Íþróttamannvirki á Hornafirði sagan endalausa!

774

Nú standa yfir kynningar á hugmyndum að uppbyggingu íþróttasvæðis hjá Sveitafélaginu Hornafirði svo kallað Miðsvæði.

Á fyrri kynningarfundinum af tveimur fyrir kjörnum fulltrúum og hagsmunaaðilum fór Sigurjón bæjastjóri yfir þær hugmyndir sem komið hafa fram í gegnum árin og búið er að taka saman af starfsmönnum og arkitektum á myndrænan hátt. Hugmyndirnar eru nokkrar og þannig gerðar að flestir sjái svæðið myndrænt sem auðveldar allar ábendingar við heildarskipulag. Teikningarnar hafa verið unnar úr eldri þarfagreiningu og skýrslum sem fyrir lágu hjá sveitafélaginu. https://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/uppbyging-ithrottamannvirkja/

Áfangaskipta þarf svæðinu jafnhliða gerð heilstæðrar stefnu í málaflokknum áður en hafist er handa. Hvar er þörfin mest og á hverju á að byrja. Það verður þó aldrei þannig að allir verða sáttir. Margar ábendingar sem taka þarf tillit til hægja á verkinu. 

Nýjar þarfir

Á vinnustiginu getur landslagið breyst eins og það virðist vera að gera í dag og á ég þar við endurnýjun á gervigras og hlaupabraut. Minnist ég þess ekki að hafa heyrt talað um að svona brýnt væri að fara í þessa framkvæmd nema rétt í aðdraganda síðustu kosninga. 

Ég er samfærð um að ef hingað myndi flytja áhugamaður um handbolta og hér yrði rifin upp handboltadeild yrði það alltaf á kostnað annarra deilda því iðkendurnir eru jú alltaf svipaður fjöldi í Sveitafélaginu þó einhverjir kæmu jafnvel inn sem ekkert eru að iðka í dag eins gæti verið að aðrir misstu móðinn. Allt fer þetta eftir mannauðnum á staðnum, áhuga og elju. Yrði svona breyting á samfélaginu gæti það einnig haft áhrif á verkefnið sem er í kynningu. 

Áfangaskipting

Síðasta bæjastjórn var einhuga þvert á flokka um viðbyggingu við sundlaugina sem fyrsta áfanga í uppbyggingarferli íþróttamannvirkja og er það verkefni tilbúið og hægt að bjóða það út á morgun sé vilji til þess. Næsti áfangi var að fara í vinnu að heilstæðri mynd af svæðinu með íþróttahúsi, vallarstúku og fimleikahúsi eins og verið er að gera núna. Ásamt fráteknum byggingarreit við Heppuskóla fyrir stækkun Grunnskólans. 

Vona ég að nýr meirihluti sjái í bókunum fyrra bæjaráðs og bæjastjórnar að ákvörðunin um þessa forgangsröð var ekki tekin í skyndi og nauðsynlegur hlekkur til framtíðar fyrir eldri iðkendur í heilsueflandi samfélagi. Á meðan ekkert er gert heldur þessi hópur áfram að banka á dyrnar hjá sveitarfélaginu eftir stuðningi.

Byggjum viðbygginguna við sundlaugina á meðan við ákveðum næsta skref, það er góð leið í áfangaskiptingu og byrjun á uppbygginu svæðisins. Bjóðum verkið út og höldum áfram hugmyndavinnu við áfanga 2 sem á langt í land með að verða að tilbúnum útboðsgögnum. 

Gunnhildur Imsland, varabæjafulltrúi og aðalmaður í fræðslu og frístundanefnd.