Fyrir rúmlega 2 árum skrifaði ég grein í Eystrahorn þar sem ég reifaði samgöngumál í sveitarfélaginu. Nú langar mig að ræða aðeins það sem gerst hefur á síðustu 2 árum í þeim málum.
Ný veglína yfir Hornafjarðarfljótin hefur verið mikið til umræðu og á fundi með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir stuttu kom fram að sú veglína sé í fyrstu umferð svokallaðrar blandaðrar leiðar og vonast hann til að veglínan verði boðin út í byrjun árs og að framkvæmdir geti hafist á fyrri hluta næsta árs.
Þjóðvegur 1 í Öræfum
Til stendur að taka upp aðalskipulag í Öræfum með það að markmiði að stytta veglínu enn meir en gert er í núgildandi aðalskipulagi. Þessi vegkafli er á samgönguáætlun fyrir árin 2030-2034 ásamt vegstyttingu í Lóni en því miður er ekki að sjá göng undir Lónsheiði á henni.
Göng undir Lónsheiði
Það var leiðinlegt að sjá ekki göng undir Lónsheiði á áætlun en við munum að sjálfsögðu þrýsta á stjórnvöld að koma þeim á dagskrá ásamt því að flýta öðrum vegstyttingum eftir fremsta megni.
Einbreiðar brýr
Fækkun einbreiðra brúa á hringveginum er verkefni sem gengur hægar en ég hefði vonast til, en verið er að vinna í tvíbreiðum brúm yfir Steinavötn, Fellsá og Kvíá sem er ánægjulegt að sjá.
Þéttbýli
Af gatnaframkvæmdum í þéttbýli er það helst að frétta að hönnunarvinna á Hafnarbraut hefur aðeins tafist, en ekki er útséð með að framkvæmdir geti hafist á þessu ári. Að öðru leiti hefur töluvert verið lagt af malbiki
síðastliðin 2 ár eins og t.d. í Borgartúni í Öræfum, Nesjahverfi og hinar ýmsu götur á Höfn.
Finnur Smári Torfason, varabæjarfulltrúi og varaformaður umhverfis- og skipulagsnefndar.