Kosningar 14. maí!

658

Nú þegar örstutt er í kjördag hamast frambjóðendur við að koma sínum stefnumálum að, reyna að hafa áhrif á kjósendur, sumir lofa meira heldur en þeir geta staðið við með góðu móti hvort sem það er of íþyngjandi fyrir sveitarsjóð eða jafnvel ekki einu sinn á könnu sveitarstjórnar. Allt á að gera stórt og smátt. Því miður eiga þeir ágætu frambjóðendur sem svo digurbarkalega tala eftir að komast að því, ef þeir fá brautargengi, að það er ekki hægt að gera allt en vissulega er hægt að gera margt þar sem skuldastaða Sveitafélagsins Hornafjarðar er góð og mörg sveitarfélög öfunda okkur af því.

Tekjur og gjöld

Eitt að því fyrsta sem manni var kennt í bókfærslu eru þessir dálkar og að menn skyldu bera virðingu fyrir þeim báðum. Þeir gegna báðir mikilvægu hlutverki í að halda utan um rekstur, hvort sem hann er stór eða smár. Sveitafélag hefur ekki mikla tekjumöguleika aðra en að auka álögur á íbúana og fyrirtækin. Sveitarfélag selur ekki vörur eða þjónustu sem getur skilað afgangi, útsvar og fasteignarskattur eru u.þ.b. 2/3 af tekjum og jöfnunarsjóður u.þ.b. 1/3. Á því kjörtímabili sem nú er að líða var bæði lækkaður fasteignaskattur á heimili og fyrirtæki, hvað svo sem menn gera á því næsta verður sveitarfélagið að vera samaburðarhæft við önnur sveitarfélög án þess þó að skaða reksturinn svo lántaka verður að vera hófleg. Það mun þurfa að taka lán og sveitarfélagið ræður við það, en of mikil skuldsetning er blóðug og hvet ég alla nýja bæjarfulltrúa að falla ekki í þá gryfju. 

Útgjöldin

Þessi skemmtilegi liður er vandmeðfarinn og held ég að sú bæjarstjórn sem senn kveður hafi verið nokkuð farsæl hvað útgjöld varðar, við reyndum að lesa í atvinnuástandið eins og við framast gátum. Ekki að setja of mikið af framkvæmdum af stað á sama tíma, reyna þó alltaf að vera með eitthvað í gangi því okkur fannst við skulda orðið innviða uppbyggingu, en vissulega er framkvæmdaáætlunin gerð að hausti fyrir næsta ár. Við reyndum að huga að nýjum verkefnum samhliða því sem viðhaldi var sinnt, einnig ákváðum við að fráveitu og götum yrðum við að sinna áfram og frekar að bæta í heldur en hitt. Vissuleg hefðum við geta gert betur, maður getur alltaf gert betur og allir hafa skoðun á því í hvað það á að verja fjármununum í.

Lokaorð

Undanfarin ár hefur launakostnaður sveitafélagsins aukist um rúmar 200 milljónir, annars vegar eru það kjarasamningar, launahækkanir þeim tengdar og stytting vinnuvikunnar og hins vegar hefur stöðugildum fjölgað, bæði til að auka þjónustu og svo líka vegna covid pestarinnar. Í þessu sambandi er vert að geta þess að launakostnaður hjá sveitarfélögum hefur að meðaltali aukist um 16%,  9% hjá ríki og 7% í einkageiranum . Við erum ekkert eyland í þessu, en þetta er áskorun sem bíður nýrrar bæjarstjórnar. Tekjur eru að aukast með auknum ferðamannastraum, það eru bara spennandi tímar framundan. Við þurfum öfluga bæjarstjórn með skýra sýn og kunnáttu til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem bíða.

Setjum X við B á laugardaginn!

Ásgrímur Ingólfsson, skipstjóri og forseti bæjarstjórnar. 14. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.