Þann 3. febrúar síðastliðinn stóð stjórn Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga fyrir íbúafundi, um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna íþróttamannvirkja á Hornafirði. Fundurinn var vel sóttur og mættu um 40 manns og sköpuðust góðar og málefnalegar umræður á fundinum.
Hvers vegna íbúafundur?
Að mati stjórnar finnst okkur við íbúar ekki vera nægilega upplýst um gang mála og í ljósi greinaskrifa bæði Björgvins Óskars Sigurjónssonar, fulltrúi B-lista í bæjarstjórn og fulltrúa meirihluta í stýrihóp vegna nýs íþróttahúss, og síðar annarra hagsmunaaðila þá er fullt af spurningum ósvarað og framkvæmd að þessari stærðargráðu kemur íbúunum við. Því teljum við mjög mikilvægt að það eigi sér stað samtal og samráð íbúa og annarra hagsmunaaðila.
Á teikniborðinu voru þrjár leiðir og frumhönnun gerð á þremur valkostum, leið A, leið B og leið C. Í kjölfarið var kostnaðaráætlun gerð og í henni var kostnaðurinn metin um og yfir fjóra milljarða. Leið A miðast við stakstætt hús á æfingavellinum og leið C er viðbygging við núverandi íþróttahús. Ljóst var að það var of stór biti fyrir sveitarfélagið svo það var tekin ákvörðun af meirihluta stýrihópsins að taka eingöngu leið A til endurskoðunar. https://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/uppbyging-ithrottamannvirkja/
Á bæjarstjórnarfundi í janúar gerði Björgvin Óskar, fyrir hönd B-lista, grein fyrir kostum við leið C, viðbyggingu við núverandi íþróttahús, og þeirri skoðun að þeir vegi þyngra en kostir leiðar A, stakstæðs húss. Þessari umræðu fylgdi Björgvin eftir með ítarlegri grein https://leidarhofdi.is/nytt-ithrottahus-a-hofn/
Í grein frá meirihluta stýrihópsins í desember síðastliðnum, virtist sem komin væri endanleg ákvörðun um að byggt yrði stakstætt íþróttahús á núverandi æfingasvæði við hlið Sindravalla. Þar sem upphafsorðin í grein frá þeim segir: „Nú hefur endanlega verið tekin ákvörðun um að hefja byggingu nýs íþróttahúss á gamla malarvellinum við Víkurbraut…“
Þessi yfirlýsing kom mörgum á óvart þar sem ekki liggur fyrir staðfesting bæjarstjórnar á þessari ákvörðun og þegar Gauti Árnason, oddviti D-lista og Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri voru spurðir út í þetta á íbúafundinum þá staðfestu þeir að þetta hefði verið heldur ótímabær yfirlýsing þar sem ekki væri búið að taka neina ákvörðun og málið enn í vinnslu.
Fyrstur tók til máls á íbúafundinum, Björgvin Óskar Sigurjónsson, hann hefur setið í stýrihópi vegna nýs íþróttahúss síðan í febrúar 2024 en hlutverk stýrihópsins var m.a. að „stýra vinnu og leita hagkvæmustu og bestu lausna við hönnun, byggingu og rekstur hússins“ eins og kemur fram í erindisbréfi stýrihópsins. Björgvin kynnti fyrir fundargestum rökfærslur sínar fyrir að byggja frekar við núverandi íþróttahús (leið C).
Næst tók Sigurjón Andrésson bæjarstjóri til máls fyrir hönd fulltrúa D- og K-lista í stýrihópnum þar sem þau sáu sér ekki fært að mæta á fundinn. Sigurjón færði rök fyrir hvers vegna hann telur leið A, bygging stakstæðs húss vera betri leið fyrir sveitarfélagið. Yfirferð hans endar á orðunum „Ekkert er klippt og skorið eða rétt og rangt í þessu.“
Í kjölfar framsögu Björgvins og Sigurjóns hófust góðar umræður og Sigurjón spurður út í þeirra röksemdafærslur þar sem skiptar skoðanir voru um gildi raka bæjarstjóra.
Á fundinum mátti finna fulltrúa frá hinum ýmsu hagsmunahópum. Þar má nefna, Grunnskóla Hornafjarðar, USÚ, Umf. Sindra, Foreldrafélagsins leik- og grunnskóla og fleiri. Margir hagsmunaaðila aðhyllist frekar leið C (viðbyggingu), aðrir höfðu ekki skoðun á því hvor leiðin yrði farin og enn aðrir efuðust um brýna þörf fyrir nýju íþróttahúsi á þessum tímapunkti. Einnig var ítrekað að hafa góðan undirbúning bæði í áætlunum og varðandi öryggismál. Margir fundarmenn furðuðu sig á því hvers vegna leið C sé ekki einnig tekin til endurskoðunar svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um hvor leiðin sé raunverulega betri. Á fundinum kom einnig fram óánægja þessara hagsmunaaðila um skort á samráði í vinnu stýrihópsins, einstaka samtöl hafi átt sér stað en ekkert samráð.
Ásgerður Gylfadóttir, fulltrúi B-lista í bæjarstjórn og bæjarráði, hvatti sveitarfélagið til þess að taka boltann áfram og boða til annars opins íbúafundar um málið. Hún lýsti yfir óánægju sinni yfir því að leið C sé slegin út af borðinu þar sem mikill munur er á þessum leiðum og það sé greinilegt að leið C sé hagkvæmari. Hún furðar sig á og hefði viljað sjá að hafa leið C með og vinna hana til samanburðar.
Í frekari umræðum á fundinum var það skýrt að fólk vildi sjá báðar leiðir skoðaðar svo hægt væri að vega og meta, raunverulega hvor leiðin sé betri.
Björgvin Óskar átti lokaorðin á fundinum: „Við erum að tala um allavega 2ja milljarða króna verkefni og þetta kemur okkur öllum við og eru skattpeningar okkar allra. Við viljum starta þessari umræðu með þessum íbúafundi og vonandi heldur umræðan áfram“ Þessi lokaorð hans tóku vel utan um tilgang fundarins.
Það er okkar skoðun í stjórn Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga að íbúar eigi rétt á að fá að fylgjast með framgangi mála og hafa vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Gauti Árnason, oddviti D-lista og forseti bæjarstjórnar, þakkaði fyrir fundinn og lýsti yfir áhuga sínum á að boða á ný til íbúafundar þegar „meira kjöt væri á beinunum“ og vonum við því að þessi fundur sé bara byrjunin á samtalinu við íbúa sveitarfélagsins. Ákvarðanir um framkvæmd af þessari stærðargráðu eiga að taka mið að því hvað er best fyrir sveitarfélagið okkar og íbúa þess í heild sinni en ekki einblína á persónulegar eða pólitískar skoðanir hóps einstaklinga.
Það kom skýrt fram á fundinum, og segir sig sjálft, að ekki er hægt að taka upplýsta ákvörðun hvort leið A eða C sé betri og/eða hagkvæmari nema skoða báðar leiðir samhliða. Þess vegna skorum við á sveitarfélagið að fá hlutlausa aðila til þess að gera einnig endurmat á leið C samhliða leið A, í kjölfarið halda íbúafund og hafa virkt samráð við íbúa og hagsmunaaðila.
Stjórn Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga