Fyrir 12 árum bauðst mér að taka sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra, í tvö kjörtímabil hlaut ég kjörgengi sem vara- og svaðalmaður í bæjarstjórn. Þó ekki sé langt síðan voru byggingarframkvæmdir litlar og nægar lóðir á Leirunni í byrjun þess tímabils. Fólksfjölgun var lítil og Grunnskólinn og leikskólarnir að anna fjölda nemanda vel, ásamt svigrúmi til fjölgunar yrði þess þörf. Þrátt fyrir lokun á Leikskólanum Óla Prik nokkrum árum áður.
Þarna er að byrja uppbygging í sveitafélaginu, mjög rólega í byrjun. Ómögulegt hefði verið að sjá fyrir á þeim tíma þá miklu uppbyggingu sem hefur orðið í sveitarfélaginu á síðustu 4 árum. Í dag er staðan hins vegar þannig að þörf er á nýju íbúðarhverfi með lóðum til úthlutunar sem fyrst og er Leirusvæði 2 lengst komið í skipulagsferli.
Þróunin
Árið 2010 voru íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2.086, bjartsýnustu spár sögðu að þegar 2.300 manna þakið væri rofið yrði komið ákall um uppbyggingu innviða. Sá íbúafjöldi náðist árið 2018. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 2.387, þann 1. janúar 2021 og hefur fjölgað um rúmlega 60 síðan þá en tölur segja að 1. janúar 2022 séum við 2.450. Þetta er mikil fjölgun og spennandi verkefni. Deiliskipuleggja þarf framtíðar íbúðarsvæði sem tekur við af Leirunni samhliða endurskoðun aðalskipulags og hafa þar tillögur frá opnum íbúafundi sem þegar hefur verið haldinn um málið til hliðsjónar.
Framtíðin
Við skulum samt ekki gleyma því að það er að mörgu að hyggja. Fráveita og gatnagerð er stór hluti kostnaðar sveitafélaga við gerð nýrra lóða. Uppbygging kostar okkur en kemur til baka þegar fram líður. Tekjur sveitarfélagsins er ekki eitthvað sem við viljum þurfa að hafa áhyggjur af, en þurfum að sjálfsögðu að hafa fullan skilning á og passa að fara ekki fram úr eftirspurn í framkvæmdum. Það er eitt að vilja eitthvað og annað að geta. Lögbundin verkefni sveitafélaga eru oft á tíðum kostnaðarsöm og fylgja ekki alltaf nóg að fjármunum frá ríkinu með verkefnunum.
Kæri kjósandi, ég óska eftir umboði þínu til að vinna áfram að þessum málum, X við B á kjördag.
Gunnhildur Imsland, heilbrigðisgagnafræðingur
4. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra.