Gleðilegt ár kæru lesendur!
Þegar þetta er skrifað er einn dagur í þorrablót á Höfn og verður það að venju haldið í okkar ágæta íþróttahúsi. Íþróttahúsið er einmitt efni greinarinnar þar sem mér sýnist meirihluti bæjarstjórnar ætla að halda sig við þá vegferð að byggja nýtt íþróttahús og skuldsetja sveitarfélagi upp í rjáfur án nokkura ástæðna. Allavega hef ég ekki séð eða heyrt rök fyrir þessari ákvörðun sem halda vatni. Því miður held ég að meirihlutinn hafi sagt of mikið í aðdraganda kosninga og sitji nú í súpunni og ætli að skuldsetja sveitarfélagið um ca. 2 til 3 milljarða. Ástæðan er að þau settu sig ekki inn í málið og ætla greinilega ekki að hafa fyrir því. Ég hef sett mig inn í þetta málefni þar sem mér er bæði sveitarfélagið og íþróttaiðkun kær. Heilsuefling fyrir alla er mikilvægt málefni í okkar og öllum samfélögum en að því sögðu verða menn líka að sníða sér stakk eftir vexti eða eins og ágætur ráðherra sagði um daginn, menn geta ekki eitt sömu krónunni tvisvar.
Aðeins um iðkendur
Deildir Sindra vor 2023
Eins og sést á þessari töflu þá eru iðkendur hjá Sindra 574 vorið 2023. Að sjálfsögðu eru sumir í mörgum íþróttum en aðrir í engum en til gamans má geta þess að íbúar á aldrinum 0 til 25 ára voru 648 í sveitarfélaginu 1. jan 2023.
En nú skulum við aðeins fara í talna leikfimi. Ef við tökum út knattspyrnu, sund og rafíþróttir, íþróttir sem ekki nota húsið þá erum við kominn niður í 334 iðkendur og ef við svo tökum út fimleikana þar sem þeir eru jú inn í Nesjum (en auðvita er það umdeilanlegt hvernig best væri að haga þeirra aðstöðu) þá erum við komin niður í 218 iðkendur í íþróttarhúsinu á Höfn.
Þetta segir náttúrulega ekki alla söguna þar sem grunnskólinn og fleiri eru að nota húsið líka. En hér er til gamans sá fjöldi sem að meðaltali var í tímum í haust (taflan hér fyrir ofan er vor) það er lítil munur á fjölda iðkenda en haust taflan var bara ekki eins læsileg.
Ég læt líka fylgja svör frá þeim tveimur líkamsræktar stöðvum sem hér eru starfræktar, þá sjá menn svart á hvítu hvar þörfin liggur.
Mæting að meðaltali í tíma | Haust 2023 |
Badmington | 7 |
Blak 5-10 Bekkur | 13 |
Blak MFL.KK | 9 |
Blak MFL.KVK | 13 |
Fimleikar | 14 |
Frjálsar | 5 |
Futsal | 1 |
Karfa 1-2 Bekkur | 19 |
Karfa 3-4 Bekkur | 10 |
Karfa 5-6 Bekkur | 12 |
Karfa 7-8 Bekkur | 13 |
Karfa 9 Bekkur – 1.Frammhalds | 10 |
Karfa MFL.KK | 10 |
Karfa morgunæfingar 8b og upp úr | 7 |
Karfa Oldboys | 9 |
Karfa stelpur 5+ Bekkur | 4 |
Leikskólabolti | 13 |
Miðgarður dagþjónustan | 3 |
Sæll
Virkir meðlimir núna í Desember 2023 voru 54. Mest hafa verið 70 virkir meðlimir, en það var í Apríl 2022. U.þ.b 150+ manns hafa lokið Grunnámskeiði Fenris. 137 meðlimir eru inn í lokuðum Facebook hóp Fenris þar sem hluti starfseminnar fer framm.
Kveðja,
Erlendur Rafnkell
Sæll og gleðilegt árið
Fljótt á litið er um 170 manns sem eiga kort í Sporthöllinni, svo eru um 28 eldri borgarar sem mæta x2 i viku.
74 eiga árskort, restin eru með 1,3 eða 6 mánuði. 10 manns eiga 10 skipta kort.
Kveðja Kolla
Eins og sést á þessum svörum þá eru rúmlega 250 manns að notfæra sér Sporthöllina og Fenri, kannski eru einhverjir tví skráðir, eins og það eru einhver börn í fleiri en einni íþrótt. Hvað íþróttahúsið varðar þá er það ekki full nýtt. Auk þess sýnist mér mörg hús vera með rýmri opnunartíma en við. Það eru bæði hús af sömu stærð og okkar en einnig stærri hús og svo eru menn meira að skipta salnum heldur en við gerum (sjá stundartöflu á heimasíðu Sindra).
Hvað stærð hússins varðar þá voru nokkur samskonar byggð á árunum milli 1970-1980 eftir þessari ríkisteikningu. Miðað við þær upplýsingar sem ég fékk sendar frá Mannvirkjastofnun um íþróttarhús á landinu eru nokkur þeirra óbreytt og önnur sem búið er að byggja við. Hvergerðingar eiga t.d. svipað hús og við og ætla núna að byggja við það. Í Hveragerði eru rúmlega 4000 íbúar en hér erum við um 2600 þar af um 1800 á Höfn. Því miður er ekki að sjá fjölgun í yngri árgöngum í sveitarfélaginu. Ef við skoðum tölur Hagstofunnar frá 1. janúar 2023 þá eru 26 börn að meðaltali í árgöngum 0-6 ára og er það sama meðaltal og í árgöngum 6-12 ára. Vonandi á okkur þó eftir að fjölga.
Aðeins um stærðir, krónur og aurar
Nú veit ég ekki hvað menn ætla að byggja stórt né hvar þeir ætla að byggja. Þó heyrist mér og sýnist af þeim teikningum sem hef séð að það eigi að byggja á æfingarsvæðinu en hvar veit ég ekki fyrir víst. Ég reikna líka með að menn verði stórtækir miðað við hvað fólk hefur látið út úr sér. Nú erum við með um 600 m2 sal og 430 m2 millibygginu á milli skólans og íþróttahúsins. Ég reikna með að menn ætli allavega að hafa fullann handboltavöll sem er 40*20 m og kannski 5 metra umfram sem gerir 45*25=1.125 m2. Síðan reikna ég með að menn hafi áhorfenda palla og búningsklefa, gefum okkur að það verði látið duga 430 m2 eins og eru í núverandi húsi þá erum við kominn með 1.555 m2 byggingu. Mér sýnist að menn ætli að vera stórtækari en þetta miðað við þær teikningar sem ég hef séð, þar er talað um 1.800 m2 sal og mér sýnist þar vera 500-700 m2 stoðrými þar af 6 búningsklefar.
Ég hef ekki hugmynd um hvað það kostar byggja svona byggingu en ég ímynda mér að hún þurfi góða grundun og það er talsvert af blautrýmum í henni sem kostar sitt. Ef við segjum sem svo að fermetrinn kosti sama og menn eru að fara að borga fyrir viðbyggingu á leikskólanum sem er 1.250.000 kr fyrir fermeterinn þá kemur þetta hús sem er ca 1.555 m2 til með að kosta ca 2.000.000.000 kr og hús sem er 2.500 m2 kostar ca 3.000.000.000 kr. Allar þessar stærðir eru hugarburður minn þar sem ekkert er ákveðið nema að það á að setja rúma 100 miljónir í undirbúning á þessu ári. Það er/var búið að skipa nefnd en menn voru gerðir afturreka með hana og sé ég í fundargerð bæjarráðs að skipun á nýrri nefnd virðist eitthvað þvælast fyrir mönnum.
Ég hef vaxtareiknað þessar upphæðir miðað við gefnar forsendur og þær tölur eru ekkert augnayndi. Þetta verður allt lánsfé nema að menn ætli að setja okkur í þá frægu innviðaskuld sem í allri ákvarðanafælni er hægt að skýla sér á bakvið.
Og hvað, í hvað viltu eyða?
Ég hef verið spurður að þessu þegar ég er að tala gegn óþarfa eyðslu. Ég er alla vega ekki þeirrar skoðunar að betra sé að gera illt en ekkert þegar frakvæmdir eru annars vegar. Ég tala nú ekki um þegar menn eru að taka lán fyrir hlutunum. Það er sök sér að menn spreði í einhverja vitleysu ef menn eiga fyrir því og ef þeir eru ekki að leika sér með almannafé.
Það er margt annað hægt að gera til þess að efla lýðheilsu og bæta samfélagið okkar heldur en að byggja nýtt íþróttarhús. Ég held að við séum ekki komin á þann stað að þar liggi mesta þörfin. Ég er þeirrar skoðunar að íþróttaaðstaðan hér á Hornafirði sé mjög góð þó auðvitað megi laga hana. Kostnaður við það ætti þó ekki að hlaupa á mörgum milljörðum. Við verðum að vera sanngjörn í kröfum okkar þetta er jú okkar bæjarsjóður og okkar skattgreiðslur sem verið er að nota.
Eitt finnst mér vera kristal tært. Það þarf að vera búið að ákveða hvað á að gera við gamla íþróttahúsið. Maður heyrir að það sé hægt að nota það í hitt og þetta en það er ekki góð pólitík. Það þarf að vera skýr sýn á framhaldið því annars lenda menn í ógöngum og jafnvel miklum ófyrirséðum kostnaði.
Ef menn ætla í þessa vegferð þá hefði ég viljað að menn færu að eins og Hvergerðingar, þar á að nota gamla íþróttasalinn áfram og nýta öll blautrýmin en byggja við 1.400 m2 sal sem verður tengdur gamla salnum. Það er pláss fyrir þetta ef húsið snýr norður/suður en menn nýta samt sem áður burðinn af gamla húsinu, nýting á gamla húsinu yrði tryggð og knattspyrnan héldi sýnu æfingarsvæði.
Ég læt fylgja með hugmyndir Hvergerðinga.
Þegar þessi lokaorð eru skrifuð þá er þorrablót yfirstaðið. Gott blót og góð skemmtun, maður er manns gaman eins og svo oft sannast á þessum skemmtunum. Ég lít björtum augum á árið 2024 þó svo að það séu blikur á lofti um loðnu þessi dægrin, en fyrirhuguð er önnur leit og vonandi rætist úr. Ég á kannski eftir að setjast aftur við tölvuna í vetur og vonandi verða ekki bara leiðindi sem koma úr mínum ranni.
Ásgrímur Ingólfsson, stjórnarmaður í Framsóknarfélaginu og forseti bæjarstjórnar 2018-2022.