Þrátt fyrir að vera uppalinn hér í Hornafirði dvaldi ég hluta af mótunarárum mínum við nám í Reykjavík og erlendis. Ég flutti aftur heim árið 2010. Þegar við Eva ákváðum að kaupa fasteign á Hornafirði var ég með mjög einfalda kröfu, ég vildi búa í útbænum. Ég var ákveðinn í því að ég vildi að börnin mín myndu ganga og/eða hjóla í skóla og tómstundir og það sama myndi gilda um mig.
Fyrsta eignin okkar var á Júllatúni þar sem við nutum útsýnis á heimsmælikvarða en þegar í ljós kom að þriðja barnið væri á leiðinni ákváðum við að stækka við okkur og fluttum í Hagatúnið. Fjarlægðir þar eru litlar. Það tekur börnin okkar styttri tíma að hlaupa heim úr skólanum en að vera sótt. Það má reyndar skjóta því inn að börn á Hornafirði eru ótrúlega dugleg að hjóla og ganga. Þegar ég fylgi börnum mínum í skóla á morgnana hjólandi fylgir hópur hjólandi og gangandi barna. Foreldrarnir eru stutt á eftir, akandi.
Ég nýti virka ferðamáta mjög mikið hvert sem ég fer. Á þessu eru auðvitað undantekningar. Veður spilar stundum inn í, oft þarf að græja eitthvað eftir vinnu eða það algengasta, leti.
Að nota virka ferðamáta hefur ekki bara jákvæð áhrif á líkamlega heilsu heldur líka andlega. Þá verður til miklu skemmtilegra samfélag þar sem fólk mætist gangandi eða hjólandi en ekki á 2 tonna díselvélum. Fyrir utan það augljósa sem þarf vart að taka fram, jákvæð áhrif á umhverfið.
En það er ekki sjálfgefið að fólk gangi eða hjóli. Þetta er skipulagsmál. Forgangur hjólandi og gangandi þarf að vera skýr og hjólaleiðir vel merktar. Ný hverfi verða að vera hugsuð með þetta að leiðarljósi og því er mikilvægt að byggja samfellda byggð með góðar göngu- og hjólaleiðir. Ef ný hverfi eru byggð, aðskilin frá annarri byggð, eru ansi miklar líkur á því að einn ferðamáti verði allsráðandi. 2 tonna díselvélar.
Bjarni Ólafur Stefánsson, vinnslustjóri, 8. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.