Áramótapistill bæjarstjóra
Ég óska Hornfirðingum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er nú liðið um leið og ég óska ykkur hamingju og velfarnaðar á nýju ári.
Árið 2020 er líklega árið sem mun standa upp úr í minningum okkar flestra næstu árin. Þegar ég les yfir áramótapistil minn sem ég skrifaði fyrir sléttu ári síðan óraði mig ekki hvað biði okkar. Kórónaveiran breytti öllu og má segja að hún hafi nú breytt aðstæðum bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Það sem einkennir þessar aðstæður er þó það að allur heimurinn er að glíma við þessa veiru þó áhrifin séu misjöfn eftir löndum og einnig landssvæðum. Við getum verið ánægð með hvernig þróunin hefur verið á Íslandi. Hér hefur veiran haldist í skefjum samhliða aðgerðum stjórnvalda sem hafa treyst á ráðgjöf fagmanna. Hér í sveitarfélaginu höfum við verið lánsöm með hversu fá smit hafa greinst og ennfremur hversu lítið þau smituðu út frá sér, það má þakka skjótum viðbrögðum þeirra sjálfra, starfsmanna sóttvarna, almannavarna og stjarfsmanna stofnana sveitarfélagsins.
Kórónaveiran hefur haft töluverð áhrif á rekstur sveitarfélagsins þó eru þau minni en spáð var fyrr á árinu. Aðgerðir stjórnvalda hafa þar haft áhrif þannig að útsvarstekjur hafa ekki dregist eins mikið saman og haldið var ásamt því að það náðist að tryggja stöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Atvinnuleysistölur eru af áður óþekktri stærð en það er nánast eingöngu bundið við atvinnugreinar tengdar ferðaþjónustu ásamt því að flestir eru búnir að vera stutt á atvinnuleysisskrá. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest á undanförum árum og hefur m.a. staðið undir fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Hér hafa risið stór hótel og eru áform um enn frekari uppbyggingu. Það er því alveg ljóst að íbúar sveitarfélagsins og fjárfestar hafa trú á því að ferðaþjónustan muni taka við sér og vonandi sjáum við það gerast strax á þessu ári um leið bólusetning verður útbreidd um allan heim. Það voru ánægjulegar fregnir sem við fengum þegar fyrsti íbúi sveitarfélagsins var bóluettur í lok síðasta árs en það gefur okkur von um bjartari tíma.
Breyttir tímar – starfræn tækifæri
Síðasta ár hefur breytt mörgu í mínum störfum sem bæjarstjóri. Ferðalög hafa nánast lagst af og fundir alfarið færst í tölvuna. Ég flaug reglulega til Reykjavíkur eða keyrði fyrir Covid en nú man ég ekki hvenær ég fór síðast upp í flugvél innanlands. Ef ég mundi reikna skoða kolefnisfótsporin mín er líklegt að losun hafi minnkað um helming á þessu ári. Samhliða færri ferðalögum hef ég grætt fleiri klukkustundir í vinnudaginn og á sama tíma aukinn frítíma með fjölskyldunni. Þetta er vonandi sú breyting sem mun festast í sessi, að þurfa ekki að skreppa til Reykjavíkur til að sitja 20 mín fund í einhverju ráðuneytanna er t.d. eitthvað sem verður vonandi ekki aftur. Öll stjórnsýslan hefur nú tileinkað sér nýja fundartækni, ráðstefnur eru haldnar rafrænt, fundir, námskeið o.fl. Sem dæmi eru nú flest námskeið hjá Endurmenntun HÍ haldin rafrænt! Ný vinnustaðarmenning og starfæn tækni færir Sveitarfélaginu Hornafirði aukin atvinnutækifæri. Nú hefur sveitarfélagið opnað nýja skrifstofu sem skilgreind er fyrir störf án staðsetningar og í undirbúningi er að auglýsa Hornafjörð sem búsetukost fyrir þá sem vilja flytja störfin sín út á land. Við erum með öfluga FabLab smiðju sem býður upp á mörg tækifæri í nýsköpun og er nú í undirbúningi að skrifa undir samning við menntamála- og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið um fjárframlag til reksturs smiðjunnar. Hér eru allir innviðir til staðar til að nýta tæknina og styðja undir framþróun, nú er lag að taka stefnuna þangað.
Verkefni sveitarfélagsins
Í lok árs var fjárhagsáætlun samþykkt fyrir árið 2021. Fjárhagsáætlunin ber keim af bjartsýni og kjarki til að halda áfram þrátt fyrir erfiða tíma. Þjónusta við íbúa skerðist ekki þrátt fyrir að kreppi að. Það verður haldið áfram viðhaldi á húsnæði sveitarfélagsins en nú er framkvæmdum í vöruhúsinu að mestu lokið og breytingar á húsnæði að Víkurbraut 24 sem mun hýsa heimaþjónustudeild, félagsmálasvið og málefni fatlaðra langt komnar. Næst á dagskrá eru endurbætur innanhúss í Sindrabæ, fyrirhugaðar breytingar í Hrollaugsstöðum þar sem útbúnar verða fimm leiguíbúðir. Mikigarður fær áfram viðhald og nálgast það ástand að hægt verður að nýta húsið betur. Framkvæmdir við gatnagerð við Hafnarbrautina fara af stað fljótlega en það styttist í að hægt verði að bjóða þær út. Í lok þessa árs verður vonandi allt dreifbýli sveitarfélagsins komið með ljósleiðara þegar strengur verður lagður í Lónið.
Breytingar eru fyrirhugaðar varðandi rekstur hjúkrunar- og dvalarheimilisins Skjólgarðs en nýr rekstraraðili mun taka við á nýju ári. Rekstrarstaðan hefur verið þung á síðustu tveimur árum og treystir sveitarfélagið sér ekki til að greiða með rekstri sem ríkið ber ábyrgð á. Það eru erfið skref að taka sér í lagi fyrir mig persónulega eftir áralangt starf hjá stofnuninni en þar starfaði ég samtals í 14 ár. Stofnunin á sér stað í hjarta mínu enda frábær starfsemi sem haldið er uppi af kraftmiklu og lausnarmiðuðu starfsfólki. Vonandi munu breytingarnar verða farsælar og sveitarfélagið leggur áherslu á að þjónustustigið verði óbreytt. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingu við hjúkrunarheimilið verður tekin á árinu 2021 og verður það vonandi í byrjun apríl. Breytingar á rekstraraðila hefur ekki áhrif á framkvæmdina.
Sveitarfélagið vill taka afgerandi skref í loftslagsmálum og mun það koma fram í þeirri stefnumótun sem nú er unnið að. Ný stefna verður kynnt fyrir íbúum og starfsfólki í lok febrúar samhliða því að undirrituð verður loftslagsyfirlýsing milli Festu samfélagsábyrgð og Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem við í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu skuldbindum okkur til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt ætlum við að innleiða heimsmarkmiðin í okkar stefnu og starfsemi. Samhliða þessu er unnið markvisst að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og UNICEF í gegnum verkefnið barnvænt sveitarfélag.
Það má því með sanni segja að það býr kraftur í íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það er sterkur viljið til að ná árangri og byggja upp gott samfélag þar sem áhersla er á vellíðan íbúa, verndun náttúrunnar og umhverfisins í kringum okkur. Ég vil enda þennan pistil á þessum orðum um leið og vil þakka ykkur fyrir þá samstöðu sem þið hafið sýnt á árinu í kringum Covid og staðið vörð um okkar samfélag með öflugum sóttvarnaraðgerðum. Einnig minni ég á að ég er ávallt tilbúin í samtalið hvort sem er í gegnum síma, tölvupóst eða hitta fólk (þegar Covid leyfir). Gerum gott samfélag betra með uppbyggjandi og góðu samtali og jákvæðu hugarfari.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.