Mannanna verk

962

Í fyrra stóð listamaðurinn Almar Atlason fyrir einstökum gjörningi. Hann heimsótti Hornafjörð og bjó í tjaldi, 111 árum eftir að Ásgrímur Jónsson hafði gert hið sama, og málaði listaverk í Hornafirði og nágrenni. Það var ekki fyrr en á opnunarsýningunni sem ég áttaði mig á því að þessi gjörningur var stórkostlegur. Málverk af náttúru eru nefnilega líka samtímaheimildir um staðinn eins og hann er í dag. Verk manna eins og Ásgríms og Höskuldar sem komu til Hornafjarðar til þess að fanga ódauðlega náttúru settu í leiðinni niður heimildir um staðhætti, stöðu jökla, hús sem stóðu og jafnvel fólk á staðnum. Þetta gerði Almar líka, rúmri öld síðar. 

Á áðurnefndri opnunarsýningu var ég staðráðinn í að kaupa listaverk eftir Almar. Ég vildi vera hluti af þessu, hver veit nema verk hans eftir þessa heimsókn verði jafn áhugaverð í augum næstu kynslóðar og verk Ásgríms eru fyrir okkur. 

Eftir frekar stutta umhugsun völdum við hjónin verk. Verkið sem greip okkur fyrst, af Jökulsárlóni. Þessi síbreytilegi staður þar sem engin stund er eins og hver einasta mynd yrði einstök. En verkið var ekki bara af jökli og gæti hafa verið teiknuð af Ásgrími 111 árum áður. Hún var af flugeldasýningunni á Jökulsárlóni.

Þegar verkið var komið uppí stofu varð eiginkonu minni að orði, að verkið væri ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að það væri af flugeldasýningunni. Hver veit, bætti hún við, hve mörg ár séu þangað til þetta hættir. Verkið sameinar því náttúru Íslands og mannanna verk. 

Mannanna verk. Málverk, flugeldasýning, bátur á lóni. Allt eru þetta mannanna verk. En það eru líka ákvarðanir teknar í opinberum stofnunum sem haldið er uppi af skattgreiðslum okkar. Stofnun sem sett var á laggirnar til þess að vernda svæði en á sama tíma vinna í sátt og samlyndi með íbúum og þeirra sem þangað vilja sækja. Ákvörðunin er ekki bara tilkynning sem kemur á blaði sem starfsmaður stofnuninnar sendi frá sér. Hún er mannanna verk. Einhver tók þessa ákvörðun og svo virðist sem sá og hinn sami hafi gert það í frekar litlu tómi. 

Það má vel vera að þessi flugeldasýning sé tímaskekkja. Þessi grein verður það jafnvel líka þegar málið verður skoðað í baksýnisspeglinum. Að skjóta upp mengandi flugeldum gæti orðið minningin ein eftir nokkur ár. 

En það fríar opinberan starfsmann samt ekki þeirri ábyrgð að hann ákvað að taka ákvörðun. Ákvörðun sem var líklega ekki hans að taka nema að minnsta kosti að loknu samtali við stjórnina. Stjórn sem hefði þá geta rætt þetta við hagsmunaaðila og tekið upplýsta ákvörðun. Ekki geðþótta ákvörðun opinbers starfsmanns sem telur flugeldasýningu á landi íslenska ríkisins ekki eiga rétt á sér. 

Verk Ásgríms af náttúrunni geymir minningar um liðna tíð. Sömu sögu er að segja af sumum verkum Almars. Hver veit nema verkið sem hangir uppí stofu í Sólbæ geri það líka? En eins og að á einhverjum tímapunkti var ákveðið að rífa hluta húsanna sem standa á frægri mynd Ásgríms af Hornafirði þá ákvað einhver að nú, eftir tugi ára, verður ekki lengur skotið upp flugeldum á Jökulsárlóni. Þetta er ekki ákvörðun stofnunnar, þetta er mannanna verk.  

Bjarni Ólafur Stefánsson, formaður Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga og varamaður í atvinnu- og menningamálanefnd.