Styrkveitingar úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða

402

Sveitarfélagfélagið Hornafjörður fékk tvo veglega styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða nú í vikunni. Að þessu sinni var um að ræða hæsta styrk úr sjóðnum, 97 m.kr., til lagningar göngu- og hjólastígs milli Svínafells, Freysness, flugvallarins við Skaftafell og þjónustumiðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs. Með þessu tengjast náttúra, samfélag og menning svæðisins saman á heildstæðan hátt. Gönguleiðin skapar  öruggan og vistvænan samgöngukost fyrir íbúa og gesti svæðisins, auk þess sem verður til nýtt aðdráttarafl í hæglætis ferðamennsku sem er í boði árið um kring. Áherslan er á hægan ferðamáta („slow tourism“) á láglendi, að njóta stundarinnar og rímar það vel við stefnur Sveitarfélagsins Hornafjarðar þar sem markmiðin eru meðal annars að draga úr kolefnislosun, efla heilsu og auka veg vistvænna samgangna.

Frumkvæði frá íbúum

Þetta er í annað sinn sem sveitarfélagið fær styrk úr sjóðnum í þetta verkefni en á síðasta ári fékkst styrkur í hönnunarvinnu. Það er að frumkvæði íbúa og landeigenda í Öræfum sem var farið í þetta verkefni. Sveitarfélagið fékk arikitekt til að sjá um hönnunarvinnuna, Hlyn Axelsson og samhliða vann hann að jöklastígnum á Mýrum þar sem göngubrúin fór í hamfaraveðrinu árið 2017 en sveitarfélagið hefur fengið bætur vegna tjónsins á brúnni.

Leiðarhöfðinn

Seinni styrkurinn er 24,6 m.kr. til framkvæmdar hönnunarsamkeppni og vinnu við skipulagsgerð fyrir Leiðarhöfðann á Höfn. Leiðarhöfðinn er einstakur útsýnisstaður með jöklasýn og skipar hann sérstakan sess hjá mörgum Hornfirðingum. Leiðarhöfðinn er fjölsóttur áningarstaður í dag en þar vantar sárlega útsýnispalla og tengingar til að stýra umferð, hámarka jákvæða upplifun og tryggja öryggi gesta á höfðanum. Leiðarhöfðinn getur þjónað mikilvægu hlutverki í því að draga ferðamenn til Hafnar en stór hluti þeirra ferðamanna sem heimsækja sveitarfélagið koma ekki austur fyrir Jökulsárlón. Leiðarhöfðinn getur því orðið einn af seglum ferðamanna á Suðurlandi.

Við erum afar þakklát fyrir rausnarlegt framlag úr Framkvæmdasjóði ferðamannstaða og erum spennt að hefjast handa við framkvæmdir. 

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.