Samvinna er málið!

608

Eins og langflestir eru meðvitaðir um verður kosið til sveitastjórna þann 14. maí n.k. Ég skipa tólfta sæti á lista Framsóknar og stuðningasmanna þeirra, vegna þess að ég hef alltaf haft áhuga á samfélaginu mínu og hvað þar fer fram. Hef áður tekið þátt í kosningum og sat þá sem varamaður í bæjarstjórn og um skeið í skólanefnd. Hér í Hornafirði er gott samfélag en alltaf er hægt að gera betur og mig langar til að taka þátt í því.

Fyrir þá sem ekki þekkja mig þá heiti á Aðalheiður Fanney Björnsdóttir og starfa sem leikskólasérkennari á leikskólanum Sjónarhóli á Höfn, en ég hef starfað í leikskóla hér í sveitarfélaginu í yfir tuttugu ár. Ég er gift Valdmar Ingólfssyni bónda og við eigum fjögur börn á aldrinum 12-22 ára. Ég hef unnið ýmis störf í gegnum tíðina, verið viðloðandi búskapinn í yfir tuttugu ár, við ferðaþjónustu, unnið töluvert bæði síld og saltfiski, á pósthúsinu, í verslunum og ýmsu fleiru þannig að ég á aðeins í reynslubankanum hvað það varðar.

Ég vil sjá góða samvinnu varðandi málefni sveitarfélagsins, að þau framboð sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum bæjarins beri gæfu til þess að leggjast á eitt í því að forgangsraða þeim verkefnum sem þarf að vinna og gera áætlun um það til lengri tíma. Það er eitt sem við öll eigum sameiginlegt, við viljum gera gott samfélag betra og berum hag íbúa sveitarfélagsins í heild fyrir brjósti. Til þess að gera þetta verðum við að hlusta á íbúa sveitarfélagsins, leyfa þeim að fylgjast með hvað er að gerast og nýta okkur lýðræðisleg réttindi eins og íbúakosningar þegar það á við. 

Ég vil áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja, að fyrst verði byggð líkamsrækt við sundlaugina og í framhaldinu nýtt og fullkomið íþróttahús. En það sem er ekki síður mikilvægt er að halda áfram að vinna að viðhaldi eldri fasteigna sveitarfélagsins.

Mitt hjartans mál eru börn og unglingar – og það sem snýr að þeim. Það þarf að sjálfsögðu að sjá til þess að öll börn búsett í sveitarfélaginu komist inn í leikskóla við eins árs aldur og fái þar þá umhyggju og örvun sem öllum börnum er nauðsynleg. Það sama á við um grunnskólann, þar eiga öll börn að fá kennslu og umhyggju sem þarf til að þeim líði vel. 

Aðalheiður Fanney Björnsdóttir leikskólakennari, í 12. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.