Stakkur sniðinn eftir vexti

559

Margt hefur verið rætt og ritað um framtíðar uppbyggingu íþróttamannvirkja í gegnum tíðina og ýmsar skoðanir komið fram varðandi málefnið. Margir er e.t.v. orðnir óþreyjufullir að fara að sjá eitthvað gerast í þessum málum sem er eðlilegt. M.a. var stofnaður stýrihópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja og skipulag íþróttasvæðis á miðsvæði. Skemmst er frá því að segja, eins og margir eflaust vita, var niðurstaða hópsins að nýtt íþróttahús yrði sett í forgang og uppbygging á líkamsrækaraðstöðu í framhaldi af því. Um svipað leyti fóru umræður um húsnæðismál grunnskólans til framtíðar að vera háværari. Þar sem svæði undir íþróttamannvirki og skólamannvirki skarast mikið var ákveðið að taka þá umræðu formlega áður en farið yrði í skipulag á svæðinu. Töluverðar umræður urðu í fræðslu- og tómstundarnefnd varðandi framtíðar húsnæði grunnskólans. Einnig var farið í samtal við skólastjórnendur, kennara og foreldra, en það var gert á opnum fundi í vor. Ekki urðu afgerandi niðurstöður úr þeim fundi en eftir tölverðar umræður varðandi málið tók fræðslu- og tómstundarnefnd þá ákvörðun um að framtíðar húsnæði grunnskólans yrði í einu húsnæði sem yrði í og við húsnæði Heppuskóla. Nú var hægt að hefja skipulagvinnuna.

Deiliskipulag miðsvæði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 20. ágúst s.l. lýsingu að nýju deiliskipulagi fyrir miðsvæði Hafnar. Í deiliskipulaginu verður síðan ákveðið fyrirkomulag íþróttamannvirkja og húsnæði grunnskólans til framtíðar. Það eru því góðar fréttir að deiliskipulagsvinnan sé farin af stað. En í framhaldi þarf síðan að hefja undirbúning á framkvæmdum á svæðinu. 

Fjárfestingar og framkvæmdir

En það þarf að vanda til verka varðandi fjárfestingar og framkvæmdir í sveitarfélaginu í þessari óvissu sem við búum við og vera tilbúin að sníða stakk eftir vexti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum fréttir af Covid-19 heimsfaraldrinum undanfarið og þau neikvæðu efnahagáhrif sem faraldurinn hefur á ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga marga hverja. Á seinsta fundi bæjarráðs, þann 22. september kom fram að tekjur frá Jöfnunarsjóði hafa lækkað um 105 milljónir í samræmi við endurskoðaða áætlun sjóðsins. Þannig er gert ráð fyrir að rekstarniðurstaða sveitarfélagsins lækki úr 292 m.kr. m.v. upphaflega fjárhagsáætlun niður í 78,5 m.kr. með viðbótar lántöku uppá 100 m.kr. Þetta er töluvert högg fyrir rekstur sveitarfélagins en sem betur fer hefur fjárhagsstaða sveitarfélagsins verið sterk um nokkurt skeið og er ágætlega í stakk búið til þess að mæta þessu áfalli, alla vega eins og staðan er í dag. En ljóst er að mikil óvissa er framundan varðandi tekjumöguleika sveitarfélagsins og ekki er vitað hversu lengi þessi óvissa varir. Huga þarf að því að framkvæmdir verði e.t.v. smærri í sniðum en ella og verði mannaflsfrekari sem líklegra sé til að unnar verði af heimamönnum. Þannig er líklegra að við náum að halda atvinnunustigi uppi. Einnig þarf að velja framkvæmdir sem eru fjárhagslega hagkvæmar fyrir sveitarfélagið í heild sinni.

Velt upp möguleikum

Út frá þessari stöðu hefur m.a. verið velt upp þeirri hugmynd að flýta heldur uppbyggingu á nýrri líkamsræktaraðstöðu á Höfn. En því skal haldið til haga að fjármagn í undirbúning á nýju íþróttahúsi er á þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og hefur ekki verið á döfinni að breyta því. Án þess að búið sé að kostnaðarmeta þessar framkvæmdir nákvæmlega er ljóst að ný líkamsrækaraðstaða kostar mun minna en nýtt íþróttahús eins og gefur að skilja. Einnig tekur sveitarfélagið þátt í leigu á núverandi húsnæði líkamsræktaraðstöðunnar sem kostar sveitarfélagið töluverðar upphæðir ár hvert. Ef ný líkamsrækaraðstaða verður að veruleika sparast þessar sömu upphæðir.

Stýrihópur um uppbyggingu íþróttamannvirkja ákvað að líkamsræktaraðstaða yrði byggð vestan við núverandi sundlaugarbyggingu og mundi tengjast henni. Inngangur yrði sameiginlegur fyrir sundlaug og líkamsrækt og búningsaðstaða og blautrými sundlaugar yrði nýtt fyrir báðar einingarnar. Einnig ætti starfsmannaaðstaða að geta verið sú sama fyrir alla byggingunna og í leiðinni hægt að bæta hana. Með þessari samnýtingu og þ.a.l. tiltölulega einfaldri byggingu náum við sparnaði sem annars yrði ekki í stakstæðu húsi á öðru svæði. Þannig yrði aðstaða til líkamsræktar orðin enn betri en hún er í dag og til mikillar fyrirmyndar.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, varaformaður bæjarráðs og fræðslu- og tómstundarnefndar.