Vettvangur dagsins

316

Síðustu dagar hafa verið bjartir og fallegir og minnt okkur á að vorið er framundan. Ekki bara eiginlegt vor heldur í mörgum skilningi.

Loksins loðna!

Loksins, loksins fóru uppsjávarskipin á loðnuveiðar og fyrstu farmar eru komnir í land og til vinnslu! Mikil gleði og ánægja með það eftir tveggja ára loðnubrest, gott fyrir þjóðarbúið, samfélagið og ekki síst fyrir þá sem hafa lifibrauð sitt af veiðum og vinnslu.

Bólusetningar komnar vel af stað

Vatnaskil eru í heimsfaraldri kórónaveiru þar sem nokkur hópur í samfélaginu okkar hefur nú fengið fulla bólusetningu gegn veirunni. Fáir hafa greinst með veiruna uppá síðkastið og hægt og rólega er verið að breyta sóttvarnarreglum þó þær séu enn mjög strangar á landamærunum. Þessi framvinda gerir það að verkum að aldraðir og aðrir sem hafa nú um langan tíma verið í einangrun á heimilum sínum, geta hægt og rólega farið að losa um einangrun sína sem er langþráð.

Niðurrif

Á bryggjunni er hafið niðurrif á Graðaloftinu. Hús sem staðið hefur til að hreinsa af grunninum í nokkurn tíma sökum þess að byggingin er orðin illa farin og hættuleg, því ekki nýtanleg til endurbóta. Hins vegar verður lóðin laus til úthlutunar og uppbyggingar samkvæmt deiliskipulagi um Hafnarvík – Heppu, því tilvalið fyrir áhugasama að kynna sér þann möguleika.

Framkvæmdir

Það er ánægjulegt að sjá og finna að framkvæmdir við húsbyggingar eru í fullum gangi. Nú styttist í verklok á Víkurbraut og hver grunnurinn á fætur öðrum að birtast á leirusvæðinu. Auk þess sem nýbyggingar hafa risið að undanförnu bæði í Öræfum og á Mýrunum. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var samþykkt að setja lýsingar af deiliskipulögum bæði á leirunni og á Hrollaugsstöðum í auglýsingu til að auka framboð á lóðum og íbúðum í dreifbýli.

Þorrinn er þá senn að renna sitt skeið og sól að hækka á lofti. Góa heilsar á sunnudaginn, en Góuhóf bíður betri tíma. Njótið helgarinnar hvort sem er í leik eða starfi – því lífið er núna.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.