Fyrstu húsin á Höfn voru reist við Hafnarvík árið 1897. Þau standa enn. Gamlabúð hýsir Vatnajökulsþjóðgarð, Kaupmanshúsið og síðar Kaupfélagshúsið geymir hið góða veitingahús Ottó og hús Guðmundar söðlasmiðs stendur enn efst á Afkasthól þar sem gatan Bogaslóð liggur um.
Innsigling
Hin gjöfulu fiskimið fyrir utan Hornafjörð er ástæða fyrir þéttbýlinu sem tók að myndast fyrir meira en öld síðan. Ósinn hefur hins vegar verið ein stærsta ástæða þess að Höfn var ekki enn stærri verstöð en raunin er. Lengi hefur verið barist fyrir því að lagt verði fé í rannsóknir, hönnun og framkvæmdir við bætta innsiglingu um Ósinn.
Varnargarður sem nú er unnið að í Einholtskletta mun hjálpa til við að stöðva sandburð inn í Ósinn og minnka þannig líkur á að að skip taki niður um leið sinni um Grynnslin. Verkinu á að ljúka í september.
Þetta er fyrsta skrefið af mörgum í að búa til betri og öruggari innsiglingu. Með þessu skapast mikil tækifæri í sjávarútvegi með möguleika á komum stærri frakt- og fiskiskipa. Skemtiferðaskip sem núna komast ekki inn um Ósinn myndu örugglega glöð vilja leggjast að bryggju í Ríki Vatnajökuls.