Jöklasýning og önnur menning

1024

Frá því Gamlabúð var flutt aftur niður á hafnarsvæðið árið 2013 hefur Vatnajökulsþjóðgarður leigt húsnæðið af sveitarfélaginu, rekið þar upplýsingarmiðstöð, sýningu og skrifstofuaðstöðu starfsmanna. Starfsmönnum þjóðgarðsins á Höfn hefur fjölgað undanfarið og er von til þess að fjölgi enn frekar á næstu árum. Nú þegar er aðstaðan orðin of lítil og þarf því  að gera ráðstafanir til þess að taka á móti þeim störfum. 

Sveitarfélagið og Vatnajökulsþjóðgarður hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að byggja nýtt eða finna annað hentugt húsnæði sem  einnig gæti hýst jöklasýningu sem þjóðgarðurinn kæmi til með að sjá um í samstarfi við sveitarfélagið. Því auðvitað á jöklasýning hvergi annarstaðar heima en hér á okkar svæði og þar þarf að vanda til verka. 

Jöklasýningin þarf í senn að vera fræðandi og eftirtektaverð svo hún dragi að ferðafólk. Nú þegar hefur verið fundað um málið og er einhugur um að vinda sér í þetta verkefni. Við það að þjóðgarðurinn fari úr Gömlubúð opnast möguleikar á að sveitarfélagið setji upp veglega sýningu í húsinu t.d. um sögu Hafnar. Tíminn líður hratt svo skynsamlegt væri að fara undirbúa þá sýningu. 

Ég tel að gefa eigi  íbúum kost á að koma með sínar hugmyndir og væri ekki úr vegi að hafa íbúafund þar sem málið væri unnið áfram. 

Sýning í Gömlubúð myndi létta á Álaleirunni sem nú hýsir safnakostinn og þreytist ég seint á því að tala um að í Áleirunni eigi að vera opnar geymslur þar sem allir eiga að hafa aðgang þegar blessuð veiran gengur yfir. 

Svavarssafn

S.l. laugardag var stórkostleg sýning opnuð í Svavarssafni á verki Hlyns Pálmasonar; Harmljóð um hest.  Það er okkur hornfirðingum afar mikilsvert að eiga slíkan listamann og vonandi kemur hann til með að búa hér um ókomna tíð, og að svæðið fái að njóta hans einstöku hæfileika.

Sindrabær Menningarhús

Það þarf að klára endurbætur á Sindrabæ, og það þarf að gera það vel. Það er mín skoðun að það sé vel þess virði að taka samtalið um hvort Sindrabær geti ekki orðið Menningarhúsið okkar sem gæti hýst auk tónlistar bíósýningar, leiksýningar og fleira. Með viljann að vopni hef ég trú á að svo gæti orðið.

Örnefnaskilti

Nú á vormánuðum eigum við von á því að ný örnefna skilti verði sett niður við göngustígin á Höfn. Það er mikilvægt að örnefni glatist ekki og er þetta ein leiðin til að vekja athygli á þeim. Ungir og gamlir fái tækifæri til að glugga í skiltin sér til gagns og gamans.

Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningamálanefndar.