Tökum þátt!

546

Það er margt í gangi í Sveitarfélaginu Hornafirði þessa dagana eins og svo oft áður. Mig langar að minna hér á nokkur atriði.

Humarhátíð

Humarhátíð verður sett í kvöld en hófst í gær með brekkusöng á Hóteltúni, listviðburðum og ýmsu fleira. Veðrið ætlar aðeins að stríða okkur eins og það hefur gert oft áður í gegnum tíðina en ég hef trú á því að hornfirðingar láti það ekki aftra sér frá því að taka þátt og gleðjast saman og með gestum sínum.

Dagskrá Humarhátíðar 2023 https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/dagskra-humarhatidar-2023

Íbúakosningar

Vonandi hefur ekki farið fram hjá neinum að íbúakosningar um hvort aðal- og deiliskipulag um þéttingu byggðar í Innbæ haldi gildi sínu standa nú yfir. Sveitarfélagið er brautryðjandi í því að gefa íbúum frá 16 ára aldri tækifæri til að taka þátt í almennum kosningum og er það vel.

Ég hvet alla íbúa sem hafa rétt til að taka þátt í kosningunni til að kynna sér málið á vef sveitarfélagsins og taka þátt í kosningunni. https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/skipulagsmal/kynning-a-skipulagi-innbae-v.-ibuakosningar/

Aðalskipulag 

Unnið er að heildar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem felur í sér samráð við íbúa á hinum ýmsu stigum. Verkefnið hefur fengið sér vefsíðu þar sem áhugasamir geta fylgst náið með ferli vinnunar https://www.hornafjorduradalskipulag.is

Nú þegar hafa borist ábendingar og athugasemdir við lýsingu verkefnisins og fjölmargir tóku þátt í skoðanakönnun sem beint var til íbúa, en núna er opin skoðanakönnun þar sem leitað er til landeigenda og ábúenda í sveitarfélaginu. 

Á seinni stigum eru fyrirhugaðir íbúafundir þar sem gefst áfram kostur á því að taka þátt í vinnunni. 

Skipulagsgátt

Að lokum langar mig að benda á nýjan vef Skipulagsstofnunar sem er samráðsgátt um skipulagsmál, mat á umhverfisáfrifum og framkvæmdaleyfi á landinu öllu. Þar er hægt að finna upplýsingar um mál í vinnslu, gera athugasemdir við mál í vinnslu og sjá endanlegar afgreiðslur mála. Einnig er hægt er að fá áminningu þegar mál á því svæði eða áhugasviði sem maður velur koma inn. Nú þegar eru öll mál sem eru í vinnslu hjá sveitarfélaginu komin inn í skipulagsgáttina. https://skipulagsgatt.is

Kæri lesandi, það er hverju samfélagi mikilvægt að íbúar séu virkir og taki þátt í því að efla, móta og lífga upp á samfélagið. Það getur þú gert með því að taka þátt í bæði viðburðum og samráði – vertu með og taktu þátt!

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, aðalmaður í bæjarráði og umhverfis- og skipulagsnefnd.