Innviðir og náttúruhamfarir

176

Það er hægt að segja að veðrið hafi ekki leikið við okkur að undanförnu.  Á suðausturhorninu hafa samt ekki átt sér stað jafn alvarlegir atburðir og annar staðar þó þurft hafi að loka vegum og samgöngur farið úr skorðum.  Það var mörgum mjög sterk áminning um styrk náttúruaflanna að frétta af snjóflóðinu á Flateyri fyrir skömmu.  Það rifjaði upp erfiðar minningar þjóðarinnar þegar stórt snjófljóð féll á sama stað árið 1995 þar sem 20 létust.  Flóðið í janúar sýndi að mikilvægt er fyrir okkur að styrkja innviði landsins eins og gert var með varnargörðum á Flateyri.  Ritað var á einhverjum miðli að hvergi hafi fallið jafnstórt snjóflóð á mannvirki og á Flateyri á þessu ári.

Náttúran er síkvik

Öræfajökull hefur minnt á sig á liðnum árum.  Fjallið hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma með miklum afleiðingum.  Undir fjallinu hvílir merkileg byggð sem að á síðustu árum hefur verið að eflast og styrkjast.  Á sumrin eru þarna þúsundir manna á hverjum degi og vetrarumferð mikil.  Þetta er allt áminning um að viðbragðsáætlun í tengslum við Öræfajökulsgos er mikilvægt verkefni og æfingar tengdar þeirri áætlun. 

Innviðir

Veðrátta eins og hefur verið undanfarna mánuði hefur kallað á skoðun á öllum innviðum sem við reiðum okkur á. Þar eru ýmsar áskornanir sem takast þarf á við sem tengjast t.d. raforkuöryggi og fjarskiptum. Við þurfum að byggja áfram upp varnir gegn snjóflóðum en líka að styrkja varnir gegn annarri vá s.s. vatnaágangi, sjógangi, efla vöktun á eldfjöllum og  hættu á berghlaupum.  Við erfiðar aðstæður eru það heilbrigðisstarfsmenn, viðbragðsaðilar og sjálfboðaliðar björgunarsveitanna sem við reiðum okkur á.  Þegar veðrinu slotar ættum við að muna eftir þessu fólki, þó ekki væri nema með öðru en að þakka þeim fyrir – en helst með hærri fjárframlögum þannig að þau geti eflt sig og styrkt.

Ásgerður Gylfadóttir