Í stórum dráttum.

1601

Í gær miðvikudaginn 14. desember var fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun ´24-´26 samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Við bæjarfulltrúar B-listans tókum þátt í vinnu við gerð áætlunarinnar og erum sammála henni í stórum dráttum en höfum þó ýmislegt að athuga við framkvæmdaáætlunina og hvernig hún er kynnt fyrir íbúum og öðrum sem hafa áhuga á málefnum sveitarfélagsins. 


Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina gagnrýndum við í minnihlutanum vinnuna við áætlunina og bentum m.a. á að ekki væri tekið frá fjármagn í framkvæmdaráætlun fyrir framkvæmdum á nýju hjúkrunarheimili. Það fjármagn er núna komið inn í áætlunina og er það ánægulegt að sjá enda gefur það raunsærri mynd á fjárhagsáætlun næsta árs. 

En við megum einnig til með að taka fram að til marks um hversu lítið hafi verið búið að undirbúa fjárhagsáætlunina fyrir fyrri umræðu að lántaka sveitarfélagsins er að aukast um 400 milljónir milli umræðna þegar næstu tvö ár eru skoðuð og er það stórum hluta vegna hlutdeildar sveitarfélagsins í nýju hjúkrunarheimili


Það er ánægjulegt að sjá að verkefni sem fyrri bæjarstjórn var að vinna að eru sett á dagskrá s.s. viðbygging við leikskólann Sjónarhól, endurbætur á Sindrabæ, fráveituframkvæmdir, göngustígar, malbikun, slökkvibíll o.fl.

Á íbúafundum kynnti bæjarstjóri stórátak í lagfæringum á götum og gagnstéttum á Höfn. Í stórátakið eru settar heilar 100 milljónir. Við vitum ekki til annars en að búið sé að malbika í sveitarfélaginu að meðaltali annað hvert ár upp á 100-150 milljónir síðasta áratuginn. Ætli sé ekki hægt að malbika ca. 50-60% núna af því magni sem var malbikað árið 2009 fyrir sömu upphæð m.v. þróun byggingarvísitölu á tímabilinu. Því áttum við okkur ekki á því í hverju þetta stórátak er fólgið!

En við söknum þess að lítið sem ekkert er um framkvæmdir sem bæta rekstur sveitarfélagsins. Við sem sátum í síðasta meirihluta lögðum töluverða áherslu á að reyna hagræða í rekstri með þeim framkvæmdum sem ráðist var í og var það flest ef ef ekki allt gert í góðri samvinnu við þáverðandi minnihluta.


Með þessa hugsun m.a. að leiðarljósi vildum við fara í framkvæmdir við nýja líkamsræktarstöð í viðbyggingu við sundlaugina og losna þannig við leigugjöld á núverandi húsnæði líkamsræktarstöðvarinnar en hlutdeild sveitarfélagsins í leigugjöldunum  hækkaði núna seinast á haustmánuðum. En að sjálfsögðu var þetta einnig til að bæta aðstöðu fyrir hreyfingu breiðs aldurshóps og einnig til að bæta búningsaðstöðu fyrir fatlaða og kynsegin fólk sem vilja vera út af fyrir sig eða þurfa aðstoð frá gagnstæðu kyni. En allt um það hefur komið betur fram annars staðar. En þannig teljum við að mikil gæði hefðu verðið fólgin í því að fara í framkvæmdir við nýja líkamsræktarstöð.

Einnig var stefnan, hjá fyrri meirihluta, sett á að fara í framkvæmdir við Miklagarð og koma því húsnæði í vinnu og þannig voru viðræður í gangi við Vatnajökulsþjóðgarð um að leigja hluta hússins sem mundi þá kosta hluta framkvæmdarinnar. Hluta hússins átti síðan að setja í almenna leigu hvort sem það væri til einstaklinga eða fyrirtækja.

Í þriggja ára áætlun er athyglisvert að sjá að ekki er sett króna í íþróttamannvirki á kjörtímabilinu, hvorki hér á Höfn né í dreifbýlinu, fyrir utan 50 milljónir á næsta ári sem væntanlega fara að stórum hluta í hönnunarkostnað.


Engar fjárhæðir eru settar í Miklagarð á kjörtímabilinu og ekkert sett í Gömlubúð sem við erum að fá aftur í hendurnar á vormánuðum og þarf sveitarfélagið að fara reka það hús að nýju. Ekkert er sett í grenndarstöðvar í dreifbýlinu eins talað var um á íbúafundum í dreifbýlinu í aðdraganda kosninga og barst aftur í tal á íbúafundi í Suðursveit á dögunum við kynningu á fjárhagsáætlun. 

Og yfir höfuð er lítið sem ekkert sett í framkvæmdir í dreifbýlinu nema þá e.t.v. minniháttar viðhald sem er þá væntanlega innifalið í viðhaldsrömmum.


Auðvitað er þriggja ára áætlun er ekki meitluð í stein og hún á eftir að taka töluverðum breytingum en maður hefði haldið að hún ætti samt sem áður að setja stefnuna fyrir núverandi meirihluta næstu ár. En ekki er hægt að segja að hún sé sérstaklega stefnumarkandi.

Í ljósi andsvara bæjarstjóra og meirihlutans við athugasemdir minnihlutans  á fundinum segjast þau ætla að gera ýmislegt fleira en kemur fram í fjárhagsáætlun, en vita bara ekki hvað það kostar, þá er enn ljósara að þriggja ára áætlun gefur alls ekki góða mynd af fyrirætlunum.

Við þökkum kjörnum fulltrúum, bæjarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir samstarfið við gerð fjárhagsáætlunarinnar og munum hér eftir sem hingað til gera okkar besta með því að tala fyrir nýframkvæmdum sem bæta rekstur og að nýta þá vinnu sem áður hefur verið lagt fjármagn í og fara þannig vel með fjármuni sveitarfélagsins sem kjörnum fulltrúum er treyst fyrir.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir og Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúar Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.