Stækkun Sjónarhóls

826

Það eru tæp 4 ár síðan nýtt og endurbætt húsnæði Sjónarhóls var tekið í notkun. Í fyrra fór að bera á plássleysi og biðlistar að myndast. Óvænt staða verð ég að segja svo stuttu eftir miklar og þarfar breytingar, og ljóst að húsnæðið hefði þurft að vera stærra frá upphafi. En hvað sem því líður þá er staðan þessi og við urðum að hafa hraðar hendur og bregðast við og var opnun leikskóladeildar fyrir yngstu börnin í Selinu skammtímalausn sem talin var ákjósanlegust. Í mars verða hugsanlega 11 börn í Selinu.

Heildarfjöldi barna á Sjónarhóli í mars verður því um 128, og að mati starfsfólks rúmar skólinn mest 108 börn, ákjósanleg tala er á bilinu 102-108 börn. Áfram þurfum við að vinna hratt og ákveðið í að vinna að lausn til lengri tíma, eða næstu 10 – 15 ára. Í þeirri vinnu þarf fyrst og fremst að vanda til verka með samtali allra hlutaðeigandi. Það þarf líka að horfa til þess að samkvæmt húsnæðisáætlun má gera ráð fyrir um 150 börnum á leikskólaaldri eftir 10 ár. Það er að sjálfsögðu mjög jákvæð þróun ef sú spá gengur eftir. 

Biðlistavandinn – Hugsað í lausnum

Biðlistavandinn er enn til staðar og standa vonir til þess að við fáum áfram afnot af Selinu næsta skólaár, en þá fer stærri árgangur út en kemur inn. En það er ljóst að haustið 2023 þarf að vera búið að koma fyrir öðru húsnæði sem hýsir tvær deildir. Miðað við þær upplýsingar sem búið er að afla er útlit fyrir að fermetrafjöldinn þurfi að vera á bilinu 250 – 300 til að hýsa um 40 börn. Að koma fyrir 250 – 300 fm húsnæði á lóðina verður ekki einfalt mál en með góðri samvinnu þeirra sem málið varðar og fagaðila erum við staðráðin í að finna hentuga lausn.

Það þarf t.a.m. að taka tillit til praktískra atriða sem varða innra starf leikskólans, tengingu við núverandi húsnæði sem mun nýtast vel og taka minnsta plássið af leiksvæði nemendanna og jafnframt valda sem minnstri röskun á framkvæmdartíma. Hugmyndir frá arkitektum hafa verið skoðaðar og er verið að útfæra þrjár þeirra betur að ósk nefndarmanna í fræðslu- og tómstundarnefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd og fulltrúa Sjónarhóls. Við viljum vanda til verka og sjá til þess að húsnæðið geti hýst 150 nemendur svo vel sé. Ef spá um aukinn barnafjölda gengur eftir þá  er kominn tími til að útbúa skipulag til framtíðar þar sem gert verður ráð fyrir nýrri leikskólabyggingu á nýjum stað.

Ég vil nýta tækifærið og þakka stjórnendum og öllu starfsfólki Sjónarhóls fyrir þolinmæði, dugnað og sveigjanleika sem þau hafa sýnt í stöðunni. Staðan er ekki ákjósanleg en að hafa jákvætt og lausnamiðað fólk með sér í þessari vinnu er gríðarlega mikilvægt.

Að auki, frístundastyrkur fyrir 5 ára

Á fundi fræðslu- og tómstundanefndar í desember sl. var farið yfir frístundastyrki í 26 sveitarfélögum fyrir árið 2021. Sú yfirferð sýndi að styrkur Sveitarfélagsins Hornafjarðar að upphæð kr. 50.000 er vel samanburðarhæfur og aðeins fimm Sveitarfélög af þessum 26 sem veita hærri styrk. Ákveðið var að bæta um betur og veita foreldrum 5 ára barna (miðað við árið) styrk að upphæð kr. 10.000. Við hvetjum foreldra 5-18 ára barna sem eru í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þar með talið tónlistarnámi við Tónskólann að nýta þessa búbót sem styrkurinn er.

Íris Heiður Jóhannsdóttir, varabæjarfulltrúi og formaður fræðslu- og tómstundanefndar.