Núna er þitt tækifæri kæri framsóknarmaður í Suðurkjördæmi til að hafa áhrif á það hver vinnur fyrir okkur á Alþingi næstu fjögur árin. Með því að raða saman því sem þú telur sterkasta listann þá hjálpumst við að við að stilla upp því fólki sem við treystum í verkið.
Heima við eldhúsborðið höfum við gjarnan skoðanir á mönnum og málefnum og jafnvel hvernig er best að leysa þau verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum þátt þegar tækifæri gefst til.
Stjórnmál eru samofin okkar daglega lífi þó oft á tíðum sé það ekki það sem er efst í huga okkar.
Frambjóðendur
Átta einstaklingar hafa gefið kost á sér í fimm efstu sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi. Allt mjög frambærilegt fólk sem brennur fyrir samfélagið. Ég hvet þig til að kynna þér áherslur þeirra á http://framsokn.is sért þú ekki þegar búin að því.
Takk fyrir mig
Ég undirrituð hef verið fyrsti varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi síðustu tvö kjörtímabil eða frá október 2016 og setið á þingi í forföllum fjórum sinnum á því tímabili. Sú reynsla hefur verið mér mjög mikilvæg og vil ég þakka fyrir þau tækifæri.
Það eru forréttindi að hafa úr góðum hóp að velja til að taka við keflinu í prófkjörinu á morgun laugardaginn 19. júní.
Tökum þátt!
Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti Framsóknarmanna í Sveitarfélaginu Hornafirði , formaður bæjarráðs og 1. varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi