Bættar samgöngur eru baráttumál hverra samfélaga, það má með sanni segja að góðar samgöngur séu lífæð landsbyggðarinnar. Traust vegakerfi og góðar samgöngur eru forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað í þéttbýli sem dreifbýli. Gott vegakerfi leiðir einnig af sér tímasparnað og eitt það mikilvægasta, minni slys. En álag á vegum landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna. Allir sem hafa keyrt um suðurlandi austur á Höfn hafa orðið varir við aukna umferð og krafa hefur verið uppi um að bæta þurfi vegakerfið.
Því er gleðilegt að segja frá því að fljótavegur austur á Höfn í Hornafirði verður fljótlega að veruleika. Hér er um að ræða langþráða vegaframkvæmd sem mun bæta umferðaröryggi og stytta ferðatíma sem um munar. Fljótavegur er svo sannarlega á áætlun og komin í útboðsferli. Gert er ráð fyrir að nú í upphafi febrúarmánaðar komi fram lokatilboð í verkið og skrifað verði undir samninga í sama mánuði.
Ný brú yfir Hornafjarðarfljót mun stytta hringveginn um 12 kílómetra þvert yfir Hornafjörð. Um er að ræða fyrsta verkefnið af sex sem samþykkt voru í lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir. Miðað er við að framkvæmdir hefjist á næsta ári og þær taki þrjú til þrjú og hálft ár.
Það er ánægjulegt að sjá góðar hugmyndir verða að veruleika, sérstaklega hugmyndir sem þessar sem koma til með að bæta samfélagið. 3 ár eru stuttur tími, framtíðin er handan við hornið.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, 7. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki.