Sumarið 2020

329

Þetta ár verður sjálfsagt lengi í minnum haft. Það hefur án efa verið erfitt fyrir marga en sem betur fer birta öll él upp um síðir og vonandi verður allt komið nær því sem við viljum sjá í haust. Þó svo að það vanti mikið upp á þann fjölda erlendra gesta sem við hefðum viljað sjá þá hefur nú samt verið gestkvæmt og það hefur verið gaman að sjá hvað landinn hefur verið duglegur að leggja land undir fót og skoða fallega landið okkar. Við Hornfirðingar höfum ekki farið varhluta af þessari ferðagleði og gaman hefur verið að hjóla um bæinn og sjá hvað mikið er að gera á veitingarstöðum og gistihúsum. Tjaldstæðið hefur verið fullt dag eftir dag og golfvöllurinn hefur verið þétt skipaður.

Dreifbýlið

Heyskapur hefur gengið vel og heyrist mér að menn séu almennt að fá mikil og góð hey. Maður gæti ímyndað sér að fé komi líka vænt að fjalli þegar sprettutíðin hefur verið svona góð, en hér verð ég að viðurkenna fávísi mína. Það getur vel verið að vorið skipti meira máli en sprettan nú um mitt sumar en eitt veit ég, það er kostur að eiga mikið og gott hey í vetur.

Bryggjan  

Fiskirí hefur verið gloppótt. Uppsjávarveiðarnar hafa verið kaflaskiptar, þegar maður heldur að allt sé að fara á fullan snúning eftir að hafa fengið gott holl koma léleg holl í framhaldinu, manni er kippt niður á jörðina og nú eru uppsjávarskipin farin að sækja í smuguna. Humarveiðar hafa verið tregar kannski eins og menn reiknuðu með, því miður virðist sá stofn rétta rólega úr kútnum. Bolfiskbátarnir hafa verið að reka í ágætis afla en vissulega hafa verið rólegir dagar inn á milli. Þá sýnist mér að strandveiðar hafi gengið ágætlega, bæði hafa gæftir verið góðar og afli þokkalegur.

Sveitarfélagið, þú, ég og við öll

Það er nóg að gera hjá iðnaðar- og þjónustufólki og sveitarfélagið hefur leitast við að gera það sem það getur til að létta undir á þessum fordæmalausu tímum. Það réð inn ungt fólk til að vinna við verkefni sem setið hafa á hakanum, þörf verk en því miður hefur ekki alltaf verið tími til að sinna þeim. Nú eins og alltaf verða ríki og sveitarfélög að milda höggið af samdrætti í efnahagslífinu og setja framkvæmdir á stað ef þörf er á. Rétt tímasetning er mikilvæg, það er ekki gott ef það opinbera er að keppa um starfskrafta við almenna markaðinn en hinsvegar hefur þetta oft verið þröngur vegur að þræða því vissulega vilja menn láta eitthvað sjá eftir sig. Einn ágætur maður sagið einu sinni við mig að að stjórna væri létt verk þegar allt gengi sinn vana gang, það myndi fyrst reyna á stjórnunar hæfileikana þegar gæfi á bátinn.

Næsti vetur verður krefjandi fyrir ríki og sveitarfélög. Það hefur orðið talsvert tekjufall í ríkisbúskapnum og sveitarfélög hafa einnig flest fundið fyrir því og þá ekki síst sveitarfélög á Suðurlandi. En þó svo að á móti blási er ekkert svartnætti framundan, eins og fyrr segir birta öll él upp um síðir og við Austur-Skaftfellingar notum tíman til að laga og dytta að svo gestir okkar í framtíðinni njóti betur alls þess sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Og almennt held ég að:

Það bera sig allir vel   
þótt úti séu stormur og él, 
allt í góðu inni hjá mér,   
lífið gott sem betur fer.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar