Enn er flækjufótur á ferð vegna fyrirhugðara íbúakosninga um þéttingu byggðar í innbæ á Höfn. Eins og íbúar muna þá þurfti að hætta við íbúakosninguna samhliða sveitarstjórnarkosningum 14. maí sl. vegna formgalla á spurningunni sem lögð var fram. Fyrirhugað var að hafa kosningu í lok ágúst nk. en nú hefur innviðaráðuneytið leiðbeint sveitarfélaginu með að fresta kosningunni um óákveðinn tíma eða þar til ný reglugerð um um framkvæmd íbúakosninga liggur fyrir í haust.
Það er bagalegt að þurfa að fresta kosningunni aftur því nauðsynlegt er að fá botn í þetta mál en á meðan er bæði aðalskipulag og deiliskipulag um þéttingu byggðar í innbæ í gildi þó lóðirnar sem bættust við með samþykkt þeirra hafi ekki verið auglýstar lausar til umsóknar vegna kröfunnar um íbúakosningu.
Ég hvet fólk til að kynna sér skipulagið en kynningarefni má finna á heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/skipulagsmal/kynning-a-skipulagi-innbae-v.-ibuakosningar/
Kjörstaðir í sveitarfélaginu.
Á bæjarráðsfundi 7. júlí sl. mættu tveir fulltrúar úr yfirkjörstjórn sveitarfélagisns og fóru yfir greinagerð yfirkjörstjórnar um kosningarnar 14. maí sl. Þær kosningar voru fyrstu kosningarnar sem framkvæmdar voru eftir gildistöku nýrra kosningalaga og reyndi þá fyrst á breyttar hæfisreglur starfsmanna í kosningunum og ýmislegt fleira.
Það reyndist vandasamt að manna kjörstaði í sveitarfélaginu þar sem nokkuð margir sem áður höfðu starfað við kosningar í sveitarfélaginu reyndust vanhæfir vegna tengsla við frambjóðendur. Það tókst að lokum og voru fimm kjörstaðir í sveitarfélaginu.
Í aðdraganda kosninganna kom upp sú umræða hvort tímabært væri að huga að fækkun kjörstaða, þeirri umræðu var vísað til nýrrar bæjarstjórnar þar sem ekki þótti rétt að gera þær breytingar án samtals við íbúa í sveitarfélaginu.
Sveitarfélagið er ein kjördeild og hefur því val um hversu margir kjörstaðirnir eru innan marka þess. Yfirkjörstjórn lagði það til á fundi bæjarráðs að kjörstöðum yrði fækkað í einn og hann yrði á Höfn. Verði sú breyting niðurstaðan, þá mun utanumhald verða auðveldara, mönnun einfaldari og dregið úr kostnaði.
Það væri áhugavert að heyra hvað íbúum finnst um þá tillögu og ef þeim hugnast hún ekki hvað þeir leggja til að margir kjörstaðir verði í sveitarfélaginu?
Hlakka til að heyra frá ykkur – njótið sumarsins!
Ásgerður K. Gylfadóttir, aðalmaður í bæjarráði.