Endurbætur á Hafnarbraut
Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar var Hafnarbrautin til umræðu eða öllu heldur útendi hennar, þ.e.s. frá Ráðhúsi og að gatnamótunum við hafnarvogina. Eins og við verðum öll vör við er þessi hluti göturnnar varla fær fuglinum fljúgandi hvað þá gangandi og akandi umferð. Það hefur verið unnið að endurhönnun götunnar nú í talsverðan tíma. Fyrst þurfti að mæla götuna upp og síðan ákveða gróft útlit þ.e. hversu breið gatan ætti að vera eða gæti verið og þá gangstéttir einnig.
Bókun Umhverfis- og skipulagsnefndar varðandi málið:
Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til að í samræmi við umræður á fundinum og þær upplýsingar sem nú liggja fyrir verði hönnunin unnin með þversnið 4 í samræmi við markmið um að lækka umferðarhraða og auka öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu og hvetja til hjólreiða. Lagt verði upp með að gatan verði einhalla og að útlit verð samræmt eins og kostur er við núverandi götumynd og þann hluta Hafnarbrautar sem þegar hefur verið endurbættur.
Þetta er sú útfærsla sem varð fyrir valinu (þversnið 4)
Eins og sést á myndinni höfum við úr um 12,5m að spila og komu fram nokkrar hugmyndir um hvernig þeim væri best varið fyrir umferð gangandi, hjólandi og akandi umferð. Leituðust nefndarmenn við að hafa umferðaröryggi og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Fyrst voru menn á því að þessi útfærsla væri sú besta.
En eftir talsverðar vangaveltur og góðan rökstuðning samþykktu nefndarmenn að þetta væri ekki góður kostur þar sem allar breiddir eru í lámarki og það væri mikill kostnaður fólgin í því að skilja hjólaleiðina frá akreininni ef vel ætti að vera. Einnig er þessi leið óhentug þar sem við hefðum þurft að vera með götuna tvíhallandi og því hefði líka fylgt talsverður aukakostnaður. Ef við hefðum látið dug að mála hjólareinina frá akreininni sem vissulega er sjónarmið þá hafa allar rannsóknir sýnt að bílstjórar fá það á tilfinninguna þegar engin hjólamaður er sjáanlegur að gatan sé breið og bíður það þá upp á hraðakstur.
Með þversiði 4 (efri mynd) þá er leitast við að fara bil beggja og einnig að hafa fyrri lagfæringar sem farið hafa fram á Hafnarbrautinni til hliðsjónar.
Næstu skref
Nú bíður nefndin eftir hugmyndum að endanlegu útliti og þeim möguleikum af yfirborði sem til greina koma (malbik, steypa eða hellur). Einnig eigum við von á kostnaðartölum, þó vissuleg kostnaðurinn skipti máli þá held ég að Hornfirðingar vilji hafa aðalgötuna fallega, snyrtilega og hlýlega. Götu sem tekur vel á móti gestum. Á næsta fundi getum við vonandi ákveðið það sem uppá vantar svo hægt verði að útbúa útboðsgögn. Þá á eftir að ákveða endanlega staðsetningu gangbrauta. Síðan en ekki síst eru það gatnamótin sem tengja götuna við hafnarsvæðið. Þar er mikil umferð bæði af bílum og gangandi vegfarendum, þar er mikilvægt að vel takist til.
Það er stefna okkar að bjóða framkvæmdina út í lok sumars og að henni verði lokið næsta vor þegar ferðamenn fara að streyma til okkar á nýjan leik.
Ásgrímur Ingólfsson
Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar