Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun sl. fimmtudag. Við það tækifæri var farið í skoðunarferð í Hoffell og kyndistöðina á Höfn sem hefur fengið nýtt hlutverk sem lokastöð hitaveitunnar. Forstjóri RARIK Tryggvi Þór Haraldsson, Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fluttu ávörp við þetta tækifæri og fóru yfir verkefnið og þau áhrif sem það hefur á samfélagið. Sjá hér https://www.rarik.is/frettir/mikilvaegt-framfaraskref-fyrir-byggdina-i-hornafirdi
Árshátíð
Það var mikil gleði og sköpunarkraftur sem tók á móti gestum á árshátíð Grunnskóla Hornafjarðar sem haldin var sl. miðvikudag með sýningu á Konungi Ljónanna. Að vanda var öll umgjörð um sýninguna unnin af nemendum í samvinnu við starfsfólk skólans.
Við hornfirðingar þurfum ekki að kvíða framtíðinni með þessa flottu listamenn í samfélaginu okkar. Öll frábær og á grunnskólinn í heild sinni mikið hrós skilið fyrir að skapa þessa umgjörð fyrir nemendur að koma fram og leyfa íbúum að njóta.
Það er gott að búa í samfélagi þar sem hver og einn skiptir máli og hefur tækifæri til að blómstra. Viðburðir eins og árshátíð grunnskólans sýnir okkur að öll hlutverk eru mikilvæg bæði á sviði í umgjörð og í undirbúningi.
Hlúum vel að hvort öðru sama hvaða hlutverki við gegnum í samfélaginu, hver við erum eða hvaðan við komum. Með því byggjum við betra samfélag fyrir okkur sjálf og hvort annað – góða helgi.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.