Frá því síðasta vor hefur verið ákveðin óvissa um framhald fjallamennskunáms við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu [FAS] þar sem námið fellur ekki að öllu leyti að hefðbundnu framhaldsskólanámi.
Námið hefur verið í boði við skólann frá haustinu 2012 og hefur það þróast mikið á þeim tíma. Áherslan hefur verið á að þróa og bjóða uppá heildstætt nám í fjallamennsku, jökla- og fjallaleiðsögn fyrir einstaklinga 18 ára og eldri, sem hefur tekist mjög vel.
Nú í haust hefur verið unnið að því að tryggja það að þeir nemendur sem hófu námið í haust geti klárað veturinn og að tryggja námið í sessi til framtíðar.
Undirrituð hefur leitt þessa vinnu í breiðri samvinnu við fulltrúa skólans, skólanefnd, bæjarstjóra, fulltrúa menntamálaráðuneytisins og ekki síst Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur alþingismann. Hefur sú vinna nú tryggt að ekki verður rof á námi þeirra nemenda sem eru skráðir til náms og unnið verður að lausn til framtíðar.
Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að tryggja öflugt og gott nám í fjallamennsku, jökla- og fjallaleiðsögn og á það nám hvergi betur heima en í FAS þar þar sem Vatnajökull og náttúran sem honum tengist er kennslustofan.
Aukin fagmennska og öryggi í ferðaþjónustu er það sem koma skal og væntum við sem komum að þessari vinnu góðs samstarfs við ráðuneyti ferða- og umhverfismála við að tryggja fjármögnun fyrir námið til framtíðar.
Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi í skólanefnd FAS og varaþingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.