Undanfarið hefur mér fundist svo ótal margt skemmtilegt og spennandi að gerast hér í Hornafirði og umræðan þar af leiðandi jákvæð. Það er kærkomin tilbreyting frá annars oft neikvæðri umfjöllum um allt og ekkert sem dynur á okkur úr öllum áttum frétta- og samfélagsmiðla.
Mér finnst nefnilega oft eins og fréttir, þó að þær séu ekki endilega sérstaklega neikvæðar, að þá sé reynt eftir fremsta megni að snúa út úr þeim og finna einhvern neikvæðan vinkil, gera þær aðeins meira grípandi og velja æsandi fyrirsögn sem fær okkur til að „klikka“ á hana og bregðast við. Og við erum ógeðslega góð í því að romsa út úr okkur öllum okkar skoðunum um allt og ekkert í „kommentakerfum“ sem loga og þræta við þá sem hafa aðrar skoðanir en við. Það sem fólk lætur flakka er alveg með ólíkindum dónalegt og ljótt að maður verður miður sín, hissa, reiður og allt þar á milli.
Þess vegna í allri þessari neikvæðni er svo gott og gefandi að taka meðvitaða ákvörðun um að einblína á allt það góða og jákvæða sem fjallað er um og er að gerast í okkar nærumhverfi, því ekki nennum við að vera fúl eins og kommentakerfisfræðingarnir! Og viti menn, það er bara ansi margt sem hægt er að nefna og því verður þessi pistill frekar jákvæður, einskonar hrós-pistill og fyrirsögnin líka.
Þegar ég skrifa þessi örfáu orð er ég nýbúin að fletta í gegnum nokkur eintök af Eystrahorni. Það var alveg frábært að útgáfa Eystrahorns hélt áfram og vil ég hrósa Arndísi Láru fyrir virkilega gott og fjölbreytt blað, og ekki verra að fá góðar mataruppskriftir í blaðið, en ég var einmitt að leita að ákveðinni uppskrift með þessu fletti mínu. Mér finnst líka gaman að sjá forsíðumyndirnar frá hinum og þessum Hornfirðingum, margar glæsilegar myndir og var forsíðan með Fókus sigurvegurum Músíktilrauna frábær! Ég óska þeim enn og aftur innilega til hamingju með árangurinn, en þær hafa líka verið svakalega duglegar og ég hlakka til að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Talandi um dugnað, þá verð ég að hrósa öllu því góða fólki sem kom að leiksýningunni „Galdrakarlinn í Oz“. Ég á ekki til orð yfir öllu þessu hæfileikaríka fólki! Flott uppsetning, leikurinn frábær og svo virðist sem allir geti spilað á hljóðfæri eða sungið eins og englar. Spurning hvort það sé ekki ástæða til að stofna aðra hljómsveit, grínlaust!
Ég get ekki státað mig af því að kunna á hljóðfæri, því miður, en mér þykir gaman að syngja og ákvað að skella mér í kvennakórinn í upphafi árs. Það er frábær félagsskapur og kórinn mjög fjölmennur eða um 50 konur. Um helgina er landsmót kvennakóra á Íslandi og erum við fullar tilhlökkunar að stíga á svið í Hörpunni og þenja raddböndin undir dyggri stjórn Heiðars kórstjóra. Ég fór einmitt á tónleika karlakórsins Jökuls í Hafnarkirkju á sumardaginn fyrsta. Það er eitthvað svo notalegt að hlusta á þá og orðin hefð hjá ansi mörgum að bjóða sumarið velkomið með þessum hætti. Það má með sanni segja að hér sé nóg um að vera fyrir þá sem hafa gaman að söng; kvennakór, karlakór, samkór og síðast en ekki síst Gleðigjafar.
Ég hef líka lúmskan áhuga á kvikmyndum og varð gríðarlega spennt þegar ég heyrði að til stæði að stofna félagasamtökin Bíó Loftið. Ég mætti á stofnfundinn og er nú komin í stjórn Bíó Loftsins ásamt góðu og öflugu fólki. Vonir standa til að í nánustu framtíð verði hægt að fara í bíó hér á staðnum, vera með reglulegar sýningar og góðar kvikmyndir fyrir alla aldurshópa. Maður er orðinn svo vanur því að liggja heima í sófanum yfir bíómyndum, en mikið hefur maður gott af því að skella sér út á meðal fólks og njóta góðra kvikmynda í bíó.
Það er svo margt spennandi að gerast hér á staðnum og allt sem okkur stendur til boða til að sinna okkar áhugamálum stendur og fellur með þátttöku okkar sjálfra. Að geta sinnt áhugamálum er svo mikilvægt, fyrst og fremst snýst það um lífsfyllingu og þar að auki er það félagslega gefandi.
Eigðu sérlega góðan dag!
Íris Heiður Jóhannsdóttir, aðalmaður í velferðarnefnd.