Sorpmál eru gamalt mál og nýtt. Fyrir ekki svo mörgum árum var þetta ekkert flókið. Þú hentir þínu sorpi í ruslatunnuna og hún var hirt og urðað. Nú með betri umhverfisvitund, lögum og reglum er þetta orðið aðeins flóknara. Við flokkum og svo er sumt sorp urðað, annað fer í endurvinnslu og svo framvegis.
Fyrir nokkrum vikum kom út skýrsla sem unnin var fyrir Sveitarfélagið um fyrirkomulag sorpmála í Sveitarfélaginu og það var ekki falleg skýrsla. Niðurstaðan er í raun sú að málaflokkurinn er rekinn í bullandi tapi og verulegar brotalamir á málaflokknum. Það er verk nýrrar sveitarstjórnar að koma böndum á þessi mál og þar er úr vöndu að ráða.
Breytingar á kjörtímabilinu
Fyrir íbúa í þéttbýli þá hefur sennilega stærsta breytingin á líðandi kjörtímabili verið að búið er að fjölga hirðingum á endurvinnslusorpi, en fækka á móti hirðingu almenns sorps.
Í dreifbýlinu hafa orðið þónokkrar breytingar. Við endurvöktum hreinsunardaga að vori og svo er farið reglubundið í ferðir til að sækja rafgeyma og spilliefni. Hætt var að halda úti gáma portum undir járn og timbur vegna slæmrar umgengni og þess í stað býðst nú lögbýlum að fá til sín gám einu sinni á ári. Það verður síðan að meta, í samráði við notendur, hvort það sé fyrirkomulag sem sé komið til að vera eða hvort að önnur lausn henti betur.
Framtíðin
En hver er svo framtíð sorpmála í Sveitarfélaginu? Nú í sumar rennur út samningur við Íslenska Gámafélagið en verið er að vinna í því að framlengja honum til áramóta þar sem ný lög taka gildi þá og réttast að útboð á málaflokknum miðist við þau lög. Þá er rétt að staldra við gera endurbætur á útboði og vanda vel til verka. Einn af þeim hlutum sem ég velti fyrir mér hvort séu æskilegir er hvort að sami aðili eigi að sjá um alla þætti sorpþjónustu á Hornafirði (hirðing, urðun og rekstur Gárunnar).
Finnur Smári Torfason, verkfræðingur, 6. sæti á lista Frasmóknar og stuðningsmanna.