Ásýnd

Víðast hvar eru lóðir íbúðarhúsa og fyrirtækja til fyrirmyndar. Það skiptir okkur öll máli að ásýnd í nágrenni okkar sé falleg og vel hirt um svæði og hús. Það er því einkar ánægjulegt að sjá að eigendur hússins sem áður hýsti Vélsmiðju Hornafjarðar taka til á lóðinni, malbika hana og hefja endurbætur á húsinu. Geymslulóðir eru á svæðinu við skrifstofur Rarik og ruslaportið. Væri kanski betra að flytja það í Ósland og hreinsa í burtu lausamuni af svæðinu þar sem íbúabyggð og ferðaþjónusta er í nágrenninu?

Stígar

Á höfuðborgarsvæðinu hefur á undanförnum árum verið byggt upp nýtt samgöngukerfi með göngustígum fyrir gangandi, hlaupandi og hjólandi fólk. Við eigum vísir að þessu með strandstígnum okkar frábæra. Stígurinn sem tengir sundlaugina, íþróttasvæðið og Heppuna er líka mikið notaður. Við þurfum að halda áfram þessu verkefni og tengja það við Nesin og síðar Mýrarnar þegar nýi vegurinn kemur. Rafhjól og skutlur eru að ryðja sér til rúms og geta átt heima með þessum samgöngumátum ef takmörk verða á hraðanum. Nú eru margir krakkar á ferðinni á rafhlaupahjólum sem ekki eiga heima meðal bíla.

Mikligarður

Nú þegar framkvæmdir eru að hefjast í Miklagarði vakna eðlilega ýmsar spurningar um notkun hússins. Fyrir ekki löngu síðan var haldið íbúaþing um framtíð Miklagarðs og út frá því þingi hefur atvinnu- og menningarmálanefnd unnið sinn undirbúning. Í þessum framkvæmdum verður farið í lagfæringu á þaki og ytrabyrði að hluta sem ætti að gera húsið vatns og vindhelt. Þá er eftir að lagfæra rafmagn, skólp og tryggja brunavarnir. Það er nauðsynlegt að halda áfram með framkvæmdir strax á næsta ári til að koma húsinu í nýtingu sem allra fyrst. Atvinnu- og menningarmálanefnd hefur rætt og bókað um að halda fjórum bilum til sýningarhalds og leigja önnur út. Það verður háð skilyrðum sem vonandi verða auglýst innan skamms. Okkur vantar sýningarrými til að miðla sögu okkar til þeirra gesta sem sækja okkur heim og einnig verðum við að viðhalda og upplýsa ungafólkið okkar um eldri tíma. Húsnæði Miklagarðs verður að mínu mati að fá að halda sínu upphafalega útliti utan og innan eins og mögulegt er.

Edduverðlaun

Það er dýrmætt fyrir samfélagið okkar að hafa einstaklinga sem eru tilbúnir að leggja líf og sál í að láta drauma sína rætast og leyfa okkur hinum að njóta. Það var ánægulegt að horfa á Edduverðlaunin síðasta mánudag þar sem Hvítur, hvítur dagur sópaði til sín verðlaunum. Ellefu tilnefningar og sex verðlaun er glæsilegur árangur. Hlynur Pálmason og fjölskylda hafa komið til baka eftir nám í Danmörku og hreiðrað um sig í húsnæði inn við Stekkaklett þar sem hugmynd þeirra er að koma af stað eftirvinnslu á kvikmyndum. Hver kvikmynd sem tekin er hér í sýslunni hefur bæði auglýsingagildi fyrir samfélagið og margfeldisáhrif.  Hvert einasta starf er okkur mikilvægt og þurfum við sem bæjarfulltrúar að hvetja og standa með þeim sem vilja og reyna, allavega ekki að að leggja stein í götu þeirra.

Hlynur Pálmason og aðstandendur myndarinnar Hvítur, hvítur dagur: innilega til hamingju með myndina, það verður fróðlegt að fylgjast með næsta verkefni.  

Kristján S. Guðnason

formaður atvinnu- og menningarmálaefndar.

Vegamál

Mynd: Ingveldur Sæmundsdóttir.

Fyrir rúmlega 2 árum skrifaði ég grein í Eystrahorn þar sem ég reifaði samgöngumál í sveitarfélaginu. Nú langar mig að ræða aðeins það sem gerst hefur á síðustu 2 árum í þeim málum.

Ný veglína yfir Hornafjarðarfljótin hefur verið mikið til umræðu og á fundi með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir stuttu kom fram að sú veglína sé í fyrstu umferð svokallaðrar blandaðrar leiðar og vonast hann til að veglínan verði boðin út í byrjun árs og að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta næsta árs.

Þjóðvegur 1 í Öræfum

Til stendur að taka upp aðalskipulag í Öræfum með það að markmiði að stytta veglínu enn meir en gert er í núgildandi aðalskipulagi. Þessi vegkafli er á samgönguáætlun fyrir árin 2030-2034 ásamt vegstyttingu í Lóni en því miður er ekki að sjá göng undir Lónsheiði á henni.

Göng undir Lónsheiði

Það var leiðinlegt að sjá ekki göng undir Lónsheiði á áætlun en við munum að sjálfsögðu þrýsta á stjórnvöld að koma þeim á dagskrá ásamt því að flýta öðrum vegstyttingum eftir fremsta megni.

Einbreiðar brýr

Fækkun einbreiðra brúa á hringveginum er verkefni sem gengur hægar en ég hefði vonast til, en verið er að vinna í tvíbreiðum brúm yfir Steinavötn, Fellsá og Kvíá sem er ánægjulegt að sjá.

Þéttbýli

Af gatnaframkvæmdum í þéttbýli er það helst að frétta að hönnunarvinna á Hafnarbraut hefur aðeins tafist, en ekki er útséð með að framkvæmdir geti hafist á þessu ári. Að öðru leiti hefur töluvert verið lagt af malbiki
síðastliðin 2 ár eins og t.d. í Borgartúni í Öræfum, Nesjahverfi og hinar ýmsu götur á Höfn.

Finnur Smári Torfason, varabæjarfulltrúi og varaformaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Stakkur sniðinn eftir vexti

Margt hefur verið rætt og ritað um framtíðar uppbyggingu íþróttamannvirkja í gegnum tíðina og ýmsar skoðanir komið fram varðandi málefnið. Margir er e.t.v. orðnir óþreyjufullir að fara að sjá eitthvað gerast í þessum málum sem er eðlilegt. M.a. var stofnaður stýrihópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja og skipulag íþróttasvæðis á miðsvæði. Skemmst er frá því að segja, eins og margir eflaust vita, var niðurstaða hópsins að nýtt íþróttahús yrði sett í forgang og uppbygging á líkamsrækaraðstöðu í framhaldi af því. Um svipað leyti fóru umræður um húsnæðismál grunnskólans til framtíðar að vera háværari. Þar sem svæði undir íþróttamannvirki og skólamannvirki skarast mikið var ákveðið að taka þá umræðu formlega áður en farið yrði í skipulag á svæðinu. Töluverðar umræður urðu í fræðslu- og tómstundarnefnd varðandi framtíðar húsnæði grunnskólans. Einnig var farið í samtal við skólastjórnendur, kennara og foreldra, en það var gert á opnum fundi í vor. Ekki urðu afgerandi niðurstöður úr þeim fundi en eftir tölverðar umræður varðandi málið tók fræðslu- og tómstundarnefnd þá ákvörðun um að framtíðar húsnæði grunnskólans yrði í einu húsnæði sem yrði í og við húsnæði Heppuskóla. Nú var hægt að hefja skipulagvinnuna.

Deiliskipulag miðsvæði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 20. ágúst s.l. lýsingu að nýju deiliskipulagi fyrir miðsvæði Hafnar. Í deiliskipulaginu verður síðan ákveðið fyrirkomulag íþróttamannvirkja og húsnæði grunnskólans til framtíðar. Það eru því góðar fréttir að deiliskipulagsvinnan sé farin af stað. En í framhaldi þarf síðan að hefja undirbúning á framkvæmdum á svæðinu. 

Fjárfestingar og framkvæmdir

En það þarf að vanda til verka varðandi fjárfestingar og framkvæmdir í sveitarfélaginu í þessari óvissu sem við búum við og vera tilbúin að sníða stakk eftir vexti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum fréttir af Covid-19 heimsfaraldrinum undanfarið og þau neikvæðu efnahagáhrif sem faraldurinn hefur á ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga marga hverja. Á seinsta fundi bæjarráðs, þann 22. september kom fram að tekjur frá Jöfnunarsjóði hafa lækkað um 105 milljónir í samræmi við endurskoðaða áætlun sjóðsins. Þannig er gert ráð fyrir að rekstarniðurstaða sveitarfélagsins lækki úr 292 m.kr. m.v. upphaflega fjárhagsáætlun niður í 78,5 m.kr. með viðbótar lántöku uppá 100 m.kr. Þetta er töluvert högg fyrir rekstur sveitarfélagins en sem betur fer hefur fjárhagsstaða sveitarfélagsins verið sterk um nokkurt skeið og er ágætlega í stakk búið til þess að mæta þessu áfalli, alla vega eins og staðan er í dag. En ljóst er að mikil óvissa er framundan varðandi tekjumöguleika sveitarfélagsins og ekki er vitað hversu lengi þessi óvissa varir. Huga þarf að því að framkvæmdir verði e.t.v. smærri í sniðum en ella og verði mannaflsfrekari sem líklegra sé til að unnar verði af heimamönnum. Þannig er líklegra að við náum að halda atvinnunustigi uppi. Einnig þarf að velja framkvæmdir sem eru fjárhagslega hagkvæmar fyrir sveitarfélagið í heild sinni.

Velt upp möguleikum

Út frá þessari stöðu hefur m.a. verið velt upp þeirri hugmynd að flýta heldur uppbyggingu á nýrri líkamsræktaraðstöðu á Höfn. En því skal haldið til haga að fjármagn í undirbúning á nýju íþróttahúsi er á þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og hefur ekki verið á döfinni að breyta því. Án þess að búið sé að kostnaðarmeta þessar framkvæmdir nákvæmlega er ljóst að ný líkamsrækaraðstaða kostar mun minna en nýtt íþróttahús eins og gefur að skilja. Einnig tekur sveitarfélagið þátt í leigu á núverandi húsnæði líkamsræktaraðstöðunnar sem kostar sveitarfélagið töluverðar upphæðir ár hvert. Ef ný líkamsrækaraðstaða verður að veruleika sparast þessar sömu upphæðir.

Stýrihópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja ákvað að líkamsræktaraðstaða yrði byggð vestan við núverandi sundlaugarbyggingu og mundi tengjast henni. Inngangur yrði sameiginlegur fyrir sundlaug og líkamsrækt og búningsaðstaða og blautrými sundlaugar yrði nýtt fyrir báðar einingarnar. Einnig ætti starfsmannaaðstaða að geta verið sú sama fyrir alla byggingunna og í leiðinni hægt að bæta hana. Með þessari samnýtingu og þ.a.l. tiltölulega einfaldri byggingu náum við sparnaði sem annars yrði ekki í stakstæðu húsi á öðru svæði. Þannig yrði aðstaða til líkamsræktar orðin enn betri en hún er í dag og til mikillar fyrirmyndar.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, varaformaður bæjarráðs og fræðslu- og tómstundarnefndar.

Íbúaþróun

Það er áhugavert að skoða þróun íbúarfjölda í Sveitarfélaginu Hornafirði síðustu ár og þá sérstaklega þegar íbúafjöldi er greindur niður á mánuði. Þann 1. janúar 2014 voru 2.168 íbúar í sveitarfélaginu en 2.418  þann 14. september sl. Hæst fór íbúatalan þó í apríl 2020 en þá var hún 2.477.

Málefnið var til umræðu í bæjarráði sl. þriðjudag 15.09.20 og má sjá skjalið með þróun íbúafjölda undir lið 8. í fundargerðinni. https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=2009004F

Einnig er þar skoðað hve margir flytja til og frá sveitarfélaginu á því sem liðið er af árinu 2020. 

Hlutfall íbúa með erlent ríkisfang

Í ágúst sl. voru 538 íbúar sveitarfélagsins með erlent ríkisfang en það er um 22% íbúa.  Þetta er fjölbreyttur hópur af 39 þjóðernum, lang flestir frá Póllandi eða 192 einstaklingar.

Rannsókn á aðlögun innflytjenda í sveitarfélögum.

Rannsóknin samfélög án aðgreiningar var unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri árið 2019 og miðaði að því að bera saman aðlögunarmynstur innflytjenda í sveitarfélögum. Það má segja að hún hafi markað ákveðin tímamót í rannsóknum á innflytjendamálum á Íslandi því fáar jafn viðamiklar rannsóknir á málaflokknum hafa verið gerðar hérlendis og svörun gekk vonum framar. 

Fjallað er um rannsóknina í samantekt um málefni erlenda íbúa undir saman lið fundargerðarinnar en þar kemur fram að svör erlendra íbúa í sveitarfélaginu sýna að 71% svarenda er ánægður með að búa í sveitarfélaginu 19% hvorki ánægðir né óánægðir en 10% óánægðir.

Atvinnuleysi

Í ágúst var 71 einstaklingur skráður atvinnulaus í sveitarfélaginu af þeim voru 65% erlendir ríkisborgarar. Mikilvægt er að við hlúum vel að þessum hóp íbúanna. Styðjum þá í gegnum þá tímabundnu erfiðleika sem steðja að atvinnulífinu vegna Covid19.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs

Íslenska ferðasumarið 2020

Á flestum heimilum landsins er hin daglega rútína nú farin í gang eftir sumarfrí. Sumarfrí sem var líklega aðeins öðruvísi en vanalega, sökum Covid-19. Ótal margir nýttu tækifærið og ferðuðust innanlands, fóru loksins á staði hér heima á Íslandi sem hafa verið lengi á bið, því heita sólin í Evrópu lokkaði meira. Gististaðir, afþreyingarfyrirtæki og veitingastaðir kepptust við að reiða fram glæsileg tilboð í þeirri von að fá fleiri gesti, fleiri íslenska gesti. Í ljósi aðstæðna voru mörg tilboðanna lygilega hagstæð, þar að auki var ferðagjöfin í boði á ótal stöðum, sem kom sér vel. Íslenski ferðamaðurinn lét ekki á sér standa og nýttu margir sér þessi frábæru tilboð. Prófuðu ýmsa afþreyingu sem annars hefði ekki verið prófuð, snæddu á dýrindis veitingastöðum vítt og breytt um landið, sem margir vissu ekki að væru til og sváfu á flottum gististöðum sem kepptust um að bjóða hagstæðasta verðið.

Dýrmæt reynsla

Þetta sérstaka íslenska ferðasumar er dýrmætt á margan hátt. Ekki eingöngu fyrir þær góðu minningar sem bætast í reynslubankann hjá ferðamanninum heldur vegna ótal margra Íslendinga sem eru margs vísari um landið sitt og langar að upplifa meira á komandi árum. Það er heill hellingur í boði um allt land, en við erum bara að átta okkur á því núna sem er frábært og tímabært. Samfélagsmiðlarnir spiluðu þar stórt hlutverk, t.d. hópur á facebook sem heitir „Landið mitt Ísland.“ Þar setti fólk inn meðmæli eða skellti fram spurningum eins og  hvar best væri að gista á Höfn, en borða og hvað hægt væri að finna sér að gera o.s.frv. Frábær vettvangur til þess að deila upplýsingum og afla þeirra.

Höldum áfram

Þó svo að sumarið 2020 hafi ekki skilað fyrirtækjunum í ferðaþjónustu hér á Höfn nema broti af þeirri innkomu sem vanalega er á sumrin þá er ég viss um að gestirnir sem hingað komu hafi haldið ferðalaginu áfram sáttir við það sem staðurinn hefur upp á að bjóða, og langar að skoða meira næst. Fyrir utan augljósa og einstaka náttúrufegurð í sveitarfélaginu þá er fjölbreytnin og gæðin í gistingu, mat og afþreyingu, framúrskarandi. Líklegt er að þeir íslensku ferðamenn sem hingað komu í sumar, gistu á svæðinu, nutu matar og drykkjar á veitingastöðum og fóru í ferðir afþreyingafyrirtækja, hafa talað um upplifun sína við vini og vandamenn og munu halda því áfram á komandi misserum.

Það er því mikilvægt að halda áfram að viðhalda þeirri bylgju sem sett var af stað í að auglýsa svæðið miðað við þessar breyttu aðstæður sem skapast hafa. Leggjum því ekki árar í bát, höldum ótrauð áfram þeirri vinnu sem hrundið var af stað á vordögum og sýnum hvað svæðið hefur upp á að bjóða. Það er einfaldlega þannig að besta auglýsingin fyrir fyrirtækin og Sveitarfélagið felst í sáttum ferðamanni sem lætur boðin berast og þess vegna er mikilvægt að hingað sé gott að koma jafnt sumar sem vetur.

Íris Heiður Jóhannsdóttir

Tækifæri á Covid tímum

Samkomubann, 2ja metra regla og aðrar reglur sem sett hafa verið til að efla sóttvarnir hafa leitt eitt jákvætt af sér. Nú er orðið mun algengara að fólk noti tækni til að vinna fjarri vinnustað sínum og til náms. Áður var ekki eins algengt að hægt væri að nota fjarfundarbúnað í háskólanám. Fundir sem fólk þurfti að sækja um langan veg er núna hægt að taka í gegnum fjarfundi. Þetta sparar bæði tíma og peninga.

Byggjum upp aðstöðu til fjarvinnslu

Þessi breyting getur fært dreifðum byggðum og bæjum eins og Höfn ný tækifæri. Talsvert er af störfum bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera sem krefst fyrst og fremst síma og tölvu. Þegar hægt er að nálgast samstarfsfólk með fjarfundarbúnaði, einsog nú er orðið almennt, er ekkert því til fyrirstöðu að búa þar sem fólk kýs helst.

Ríkisstjórn úthlutar fé vegna hruns í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta er ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri ár. Áfallið er stórt fyrir samfélagið, ferðaþjónustufyrirtæki og starfsfólk. Það er hægt að líkja þessu við stórfelldan aflabrest eða hrun í einum af nytjastofnum sjávar. Þetta kemur illa við Sveitarfélagið Hornafjörð enda er það eitt af sex sveitarfélögum sem fá stuðning frá ríkisstjórninni vegna hruns í ferðaþjónustu, alls 18 miljónir króna.

Mikilvægt er að þeir fari beint í atvinnuskapandi verkefni. Eitt af þeim gæti verið að koma upp góðri aðstöðu fyrir fólk sem vill setjast hér að, flytja starfið með sér og vinna úr fjarlægð frá sínum gamla vinnustað.

Vettvangur dagsins

Bæjarstjórn Hornafjarðar kom saman í gær fimmtudaginn 20. ágúst eftir sumarfrí. Fundurinn var að vanda sendur út í beinni útsendingu á YouTube í gegnum Facebook síðu sveitarfélgsins. Sjá hér https://www.youtube.com/watch?v=QtJbonM1Ouw&feature=youtu.be&fbclid=IwAR2IdhLtHOUSvos7xi_8ZYVCF0GFyzqk_NMel4ABMzhLHAp1K7we5Owk3x8

Fundur með ráðherrum

S.l. þriðjudag sat undirrituð fund með ríkisstjórninni og fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi á Hótel Læk í Rangárþingi ytra. Þar var farið vel yfir áskoranir sveitarfélaganna á þessum skrítnu tímum. Áhrif Covid-19 á atvinnulíf á svæðinu og tekjur sveitarfélaga. Einnig þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir við gerð fjárhagsáætlanna fyrir næsta ár. Hvernig við getum haldið uppi framkvæmdastigi og þjónustu þrátt fyrir að tekjur sveitarfélaganna dragist saman. Farið var yfir hvernig fundarmenn telja að viðspyrnuaðgerðir ríkisins hafi nýtst til þessa og hvar þarf að bæta í. 

Þar gafst einnig tækifæri til að minna á þau verkefni sem þarf að leysa á milli ríkis og sveitarfélags s.s. hvernig rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila verður háttað til framtíðar og aukið fjarmagn til reksturs. Hvar bæta þarf í opinbera þjónustu og mikilvægi þess að dreifa opinberum störfum meira út á land með fjarvinnslu sem hefur sýnt sig að er vel framkvæmanleg.

Fram kom að ríkið veitir sex sveitarfélögum stuðning vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar Covid-19. Sveitarfélagið Hornafjörður er eitt þessara sveitarfélaga og fær 18 milljónir í sinn hlut. Nú verður unnið úr því hvernig þessir fjármunir nýtast best.

Nýjar reglur

Í vikunni tóku gildi nýjar reglur um sóttvarnir hjá öllum þeim sem koma til landsins. Íþyngjandi reglur fyrir ferðamenn en sjálfsögð varúðarráðstöfun fyrir þá sem eru að koma „heim“ eða eru að koma til langrar dvalar á landinu. 

Sitt sýnist hverjum um þessar aðgerðir. Það er erfitt og jafnvel ill mögulegt að finna meðalveginn sem ver okkur gegn heimsfaraldrinum og heldur efnahagslífinu gangandi.

Fjarlægðarreglan hefur einnig verið mikið í umfjöllun í vikunni. Túlkun, viðurlög og virðing gagnvart náunganum. Hvað má hvað má ekki? Við erum örugglega flest að velta því fyrir okkur og reyna okkar besta.

Skólar hefjast

Skólarnir eru að byrja. Þar er aðlögun að reglunni niður í 1 meter sem auðveldar mikið skipulagningu skólastarfs. Það verður næstum því „eðlilegt“ hjá litlum skólum eins og í okkar samfélagi sem er frábært!

Það eru krefjandi tímar framundan fyrir okkur öll. Stöndum saman í því að vernda okkur íbúa og samfélagið okkar. Viðhalda virkni og þátttöku í verkefnum samfélagsins eftir því sem við best getum. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs

Íbúar með erlent ríkisfang

Undanfarin ár hefur íbúum með erlent ríkisfang fjölgað mikið.  Nýlega tók Hildur Ýr Ómarsdóttir, verkefnisstjóri fjölmenningar, saman upplýsingar um málefni erlendra íbúa í Sveitarfélaginu Hornafirði sem kynnt var í félagsmálanefnd.  Í samantektinni kemur fram að 545 einstaklingar með erlent ríkisfang eru með lögheimili í sveitarfélaginu.  Þetta er fjölbreyttur hópur af 39 þjóðernum.  Stæsti hópurinn er frá Pólanndi en Króatar, Tékkar og Rúmenar eru líka fjölmennir.  Starfsemi sveitarfélagsins í málefnum nýrra íbúa hefur vaxið mikið enda þörfin brýn eins og sjá má á tölunum.  Það má ekki heldur gleyma þeim íbúum sem eru af erlendu bergi brotnu en eru með íslenskt ríkisfang. 

Fjölmenningarmál á mörgum vígstöðum

Sveitarfélagið kappkostar að taka vel á móti fólki og auðvelda aðlögun þess að samfélaginu okkar.  Á vegum sveitarfélagsins er unnið að margvíslegu starfi og á árinu 2019 var til dæmis móðurmálskennsla á pólsku í Grunnskólanum, bókasafnið bjó til kassa af barnabókjum á ýmsum tungumálum, aðstoð var veitt við heimanám og búin til umgjörð utan um móttökusamtöl svo fátt eitt sé nefnt.  Á yfirstandi ári hafa bæst við námskeið fyrir túlka, íslenskuþjálfun á heimili og bókasafni og íslenska á vinnustað.   Daglega er unnið við ýmisskonar aðstoð og ráðgjöf vegna dvalarleyfisumsókna, ráðgjöf varðandi mannréttindi og félagsleg réttindi, ýmiskonar aðstoð við skráningar og umsóknir, ráðgjafar varðandi réttindi og skyldur í íslensku samfélaginu og fleira mætti nefna. 

Áskorun framundan

Í águst 2020 voru 71 einstaklingur á atvinnuleysisskrá í sveitarfélaginu og þar af voru 65% erlendir ríkisborgarar.  Á undanförnum árum hefur erlent vinnuafl haldið mörgum vinnustöðum gangandi þegar innlent vinnuafl hefur skort.   Núverandi ástand verður vonandi skammvinnt og þá þurfum við aftur á þessum hópi fólks að halda í atvinnulífinu.  Við skulum því hlúa að þeim áfram. 

Á tímum alþjóðavæðingar og aukins flæði fólks á milli landa mun samfélag okkar blandast meira en áður.  Því fylgja margvíslegar áskoranir og við þurfum að virkja nýbúana okkar til þáttöku í samfélaginu, hjálpa þeim að fóta sig í nýjum veruleika og hlúa vel að fjölskyldum.  Það er því mikilvægt að halda úti öflugu starfi í fjölmenningarmálum.  Eins og staðan er hálft stöðugildi í málaflokknum í stjórnsýslu sveitarfélagsins.  Unnið er markvisst af þessum málum í Grunnskólanum og bókasafnið hefur sinnt þessum málum í auknum mæli.  Við verðum hins vegar að velta því alvarlega fyrir okkur hvort ekki rétt að hafa 100% starf í ráðhúsinu í ljósi aukins þunga og mikilvægi málaflokksins.  Við er líka ríkara og öflugra samfélag með þessari inngjöf.

Kynningarátak fyrir ferðaþjónustun

Áhugaverður kynningarfundur var haldinn fyrir skemmstu í Gömlubúð þar sem Árdís Erna Halldórsdóttir og Þorkell Vignisson fóru yfir markaðsátak sem ráðist var í að hálfu sveitarfélagsins á þessum fordæmalausu tímum . Kynningin var góð og vel unnin af hálfu þeirra sem að henni komu og kemur hún til með að nýtast áfram þegar fram í sækir.

Það er fróðlegt að sjá hvað tækninni fleytir fram og samfélasmiðlar skipta orðið miklu máli í markaðs- og kynningarmálum.  Einnig er mikilvægt að leita til fagfólks til að fjármagni sé sem best varið þegar markaðsetja á svæði eins og okkar hér á suðausturhorninu.  Jafnframt skiptir miklu máli að ferðaþjónustuaðilar komi ásamt sveitarfélaginu að þeirri kynningu í gegnum Ríki Vatnajökuls.  

Afþreyingu skorti í þéttbýlinu

Eitt af því sem rætt var um á fundinum var afþreying í þéttbýlinu.  Margir telja að skortur sé á afþreyingu en undiritaður benti á að bæta mætti inn í kynninguna okkar góða golfvelli sem er einstaklega skemmtilegur og útsýnið stórkostlegt. Safnamál voru einnig rædd. Í haust hefjast framkvæmdir við Miklagarð það þarf að fara í ýmsar endurbætur svo hægt sé að koma honum í notkun. Hugmyndin er að þar gætu verið sýningar, listamenn og hannyrðafólk af öllum gerðum. Mikligarður sjálfur geymir djúpa og mikla sögu Hafnar. Ef setja á upp jöklasýningu af þeirri stærðargráðu sem sýningar eru í dag tel ég það nokkuð ljóst að einkaaðilar verði að koma þar að, með öflugri samvinnu við sveitarfélagið.  En margt er hægt að gera og mikilvægt er að koma sögu Hafnar til skila á einn eða annan hátt, t.d. með blönduðum leiðum eins og hafa möguleika á að setja eitthvað af  árabátum okkar og aðra muni sem tengjast sjósókn þar sem Akureyjan stóð og fara yfir sögu sjósóknar Hafnar þar í máli og myndum.

Kristján S. Guðnason

Formaður atvinnu- og menningarmálanefndar