Lengi vel hefur verið kallað eftir framtíðarsýn hjá sveitarfélaginu varðandi helstu framkvæmdir og er hún nú á lokametrunum hvað varðar miðsvæði Hafnar, þótt að vissulega hafi hún tekið lengri tíma en áætlað var. Um er að ræða áætlun og framtíðarsýn til næstu áratuga.
Mánudaginn 21. mars var kynningarfundur í Heppuskóla á deiliskipulagi á miðsvæði Hafnar og teikningum á fyrirhugaðri viðbyggingu við Sundlaug Hafnar fyrir líkamsræktaraðstöðu. Með umræddu deiliskipulagi er horft til framtíðar í bæði íþrótta- og skólamálum með heildstæða nálgun að markmiði.
Við skipulagsvinnuna hafa börn og ungmenni í Grunnskóla Hornafjarðar verið sérstaklega boðin til þátttöku þar sem skipulagsstjóri heimsótti alla bekki grunnskólans, safnaði upplýsingum og ábendingum frá nemendum sem teknar eru með í vinnuna.
Góð mæting var á kynninguna auk þess sem henni var einnig streymt. Umræðan á fundinum var að mestu um forgangsröðun milli íþróttahúss og skólahúsnæðis. Eftir kynninguna hafa komið fram ýmsar vangaveltur varðandi forgangsröðun uppbyggingar samkvæmt deiliskipulaginu sem ekki voru bornar fram á fundinum.
Sundlaug og líkamsrækt
Fljótlega í skipulagsferlinu var ljóst að menn vildu sjá líkamsræktina í tengslum við sundlaugina og var hún staðsett vestan við sundlaugina. Með því er hægt að samnýta búningsklefa með sundlauginni. Sú staðsetning gerir það að verkum að hægt var að hefja vinnu við hönnun líkamsræktar mun fyrr en ella, þ.e. samhliða deiliskipulaginu. Með því nýttist tíminn á meðan verið var að skoða málin varðandi húsnæðisþörf grunnskólans til framtíðar og síðan skipuleggja svæðið undir skólann innan um íþróttamannvirkin þannig að eitt útilokaði ekki annað. Mikilvægt er að ítreka að unnið var eftir niðurstöðum þarfagreiningar stýrihóps sem leiddi í ljós að stærð líkamsræktar þyrfti að vera um 600 fm. Fyrirhuguð bygging er um 680 fm. með hugsanlegum stækkunarmöguleika til vesturs.
Auk þessa felur viðbygging við sundlaugina í sér tækifæri til að bæta við nýrri búningsaðstöðu fyrir fatlaða, þá sem þurfa aðstoð einstaklings að gagnstæðu kyni í búningsklefa og/eða vegna einhverra annarra ástæðna geta ekki nýtt karla- eða kvennaklefa. Með þessu bætir sveitarfélagið aðgengi allra að sundlauginni.
Íþróttahús
Uppbygging samkvæmt deiliskipulaginu mun fara fram í nokkrum áföngum. Líkamsræktaraðstaðan er fyrsti áfangi að óbreyttu. Nýtt íþróttahús sem inniber einnig vallarhús og stúku fyrir Sindravelli er í dag á 3 ára framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir hönnun á næsta ári og að framkvæmdir eigi að geta hafist árið 2024. Íþróttahúsið okkar er barn síns tíma og löngu kominn tími á úrbætur. Salurinn er lítill og áhorfendaaðstaðan ekki góð. Eftir gott gengi í meistaraflokki karla í körfubolta og öflugu starfi í blakdeildinni undanfarin ár er eðlilegt að undiraldann um nýtt íþróttahús sé sterk.
Gervigras
Þá hefur líka verið lagt inn í umræðuna að mikilvægt sé að setja gervigras á Sindravelli vegna þess að KSÍ stefnir nú á að hefja Íslandsmót í knattspyrnu í mars á 11 manna velli. Flest svæði á Íslandi búa við aðgengi að 11 manna gervigrasvelli en eins og staðan er í dag þá þurfa okkar iðkendur annaðhvort að fara um langan veg á Austfirði eða á Selfoss til að spila á slíkum velli. Ef við gerum ekkert þá þurfa bæði yngri- og meistaraflokkar að spila fyrstu heimaleiki tímabilsins utan sveitarfélagsins. Mikill áhugi er á því að leysa þetta mál sem fyrst. Verið er að afla upplýsinga um kostnað við slíka framkvæmd til að átta sig á umfangi þess.
Ábyrg fjármálastjórn
Best væri að geta gert allt strax. Við viljum hins vegar tryggja að fjármál bæjarins séu í góðu horfi eins og við teljum okkur geta státað af síðustu ár. Við höfum afl til að framkvæma en það þarf að gera á ábyrgan hátt, að undangengnu samráði og samtali við alla hagsmunaaðila. Við teljum okkur hafa lagt okkur fram við það en erum auðvitað alltaf reiðubúinn að bregðast við aðstæðum, hlusta á rök og sjónarmið annarra í þessu máli sem öðrum.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs, Björgvin Óskar Sigurjónsson, varaformaður bæjarráðs og fræðslu- og tómstundanefndar og Íris Heiður Jóhannsdóttir, formaður fræðslu- og tómstundanefndar. Höfundar eru einnig frambjóðendur Framsóknar og stuðningasmanna í 1., 2. og 5. sæti fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí n.k.