft að vera með götuna tvíhallandi og því hefði líka fylgt talsverður aukakostnaður. Ef við hefðum látið dug að mála hjólareinina frá akreininni sem vissulega er sjónarmið þá hafa allar rannsóknir sýnt að bílstjórar fá það á tilfinninguna þegar engin hjólamaður er sjáanlegur að gatan sé breið og bíður það þá upp á hraðakstur.

Með þversiði 4 (efri mynd) þá er leitast við að fara bil beggja og einnig að hafa fyrri lagfæringar sem farið hafa fram á Hafnarbrautinni til hliðsjónar.   

Næstu skref

Nú bíður nefndin eftir hugmyndum að endanlegu útliti og þeim möguleikum af yfirborði sem til greina koma (malbik, steypa eða hellur). Einnig eigum við von á kostnaðartölum, þó vissuleg kostnaðurinn skipti máli þá held ég að Hornfirðingar vilji hafa aðalgötuna fallega, snyrtilega og hlýlega. Götu sem tekur vel á móti gestum. Á næsta fundi getum við vonandi ákveðið það sem uppá vantar svo hægt verði að útbúa útboðsgögn. Þá á eftir að ákveða endanlega staðsetningu gangbrauta. Síðan en ekki síst eru það gatnamótin sem tengja götuna við hafnarsvæðið. Þar er mikil umferð bæði af bílum og gangandi vegfarendum, þar er mikilvægt að vel takist til.

Það er stefna okkar að bjóða framkvæmdina út í lok sumars og að henni verði lokið næsta vor þegar ferðamenn fara að streyma til okkar á nýjan leik.

Ásgrímur Ingólfsson

Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar

Íþróttalíf á fullri ferð

Nú mega börn æfa íþróttir eins og áður var. Þrátt fyrir hömlur síðustu vikur mega Íslendingar teljast heppnir samanborið við margar aðrar þjóðir sem búið hafa við strangt útgöngubann. Þannig hafa börn víða ekki mátt leika sér úti, hvað þá að safnast saman og stunda íþróttir.

Mótum og leikjum í íþróttum sem keppt er yfir vetrarmánuðina hefur að mestu leiti verið blásið af. KSÍ birti nýlega leikjaniðurröðun fyrir leiki yngri- og meistaraflokka. Leikirnir í sumar verða fleiri en 100 í öllum flokkum og þá eru ekki meðtalinn mót eins og Reycup, mótin í Eyjum og á Akureyri. Leikið verður út október til að klára öll mót. Sindramenn verða því á ferð og flugi á næstu mánuðum.

Samningur við Sindra

Sveitarfélagið styður við íþróttalíf á virkan hátt. Gengið var frá nýjum samningi á síðasta ári. Sveitarfélagið styður sérstaklega við rekstur skrifstofu Sindra, en veitir bæði peningum í yngri flokka félagsins sérstaklega, sem og afreksstarf. Þá fær Sindri framlög til að halda úti íþrótta- og tómstundaskóla og standa að 17. júní hátíð á Höfn.

Meginmarkmið samningsins er:

  • að bjóða upp á fjölbreytt starf þannig að sem flestir fái tækifæri til þátttöku í samræmi við áhuga, vilja  og getu, óháð efnahag, búsetu, kyni, kynþætti eða að öðru leiti.  
  • að auka gæði og fjölga þátttakendum í hreyfingu og almennri heilsueflingu.
  • að vinna markvisst að jafnrétti m.a. með því að tryggja iðkendum af öllum kynjum  jöfn tækifæri til að stunda íþróttir 
  • að ná árangri í forvörnum varðandi notkun tóbaks og vímuefna, einelti og brottfalli úr íþróttum.

Auk þess veitir sveitarfélagið stuðning í formi íþrótta- og tómstundastyrks. Upphæðin er 50.000 á hvert barn sem nýta fyrir íþrótta-, lista- og/eða aðra
tómstundastarfsemi sem samþykkt hefur verið af sveitarfélaginu.

Góð aðstaða sem má bæta

Almennt má segja að aðstaðan til iðkunar sé góð. Íþróttavellir, bæði keppnis- og æfingavellir fyrir fótbolta og frjálsar íþróttir eru til fyrirmyndar. Þá er Báran frábært æfingahúsnæði sem nýta má í leiki fyrir yngstu flokkana. Sama má segja um sundlaugina sem er afar góð fyrir almenning sem og íþróttafólk. íþróttahúsið er hins vegar komið til ára sinna og getur ekki til lengri tíma þjónað þeim krafti sem er í starfsemi körfuboltans og blakið er einnig vaxandi.

Nýtt íþróttahús hýtur því að vera næsta stóra framkvæmd á vegum sveitarfélagsins.

Hjalti Þór Vignisson

Atvinnumál

Kórónufaraldurinn hefur sett atvinnulífið í uppnám en sveitarfélagið er fjárhagslega sterkt og vel í stakk búið til að ráðast í miklar framkvæmdir til að örva atvinnu í héraðinu.  Munum líka að þetta er tímabundið ástand.  Svæðið hefur mikla sérstöðu og verður áfram sterkur segull fyrir ferðamenn þegar fram líða stundir.

Það eru þrátt fyrir allt talsverð umsvif í samfélaginu. Ekki ber á öðru en að verkefni séu góð hjá iðnaðarmönnum.  Einstaklingar byggja hús sem aldrei fyrr og í smíðum eru brýr í Suðursveit sem heimaverktakar koma að. 

Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins.

Í ár er gert ráð fyrir að sveitarfélagið framkvæmi fyrir nálægt 800 miljónir og litlu minna árið 2021. Á fjögura ára tímabili verða framkvæmdir meira en 2 miljarðar króna.  Fjárhagurinn leyfir þessar framkvæmdir.  Árið 2019 skilaði sveitarfélagið 468 miljón króna hagnaði og skuldirnar eru litlar.

Helstu framkvæmdir í ár eru upphaf á byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem ljúka á árið 2022, breyta á húsnæði gamla Krakkakots fyrir málefni fatlaðs fólks, Mikilgarður fær 40 miljónir og síðan 20 miljónir á hverju ári til 2023 og endurbætur á Vöruhúsi halda áfram.  Þá verður fjármagn lagt til endurbóta á Sindrabæ sem halda áfram næstu 2 árin.  Hafist verður handa við endurbætur á Hafnarbraut sem lýkur á næsta ári. 

Sjávarútvegurinn burðarás

Loðnubrestur annað árið í röð hjálpar ekki til í stöðunni og humarkvóti hefur dregist mikið saman. Þrátt fyrir það stendur sjávarútvegur sterkt á staðnum.  Fjárfestingar í nýjum skipum og vinnslulínum gera það kleift að hægt er að sækja á fjölbreytta markaði um allan heim.  Þrátt fyrir að veitingahús séu víðast hvar lokuð í heiminum er mikið verslað í stórkmörkuðum. Með fjölbreyttri vinnslu er hægt að bregðast við slíkum sveiflum.

Öll él birta upp um síðir

Ríki og sveitarfélög þurfa að gera það sem í þeirra valdi stendur til að verja störf og afkomu heimila og fyrirtækja.  Nú þegar hefur ríkið sett fram aðgerðapakka og von er á fleirum.  Öll él birta upp um síðir en mikilvægast nú er að hlúa að þeim sem minnst mega sín í þessu ástandi.

Kristján S. Guðnason, formaður atvinnu- og menningarmálanefndar

Gleðilegt sumar!

Vorið er komið og grundirnar gróa eins og segir í ágætu ljóði eftir Jón Thoroddsen. Að margra mati þá er þetta skemmtilegasti árstíminn allt er að vakna, farfuglarnir mættir og leika við hvern sinn fingur. Við sjáum grasið grænka sumir meira að segja telja sig heyra það grænka og grámygla vetrarins er að baki. Við mannfólkið verðum léttari í sinni, börnin rífa sig úr peysum þó eingöngu sé 8 gráðu hiti en sólin vermir bætir og kætir.

Þegar þetta er skrifað að morgni sumardagsins fyrsta þá lítur út fyrir einn blíðviðrisdaginn í viðbót, en veðrið hefur verið með miklum ágætum undanfarna daga hér á Hornafirði og það er ekki annað að sjá en að Hornfirðingar hafi verið duglegir að nota góða veðrið og sinna sínum görðum og nærumhverfi. Stofnanir og fyrirtæki hafa ekki látið sitt eftir liggja og í gær sá maður grunnskólabörn út um allar trissur að tína rusl vetrarins sem hafði náð haldi í limgerði eða lá í vegkanti.

Hreinsunarvika sveitarfélagsins stendur nú yfir og á laugardaginn er STÓRI PLOKKDAGURINN á Degi umhverfisins. Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu halda utanum daginn og hvetjum við alla til að taka þátt og leggja þessu góða og þarfa máli lið.

Fordæmalausir tímar

Nú gengur yfir okkur Íslendinga og alla heimsbyggðina veiru skratti sem ætlar að verða okkur dýrkeyptur í orðsins fyllstu merkingu. Fólk verður fárveikt, allavega sumir hverjir og því miður hafa nokkrir einstaklingar látist á Íslandi sem fengið hafa veiruna. Þessa vegna er mikilvægt að við höldum út, förum eftir tilmælum sótvarnarlæknis.

En heilsubrestur er ekki það eina sem fylgir pestinni heldur verða henni samhliða miklar efnahagsþrengingar eins og alþjóð er kunnugt. Það verður eitt af stóru verkefnum ríkis og sveitarfélaga næstu mánuði að styðja við fyrirtæki og íbúa í þessum þrengingum og reyna eftir bestu getu að stýra skútunni farsællega í land

Það er lán okkar Austur-Skaftfellinga að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við þessar þrengingar eins og ársreikningur fyrir árið 2019 sýnir. Nú eru komnir tæplega hundrað manns á atvinnuleysisskrá og margir í skertu starfshlutfalli svo það er fyrir séð að tekjur sveitafélagsins eru að dragast saman samhliða auknum útgjöldum. Það er eindreginn vilji bæjarstjórnar að gera allt sem er í hennar valdi til að styðja við og nota þær vinnufúsu hendur. Við munum hjálpa, bæta og gæta eins og við getum, við erum öll í þessu saman.

Þó svo það fari í hönd erfiðir tímar þá er það mín trú að þetta verði ekki vondir tímar. Það er ekki stríð eða hungursneið sem herjar á okkur Hornfirðinga. Við getum notað tímann til góðs. Þéttað raðirnar og undirbúið okkur til að taka á móti gestum sem hingað koma með enn meiri myndarskap. Við getum líka notað tímann með fjölskyldu og vinum þó auðvitað allt innan þeirra takmarka sem þríeykið setur okkur.

Við erum öll í þessu saman og auðvitað plokkum við öll á laugardaginn.

Gleðilegt sumar  

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Heitt vatn

Í öllu Covid fárinu er gaman að fylgjast með framgangi hitaveituframkvæmda í Hornafirði.  Í Austur- Skaftafellssýslu eru fáir staðir nærri byggð þar sem heitt vatn hefur fundist. Skaftafell, Hali og Hoffell koma upp í hugann í fljótu bragði.  Heitar lindir finnast inn til fjalla sem nýtast ekki í byggð.  Hitaveita í gegnum Nes og Höfn er framfaraskref til lengri tíma en til skamms tíma er þetta ekki búbót fyrir heimili og fyrirtæki.  Gjaldskrá við húshitun breytist ekki og margir húseigendur þurfa að leggja út fé til að skipta út rafmagnsofnum í vatnsofna.

Góðu fréttirnar eru að kostnaðurinn kemur til með að lækka.  Uppbygging kerfisins tekur sinn toll en þegar hann hefur verið greiddur niður þá kemur það heimilum til tekna.  Heitt vatn skapar líka möguleika til atvinnusköpunar.

Köld svæði fara hallloka

Árið 2012 flutti Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, athyglisverðan fyrirlestur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.  Hin nöturlega mynd sem hann dró þar fram var að fjögur svæði  á Íslandi hafa um langt árabil glímt við fólksfækkun: Snæfellsnes, Vestfirðir, Norðausturland og Suðausturland.  Öll eiga þau sameiginlegt að vera án jarðhita.

Margskonar atvinnustarfsemi þrífst á jarðhita og nærtækast er að vísa í ferðaþjónustu sem sprungið hefur upp við pottana í Hoffelli. 

Hitaveita í Hornafjörð

Það var því mikil gleðifregn þegar hitt var á heitavatnslind í Hoffelli sem dugir fyrir íbúa í Nesjum og á Höfn. Heitt vatn hefur alltaf hjálpað til við framþróun byggðar.   Það verður stór stund fyrir samfélagið þegar kveikt verður á dælunum sem flytja heitt jarðhitavatn í hús í Hornafirði.

Hjalti Þór Vignisson

Páskapistill frá formanni Framsóknarflokksins

Sigurður Ingi Jóhannsson

Við lifum nú tíma sem eru einstakir í sögu Íslands og heimsins og munu eflaust fá drjúgan kafla í sögunni. Við munum sem þjóð verða dæmd á því hvernig við bregðumst við heilbrigðisvánni en síður hvernig við náum viðspyrnu sem samfélag þegar kemur að almennum lífsgæðum. Við erum sterkt samfélag sem hefur á síðustu árum búið í haginn af skynsemi. Ríkissjóður stendur sterkur eftir að hafa greitt niður skuldir á sama tíma og miklum fjármunum hefur verið varið í uppbyggingu innviða. Heimili og fyrirtæki hafa sömuleiðis lækkað skuldir sínar verulega. Við stöndum því betur að vígi en margar nágrannaþjóðir okkar þegar kemur að áföllum.

Það er mikilvægt að missa ekki dampinn. Við í Framsókn höfðum mánuðina fyrir heimsfaraldurinn lagt mikla áherslu á aukna innspýtingu í hagkerfið okkar með sérstöku fjárfestingarátaki. Það er ljóst að slíkt átak verður að vera umfangsmeira, nú þegar við berjumst við efnahagsleg áhrif veirunnar.

Í þessum páskapistli í Leiðarhöfða vil ég því sérstaklega nefna þau verkefni sem framundan eru á svæðinu í kringum Höfn í Hornafirði. Fyrst vil ég nefna að frumvarp mitt um samvinnuleið í samgöngum er komið inn í nefnd á þingi og verður vonandi afgreitt ásamt nýrri samgönguáætlun á næstu vikum. Þegar það liggur fyrir er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða út nýja brú og veg yfir Hornafjarðarfljót en Vegagerðin hefur unnið hörðum höndum að undirbúningi. Framkvæmdir geta því vonandi hafist fljótlega og verkinu verið lokið fyrir árið 2023.

Samið hefur verið við Ístak um tvöföldun fjögurra brúa yfir Steiná, Fellsá, Kvíá og Brunná. Útrýming einbreiðra brúa er mikilvægur þáttur í þeim áherslum sem ég hef sett í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi. Einnig vil ég nefna að næstu skref við Grynnslin eru fjármögnuð og á áætlun, bæði framkvæmdir við sandfangarann sem og áframhaldandi rannsóknir.

Fyrir skemmstu setti ég af stað óformlegan hóp sem er ætlað að vinna með heimamönnum og Isavia við að finna sem hraðast skynsamlega leið til að opna á frekari lendingar einkaflugvéla á Hornafjarðarflugvelli. Aukinn kraftur verður settur í það samtal á næstu vikum.

Þau eru fjölmörg verkefnin sem fara af stað á næstu vikum og tengjast fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins. Markmið átaksins er að skapa störf um allt land við verkefni sem eru þjóðhagslega mikilvæg. Áætlunin miðar að því að störfin séu fjölbreytt en mikil áhersla er lögð á samgöngubætur enda erfitt að finna verkefni sem skapa jafnmörg störf og jafnmikil verðmæti fyrir samfélagið í bráð og lengd.

Næstu vikur verða okkur ekki auðveldar. Og ekki bætir úr skák að við getum ekki hitt vini, ættingja og samstarfsfólks vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu bölvaðrar veirunnar. Við verðum reglulega að minna okkur á að ástandið er tímabundið. Við megum ekki missa móðinn heldur vinna af krafti að því að takast á við sjúkdóminn sjálfan og ekki síður búa okkur undir það þegar hjólin fara að snúast á ný. Ég er þess fullviss að Ísland verður í öfundsverðri stöðu þegar við höfum náð tökum faraldrinum og munum líkt og eftir síðasta áfall ná hraðri viðspyrnu og standa sterkt sem eitt besta velferðarríki í heiminum.

Páskahátíðin er tákn um upprisu og von. Njótum þess að hugsa um og til okkar nánustu á meðan við nörtum í páskaeggin okkar. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson

formaður Framsóknarflokksins

Að halda gleðinni

Margt í okkar daglega lífi sem áður var sjálfsagt er ekki lengur til staðar.  Ekki er hægt að fara í sund eða líkamsrækt og skipulagt félags- og íþróttastarf hefur verið lagt niður timabundið.  Hjá mörgum er það því áskorun að finna leið til að bæta upp fyrir það sem skortir í hreyfingu og félagsskap. Alltaf má þó finna leiðir og mikilvægt er að vera jákvæður og leita lausna.

Hreyfing

Það skortir ekki hollráðin um hreyfingu og matarræði, oft og iðulega tengt við eftirsóknarverðan lífstíl.  Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir hreyfing og mataræði þó einkum máli til að halda í góða heilsu og góða geðheilsu.  Dagleg hreyfing þarf ekki að vera flóknari en góður göngutúr til að gefa góð áhrif.  Um síðustu helgi lék veðrið við okkur. Margir fóru í golf og þá var eftirtektarvert hvernig 2ja metra fjarlægðin var virt en samt naut fólk þess að hittast og heilsast.  

Hér eru margir staðir frábærir til útivistar sem ekki þarf að tíunda.  Stæsta og oft erfiðasta skrefið er oft að klæða sig í fatnað sem tilheyrir veðrinu og fara af stað.  Iðulega kemur maður heim hressari en þegar lagt var af stað.  Best er að láta veðrið ekki sigra andann og bara klæða sig við hæfi.  Það er gott að hafa í huga að mótlætið eflir.  Sama á við um hreyfingu, hressandi er að hafa mótvind eða brekku í andlitið.  Það er margt hægt að gera þrátt fyrir samkomubann, eins og að hjóla, ganga, spila golf, fara til fjalla, sippa, dansa eða eitthvað sem ekki krefst meiri nálægðar en tvo metra.

Félagsskapur

Netið kemur ekki í stað nándar.  Hins vegar hjálpar það mikið til í þessum undarlegu aðstæðum sem við lifum í dag. Dæmi eru um að kórar haldi æfingar yfir netið og það er aðdáunarvert.  Margir vinnustaðir vinna nú yfir netið í stað þess að vera undir saman þaki.  Ástvinir sem ekki mega hittast þessar vikurnar ná að sjá hvort annað í gegnum myndspjall á netinu, það kemur að hluta til móts við þörf okkar að hittast og við náum að skynja betur líðan þess sem við tölum við. Tæknin hefur létt okkur mörgum hverjum lífið á þessum tímum og margir farið á hraðnámskeið í tölvumálum sem mun nýtast okkur áfram í lífinu.

Maður er manns gaman og mikið verður gott að geta hitt og knúsað fjölskyldu og vini sem ekki má í dag – en þangað til. Hugsum vel um okkur sjálf og gleymum ekki gleðinni!

Ásgerður K. Gylfadóttir

Breytt samfélag

Það eru fáir á ferli og ferðamennirnir svo til horfnir.  Veitinga- og gististaðir hafa margir skellt í lás.  Auk þess hafa hárgreiðslustofur, smáverslanir og fleiri þjónustuaðilar þar sem mikil nánd er við viðskiptavini þurft að loka.  Samkvæmt spálíkani þá nær covidfaraldurinn ekki hámarki fyrr en í apríl og lífið kemst væntanlega ekki í sama horf fyrr en um mánaðarmót júní – júlí. 

Engum blöðum er um það að fletta að áhrif á efnahag fólks og fyrirtækja verða mikil.  Ríkisstjórnin hefur þegar stigið fram með markvissar aðgerðir og útilokar ekki að meira þurfi til.  Sveitastjórnir undir forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga eru einnig að skoða hvernig þær geta hjálpað til við að brúa bilið fyrir íbúa og fyrirtæki.

Aðgerðir bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur haldið vinnufundi til að leggja línur um aðgerðir sveitarfélagsins. Einurð og samstaða hefur einkennt starfið sem er mikilvægt á tímum sem þessum.  Dægurþrasið má bíða betri tíma.  Sterk staða sveitarfélagsins kemur sér mjög vel í þessum aðstæðum.  Fyrirhugaðar eru umtalsverðar framkvæmdir hjá sveitarfélaginu. Þar má sem dæmi telja endurbætur á Vöruhúsi, miklar breytingar á Víkurbraut 24 sem hýsa mun fjölskyldu- og félagsþjónustu sveitarfélagsins, breytingar á Hrolllaugsstöðum þar sem útbúnar verða leiguíbúðir auk hitaveituframkvæmda á hluta leiguíbúða í eigu sveitarfélagsins á Höfn o.s.frv.  

Atvinnulífið

Það hefur verið tekin ákvörðun um að fresta a.m.k. tveimur gjalddögum fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði hjá þeim fyrirtækjum sem verða fyrir miklum búsifjum vegna veirunnar. Augljóst er að faraldaurinn kemur mjög hart niður á ferðaþjónustufyrirtækjum.  Bæjarráð hefur hvatt til þess að atvinnurekendur reyni eftir fremsta megni að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og nýti sér aðgerðir stjórnvalda, bankanna og annarra sem eru að koma til móts við atvinnulífið með hinum ýmsu aðgerðum. Hugað er að atvinnuskapandi verkefnum sem sveitarfélagið getur farið í til að draga úr atvinnuleysi ef til langvarandi erfiðleika kemur og annarra verkefna sem hægt er að setja af stað fyrir þann hóp.

Þá hefur bæjarstjórn rætt um hvort ekki væri skynsamlegt að ráðstafa umtalsverðum fjármunum í gerð kynningarmyndbands, sérstaklega um áfangastaðinn Ríki Vatnajökuls.  Þetta myndband gæti verið gott til dreifingar þegar stjórnvöld boða markvissa kynningarherferð fyrir landið í heild.

Þjónusta sveitarfélagsins

Tekin var ákvörðun í bæjarráði sl. þriðjudag um að fella niður gjöld í leikskóla og Kátakoti hjá þeim sem hafa aðstæður til að taka börn sín úr vistun á meðan faraldurinn er að ganga yfir. Unnið er að útfærslu verkefnisins. Starfsmenn í öllum stofnunum sveitarfélagsins hafa unnið mikla og góða vinnu í að aðlaga og breyta starfseminni. Koma upp með og finna leiðir til að takast á við fordæmalausar aðstæður, en halda samt starfsemi gangandi eins og hægt er þrátt fyrir að ekki sé tekið á móti þjónustuþegum í starfstöðvum eins og áður. Við viljum hrósa og þakka starfsmönnum kærlega fyrir þeirra góða starf .

Næstu skref

Bæjarstjórn, bæjarráð, stjórnendur og starfsmenn sveitarfélagisns fylgjast vel með þróun mála og áhrifum faraldursins á samfélagið. Endurskoða þarf fjárhagsáætlun sveitarfélagsins þ.m.t. framkvæmdaáætlun ársins og undirbúa það að vera tilbúin til að breyta og bæta inn verkefnum sem stutt geta enn frekar við samfélagið á þessum undarlega tíma.

Framtíðin er björt

Þetta er tímabundið ástand en afleiðingarnar gætu reynst mörgum þungar.  Ekki er víst að atvinnulífið og efnahagur fólks jafni sig fyrr en að nokkrum misserum loknum.  Við eigum þó góða innviði sem við getum áfram byggt á góða framtíð.  Nú sannast mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu.  Búskapur hér sem annars staðar hefur átt undir högg að sækja en vonandi gerir þetta ástand okkur öllum ljóst að við verðum að hlúa að innlendri framleiðslu.  Sjávarútvegurinn stendur einnig sterkum fótum þrátt fyrir ágjöf.   Okkar stórbrotna náttúra og þjóðgarðurinn eru  ekki að fara neitt og munu áfram laða til okkar gesti. 

Við skulum reyna eftir fremsta megni að standa saman í gegnum þessar þrengingar og hlúa áfram að okkar góða og heilbrigða samfélagi.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs
Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar
Björgvin Ó. Sigurjónsson, varaformaður bæjarráðs
Kristján S. Guðnason, formaður atvinnu- og menningamálanefndar

Höldum í hamingjuna

Í dag 20. mars er Alþjóðlegi hamingjudagurinn. Haldið er upp á Alþjóðlega hamingjudaginn að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Markmið dagsins er að vekja athygli á hamingju sem mikilvægu markmiði einstaklinga og stjórnvalda til að skapa heilbrigt og gott samfélag. 

Undarfarnar vikur og ekki síst sú sem er að líða hafa verið nokkuð undarlegar og fært okkur verkefni sem ekki eru fordæmi fyrir. Segja má að hver einasti einstaklingur þurfi að aðlaga líf sitt að nýjum venjum t.d. í formi sóttvarna og endurskipuleggja daglegt líf.

Stöndum saman í farsóttinni

Það er magnað hvernig samfélagið hefur brugðist við og allir lagt sín lóð á vogarskálarnar til að aðlaga sig og sína starfsemi að ástandinu. Ég vil sérstaklega þakka stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélagsins í leik- og grunnskólum sem hafa endurskipulagt starf barna og ungmenna af mikilli röggsemi. Í dag erum við að klára fyrstu vikuna í skertu skólahaldi og hefur hún gengið vel. Takk börn og foreldarar fyrir ykkar stóra þátt í því að þetta gengur upp. Á hverjum degi þarf að endurmeta stöðuna og skoða hvað við getum gert betur.

Við kjörnir fulltrúar og stjórnsýslan vinnum í því að finna leiðir til þess að veita viðspyrnu við þeim samfélagslegu áhrifum sem Covid-19 faraldurinn mun hafa á atvinnulíf og einstaklinga í samfélaginu. Á vettvangi sambands íslenskra sveitarfélaga hafa komið fram tillögur og verið óskað eftir lagabreytingum á vegum ríkisins til þess að sveitarfélög geti brugðist við og því hefur verið vel tekið. Einnig fylgjumst við með þeim frumvörpum sem unnið er að til þess að létta fyrirtækjum  og samfélaginu öllu róðurinn í gegnum þennan storm sem við erum með í fangið.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Þá vil ég vekja athygli á því að á 271. fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar í gær var ákveðið að sækja um aðild að verkefni félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF um barnvænt sveitarfélag. Verkefnið felst í því að sveitarfélagið innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF hefur þróað. Hér er eitt risastórk skref í að gera samfélagið okkar enn betra en það er í dag.

Til baka að Alþjóðlega hamingjudeginum og getur hamingja falist í þeim aðstæðum sem við búum við í dag? Mín niðurstaða er, já svo sannarlega.

Ég er hamingjumsöm að búa í samfélagi það sem allir leggjast á eitt til að gera líf hvors annars betra og öruggara. Það hvetur mig til að gera mitt besta og leggja mín lóð á vogarskálarnar fyrir aðra til jafns við mitt fólk. – Njótið dagsins!

Ásgerður K. Gylfadóttir

Við viljum heyra í ykkur um seinkun skólabyrjunar og framtíðarhúsnæði Grunnskólans

Flest höfum við skoðun á skólakerfinu, sem er eðlilegt því við höfum reynslu af því sjálf og tengjumst því með einum eða öðrum hætti í gegnum börnin okkar eða barnabörn. Börnin eru það dýrmætasta sem við eigum og öll viljum við að þeim líði vel, séu hamingjusöm og framtíð þeirra björt og farsæl.

Skólagangan er stór hluti af lífi okkar, mislöng, en flest klárum við grunnskólanámið sem er 10 ár. Það er langur tími á miklum mótunarárum í lífi barna og ungmenna, og því er gríðarlega mikilvægt að öllum líði sem best og að við sköpum börnum okkar bestu aðstæður sem við mögulega getum hverju sinni.


Seinkun skólastarfs

Undanfarin ár hafa reglulega skapast umræður um seinkun skólabyrjunar, og þá aðallega í tengslum við mikilvægi svefns fyrir ungmennin okkar. Umræður um svefn hafa sjaldan verið meiri í kjölfar rannsókna sem sýna að það hjálpar unga fólkinu okkar að hefja skóladaginn seinna, sjá ítarlegri upplýsingar í fréttabréfi á heimasíðu Grunnskólans hér. Það er því eðlilegt að umræðan skjótist upp aftur í samfélaginu okkar og ekkert nema sjálfsagt að skoða þessi mál í samvinnu við skólasamfélagið allt.

Að seinka skólabyrjun til kl. 9 hentar líklega mörgum, en alls ekki öllum. Ef af verður hentar það eflaust sérstaklega vel þeim nemendum sem búa í dreifbýlinu og þurfa að vakna fyrir allar aldir til þess að fara í skólabílinn, en ekki endilega öllum. Eldri nemendur sem eru árrisulir geta mætt kl. 8 og stundað heimanám fram að skólabyrjun, eða nýtt tækifærið og farið í líkamsrækt sem annars hefði beðið þar til seinnipart dags. Þeir nemendur sem eiga ekki annarra kosta völ en að mæta kl. 8 munu geta gert það áfram því skólinn mun opna á sama tíma, þó formlegt nám hefjist ekki fyrr en seinna. Síðan eru það tómstundirnar sem börnin okkar stunda. Lengist þá dagurinn hjá þeim sem stunda íþróttir þar sem skólanum lýkur síðar? Það er mikilvægt að samtal og gott samstarf eigi sér stað við íþróttahreyfinguna. Ég veit að umræða hefur farið fram um endurskipulag og aukið samstarf milli þessara aðila til þess að koma í veg fyrir að börnin okkar verði langt fram eftir kvöldi á æfingum. Það er því eitt og annað sem þarf að skoða vel ef vilji samfélagsins er að byrja seinna á morgnana, en ekkert sem ekki er hægt að leysa með góðu samstarfi.

Húsnæðismál GH til framtíðar

Tímabært er að taka ákvörðun um hvaða stefna er tekin varðandi framtíðarhúsnæði Grunnskólans. Það er eitt og annað sem þarf að huga að, laga, breyta, stækka o.s.frv. Húsnæði Kátakots er óviðunandi, bæði stærð og ástand. Grunnskólann vantar samkomusal og stærri matsal, sumar kennslustofur í Hafnarskóla sérstaklega henta illa þeim bekkjarstærðum sem eru núna og við sjáum fram á að verði næstu árin. Við viljum að sjálfsögðu líta björtum augum á framtíðina og reikna með fjölgun íbúa ekki fækkun. Þá þarf að skoða vel og taka ákvörðun um framtíðarhúsnæði Grunnskólans. Hvar viljum við eiga þess kost að stækka við skólann? Hvar sjáum við fyrir okkur matsal, samkomusal, lengda viðveru o.s.frv.? Er ein bygging málið, eða áfram tvær?

Það eru margir punktar sem þarf að skoða og ræða við skólasamfélagið allt, áður en ákvarðanir verða teknar. Því hvet ég sérstaklega alla foreldra og forráðamenn grunn- og leikskólabarna að mæta á opinn fund í Nýheimum fimmtudaginn 19. mars kl. 16:30.

Íris Heiður Jóhannsdóttir
Formaður fræðslu- og tómstundanefndar