Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 hefur verið fyrirferðarmikil síðustu vikurnar hjá bæjarráði og nefndum sveitarfélagisns. Allar nefndir hafa farið yfir sínar gjaldskrár, forstöðumenn og sviðstjórar yfir ramma málaflokkanna og þörf fyrir fjárfestingar í stofnbúnaði. Bæjarráð hefur með sviðstjórum, fjármálastjóra og bæjarstjóra unnið úr óskum og farið yfir mismunandi sviðsmyndir.
Niðurstaða vinnunnar var lögð fram í bæjarstjórn sl. fimmtudag og var vísað til síðari umræðu ásamt 3ja ára áætlun 2022-2024. Mikil óvissa er ennþá með tekjuliði fjárhagsáætlunar og getur verið að komi til breytinga á milli umræðna.
Lögð er áhersla á að standa vörð um þjónustu sveitarfélagsins við íbúa þá sérstaklega tengt félags- og skólaþjónustu. Framkvæmdaáætlun upp á 800 m.kr heldur þeirri stefnu sem sett hefur verið á síðustu árum þrátt fyrir lægri tekjur, með því leggur sveitarfélagið sitt af mörkum til að halda uppi atvinnu í sveitarfélaginu.
Alvarleg staða ferðaþjónustunnar
Vakin er athygli á alvarlegri stöðu ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu og er gripið til aðgerða til að spyrna við fótum með lækkun fasteignaskattsprósentu bæði hjá íbúum- og fyrirtækjum, unnið er samkvæmt aðgerðaráætlun um valdeflingu íbúa sem snýr m.a. að atvinnuleytendum og í nýsköpun.
Bæjarráð átti fund með fulltrúum frá Vinnumálastofnun þar sem farið var yfir stöðuna tengt atvinnuleysi í sveitarfélaginu. Óskað hefur verið eftir því við Vinnumálastofnun að starfsmaður á vegum stofnunarinnar verði staðsettur á Höfn a.m.k á meðan atvinnuleysi er með þeim hætti sem er í dag.
Þau fyrirtæki og atvinnurekendur sem geta bætt við sig starfsfólki eru hvött til þess og bent á að ef ráðinn er inn einstaklingur af atvinnuleysisskrá fæst stuðningur við launagreiðslu frá Vinnumálastofnun með atvinnuleysisbótum viðkomandi og lífeyrissjóðsgreiðslum. Með því að nýta þetta úrræði er stutt bæði við atvinnuleytandann og starfandi fyrirtæki.
Skipulagsmál
Skipulagsmál voru þó nokkur á dagskrá bæjarstjórnar að vanda. Framkvæmdaleyfi, lóðarúthlutanir, deiliskipulagsvinna og ósk um eða tilkynning um söfnun undirskrifta vegna skipulags.
Það er ánægjulegt að kraftur er í fólki þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Sjálfsagt er að íbúar nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til athugasemda og hvet ég íbúa til að kynna sér málefnin sem um ræðir vel og vandlega.
Nýtt hlutverk
Að lokum þá tók undirrituð að sér formennslu í Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, SASS í lok október sl. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið aðili að SASS frá árinu 2007 en þá hafði verið tekin ákvörðun í íbúakosningu um að fara úr SSA, Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi yfir í landshlutasamtökin á Suðurlandi þar sem sveitarfélagið var orðið hluti af Suðurkjördæmi. Hornfirðingar hafa átt fulltrúa í stjórn frá upphafi en nú formann í fyrsta skiptið. Ég er afskaplega stolt af því að fá að gegna þessu hlutverki og þakka traustið sem mér er sýnt með því.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.