Störf án staðsetningar

420

Nýi heimurinn

Nú þegar liðið er rétt rúmlega ár síðan veiru skrattinn fór að hrjá mannkynið hafa fyrirtæki og stofnanir verið að velta fyrir sér hvernig best sé að vera undir það búinn næst þegar álíka faraldur brýst út. Það er mat margra að þær stóru skrifstofubyggingar sem hýsa jafnvel allt fyrirtækið heyri brátt sögunni til. Að fyrirtæki og stofnanir ættu frekar að dreifa starfsstöðvum sínum og vera jafnvel í mörgum löndum eða heimsálfum. Í þessu felast tækifæri fyrir samfélög eins og Hornafjörð sem hafa upp á allt að bjóða.

Það sem við höfum meðal annars lært undanfarið ár er að heimavinna er ágæt í hófi. Manneskjan er í eðli sínu félagsvera og þarf að hitta annað fólk einhverja vinnudaga í mánuði. Hún þarf kannski ekki endilega sína eigin skrifstofu, hún getur deilt rými með öðrum og jafnvel borði en heimavinna alla daga vikunnar, allt árið er í fæstum tilvikum kostur sem æskilegt er að bjóða upp á. En það ætti að vera sveigjanlegur vinnutími og vinnuumhverfi í boði fyrir þau störf sem það geta og fólk ætti að geta unnið heima hluta af vinnuvikunni kjósi það svo. 

Heimavinna kallar oft á stærra húsnæði því það er ekki alltaf hægt að vera með vinnuaðstöðuna á eldhúsborðinu. Kannski er þetta hluti af þeirri fasteignar eftirspurn sem er í þjóðfélaginu en það er að sjálfsögðu aukinn kostnaður fyrir fólk ef það þarf að hafa auka herbergi á heimilinu fyrir vinnuna. Þetta er örugglega áskorun sem atvinnulífið og launþegar ræða á næstu misserum. Sameiginleg vinnurými, óháð störfum gætu því verið svarið við þessu fyrir marga. 

Störf án staðsetningar

Í haust mótaði sveitarfélagið sér þá stefnu að útbúa aðstöðu fyrir störf án staðsetningar. Sú aðstaða er tilbúin og komin í notkun. Aðstaðan er á efri hæðinni í Miðbæ. Þar hafa þeir sem nýta aðstöðuna samneyti við aðra sem eru með skrifstofur þarna og deila kaffistofu með þeim. Sveitarfélagið nýtti hluta af þeim peningum sem það fékk frá ríkisstjórninni vegna tekjumissis út af Covid-19 til að koma upp þessari aðstöðu.

Í núgildandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 er að finna aðgerð B.7. Störf án staðsetningarVerkefnismarkmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki. Þar er lagt til að slík störf verði unnin á starfsstöð þ.e. í húsnæði þar sem fyrir er önnur starfsemi. 

Við erum komin með góða aðstöðu sem uppfyllir þessi skilyrði og þegar hafa aðilar nýtt sér hana en við höfum einnig verið í sambandi við stofnanir, fyrirtæki og ráðuneyti til að fá fulla nýtingu á aðstöðuna. Vonandi eru einhverjir þarna úti sem hafa áhuga á að nýta þetta tækifæri til að flytja störf hingað. Það er hagur okkar allra að hafa sem fjölbreyttasta starfaflóru á svæðinu, það hefur kófið kennt okkur.

Er vorið komið? 

Þegar þetta er skrifað 5. mars er útlit fyrir enn einn blíðviðris daginn. Þeir hafa verið nokkrir undanfarið og manni finnst eins og apríl sé mættur. En eins og við vitum sem erum meira en tvævetra að þá er enn allra veðra von. Fyrstu farfuglarnir eru þó mættir eins og kemur fram á fuglar.is  

“Fyrstu brandendurnar eru komnar á Höfn, 4 karlfuglar sáust á Flóanum, þar voru einnig tveir tjaldar. Á Skarðsfirði voru komir 11 stelkar og 44 rauðhöfðaendur.”

Bráðum förum við vonandi að sjá fyrstu ferðamennina og svo aukast þeir eftir því sem á árið líður. Lóan mætir með en betri tíð og blóm í haga. Sauðburður hefst svo í byrjun Hörpu með allri þeir vinnu fyrir þá sem sauðfjárbúskap stunda. Iðnaðarmenn slá ekki slöku við og hafa haft ærinn starfa í allan vetur, sjómenn hafa fiskað eins og þeirra er von og vísa, allt samfélagið hefur sinnt sínu, bæði stórir og smáir. Fyrirtæki og stofnanir hafa brugðist við Covid-19 af mikilli skynsemi og æðruleysi.  Það er mín tilfinning að þetta verði gott ár.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar