FabLab Hornafjörður, stafræna smiðjan okkar hornfirðinga hefur stimplað sig vel inn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi og víðar með því frábæra starfi sem þar er unnið undir stjórn Vilhjálms Magnússonar, forstöðumanns Vöruhússins.
Á mínu fyrsta kjörtímabili í bæjarstjórn 2010-14, var unnið að undirbúningi að opnun smiðjunnar, skoðað hvernig starfsemin væri á öðrum stöðum á landinu og leitað ráðgjafar. Nýsköðunarmiðstöð Íslands var þá með starfsmann á Höfn sem vann með okkur að þessu ferli.
Smiðjan fer síðan af stað 2013-2014 og hefur verið í stöðugri sókn síðan með stopulum stuðningi frá Nýsköðunarmiðstöð en hún hefur frá upphafi verið rekin af sveitarfélaginu. Aðrar FabLab smiðjur landsins hafa verið ýmist reknar af ríkinu eða með stuðningi frá ríkinu í gegnum Nýsköpunarmiðstöð.
Samingur um þáttöku ríkisins
Fulltrúar sveitarfélagsins hafa í gegnum árin verið ötulir í að benda á þessa mismunun en ekki haft erindi sem erfiði fyrr en nú um áramótin þegar atvinnu- og nýsköðunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið koma að borðinu með myndarlegum hætti og gera saming við sveitarfélagið um þáttöku í FabLab Hornafjörður með 8 milljón króna árlegu framlagi næstu þrjú árin. Fjórar milljónir koma inn í verkefnið frá hvoru ráðuneyti fyrir sig.
Samingurinn felst í því að veita námskeið og fræðslu í stafrænni framleiðslutækni og nýsköpun innan skólakerfisins, til almennings og fyrirtækja eins og verið hefur.
Efling starfseminnar
Með því fjármagni sem veitt er með þessum samningi gefst tækifæri til að efla smiðjuna af tækjakosti og gefur aukinn kraft í starfsemina til viðbótar við viðurkenningu á því góða starfi sem þar fer fram.
Sem fyrr er öllum velkomið að nýta smiðjuna og vonumst við til þess að námskeiðin verði vel sótt og nýsköpun nái að blómstra sem aldrei fyrr í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Þá erum við lögð af stað inní árið 2021 og rútínan komin í gang eftir uppbrot jóla og áramóta. Fyrsti bæjarstjórnarfundur ársins var haldinn í gær 14. janúar og kom bæjarstjórn saman í Svavarssafni af því tilefni. Fundargerð bæjarstjórnar má nálgast á vef sveitarfélagsins á þessari slóð: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir og upptöku af fundinum á YouTube slóð sveitarfélagsins https://youtu.be/PCVrVdj4Kf8
Skipulagsmál
Að vanda voru skipulagsmál fyrirferðamikil á fundinum. Aðal- og deiliskipulagsbreytingar í Öræfum, Suðursveit, Nesjum og Lóni auk nokkurra erinda frá íbúum á Höfn sem huga að byggingum eða breytingum.
Velferðarnefnd
Kosið var í nýstofnaða velferðarnefnd sem verður til úr samruna félagsmálanefndar og heilbrigðis- og öldrunarnefndar. Þessi breyting er hluti af breyttu skipuriti sveitarfélagsins þar sem aukin áhersla er á samþættingu málaflokkanna ásamt fræðslu- og tómstundamálum. Þessir málaflokkar snerta málefni fatlaðra, barna og fjölskyldna en unnið er að bættri umgjörð um þessa þjónustu með breytingum á húsnæðinu við Víkurbraut 24 sem áður hýsti leikskólann Krakkakot.
Framkvæmdir
Breytingar á Víkurbraut 24 ganga vel og verður það stór áfangi þegar hægt verður að flytja inn aftur með þá fjölbreyttu þjónustu sem þar mun verða. Félagsmálastjóri, fræðslustjóri og þeirra starfsfólk munu koma sér fyrir þar. Heimaþjónustudeild og þjónusta við fatlað fólk mun fá nýja og fyrsta flokks aðstöðu sem beðið hefur verið lengi.
Fráveitumál
Hreinsivirkið í Óslandi var loksins tekið í notkun í lok síðasta árs og var það stór áfangi. Nú er unnið að uppfærslu áætlanna fyrir næstu áfanga í fráveitumálum og umsókn um styrk til ríkisins en ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa nú innspýtingu í þennan málaflokk sem sveitarfélaögin hafa kallað eftir lengi.
Hér hef ég tæpt á nokkrum atriðum sem unnið er með þessa dagana en þetta er aðeins sýnishorn af því sem við erum að vinna að þessa dagana. Ég hvet þig lesandi góður til að fylgjast með bæði á YouTube og heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/
Einnig erum við bæjarfulltrúar alltaf tilbúin til að taka samtalið og símtalið.
Ég óska Hornfirðingum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er nú liðið um leið og ég óska ykkur hamingju og velfarnaðar á nýju ári.
Árið 2020 er líklega árið sem mun standa upp úr í minningum okkar flestra næstu árin. Þegar ég les yfir áramótapistil minn sem ég skrifaði fyrir sléttu ári síðan óraði mig ekki hvað biði okkar. Kórónaveiran breytti öllu og má segja að hún hafi nú breytt aðstæðum bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Það sem einkennir þessar aðstæður er þó það að allur heimurinn er að glíma við þessa veiru þó áhrifin séu misjöfn eftir löndum og einnig landssvæðum. Við getum verið ánægð með hvernig þróunin hefur verið á Íslandi. Hér hefur veiran haldist í skefjum samhliða aðgerðum stjórnvalda sem hafa treyst á ráðgjöf fagmanna. Hér í sveitarfélaginu höfum við verið lánsöm með hversu fá smit hafa greinst og ennfremur hversu lítið þau smituðu út frá sér, það má þakka skjótum viðbrögðum þeirra sjálfra, starfsmanna sóttvarna, almannavarna og stjarfsmanna stofnana sveitarfélagsins.
Kórónaveiran hefur haft töluverð áhrif á rekstur sveitarfélagsins þó eru þau minni en spáð var fyrr á árinu. Aðgerðir stjórnvalda hafa þar haft áhrif þannig að útsvarstekjur hafa ekki dregist eins mikið saman og haldið var ásamt því að það náðist að tryggja stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Atvinnuleysistölur eru af áður óþekktri stærð en það er nánast eingöngu bundið við atvinnugreinar tengdar ferðaþjónustu ásamt því að flestir eru búnir að vera stutt á atvinnuleysisskrá. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest á undanförum árum og hefur m.a. staðið undir fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Hér hafa risið stór hótel og eru áform um enn frekari uppbyggingu. Það er því alveg ljóst að íbúar sveitarfélagsins og fjárfestar hafa trú á því að ferðaþjónustan muni taka við sér og vonandi sjáum við það gerast strax á þessu ári um leið bólusetning verður útbreidd um allan heim. Það voru ánægjulegar fregnir sem við fengum þegar fyrsti íbúi sveitarfélagsins var bóluettur í lok síðasta árs en það gefur okkur von um bjartari tíma.
Breyttir tímar – starfræn tækifæri
Síðasta ár hefur breytt mörgu í mínum störfum sem bæjarstjóri. Ferðalög hafa nánast lagst af og fundir alfarið færst í tölvuna. Ég flaug reglulega til Reykjavíkur eða keyrði fyrir Covid en nú man ég ekki hvenær ég fór síðast upp í flugvél innanlands. Ef ég mundi reikna skoða kolefnisfótsporin mín er líklegt að losun hafi minnkað um helming á þessu ári. Samhliða færri ferðalögum hef ég grætt fleiri klukkustundir í vinnudaginn og á sama tíma aukinn frítíma með fjölskyldunni. Þetta er vonandi sú breyting sem mun festast í sessi, að þurfa ekki að skreppa til Reykjavíkur til að sitja 20 mín fund í einhverju ráðuneytanna er t.d. eitthvað sem verður vonandi ekki aftur. Öll stjórnsýslan hefur nú tileinkað sér nýja fundartækni, ráðstefnur eru haldnar rafrænt, fundir, námskeið o.fl. Sem dæmi eru nú flest námskeið hjá Endurmenntun HÍ haldin rafrænt! Ný vinnustaðarmenning og starfæn tækni færir Sveitarfélaginu Hornafirði aukin atvinnutækifæri. Nú hefur sveitarfélagið opnað nýja skrifstofu sem skilgreind er fyrir störf án staðsetningar og í undirbúningi er að auglýsa Hornafjörð sem búsetukost fyrir þá sem vilja flytja störfin sín út á land. Við erum með öfluga FabLab smiðju sem býður upp á mörg tækifæri í nýsköpun og er nú í undirbúningi að skrifa undir samning við menntamála- og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið um fjárframlag til reksturs smiðjunnar. Hér eru allir innviðir til staðar til að nýta tæknina og styðja undir framþróun, nú er lag að taka stefnuna þangað.
Verkefni sveitarfélagsins
Í lok árs var fjárhagsáætlun samþykkt fyrir árið 2021. Fjárhagsáætlunin ber keim af bjartsýni og kjarki til að halda áfram þrátt fyrir erfiða tíma. Þjónusta við íbúa skerðist ekki þrátt fyrir að kreppi að. Það verður haldið áfram viðhaldi á húsnæði sveitarfélagsins en nú er framkvæmdum í vöruhúsinu að mestu lokið og breytingar á húsnæði að Víkurbraut 24 sem mun hýsa heimaþjónustudeild, félagsmálasvið og málefni fatlaðra langt komnar. Næst á dagskrá eru endurbætur innanhúss í Sindrabæ, fyrirhugaðar breytingar í Hrollaugsstöðum þar sem útbúnar verða fimm leiguíbúðir. Mikigarður fær áfram viðhald og nálgast það ástand að hægt verður að nýta húsið betur. Framkvæmdir við gatnagerð við Hafnarbrautina fara af stað fljótlega en það styttist í að hægt verði að bjóða þær út. Í lok þessa árs verður vonandi allt dreifbýli sveitarfélagsins komið með ljósleiðara þegar strengur verður lagður í Lónið.
Breytingar eru fyrirhugaðar varðandi rekstur hjúkrunar- og dvalarheimilisins Skjólgarðs en nýr rekstraraðili mun taka við á nýju ári. Rekstrarstaðan hefur verið þung á síðustu tveimur árum og treystir sveitarfélagið sér ekki til að greiða með rekstri sem ríkið ber ábyrgð á. Það eru erfið skref að taka sér í lagi fyrir mig persónulega eftir áralangt starf hjá stofnuninni en þar starfaði ég samtals í 14 ár. Stofnunin á sér stað í hjarta mínu enda frábær starfsemi sem haldið er uppi af kraftmiklu og lausnarmiðuðu starfsfólki. Vonandi munu breytingarnar verða farsælar og sveitarfélagið leggur áherslu á að þjónustustigið verði óbreytt. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingu við hjúkrunarheimilið verður tekin á árinu 2021 og verður það vonandi í byrjun apríl. Breytingar á rekstraraðila hefur ekki áhrif á framkvæmdina.
Sveitarfélagið vill taka afgerandi skref í loftslagsmálum og mun það koma fram í þeirri stefnumótun sem nú er unnið að. Ný stefna verður kynnt fyrir íbúum og starfsfólki í lok febrúar samhliða því að undirrituð verður loftslagsyfirlýsing milli Festu samfélagsábyrgð og Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem við í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu skuldbindum okkur til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt ætlum við að innleiða heimsmarkmiðin í okkar stefnu og starfsemi. Samhliða þessu er unnið markvisst að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og UNICEF í gegnum verkefnið barnvænt sveitarfélag.
Það má því með sanni segja að það býr kraftur í íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það er sterkur viljið til að ná árangri og byggja upp gott samfélag þar sem áhersla er á vellíðan íbúa, verndun náttúrunnar og umhverfisins í kringum okkur. Ég vil enda þennan pistil á þessum orðum um leið og vil þakka ykkur fyrir þá samstöðu sem þið hafið sýnt á árinu í kringum Covid og staðið vörð um okkar samfélag með öflugum sóttvarnaraðgerðum. Einnig minni ég á að ég er ávallt tilbúin í samtalið hvort sem er í gegnum síma, tölvupóst eða hitta fólk (þegar Covid leyfir). Gerum gott samfélag betra með uppbyggjandi og góðu samtali og jákvæðu hugarfari.
Í dag eru sex dagar til jóla og margir hverjir á þönum við undirbúning jólanna! Hver og ein jólahátíð er sérstök þar sem breytingar verða í lífi okkar og á fjölskyldunni ár frá ári. Börn fæðast, fjölskyldumeðlimir falla frá, fólk tekur saman eða skilur o.s. frv. En í ár erum við öll að upplifa öðruvísi jól þar sem heimsfaraldur og sóttvarnareglur leggja línurnar að miklu leyti.
Flest höfum við örugglega undirbúið jólin að einhverju ráði í gegnum tölvuna, skoðað og jafnvel keypt jólagjafir á netinu. Einnig hafa opnað nýjar verslanir á Höfn á síðustu vikum sem vonandi njóta þess með þeim sem fyrir voru að íbúar eru meira heima við og versla í heimabyggð fyrir þessi jól.
Jólakúlan
Almannavarnir hafa beðið okkur að fara með gát yfir hátíðirnar og skilgreina okkar jólakúlur með ekki fleiri en tíu einstaklingum (fæddum fyrir 2005) og láta kúlurnar ekki skarast ef fjölskyldur eru stórar.
Þetta kann að vera erfitt fyrir marga en þá er gott að geta nýtt tæknina og notað myndsímtöl til að komast nær sínum nánustu þrátt fyrir takmarkanir. Íbúi á hjúkrunarheimilinu getur t.d. hitt stórfjölskylduna í gegnum myndsímtöl ef sá sem heimsækir hann tekur með sér spjaldtölvu og tengist í heimsókninni. Heima getum við opnað pakkana með aðstandendum sem eru staddir hvar sem er í heiminum ef við notum tölvutæknina.
Jólin mín
Fjölskyldan mín verður dreifð um landið um jól og áramót. Höfn, Reykjavíkursvæðið, Akureyri, Ísafjörður, Grímsnesið, London, og Kolding. Við verðum fjögur þessi jól en með síma og tölvu okkur við hlið svo við getum heilsað uppá þá sem ekki verða með okkur þrátt fyrir fjarlægðir.
Ég vænti þess að jólin muni endurnæra mig og mína með góðum mat, svefni, samveru og lestri/sjónvarpsglápi í okkar litlu jólakúlu.
Farið varlega
Kæru sveitungar, farið varlega – við skulum muna að jólin eru ekki síst hugarástand. Ræktum kærleikann innra með okkur sjálfum, hann mun vaxa og dafna svo við getum gefið af okkur til okkar nánustu og samborgaranna. Það getur verið tækifæri í því að fresta jólaboðunum til betri tíma, hlúa að kjarnanum og þeim sem standa þér næst.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Kærar þakkir til ykkar fyrir árið sem er að líða með öllum þeim áskorunum sem það hefur fært okkur – megi nýtt ár færa okkur öllum kærleika og ný tækifæri!
Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti Framsóknarmanna í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar
Árið 2020 hefur verið mjög sérstakt fyrir okkur öll og sennilega eru margir fegnir því að það renni nú bráðum sitt skeið. Ég er sannfærður um að 2021 verði okkur betra og það eru mjög jákvæð teikn á lofti að svo verði. Þegar ég horfi yfir árið 2020 og þau verkefni sem við í félagsmálaráðuneytinu höfum verið að vinna, horfi ég til baka stoltur en árið litaðist að mörgu leyti af viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19. Ég er hins vegar mjög ánægður og stoltur af því að hafa náð að koma þremur stórum baráttumálum mínum á dagskrá þrátt fyrir aðstæður í heiminum en þau eiga það öll sameiginlegt að styrkja búsetu á landsbyggðinni.
Aukinn kraftur í húsnæðismál á landsbyggðinni
Í byrjun september var frumvarp mitt um
hlutdeildarlán samþykkt en þar erum við að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða ungt
fólk og tekjulága inn á fasteignamarkaðinn. Hlutdeildarlánin munu hafa mikil og
jákvæð áhrif á fasteignamarkað á landsbyggðinni sem hefur víða verið nálægt
frostmarki undanfarna áratugi, en eitt að markmiðunum með þeim er að styrkja
það kallað hefur verið köld markaðssvæði. Þá er gaman að sjá kraftinn í
framkvæmdum víða um land sem fjármagnaðar eru með stofnframlögum, sérstöku
byggðarframlagi og lánum frá HMS, aðgerðir sem samþykktar voru í fyrra. Mér
telst til að alls séu 89 íbúðir í byggingu eða undirbúningi víða um land þar
sem byggingaraðilar nýta sér þessi úrræði, má þar nefna 12 íbúðir á Húsavík, 10
íbúðir í Bolungarvík, átta íbúðir á
Vopnafirði og fjórar á Borgarfirði Eystri.
Sérstakur styrkur til barnshafandi einstaklinga sem búa fjarri þjónustu
Annað stórt mál sem ég er stoltur af eru ný lög um fæðingarorlof en
samkvæmt nýju lögunum er fæðingarorlofið lengt í 12 mánuði, en lögin taka gildi
1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors
foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja
einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö
mánuði en hitt í fimm. Ég er mjög ánægður með aukin réttindi fyrir fólk á
landsbyggðinni sem býr oftar en ekki fjarri þjónustunni og þarf oft að dvelja fjarri
heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu
vegna fæðingar barnsins. Með nýju lögunum
komum við til móts við þessa hópa og barnshafandi foreldri verður veittur sérstakur styrkur vegna skerts
aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar það þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja
fjarri heimili sínu.
Breyting í þágu barna
Síðast en ekki síst er ég gríðarlega stoltur
af þremur frumvörpum sem ég hef lagt fram á Alþingi og miða að því að breyta
kerfinu okkar í þágu barna. Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur
forgangsverkefni mitt verið að bæta enn
frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og
samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið
unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að
börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa. Verkefnið er risavaxið og
felur sennilega í sér einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á
umhverfi barna á Íslandi í áratugi.
Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla
og farsældar á komandi ári og vona að þið njótið hátíðanna með ykkar nánustu.
Aðventan er yfirleitt viðburðarríkur tími. Mikið um tónlistarviðburði, jólasamverur og oft einskonar uppskerumót eða viðburði tengt íþróttastarfi barna. Þetta er upplyfting í skammdeginu en nú verðum við að finna okkur annað til dægrastyttingar. Að sjálfsögðu er margt hægt að gera skemmtilegt en sannarlega kemur ekkert í stað þeirrar samveru sem fylgir öllum þessum viðburðum.
Orðið aðventa er úr latínu og merkir ,,koman” eða ,,sá sem kemur”. Nú hillir undir að bólusetning hefjist við pestinni sem herjað hefur á heimsbyggðina. Í framhaldinu fáum við það frelsi sem við vorum vön en vitum nú af beiskri reynslu að er ekki sjálfsagt. Það er þess virði að gæta að öllum sóttvörnum á aðventunni, þar til bóluefnið og frelsið kemur.
Mikilvægasta verkefni sveitarfélagsins
Í desember lýkur gerð fjárhagsáætlunar fyrir sveitarfélagið. Þetta er mikilvægasta verkefni hverrar sveitarstjórnar því þarna er allur rammi um starfsemi sveitarfélagsins skilgreindur næsta árið. Ef agi er við stjórn sveitarfélaga að þá fylgja menn þessari stefnumörkun eftir þar til ný fjárhagsáætlun liggur fyrir. Samhliða þessu er gerð áætlun til 3ja ára sem ekki er eins ítarleg en samt mikilvæg til að sjá lengra fram í tímann um hvernig starfsemi, framkvæmdir og fjárhagur sveitarfélagsins kemur til með að þróast.
Fjárhagsstaða
Núverandi bæjarstjórn Hornafjarðar hefur haldið vel á spöðunum. Fjárhagslegur styrkur sveitarfélagsins er augljós þegar rýnt er í ársreikning fyrir 2019. Afkoma fyrir fjármagnsliði var upp á 700 miljónir og skuldastaðan góð. Það er því borð fyrir báru nú í erfiðu árferði. Sveitarfélagið hefur því góð spil á hendi ef þörf er á að örva atvinnulíf eða ráðast í framkvæmdir.
Vinna, vöxtur og velferð er vel þekkt slagorð Framsóknarflokksins. Það er eitt af okkar leiðarljósum sem á ekki síst við nú þegar við glímum við sögulegan niðursveiflu í efnahagslífi landsins. En við vitum að öll él birtir upp um síðir og hið sama gildir um efnahagslífið. Við munum ná okkur aftur á strik.
Egg í fleiri körfum
Áföll eru til að læra af þeim og yfirstandandi
farsótt hefur kennt okkur margt, ekki bara að standa í biðröðum heldur einnig
að nýta fjarfundatækni og auka þar með skilning á störfum án
staðsetningar, og ekki síst hversu
mikilvægt það er að atvinnulífið grundvallist á fjölbreyttum og sterkum stoðum.
Sterkur sjávarútvegur og landbúnaður einkennir atvinnulífið í Austur
Skaftafellssýslu og svo hefur ferðaþjónustunni vaxið fiskur um hrygg á svæðinu,
eins og annars staðar á landinu. Þrátt fyrir komu bóluefnis þá gera flestar
greiningar ráð fyrir að ferðalög erlendra ferðamanna muni að mestu leggjast af
að minnsta kosti vel fram á næsta ár og að það muni taka tíma að byggja
greinina upp að nýju.
Nýtum nýjar leiðir til verðmætasköpunar
Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé endilega
æskilegt að 35 til 40 prósent útflutningstekna okkar komi frá einni
atvinnugrein. Við þurfum fjölbreytt störf um land allt. Með það í huga erum við m.a. að leggja aukna áherslu
á skapandi greinar og við þurfum að leggja þyngri áherslu á innlenda
matvælaframleiðslu; gera meira af því að fullvinna afurðir hér á landi og auka
þar með verðmætasköpun þjóðarinnar. Þá getum við sparað töluverðan gjaldeyri
með því að verða sjálfbærari á ýmsum sviðum. Ég hef t.a.m. lagt fram tvö
þingmál í haust sem tengjast aukinni sjálfbærni, annað snýst um setja hvata til
ræktunar og vinnslu á orkujurtum og hitt um að styrkja starfsumhverfi þeirra
sem vilja afla þörunga.
Breytingar og ný tækifæri
Verkefni stjórnvalda er að horfa til framtíðar
og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf, og í samdrætti verða stjórnvöld að örva
hagkerfið og fjölga störfum. Við höfum t.d. bætt tugum milljarða króna í
samgönguverkefni, klárað að koma hlutdeildarlánunum svokölluðu á kopp til að
örva húsnæðismarkaðinn og sett aukið fjármagn í viðhald á opinberu húsnæði.
Sveitarfélög um land hafi einnig staðið sig vel í að fjölga störfum og að leita
leiða til að halda fólki í virkni, góðri samvinnu við ríkisvaldið. Félagsmálaráðherra
fundar t.d. mánaðarlega með félagsþjónustum sveitarfélaga. Slíkt samtal skiptir
miklu máli til að meta árangur aðgerða og koma til móts við ólíka hópa.
Nám er tækifæri
Verkefnið „Nám er tækifæri“ var sett á
laggirnar snemma árs og miðar að því að gefa fólki tækifæri á að styrkja stöðu
sína á vinnumarkaði. Hluti af verkefninu er að atvinnuleitendum er gert kleift
að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum
uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. Átakið
afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en
fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd
leið í brúarnám og þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til
annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og
kennslugreinum.
Framsóknarflokkurinn hefur starfað í rúma öld
í íslensku samfélagi og flokksfólk hans hefur tekið virkan þátt í þeim miklu
samfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað á þeim tíma með hag lands og þjóðar
að leiðarljósi. Áfram veginn!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður
Framsóknarflokksins
Mig langar að bregðast aðeins við ágætri grein sem Sveinbjörg Jónsdóttir skrifaði í Eystrahorn 12. nóvember sl. og fjallar um þá fyrirætlun sveitarstjórnar að bæta við lóðum í innbæ Hafnar. Fyrst vill ég biðja Sveinbjörgu afsökunar, ef henni finnst sér hafa verið mætt með útúrsnúningum og hæðni og getur vel verið að ég hafi ekki alltaf komist vel að orði, en ég hef viljað fjalla um þetta mál með rökum og yfirvegun, reyna að hlusta á rökin með og móti, vega og meta hvað vegur þyngst í málatilbúningi beggja aðila, komast að niðurstöðu.
Lóð fyrir lóð
Hér ætla ég að fara í þetta í sömu röð og Sveinbjörg, taka lóð fyrir lóð Fyrir innan Silfurbraut 42 skáhalt upp undir Hríshólnum og lóð fyrir innan Silfurbraut 39 (sem er inná myndinni) hefur verið tekin út að ósk Golfklúbbsins, þær lóðir sem eftir eru verða ekki fyrir iðkendum enda hefur formaður golfklúbbsins tjáð mér að hann hafi ekki áhyggjur af þeim. Fyrir aftan bílskúrana á Silfurbraut er gert ráð fyrir að setja þriggja íbúða raðhús sem er í ágætu samræmi við hin raðhúsin á Silfurbraut, það er passað að þarna verði pláss fyrir göngu- og hjólastíg eins og sést á myndinni. Í enda Hvannabrautar er bætt við húsi og bílastæðum. Það hús verður eins og sést á myndinni þar sem við ákváðum að bæta við bílastæðum til þess að koma til móts við íbúa götunnar . Á Vesturbraut hefur verið bætt við tveimur húsum, þessar lóðir hafa verið í aðalskipulagi síðan 2013. Við höfum reynt að koma sem mest til móts við íbúana, bæði höfum við lækkað mænishæð, þrengt götuna og breytt þessu í tvö hús í stað raðhúss eins og fyrstu skipulagstillögur voru og væri í samræmi við götumyndina.
Aðeins um græn svæði
Gult er um það bil það svæði sem fer undir þessar framkvæmdir. Grænt, eru núverandi leiksvæði (sem mætu vera betri) og fjólublátt er það græna svæði sem eftir verður á svæðinu, þetta getur hver og einn skoðað og mælt á (http://map.is/hofn/) Vert er að spyrja sig, hvað eigum við að hafa mikið grænt svæði? Ég er alveg sammála Sveinbjörgu þau auka vellíðan og verða að vera inná milli. Á kortasjá sveitarfélagsins er líka hægt að mæla vegalengdir í Hrossabithaganum, Drápsklettum og Þorgeirslundi sem Lions klúbburinn hefur verið að laga af miklum myndarskap undanfarin misseri.
Íbúakönnun, samráð, jarðvegur og fólksfjölgun
Í ágætri íbúakönnun (https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/umhverfismal/ibuakonnun/) sem sveitarfélagið stóð fyrir 2019 settu 7 manneskjur ( ef menn stækka skalann) grænt svæði þar sem lóðirnar á Vesturbraut eru, þó svo þær fari í nýtingu þá er eftir þar svæði á stærð við fótboltavöll og ekkert því til fyrirstöðu að hafa leiksvæði þar. Ekki er verið að bæta við neinum umferðargötum og verður það í göngufæri fyrir alla, eftir sem áður. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala um að ekki hafi verið haft samráð við íbúa. Ég hef mætt á fjóra fundi vegna þessa máls boðinn og óboðinn, einn í golfskálanum, einn hjá Sjálfstæðisfélaginu, fund fyrir bæjarstjórnarfund eins og Sveinbjörg talar um og svo einn íbúafund. Þar fyrir utan veit ég að formaður bæjarráðs og skipulagsstjóri héldu fund með fulltrúum hópsins. Fyrir utan þetta eru lögbundnar kynningar í skipulagsferlinu. Það hefur verið leitað sátta og spurt hvort væri hægt að taka út lóðir til að gera þetta ásættanlegra , en svarið hefur verið allt út, engin málamiðlun. Jarðvegur hér hjá okkur á Höfn er eins og hann er og það eru ótrúlega mörg hús byggð á sandi. Stórar byggingar eru reistar á staurum, sem dæmi Ráðhúsið og Ísturninn að hluta og svo stór hluti af innbænum. Í skipulaginu er gerð krafa um að húsbyggjandi komi með grundunaráætlun svo hægt verði að passa að fari ekki illa fyrir nágrannabyggð. Það er rétt hjá Sveinbjörgu að það hefur fjölgað í sveitarfélaginu umfram 1% sem gert var ráð fyrir í aðalskipulaginu síðan 2013. En þar draga sveitirnar vagninn því að þéttbýlið hefur ekki náð því marki enn og vantar talsvert á. Þetta er hægt að skoða á Hagstofan.is, þar eru margar fróðlegar upplýsingar.
Þétting
Mörg sveitarfélög eru að leitast við að þétta byggð til þess að nýta innviði betur og hefur verið sýnt fram á það að lóðirnar eru ódýrari fyrir sveitarfélög. Þær tölur voru kynntar á íbúafundinum og það er líka ódýrara fyrir náttúruna. Það er skylda okkar að nýta landið eins vel og við getum þó án þess að ganga á lífsgæði íbúa, því eins og bent hefur verið á þá eru græn svæði mikilvæg. Það vill nú svo skemmtilega til að bæði ég og Sveinbjörg búum í húsum sem voru byggð á eftir umliggjandi húsum og telst því þétting í orðanna hljóðan, enda Höfn nánast ein þétting. Ég man eftir mörgum og held ég að nánast allar bæjarstjórnir undanfarna áratugi hafi staðið fyrir þéttingu hér á Höfn, meira að segja sú síðasta. Þær hafa verið mis umdeildar og kannski mis heppnaðar en um það verða alltaf skiptar skoðanir. En ég held að mér sé óhætt að fullyrða að alltaf hafa menn verið að standa í þessu stappi með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi.
Að lokum
Ég vona að ég hafi komið mínum skoðunum á framfæri í þessum pistli og þú lesandi góður sért einhvers vísari um þetta mál. Að búa í þéttbýli eða dreifbýli hefur sína kosti og galla, að búa í Sveitarfélaginu Hornafirði eru forréttindi og vont þykir mér ef íbúum finnst að þeim sé mætt með útúrsnúningi og hæðni. En verkefnið er umfram allt hjá okkar sveitarstjórnarmönnum að hugsa um hag sveitarfélagsins alls, reyna að hafa lífsskilyrði sem jöfnust hjá öllum íbúum. Reyna að bæta þau eins og kostur og raunhæft er, stýra skútunni þá stefnu sem við viljum fara með samtali og sjálfbærni að leiðarljósi.
Ásgrímur Ingólfsson forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 hefur verið fyrirferðarmikil síðustu vikurnar hjá bæjarráði og nefndum sveitarfélagisns. Allar nefndir hafa farið yfir sínar gjaldskrár, forstöðumenn og sviðstjórar yfir ramma málaflokkanna og þörf fyrir fjárfestingar í stofnbúnaði. Bæjarráð hefur með sviðstjórum, fjármálastjóra og bæjarstjóra unnið úr óskum og farið yfir mismunandi sviðsmyndir.
Niðurstaða vinnunnar var lögð fram í bæjarstjórn sl. fimmtudag og var vísað til síðari umræðu ásamt 3ja ára áætlun 2022-2024. Mikil óvissa er ennþá með tekjuliði fjárhagsáætlunar og getur verið að komi til breytinga á milli umræðna.
Lögð er áhersla á að standa vörð um þjónustu sveitarfélagsins við íbúa þá sérstaklega tengt félags- og skólaþjónustu. Framkvæmdaáætlun upp á 800 m.kr heldur þeirri stefnu sem sett hefur verið á síðustu árum þrátt fyrir lægri tekjur, með því leggur sveitarfélagið sitt af mörkum til að halda uppi atvinnu í sveitarfélaginu.
Alvarleg staða ferðaþjónustunnar
Vakin er athygli á alvarlegri stöðu ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu og er gripið til aðgerða til að spyrna við fótum með lækkun fasteignaskattsprósentu bæði hjá íbúum- og fyrirtækjum, unnið er samkvæmt aðgerðaráætlun um valdeflingu íbúa sem snýr m.a. að atvinnuleytendum og í nýsköpun.
Bæjarráð átti fund með fulltrúum frá Vinnumálastofnun þar sem farið var yfir stöðuna tengt atvinnuleysi í sveitarfélaginu. Óskað hefur verið eftir því við Vinnumálastofnun að starfsmaður á vegum stofnunarinnar verði staðsettur á Höfn a.m.k á meðan atvinnuleysi er með þeim hætti sem er í dag.
Þau fyrirtæki og atvinnurekendur sem geta bætt við sig starfsfólki eru hvött til þess og bent á að ef ráðinn er inn einstaklingur af atvinnuleysisskrá fæst stuðningur við launagreiðslu frá Vinnumálastofnun með atvinnuleysisbótum viðkomandi og lífeyrissjóðsgreiðslum. Með því að nýta þetta úrræði er stutt bæði við atvinnuleytandann og starfandi fyrirtæki.
Skipulagsmál
Skipulagsmál voru þó nokkur á dagskrá bæjarstjórnar að vanda. Framkvæmdaleyfi, lóðarúthlutanir, deiliskipulagsvinna og ósk um eða tilkynning um söfnun undirskrifta vegna skipulags.
Það er ánægjulegt að kraftur er í fólki þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Sjálfsagt er að íbúar nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til athugasemda og hvet ég íbúa til að kynna sér málefnin sem um ræðir vel og vandlega.
Nýtt hlutverk
Að lokum þá tók undirrituð að sér formennslu í Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SASS í lok október sl. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið aðili að SASS frá árinu 2007 en þá hafði verið tekin ákvörðun í íbúakosningu um að fara úr SSA, Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi yfir í landshlutasamtökin á Suðurlandi þar sem sveitarfélagið var orðið hluti af Suðurkjördæmi. Hornfirðingar hafa átt fulltrúa í stjórn frá upphafi en nú formann í fyrsta skiptið. Ég er afskaplega stolt af því að fá að gegna þessu hlutverki og þakka traustið sem mér er sýnt með því.