Tækifæri á Covid tímum

269

Samkomubann, 2ja metra regla og aðrar reglur sem sett hafa verið til að efla sóttvarnir hafa leitt eitt jákvætt af sér. Nú er orðið mun algengara að fólk noti tækni til að vinna fjarri vinnustað sínum og til náms. Áður var ekki eins algengt að hægt væri að nota fjarfundarbúnað í háskólanám. Fundir sem fólk þurfti að sækja um langan veg er núna hægt að taka í gegnum fjarfundi. Þetta sparar bæði tíma og peninga.

Byggjum upp aðstöðu til fjarvinnslu

Þessi breyting getur fært dreifðum byggðum og bæjum eins og Höfn ný tækifæri. Talsvert er af störfum bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera sem krefst fyrst og fremst síma og tölvu. Þegar hægt er að nálgast samstarfsfólk með fjarfundarbúnaði, einsog nú er orðið almennt, er ekkert því til fyrirstöðu að búa þar sem fólk kýs helst.

Ríkisstjórn úthlutar fé vegna hruns í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta er ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri ár. Áfallið er stórt fyrir samfélagið, ferðaþjónustufyrirtæki og starfsfólk. Það er hægt að líkja þessu við stórfelldan aflabrest eða hrun í einum af nytjastofnum sjávar. Þetta kemur illa við Sveitarfélagið Hornafjörð enda er það eitt af sex sveitarfélögum sem fá stuðning frá ríkisstjórninni vegna hruns í ferðaþjónustu, alls 18 miljónir króna.

Mikilvægt er að þeir fari beint í atvinnuskapandi verkefni. Eitt af þeim gæti verið að koma upp góðri aðstöðu fyrir fólk sem vill setjast hér að, flytja starfið með sér og vinna úr fjarlægð frá sínum gamla vinnustað.