Mikligarður

397

Nú þegar framkvæmdir eru að hefjast í Miklagarði vakna eðlilega ýmsar spurningar um notkun hússins. Fyrir ekki löngu síðan var haldið íbúaþing um framtíð Miklagarðs og út frá því þingi hefur atvinnu- og menningarmálanefnd unnið sinn undirbúning. Í þessum framkvæmdum verður farið í lagfæringu á þaki og ytrabyrði að hluta sem ætti að gera húsið vatns og vindhelt. Þá er eftir að lagfæra rafmagn, skólp og tryggja brunavarnir. Það er nauðsynlegt að halda áfram með framkvæmdir strax á næsta ári til að koma húsinu í nýtingu sem allra fyrst. Atvinnu- og menningarmálanefnd hefur rætt og bókað um að halda fjórum bilum til sýningarhalds og leigja önnur út. Það verður háð skilyrðum sem vonandi verða auglýst innan skamms. Okkur vantar sýningarrými til að miðla sögu okkar til þeirra gesta sem sækja okkur heim og einnig verðum við að viðhalda og upplýsa ungafólkið okkar um eldri tíma. Húsnæði Miklagarðs verður að mínu mati að fá að halda sínu upphafalega útliti utan og innan eins og mögulegt er.

Edduverðlaun

Það er dýrmætt fyrir samfélagið okkar að hafa einstaklinga sem eru tilbúnir að leggja líf og sál í að láta drauma sína rætast og leyfa okkur hinum að njóta. Það var ánægulegt að horfa á Edduverðlaunin síðasta mánudag þar sem Hvítur, hvítur dagur sópaði til sín verðlaunum. Ellefu tilnefningar og sex verðlaun er glæsilegur árangur. Hlynur Pálmason og fjölskylda hafa komið til baka eftir nám í Danmörku og hreiðrað um sig í húsnæði inn við Stekkaklett þar sem hugmynd þeirra er að koma af stað eftirvinnslu á kvikmyndum. Hver kvikmynd sem tekin er hér í sýslunni hefur bæði auglýsingagildi fyrir samfélagið og margfeldisáhrif.  Hvert einasta starf er okkur mikilvægt og þurfum við sem bæjarfulltrúar að hvetja og standa með þeim sem vilja og reyna, allavega ekki að að leggja stein í götu þeirra.

Hlynur Pálmason og aðstandendur myndarinnar Hvítur, hvítur dagur: innilega til hamingju með myndina, það verður fróðlegt að fylgjast með næsta verkefni.  

Kristján S. Guðnason

formaður atvinnu- og menningarmálaefndar.