Það má segja að það sé mikið að gerast í sveitarfélaginu þessa dagana.
Það var stór stund í Skaftafelli sl. miðvikudag, 30. júní þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra afhjúpaði fyrsta UNESCO skjöldinn í Vatnajökulsþjóðgarði auk þess að staðfesta stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand og stækkun þjóðgarðsins á Suðursvæði.
Stækkunin felur í sér að hluti jarðarinnar Sandfells í Öræfum og þjóðlendan Hoffellslambatungur eru nú innan þjóðgarðs.
Þá var sól og gleði í gær þegar regnbogastígurinn var málaður. Stígurinn er í litum regnbogafánans sem er baráttufáni alls hinsegin fólks og táknar fjölbreytileika hinsegin samfélagsins.
Hefðbundna Humarhátíðarhelgin er að baki og tókst vel til þó hún væri í smærra sniði en undanfarin ár. Það er ánægjulegt hve margir viðburðir voru í boði og munu fleiri viðburðir dreifast út sumarið.
Atvinnulífið er að taka vel við sér eftir erfiða tíma. Nýjir veitingarstaðir bætast við flóruna á Höfn, ferðamenn eru aftur orðnir áberandi í sveitarfélaginu og framkvæmdir í gangi hvert sem litið er.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.