Styðjum lítil og meðalstór fyrirtæki

231

Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi og því er mikilvægt að skapa sem bestar aðstæður fyrir þau til að vaxa og dafna. Í viðtali við Ingibjörgu Björnsdóttur, lögfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins og verkefnastjóra Litla Íslands, sem birt var í maí 2020 kom fram að árið 2018 greiddu lítil og meðalstór fyrirtæki 69% af heildarlaunum í landinu. Það er því ljóst að það er samfélaginu mikilvægt að efla viðspyrnu þeirra og jafna leikinn. 

Þrepaskipting tryggingagjalds og tekjuskatts

Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og við viljum taka upp þrepaskipt tryggingagjald til lækkunar á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því viljum við taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja. Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 milljónir króna á ári mætti til dæmis skoða að skattleggja hærra á móti lækkuninni til að draga ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi. Við í Framsókn viljum enn fremur leggja áherslu á að tekið sé tillit til stærðar fyrirtækja við álagningu ýmissa opinberra gjalda, sem nú eru í formi flatra gjalda og/eða skatta, svo sem gjöld vegna starfsleyfa og úttekta eftirlitsaðila. Þó þessi gjöld vegi ekki þungt í heildarsamhenginu er ljóst að þau geta verið íþyngjandi fyrir smærri fyrirtæki, einkum í upphafi reksturs.

Hvatning til verðmætasköpunar

Þessar skattatillögur Framsóknar verða áherslumál eftir kosningar. Málin þarf að ræða og útfæra nánar í samvinnu við atvinnulífið og mögulega samstarfsflokka. Meginatriðið er að við ætlum að jafna leikinn á fyrirtækjamarkaði með því að jafna stöðuna á milli stóru fyrirtækjanna, sem sum geta hagnast verulega, og minni og meðalstóru fyrirtækjanna til að þau geti haldið blómlegum rekstri áfram. Tillögurnar eru ekki stórtækar og verða ekki til þess að stærri fyrirtæki taki á sig íþyngjandi skattahækkanir heldur er um að ræða hófsamar lausnir. 

Á bak við hvert fyrirtæki, bæði lítil og stór, er fólk sem búið er að leggja hart að sér við að skapa bæði sér og samfélaginu verðmæti og það viljum við vernda. Við lítum þannig á að með þessum hætti sé hægt að nota skattkerfið enn betur til þess að hvetja til fjölþættari verðmætasköpunar.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, skipar 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi