Framkvæmdir við höfnina

Framkvæmdir á vegum hafnarinnar í sumar eru þær helstar að nú er unnið að gerð sandfangara, þ.e. grjótgarðs, frá Suðurfjörum útí Einholtskletta og er áætlað að verkinu ljúki fyrir septemberlok á þessu ári.  Garðurinn verður um tvö hundruð metrar á lengd fullbúinn og hlutverk hans verður að hefta sandburð austur með fjörunni inná Grynnslin utan Hornafjarðaróss og auðvelda þar með siglingu stærri skipa um Ósinn.  Þessi framkvæmd er unnin í samvinnu við samgönguyfirvöld og er undir eftirliti starfsmanna Vegagerðarinnar. Framkvæmdin er afrakstur rannsókna sem farið hafa fram á undanförnum árum á svæðinu utan Hornafjarðaróss. 

Regluleg dýpkun

Dýpkun hafnarinnar er fastur liður í starseminni og fer fram á tveggja ára fresti. Dýpkunin í sumar, sem nú er lokið, var sú síðasta samkvæmt samningi við Dýpkunarfélagið Trölla ehf. og liggur fyrir að verkefnið verður boðið út að nýju á næstu mánuðum. Í hvert sinn er dælt um 50.000 m3 af fínu efni úr höfninni samkvæmt mælingum sem gerðar eru reglulega af starfsmönnum hafnarinnar og Vegagerðarinnar eftir atvikum.

Reynir Arnarson
Formaður hafnarstjórnar

Sumarið 2020

Þetta ár verður sjálfsagt lengi í minnum haft. Það hefur án efa verið erfitt fyrir marga en sem betur fer birta öll él upp um síðir og vonandi verður allt komið nær því sem við viljum sjá í haust. Þó svo að það vanti mikið upp á þann fjölda erlendra gesta sem við hefðum viljað sjá þá hefur nú samt verið gestkvæmt og það hefur verið gaman að sjá hvað landinn hefur verið duglegur að leggja land undir fót og skoða fallega landið okkar. Við Hornfirðingar höfum ekki farið varhluta af þessari ferðagleði og gaman hefur verið að hjóla um bæinn og sjá hvað mikið er að gera á veitingarstöðum og gistihúsum. Tjaldstæðið hefur verið fullt dag eftir dag og golfvöllurinn hefur verið þétt skipaður.

Dreifbýlið

Heyskapur hefur gengið vel og heyrist mér að menn séu almennt að fá mikil og góð hey. Maður gæti ímyndað sér að fé komi líka vænt að fjalli þegar sprettutíðin hefur verið svona góð, en hér verð ég að viðurkenna fávísi mína. Það getur vel verið að vorið skipti meira máli en sprettan nú um mitt sumar en eitt veit ég, það er kostur að eiga mikið og gott hey í vetur.

Bryggjan  

Fiskirí hefur verið gloppótt. Uppsjávarveiðarnar hafa verið kaflaskiptar, þegar maður heldur að allt sé að fara á fullan snúning eftir að hafa fengið gott holl koma léleg holl í framhaldinu, manni er kippt niður á jörðina og nú eru uppsjávarskipin farin að sækja í smuguna. Humarveiðar hafa verið tregar kannski eins og menn reiknuðu með, því miður virðist sá stofn rétta rólega úr kútnum. Bolfiskbátarnir hafa verið að reka í ágætis afla en vissulega hafa verið rólegir dagar inn á milli. Þá sýnist mér að strandveiðar hafi gengið ágætlega, bæði hafa gæftir verið góðar og afli þokkalegur.

Sveitarfélagið, þú, ég og við öll

Það er nóg að gera hjá iðnaðar- og þjónustufólki og sveitarfélagið hefur leitast við að gera það sem það getur til að létta undir á þessum fordæmalausu tímum. Það réð inn ungt fólk til að vinna við verkefni sem setið hafa á hakanum, þörf verk en því miður hefur ekki alltaf verið tími til að sinna þeim. Nú eins og alltaf verða ríki og sveitarfélög að milda höggið af samdrætti í efnahagslífinu og setja framkvæmdir á stað ef þörf er á. Rétt tímasetning er mikilvæg, það er ekki gott ef það opinbera er að keppa um starfskrafta við almenna markaðinn en hinsvegar hefur þetta oft verið þröngur vegur að þræða því vissulega vilja menn láta eitthvað sjá eftir sig. Einn ágætur maður sagið einu sinni við mig að að stjórna væri létt verk þegar allt gengi sinn vana gang, það myndi fyrst reyna á stjórnunar hæfileikana þegar gæfi á bátinn.

Næsti vetur verður krefjandi fyrir ríki og sveitarfélög. Það hefur orðið talsvert tekjufall í ríkisbúskapnum og sveitarfélög hafa einnig flest fundið fyrir því og þá ekki síst sveitarfélög á Suðurlandi. En þó svo að á móti blási er ekkert svartnætti framundan, eins og fyrr segir birta öll él upp um síðir og við Austur-Skaftfellingar notum tíman til að laga og dytta að svo gestir okkar í framtíðinni njóti betur alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Og almennt held ég að:

Það bera sig allir vel   
þótt úti séu stormur og él, 
allt í góðu inni hjá mér,   
lífið gott sem betur fer.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar

Allir leggjast á árarnar

Eldri borgarar byggja minigolfvöll

Föstudaginn 10. júlí sl. var vígsluathöfn á nýjum minigolfvelli sem Félag eldri Hornfirðinga (FEH) á hugmyndina og heiðurinn af. En í maí 2019 kom erindi til bæjarráðs frá félaginu með ósk um styrk og stuðning sveitarfélagsins til að koma vellinum upp. Félagar FEH smíðuðu brautirnar en sveitarfélagið greiddi efniskostnað og uppsetningu þeirra. 

Sveitarfélagið varð við beiðninni, greiddi efniskostnað, undirbúning og uppsetningu en félagar FEH smíðuðu brautirnar. Enn fleiri fyrirtæki og einstaklingar aðstoðuðu með margvíslegum stuðningi við verkefnið. Komnar eru upp þrjár brautir af fimm og vil ég hvetja fólk til að vera duglegt að nýta þessa flottu minigolf aðstöðu og ganga vel um hana, jafnt unga sem aldna. 

Vinnuskólinn fegrar bæinn

Starfsmenn Vinnuskólans, unglingar og flokkstjórar hafa verið í hugmyndavinnu um ákveðin svæði í bænum auk þess að gera bæinn okkar hreinann og snyrtilegan. Það verður spennandi að sjá á næstu vikum hvernig þau vinna úr þeim hugmyndum. Hægt er að fylgjast með starfsemi þeirra á Facebook síðu Vinnuskóla Hornafjarðar en þar hafa komið skemmtilegar myndir fyrir og eftir yfirferð krakkanna um hin ýmsu svæði í bænum.

9 ára vilja endurbætur

Þá barst bæjarráði erindi frá tveim 9 ára drengjum í vikunni þar sem kom fram ósk um lagfæringar á malbiki og aðstöðu við hjólaramp á miðsvæðinu bak við Íþróttahúsið. Því erindi er að sjálfsögðu vel tekið og fer það til frekari vinnslu hjá umhverfis- og skipulagsnefndar sem vinnur að deiliskipulagi á svæðinu, einmitt með það m.a. að markmiði að gera miðsvæðið skemmtilegt til íþrótta- og útivistar fyrir alla aldurshópa.

Ábendingar vel þegnar

Við getum öll lagt okkar af mörkum til að gera samfélagið okkar enn betra. Ábendingum og tillögum að verkefnum er vel tekið. Á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is er hnappur „Ábendingar og fyrirspurnir“  sem ég hvet ykkur til að nýta og koma litlu sem smáu á framfæri við starfsfólk sveitarfélagisns.

Að lokum þá skulum við halda áfram að vera dugleg að plokka rusl og annað s.s. smásteina sem eiga greiða leið upp á minigolfbrautirnar, hreinsum þá burt svo þeir rífi ekki grasdúkinn. 

Njótum lífsins og alls þess skemmtilega sem það býður uppá! 

Ásgerður K. Gylfadóttir

Formaður bæjarráðs

Lífæð

Fyrstu húsin á Höfn voru reist við Hafnarvík árið 1897. Þau standa enn. Gamlabúð hýsir Vatnajökulsþjóðgarð, Kaupmanshúsið og síðar Kaupfélagshúsið geymir hið góða veitingahús Ottó og hús Guðmundar söðlasmiðs stendur enn efst á Afkasthól þar sem gatan Bogaslóð liggur um.

Innsigling

Hin gjöfulu fiskimið fyrir utan Hornafjörð er ástæða fyrir þéttbýlinu sem tók að myndast fyrir meira en öld síðan. Ósinn hefur hins vegar verið ein stærsta ástæða þess að Höfn var ekki enn stærri verstöð en raunin er. Lengi hefur verið barist fyrir því að lagt verði fé í rannsóknir, hönnun og framkvæmdir við bætta innsiglingu um Ósinn.

Varnargarður sem nú er unnið að í Einholtskletta mun hjálpa til við að stöðva sandburð inn í Ósinn og minnka þannig líkur á að að skip taki niður um leið sinni um Grynnslin. Verkinu á að ljúka í september.

Þetta er fyrsta skrefið af mörgum í að búa til betri og öruggari innsiglingu. Með þessu skapast mikil tækifæri í sjávarútvegi með möguleika á komum stærri frakt- og fiskiskipa. Skemtiferðaskip sem núna komast ekki inn um Ósinn myndu örugglega glöð vilja leggjast að bryggju í Ríki Vatnajökuls.

Á Njáluslóðum

Í útvarpinu les Ármann Jakobsson hina mögnuðu Brennu-Njáls sögu. Samhliða eru vikuleg viðtöl við Ármann í Víðsjá á Rás 1 þar sem hann greinir söguna og skýrir. Það má hiklaust mæla með að hlusta á þetta allt. Auðvelt er að nálgast þetta á RÚV sarpinum eða í RÚV appinu. Lestur Ármanns er mjög góður og skemmtilegur.

Helsta sögusvið Njálu eru Rangárvellir, Fljótshlíð og Landeyjar. En hún kemur víðar við bæði innanlands og erlendis. Hornafjörður er nefndur nokkrum sinnum, meðal annars í tengslum við utanferð Flosa eftir brennuna.

Örnefni hér benda enda til þess að til forna hafi verið höfn í Hornafirði. Festarklettar, Leiðarhöfði og sjálf Höfn benda í þessa átt. Í sögunni eru nefnd bæjarnöfn sem ennþá þekkjast eins og Stafafell og Bjarnanes en líka eru örnefni sem ekki finnast í dag. Ber þá helst að nefna Breiðá í Fellshverfi þar sem Kári bjó eftir sættir við Flosa. Kári hefur ekki verið setur á neitt kotbýli og þarna hefur því verið blómleg byggð á þeim tíma sem sagan gerist, um árið 1000. Núna ræður Breiðamerkurjökull þar ríkjum.

Það er vitað að við landnám var veðurfar mun hlýrra en síðar varð á Íslandi. Þess vegna voru jöklar minni og skriðjöklar sem við sjáum í dag ekki allir til. Það er gaman að ímynda sér hvernig umhorfs var á þessum tíma.

Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands. Landið hefur margt upp á bjóða, bæði sögustaði og náttúruperlur. Það verður ekki mikið þjóðlegra en að spyrða saman hlustun á Brennu Njáls sögu og ferðalög um sveitir og bæi innanlands.

Samstarf um barnvænt sveitarfélag

Það var stór stund í Svavarssafni í morgun þegar félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason, Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri og Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi skrifuðu undir samkomulag um samstarf við framkvæmd verkefnisins barnvæn sveitarfélög. Verkefnið felst í því að sveitarfélagið innleiði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga sem UNICEF hefur þróað. Verkefnið er stutt með reglulegum og vel tilgreindum stuðningi félags- og barnamálaráðuneytisins og UNICEF með fræðslu og ráðgjöf.

Með undirskriftinni er staðfest samþykki sveitarfélagsins, að nota Barnasáttmálann sem viðmið og leiðarstef í starfsemi þess. Verkefnið hefst nú á tveggja ára innleiðingarferli. Að þeim tíma loknum getur sveitarfélagið, að uppfylltum forsendum verkefnisins, hlotið viðurkenningu frá UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.

Í tilefni undirskriftarinnar skelltu ráðherra, bæjarstjóri og framkvæmdastjóri UNICEF sér á hoppubelginn góða með börnunum og nutu gleði dagsins í góða veðrinu.

Regnbogastígurinn

Regnbogastígurinn var svo málaður í kjölfarið. Margir lögðu þar hönd á plóg við að fegra umhverfið og fagna í leiðinni fjölbreytileikanum í samfélagi okkar í Sveitarfélaginu Hornafirði. 

Það var ánægjulegt að félags- og barnamálaráðherra tók þátt í því verkefni með okkur. 

Kvennréttindadagurinn

Að lokum langar mig að óska okkur öllum til hamingju með daginn! 19. júní, Kvennréttindadagurinn, er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi þar sem við höldum uppá kosningarétt kvenna. Hann fengu konur þann 19. júní 1915, 40 ára og eldri.

Njótum dagsins, þökkum þeim sem hafa gengið hafa veginn á undan okkur og höldum baráttu fyrir réttindum einstaklingsins áfram!

Ásgerður K. Gylfadóttir

Áfangi

Okkar góðu nágrannar í Skaftárhreppi fögnuðu stórum áfanga í vikunni þegar skóflustunga var tekin að nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Kirkjubæjarklaustur.  Þetta er gott skref fyrir þjóðgarðinn og íbúa í Skaftárhreppi.  Meginstöðvar þjóðgarðsins áttu að vera í byggð og mynda einskonar hlið í þjóðgarðinn.  Tvær þeirra eru í Sveitarfélaginu Hornafirði.  Önnur í hjarta Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli og hin á Höfn.  Aðrar slíkar stöðvar eru nú þegar á Skriðuklaustri og Ásbyrgi.  Á milli átti að byggja upp starfstöðvar nærri útivistarsvæðum sem leggja áttu grunn að aukinni útivist og atvinnusköpun.

Jökulsárlón

Fyrir nokkrum árum var mörkuð sú stefna að við Jökulsárlón ætti ekki að byggja upp aðstöðu til næturdvalar.  Helga ætti svæðið daggestum.  Sjónarmið voru uppi um að þarna væri kjörið tækifæri til að byggja upp lúxusgistingu en því var hafnað þá.   Allir ættu að geta notið þess að eyða dagsparti við lónið á sínum eigin vegum, til að njóta þjónustu fyrirtækja sem ýmist gerðu út á lónið sjálft, náttúruperlur í nágrenni eða þiggja veitingar sem þar væru í boði. 

Það er enn stórt álitamál hvernig þjónustu eigi að byggja upp við lónið og á kostnað hvers, ríkisins eða þeirra sem ætla að þjónusta gesti þar.  Sennilega þarf blöndu af hvoru tveggja.  Mikilvægast er að sem flestir komist að og tækifæri sé fyrir einstaklinga að bjóða fram þjónustu sem gestirnir leitast eftir í formi veitinga og afþreyingar.  Það þarf ekki stóra þjónustumiðstöð þar sem einn aðili heldur í taumana, hvort sem það er einkafyrirtæki eða ríkið.  Frekar ætti að stefna að uppbyggingu í anda mathalla sem sprottið hafa upp víða um heiminn, með mörgun litlum veitingastöðum innan sömu veggja og aðstöðu utandyra þar sem mörg afþreyingarfyrirtæki geta þrifist

Höfn

Gamlabúð hefur verið meginstarfstöð Vatnajökulsþjóðgarðs um nokkurt skeið og þjónað því hlutverki vel sem og öðrum sem það merka mannvirki hefur gegnt í gegnum tíðina.  Það má draga fram að rétt yfir þúsund gestir sóttu hana heim áður en hún var flutt á sinn gamla stað fyrir um áratug og var á leiðinni að vera ein og yfirgefinn.  Nú eru gestirnir taldir í tugum þúsunda. Til lengdar á Gamlabúð samt að þjóna öðru hlutverki og Vatnajökulsþjóðgarður að byggja upp gestatofu álíka þeirri sem nú ris á Kirkjubæjarklaustri. 

Uppbygging innviða

Þrátt fyrir að stórar gestastofur í byggð geti þjónað þjóðgarðinum, gestum hans og byggðinni þar sem húsið rís þá er mikilvægast að byggja upp innviði fyrir útivist og atvinnusköpun við þær náttúruperlur sem þjóðgarðurinn sjálfur gæti aldrei þrifist án.  Bátur leggst ekki að landi með afla án hafna og eins verður ferðaþjónusta án grunngerðar ekki að veruleika.  Göngustígar, brýr, fræðsluskilti, sómasamlegar götur fyrir þá faraskjóta sem fólk velur ásamt lögum og reglum eru þær bryggjur sem þarf að byggja til að efla ferðaþjónustu við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Hjalti Þór Vignisson

Til hamingju sjómenn

Sjávarútvegur hefur verið undirstöðu atvinnugrein okkar Íslendinga í aldaraðir og ein helsta ástæða að efnahagur landsins sé sambærilegur við það sem best gerist á jörðinni.

Á tímum sem þessum heldur fólk sig heima, ferðast lítið sem ekkert og sækir ekki veitingastaði.  Þegar nær allir veitingastaðir í veröldinni hafa verið lokaðir nú á annan mánuð þá er mikilvægt fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að hafa góð viðskiptatengsl við verslunarkeðjur erlendis.  Faraldurinn hefur undirstrikað hversu mikilvæg er að hafa eggin ekki öll í sömu körfunni.  Fyrir lönd eins og Ísland er ekki gott að reiða sig á eina atvinnugrein umfram aðra og fyrirtæki sem starfa á erlendum mörkuðum, líkt og flest sjávarútvegsfyrirtæki gera, ættu að herja bæði á verslunarkeðjur og veitingahús. 

Sjómanndagurinn verður ekki með hefðbundnu sniði þetta árið.  Kappróður, sigling út fyrir Ós og skemmtun í íþróttahúsinu hafa verið fastir liðir í tilverunni en núna hittist fólk í smærri hópum og gerir sér glaðan dag. Í tvö ár hefur ekki verið gefinn út loðnukvóti og humarkvóti hefur dregist mikið saman.  Á móti er þorskstofninn sterkur.  Kjör sjómanna hafa því oft verið betri en engin stétt er sennilega jafn vön sveiflum í kjörum sínum og sjómenn.

Hornafjörður er útgerðarbær og í gegnum faraldurinn var ekki dregið úr sókn né vinnslu.  Búið er að fjárfesta á undanförnum árum og því hægt að uppfylla kröfur á kröfuhörðum mörkuðum úti um allan heim.  Þrátt fyrir tæknivæðingu þá er ekkert sem kemur í stað fyrir þrautsegju og útsjónarsemi þeirra sem standa í eldlínunni. 

Við óskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Mikilvægi forvarna

Forvarnir eru langtímaverkefni og tengist heilsu okkar á margan hátt, bæði líkamlegri og andlegri heilsu.  Stundum er hugtakinu fleygt fram í tengslum við neyslu unglinga og þar er mikil þörf á fræðslu og uppbyggilegu starfi til að hvetja ungt fólk áfram á réttri braut.  Forvarnir snerta samt okkur öll og þegar komið er fram á fullorðins ár er mikilvægt að brýna fyrir öllum reglubundna hreyfingu, gott mataræði og fleira til að heilsa sé góð.

Hlutverk sveitarfélaga

Sveitarfélögin eru til þess að þjóna íbúum í sínu héraði.  Markmið með því að halda úti sveitarfélögum er einmitt að halda þjónustunni sem næst einstaklingum og að allir geti haft mótandi áhrif á hvernig stefnan er á hverjum tíma.  Sveitarfélög eru þess vegna mjög vel í stakk búinn til að vinna markvisst að fræðslu og forvörnum til bættrar lýðheilsu.  Hornafjörður vinnur á margvíslegum vígstöðum að þessu, í skólum, á vettvangi heilbrigðisstofnunnar og í gegnum samning sinn við íþróttafélög.

Verum á tánum

Það er hægt að gera betur og þar sem samfélagið er í örri þróun þarf sífellt að vera þróa nýjar leiðir og aðferðir til að koma skilaboðum áleiðs.  Gott væri að ná að tvinna betur starf skóla, íþróttafélaga og heilbrigðisstofnunnar í þessa veru.  Skoða mætti hvort ekki ætti að fela starfsmanni sem til dæmis gæti verið undir hatti grunnskólans að vinna með markvissari hætti að þessum málum.  Það hefur sýnt sig að sterk tengsl eru milli heilbrigðis lífernis og árangurs í námi barna.

Á Hornafirði er allt til staðar til að ná árangri í þessum efnum en við þurfum alltaf að vera á tánum, ekki bara þegar halla fer undan fæti heldur einmitt að viðhalda árangri þegar hann næst. 

Kristján S. Guðnason

bæjarfulltrúi

Hve glöð er vor æska!

Til hamingju með áfangann, stúdentar og aðrir sem útskrifast í dag úr námi frá Framhaldsskólanum í Austurskaftafellssýslu!

Skólalok eru alltaf tímamót og ekki síst þegar ákveðnum áfanga er náð. Vinna vetursins gerð upp. Vonandi er uppskera eininga og áfanga góð hjá nemendum þetta vorið en segja má að vorönnin hafi verið eftirminnileg og án efa verið mörgum erfið.

Heimsfaraldur kórónaveiru setti skólastarf úr skorðum á öllum skólastigum en bæði nemendur og kennarar stóðu sig vel í þessum einkennilegu aðstæðum og gerðu það besta úr fordæmalausum aðstæðum. Eiga þau hrós skilið fyrir það.

Atvinna fyrir ungmenni

Nemendurnir sem nú útskrifast eða fara í sumarfrí frá FAS, öðrum framhaldsskólum og háskólum eru að upplifa fleiri breytingar. Mörg hver hafa þau átt vísa vinnu við hin ýmsu störf yfir sumartímann og ekki síst í ferðaþjónustu. Hinar ýmsu greinar ferðaþjónustunnar hafa tekið þeim höndum tveim og krakkarnir hafa getað aflað sér tekna til að undirbúa næsta vetur og gera sér glaðan dag yfir sumarið.

Nú er staðan önnur. Atvinnuleysi á þeim skala sem við höfum ekki upplifað hér áður og óvissa um hve lengi ástandið varir. Námsmenn eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og þyngist róðurinn hjá nemendum, foreldrum og forráðamönnum ef ekki koma inn tekjur yfir sumarið.

Aðrar atvinnugreinar koma nú sterkar inn þar sem hægt er að útvega krökkunum vinnu. Sveitarfélagið, fiskvinnsla, iðnaðargreinarnar, sjoppur, Nettó o.fl.

Átak hjá sveitarfélaginu

Sveitarfélagið hefur ákveðið að bæta við þann hóp sem hefur að jafnaði verið í sumarvinnu, vinnuhópar verða á Höfn og í Öræfum. Auk hins hefðbundna Vinnuskóla og bæjarvinnu hafa forstöðumenn sviða sveitarfélagsins tekið saman verkefni af ýmsum toga sem nemendur á framhalds- og háskólastigi munu sinna. Auk þess hafa Nýheimar og Rannsóknasetur Háskóla Íslands einnig auglýst eftir nemendum til starfa í sumar.

Hluti þessara starfa eru styrkt með fjárframlagi frá Vinnumálastofnun og einnig hefur verið sótt um styrki til Nýsköpunarsjóðs námsmanna.

Markmiðið er að allir nemendur fái verkefni í sumar og tekjur sem geta skipt sköpum sérstaklega fyrir eldri námsmenn.

Ásgerður K. Gylfadóttir
formaður bæjarráðs