Vettvangur dagsins – Þjóðgarður

243

Margt er rætt og ritað um þjóðgarðsmál þessi misserin.  Tvö frumvörp voru tekin fyrir á fundi bæjaráðs í vikunni, annars vegar um þjóðgarðastofnun og hins vegar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Þjóðgarðastofnun er ætlað að annast umsjón, stjórn og rekstur þjóðgarða og náttúruverndasvæða á Íslandi.  Núna eru ýmsar stofnanir sem sinna þessum málum, eins og Vatnajökulsþjóðgarður, og Umhverfisstofnun.  Hálendisþjóðgarður má segja að sé stækkaður Vatnajökulsþjóðgarður sem fær þá nýtt nafn.  Í báðum þessum frumvörpum er gengið út frá stjórnkerfi Vatnajökulsþjóðgarðs um beina aðkomu sveitarstjórna ásamt hagsmunaaðilum.

Á fundinum í vikunni dró bæjarráð línu um vald heimaaðila um skipulag og annað er þarf að ákveða innan nátturuverndarsvæða og þjóðgarða.

Reynslan

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður fyrir meira en áratug.  Fljótlega var ákveðið að hafa Skaftafellsstofu opna allt árið enda svæðið flaggskip þjóðgarðsins í heild og þar sem flestir leggja leið sína um.  Á fyrstu árum garðsins var Gamlabúð tekin á leigu af sveitarfélaginu og á svipuðum tíma var landvarsla efld á Breiðamerkursandi.  Allt þetta hefur fjölgað opinberum störfum á svæðinu.  Jafnframt hafa Náttúrustofa Suðausturlands og Háskólasetrið á Hornafirði unnið að ýmsum verkefnum fyrir og tengt þjóðgarðinum.  Þá hefur ótrúlegur fjöldi fyrirtækja verið stofnaður sem beint og óbeint þjónusta þá sem heimsækja þjóðgarðinn.  Sú þróun er ekki eingöngu rakin til stofnunar þjóðgarðsins heldur eru aðrir áhrifavaldar þar einnig mikilvægir, eins og áræði frumkvöðla og fjölgun ferðamanna.  Engu að síður má segja að stofnun þjóðgarðsins hafi í heild sinni verið jákvæð þrátt fyrir að ennþá sé langt í land við uppbyggingu innviða og ýmislegt mátt betur fara.

Tímasetning

Áður en hin gamli Skaftafellsþjóðgarður var stækkaður og síðar felldur inn í enn stærri Vatnajökulsþjóðgarð liðu mörg ár af umræðum, nefndarstarfi og skýrslugerð.  Hugmyndin fékk að þróast og breytast í viðtæku samráði í héraði og á Alþingi.   Þess  vegna hlýtur sú spurning að vera uppi hversu hratt eigi að vinna að hugmynd og þróun að miðhálendisþjóðgarði.  Sumir hlutir mega og þurfa að gerast hægt. 

Markmið

Að lokum má spyrja hvert markmiðið með þessu öllu eigi að vera.  Sjaldan verður sú vísa of oft kveðin að nátturuvernd er ekki lengur eina meginmarkmiðið með þessu brölti heldur ekki síður að byggja upp innviði til útivistar (vegi, göngustíga, þjónustumiðstöðvar) sem síðar geti leitt til möguleika á stofnun fyrirtækja er bjóða upp á þjónustu og ferðir á svæðinu og sem þannig (ásamt fleiri opinberum störfum við landvörslu og stjórnun) leiði til fjölgunar starfa á svæðinu.  Þetta er megininntak í bókun bæjarráðs Hornafjarðar í síðustu viku.

HÞV l