Sumarið er í nánd og eins og flestir ættu að hafa orðið varir við þá er lífið á íþróttavellinum hafið. En það eru kannski færri sem vita að keppnistímabilið í knattspyrnu hófst fyrir mörgum mánuðum síðan. Meistaraflokkarnir okkar byrjuðu að keppa í desember, 3.flokkarnir kepptu sína fyrstu leiki í mars og á næsta ári þá munu 4.flokkarnir einnig byrja svona snemma. Þetta er vegna þess að núna keppa öll lið eina umferð hvert við annað og svo er deildunum skipt upp og þá er keppt við jafningja í seinni umferð sem gerir þetta allt mun skemmtilegra auk þess sem allir fá fleiri leiki.
Aðstaðan
Því miður þá býður aðstaðan okkar ekki upp á að við getum spilað leiki hér heima svona snemma þar sem vellirnir okkar eru grasvellir og það segir sig sjálft að þó að við höfum venjulega milda vetur þá eru vellirnir okkar ekki tilbúnir svona snemma og það er ekki hægt að æfa á því eins mikið og þarf þar sem grasið þolir ekki svona mikla notkun, ekki heldur yfir sumartímann. Nú í mars þá spiluðu 3.flokkarnir okkar tvo “heimaleiki” í Garðabæ með tilheyrandi kostnaði fyrir bæði knattspyrnudeildina sem og foreldra og það sjá jú allir að það er alveg galið að þurfa að keyra tæplega 500 km í og úr heimaleik og þurfa einnig að gista, því ekki er hægt að leggja það á börn að keyra þetta allt á einum og sama deginum auk þess að keppa. Fjarðabyggðahöllin er nær okkur en hún er þéttsetin og ekki unnt að komast að þar þegar okkur hentar og það kallar líka á löng ferðalög að keppa þar. Báran hefur hjálpað okkur heilmikið æfingalega séð en því miður þá er völlurinn í henni ekki nægilega stór til þess að unnt sé að keppa á honum. Allar æfingar á veturna fara fram þar og eins hafa grunnskólabörnin notað Báruna í frímínútum og það má segja að það sé verið að æfa og leika sér í Bárunni alla daga og fram á kvöld og er það vel.
Öflug deild
Hjá knattspyrnudeild Sindra eru 140 iðkendur í öllum flokkum bæði kvenna og karla frá 7.flokk til og með 3.flokk og svo höldum við úti bæði meistaraflokki karla og kvenna og í sumar verður einnig karlalið í meistaraflokki sem keppir undir merkjum umf Mána.
Völlurinn
Íþróttahúsið okkar er barn síns tíma og löngu kominn tími á nýtt. Staðsetning nýs húss er hugsuð á æfingasvæðinu við hliðina á íþróttavellinum. Þegar farið verður að hanna og teikna húsið þá verðum við að huga að annarri uppbyggingu á svæðinu samhliða því. Þegar byrjað verður að byggja íþróttahús þá missum við æfingasvæðið og ekki er unnt að æfa á aðalvellinum því grasið þar þolir ekki endalausan ágang og í raun er staðan þannig að það er kominn tími til að skipta því út þar sem líftíma þess er lokið. Ef við viljum að börnin okkar nái árangri í knattspyrnu og haldi, getulega séð í við jafnaldra sína annarsstaðar á landinu, þá tel ég að eina lausnin fyrir okkur sé að leggja gervigras á Sindravelli. Það er að vísu kosnaðarsamt en það er líka dýrt að skipta út grasinu. Á móti kemur að vallarumhirða á gervigrasi er umtalsvert minni en á grasi. Grasvelli þarf að merkja/mála fyrir hvern leik, það þarf að slá og hreinsa eftir slátt, gata völlinn og svo mætti lengi telja. Gervigras á Sindravöllum myndi gerbreyta allri æfingaaðstöðu yfir vetrartímann og sé ég fyrir mér að unnt yrði að æfa á vellinum nánast á hverjum degi allan ársins hring, sem myndi létta álagið á Bárunni, auk þess sem völlurinn myndi nýtast t.d. skólabörnunum á skólatíma sem og öðrum sem hafa gaman af hreifingu.
Arna Ósk Harðardóttir formaður knattspyrnudeildar Sindra, 10.sæti Framsóknar og stuðningsmanna