Þriðjudaginn 19. nóvember kl.20 verður Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra og formaður Framsóknar með opinn fund í Golfskálanum á Höfn.
Stjórn Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga hvetur íbúa á svæðinu til að nýta sér tækifærið og ræða við Sigurð Inga um áherslur Framsóknar.
Framsókn leggur áherslu á fjölskyldur, gott samfélag og ábyrg ríkisfjármál í komandi kosningum. Mikilvægustu áherslur fyrir heimilin á Íslandi eru að tryggja ódýrari mat með því að lækka virðisaukaskatt á matvæli og auka fyrirsjáanleika með óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum. Framsókn vill einnig þróa réttlátari húsnæðismarkað með auknu framboði á húsnæði og lóðum, innleiða skattahvata fyrir hagkvæmt húsnæði og auka fjármagn til hlutdeildarlána.
Sigurður Ingi hefur sem innviðaráðherra síðustu ár komið af stað fjölmörgum stórum verkefnum á Suðausturlandi s.s. fækkun einbreiðra brúa (Hólá, Stigá, Steinavötn, Fellsá og Kvíá) svo og lagningu nýs vegar um Hornafjarðarfljót sem felur í sér nýbyggingu Hringvegar á um 19 km löngum kafla. Í tengslum við þá framkvæmd verða lagðir 4,4 km af nýjum tengivegum, 4,4 km af nýjum hliðarvegum auk tveggja áningarstaða. Byggðar verða 4 nýjar tvíbreiðar brýr: 250 m löng brú yfir Hornafjarðarfljót, 114 m löng brú á Hoffellsá, 52 m löng brú á Bergá og 52 m löng brú á Djúpá.
Þá var byggður sandfangari út í Einholtskletta 2020 út frá rannsóknum á Grynnslunum sem hafa verið efldar. Grynnslin voru dýpkuð sl. vetur og stendur til að halda því áfram í vetur til að tryggja innsiglinguna um Hornafjarðarós.
Sigurður Ingi hefur verið fjármála- og efnahagsráðherra frá því í apríl s.l. og hefur á þeim tíma unnið að efnahagslegri velferð með því að ná niður vöxtum og verðbólgu og með því stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu.
Velkomin á fund í Golfskálanum 19. nóvember kl.20 og að kynna þér stefnu Framsóknar á vefsíðunni https://xb.is