Kynningarátak fyrir ferðaþjónustun

365

Áhugaverður kynningarfundur var haldinn fyrir skemmstu í Gömlubúð þar sem Árdís Erna Halldórsdóttir og Þorkell Vignisson fóru yfir markaðsátak sem ráðist var í að hálfu sveitarfélagsins á þessum fordæmalausu tímum . Kynningin var góð og vel unnin af hálfu þeirra sem að henni komu og kemur hún til með að nýtast áfram þegar fram í sækir.

Það er fróðlegt að sjá hvað tækninni fleytir fram og samfélasmiðlar skipta orðið miklu máli í markaðs- og kynningarmálum.  Einnig er mikilvægt að leita til fagfólks til að fjármagni sé sem best varið þegar markaðsetja á svæði eins og okkar hér á suðausturhorninu.  Jafnframt skiptir miklu máli að ferðaþjónustuaðilar komi ásamt sveitarfélaginu að þeirri kynningu í gegnum Ríki Vatnajökuls.  

Afþreyingu skorti í þéttbýlinu

Eitt af því sem rætt var um á fundinum var afþreying í þéttbýlinu.  Margir telja að skortur sé á afþreyingu en undiritaður benti á að bæta mætti inn í kynninguna okkar góða golfvelli sem er einstaklega skemmtilegur og útsýnið stórkostlegt. Safnamál voru einnig rædd. Í haust hefjast framkvæmdir við Miklagarð það þarf að fara í ýmsar endurbætur svo hægt sé að koma honum í notkun. Hugmyndin er að þar gætu verið sýningar, listamenn og hannyrðafólk af öllum gerðum. Mikligarður sjálfur geymir djúpa og mikla sögu Hafnar. Ef setja á upp jöklasýningu af þeirri stærðargráðu sem sýningar eru í dag tel ég það nokkuð ljóst að einkaaðilar verði að koma þar að, með öflugri samvinnu við sveitarfélagið.  En margt er hægt að gera og mikilvægt er að koma sögu Hafnar til skila á einn eða annan hátt, t.d. með blönduðum leiðum eins og hafa möguleika á að setja eitthvað af  árabátum okkar og aðra muni sem tengjast sjósókn þar sem Akureyjan stóð og fara yfir sögu sjósóknar Hafnar þar í máli og myndum.

Kristján S. Guðnason

Formaður atvinnu- og menningarmálanefndar